Animal Farm Ísland

SáttÍsland er eina ferðina enn í heimsfréttunum. Ríkisstjórnin íslenska er sögð sú fyrsta af mörgum sem alheimskreppan á eftir að velta úr sessi. Spekingarnir, fréttaskírendur, tala aftur um  Ísland eins og fyrirmynd þjóðanna og segja fólkið sjálft hafa brugðist við sem heild og tekið málin í sínar hendur.

Ein af helstu kröfum mótmælenda er orðin að veruleika. Óhæf ríkisstjórn er farin frá. Önnur megin krafan um að reka seðlabankastjóra verður trúlega að veruleika fljótlega eftir að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna með stuðningi Framsóknarflokks  tekur við stjórnartaumunum. Og ef allt gengur eftir sem horfir mun þriðju kröfunni um kosningar, verða gerð skil snemma í vor.

Sjálfstæðisflokkurinn mun sleikja sárin í nokkrar vikur og taka síðan til óspilltra málana (ef það er mögulegt að nota það hugtak um þann bæ) við að endurskipuleggja í stöðurnar og endur-uppfinna sjálfan sig fyrir kosningarnar. 

Helstu nýju baráttumál hans verða "sterk efnahagsstjórnun" og "ný sókn" og "átak í atvinnumálum" og "Nýr Bjarni Ben" og "Allt er nú svo breytt" og "Við öxlum ábyrgð" og "Sameinuð í Sjálfstæðisflokki stöndum vér, sundruð allstaðar annarsstaðar föllum vér".

Stjórnin og Jóhanna forsætisráðsfrú munu eflaust gera sitt besta til að standa við samningana við alþjóða gjaldeyrissjóðinn og byrja að þefa ofaní pyttina fúlu sem gleyptu alla peningana sem þjóðin tók að sér að borga og koma á einhverjum reglum svo þetta endurtaki sig ekki aftur alveg strax. Áherslan verður að sjálfsögðu á að láta allt líta út sem best og að enginn fljúgi t.d. Elton John út til Íslands til að spila í afmælispartýi. Ef Jóhanna nær ekki árangri á þessum stutta tíma sem nægir til að tryggja svipað fylgi og venjulega, ja, þá er það hún sem verður blóraböggullinn. Stjórn landsins er nefnilega baneitrað epli fyrir pólitíkusa um þessar mundir, jafnvel þá sem beðið hafa þolinmóðir eftir því að þeirra tími rynni upp.

afturganga25En hvað verður um allar hliðar (minni) kröfurnar sem áttu að koma til framkvæmda eftir að megin kröfurnar næðu fram að ganga?

Kröfurnar sem áttu að móta "Nýja Ísland"  þar sem atvinnupólitíkusar hoknir af reynslu og fláræði áttu ekki að fá að komast að. 

Þar sem hugsjónirnar um afnám öfga auðs og fátæktar yrðu innlimaðar í stefnu og stjórnarhætti landsins.

Hvað verður um hreint borð þar sem hrossakaupin og samtryggingarbraskið sem á stjórnmálamáli heitir "málamiðlun" eða bara "pólitík" áttu ekki að fá að ráða ferð? 

Sá draumur er vitanlega fyrir bý. Hann var óraunhæfur hvort eð er. Við erum það sem við erum.

Með því að mynda nýjan stjórnmálflokk (enn annan undir 10% flokkinn) úr grasrótarhreyfingum mótmælenda, verða tennurnar dregnar úr dýrinu sem þó náði að naga sig í gegnum þráa stjórnmálamanna til að láta eftir völd sín, í bili.  Áður en varir mun þessi stjórnmálflokkur sem talar núna um að mynda breiðfylkingu fólksins (hvar hefur maður heyrt þennan frasa áður) fylla framboðssætin af fyrrverandi og wannebee pólitíkusum.  Animal Farm all over again.

Það sem fólk vill ekki horfast í augu við, allra síst pólitíkusar, er að þetta flokkskerfi sem við búum við er andstætt lýðræðinu. Enn eitt stjórnmálaflið eða framboðslisti breytir engu um það. Það er e.t.v. allt of snemmt að skrifa eftirmæli um raddir fólksins, en sannleikurinn er sá að flokkar og flokkspólitík er helsta sundrungaraflið í þjóðfélaginu.

Fyrir hendi er löng barátta og löng endurhæfing til að óflokksbundið framboð og bann á framboð í nafni flokka nái að verða að veruleika. En aðeins þá mun flokksræðinu hnekkt.

Þegar fólk getur boðið sig fram án þess að tilheyra lista, þegar hægt er að kjósa menn og konur til góðra verka sem gefa kost á sér til þeirra starfa, án þess að þurfa að merkja þurfi við lista, getum við talað um beint lýðræði.

Þing mun þá ekki skipa sér í stjórn og stjórnarandstöðu, heldur verða samráðsstofnun þar sem kosið verður um málin og þau afgreidd til framkvæmdavaldsins, ríkisstjórnarinnar sem kosin er af þinginu. Og auðvitað eiga ráðherrar hennar ekki að sitja á þingi.

Þessar og líkar hugmyndir hafa frá því snemma í haust verið reifaðar víða í samfélaginu og núna þegar verið er að snúa fólki til baka til hefðbundinnar pólitíkur, er hætta á að þær gleymist fljótt.

Þær eru svo róttækar að þær mundu raunverulega breyta öllu og þess vegna munu þær ekki ná fram að ganga og  það sem þegar hefur áunnist, verður notað sem snuð upp í þá sem mæla fyrir þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

"Varist vinstri slysin" sögðu Sjallarnir einu sinni og þóttust góðir. Fráfarandi stjórn og nokkrar á undan henni voru eiginlega "hægri slys".

Sæmundur Bjarnason, 27.1.2009 kl. 01:17

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Það má ekki gerast að við gleymum þessum hugmyndum.

Arinbjörn Kúld, 27.1.2009 kl. 03:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband