18.1.2009 | 02:04
Teiknimynda Kalli
Árið 1998 kom út bók hjá Great Plains Publications í Winnipeg sem heitir á frummálinu (Ensku) Cartoon Charlie: The Life and Art of Animation Pioneer Charles Thorson. Bókin er eftir Gene Waltz og fjallar um hæfihlaup og list Charles Thorson sem var fæddur í Winnipeg, Kanada, árið 1890 og gefið nafnið Karl Gústaf Stefánsson.
Foreldrar Karls voru þau Sigríður Þórarinsdóttir og Stefán Þórðarson (síðar Thorson). Frá Reykjavík fluttust þau til Vesturheims 1887. Þar tók Stefán upp ættarnafnið Thorson. Synir þeirra Stefáns og Steinunnar eru Joseph Þórarinn Thorson sem síðar varð ráðherra í sambandsstjórn Kanada og bræður hans Karl (Charles Thorson) og Stefán (Stephan).
Karl Gústaf, eða Charlie eins og hann var kallaður af flestum sýndi fljótlega merki um talsverða listræna hæfileika og var líklega tekinn í læri hjá húsamálara og steinglerssmið einum sem hét Friðrik Sveinsson og kallaður var Fred Swanson. Fyrsta opinberlega teiknimyndin eftir hann birtist á forsíðu Heimskringlu 4. mars 1909 var einmitt af Friðriki sem var fóstursonur Ólafs Ólafssonar frá Espihóli sem fluttist til Kanada 1873.
Kannski hefur áhugi Karls eitthvað tengst því að lærimeistari hans Friðrik átti fríða dóttur sem hét Rannveig. Alla vega voru þau Rannveig og Karl gefin saman á heimili foreldra Rannveigar í Gimli 11. október 1914.
Þau höfðu þá þegar einast son sem nefndur var Karl eftir föður sínum. En hamingjan var þeim ekki hliðholl því Rannveig dó af berklum 19. október 1916 og ári seinna dó Karl sonur þeirra af barnaveiki.
Karl teiknaði ýmiss konar skopmyndir og auglýsingar, bæði fyrir Heimskringlu, blað íhaldsmanna, og Lögberg sem frjálslyndir stóðu að. Það var svo árið 1922 að hann var ráðinn til að teikna pólitískar skopmyndir fyrir blaðið Grain Growers Guide sem um það leiti var prentað í 75.000 eintökum.
Karl leysti þar af hólmi hinn fræga Arch Dale, sem var orðinn að goðsögn í lifanda lífi, en Dale sneri aftur ári síðar. Karl hvarf þá til starfa fyrir dagblaðið Manitoba Free Press og seinna meir teiknaði hann ósköpin öll af myndum í auglýsingabæklinga og vörulista, m.a. fyrir Eatons og Brigdens.
Næstu árin voru róstusöm hjá Karli og það var ekki fyrr en hann hitti og giftist ungri stúlku sem hét Ada Albina Teslock, sem var pólskum ættum, ein níu systra, að líf hans róaðist. Ada var afar fögur, með kolsvart hár og með afar hvíta húð, grönn og lífleg. Fegurð hennar var slík að sagt var að engir karlmenn gætu staðist á móti því að horfa á eftir henni á þegar hún fór um götur. Þrátt fyrir fegurð hennar, eða kannski vegna hennar, endaði hjónaband þeirra fljótlega. Þau eignuðust einn son, Stephen.
Ógiftur enn á ný, hékk Karl á kaffihúsum og teiknaði. Uppáhalds kaffihúsið hans hét Wevel Cafe (Winnipeg). Þar hitti Karl hina fögru Kristínu Sölvadóttir sem þjónaði þar til borðs. Karl fór á fjörurnar við Kristínu en hún hafði heyrt af honum kvennabósasögurnar og svo var hann líka helmingi eldri. Í tilraunum sínum til að ná ástum Rannveigar teiknaði hann hana oft og sendi henni teikningarnar. "Allt þetta mun verða þitt ef þú villt mig" stóð á einni skopteikningunni sem hann sendi henni.
Kristínu leist ekki á blikuna og forðaði sér frá Winnipeg til Niagarafossa til að greiða úr tilfinningum sínum. Þau skrifuðust á, en um hvað er ekki vitað. Að lokum snéri Kristín aftur til lands forfeðra sinna, Íslands. Hvort hún á hér á landi einhverja afkomendur er mér ekki kunnugt um en ef einhverjir vita betur, væri fróðlegt að heyra af því.
Árið 1934 hófst það skeið í lífi Kalla sem hann er hvað þekktastur fyrir. Fjörutíu og fjögurra ára gamall réðst hann til starfa fyrir Walt Disney, heillaður af tækninni sem færði gestum kvikmyndahúsanna teiknimyndina um Litlu grísina þrjá. Dvöl hans hjá Disney varð ekki ýkja löng, aðeins tvö ár.
Engu að síður lét Karl eftir sig ekki ómerkari fígúrur en sjálfa Mjallhvíti sem lenti í svo mögnuðu ævintýri með dvergunum sjö. Munnmæli segja að Kristín Sölvadóttir, hafi verið fyrirmyndin að Mjallhvíti og þannig urðu til sögurnar um að Mjallhvít væri íslensk og frá Winnipeg. Kristín Sölvadóttir
Kalli var líka aðalmaðurinn í að teikna indíánastrákinn Hiawatha og meira og minna allar persónurnar í mynd Disneys um drenginn. En vegna þess að hann hvarf frá störfum fyrir stórfyrirtækið áður en kvikmyndirnar voru sýndar, er hans hvergi getið.
Eftir Disney-árin vann Karl m.a. fyrir Harman-Ising og MGM.
Frægasta fígúran sem Charlie skapaði algjörlega sjálfur eftir að hann yfirgaf Disney er án efa Bugs Bunny. Teyminu sem falið var að teikna kanínuna , var stýrt af manni sem kallaður var Bugs. Vinnuheiti Karls á kanínunni var því "Bugs Bunny." sem a lokum festist við fígúruna. En það má kalla írónískt að á íslensku var hann kallaður Kalli kanína.
Karl mun vera eini "íslendingurinn" sem fengið hefur teikningu eftir sig birta á bandarísku frímerki þótt hann fengi aldrei heiðurinn af því opinberlega, frekar en öðru sem hann vann fyrir Disney.
Charles Thorson lést árið 1967.
Ævintýrið um Mjallhvíti er um margt merkilegt og á netinu er ágætis sálfræðipæling sem leggur út frá sögunni sem ég linka hér við; Mjallhvít
Fyrst til að vekja athygli á því að Mjallhvít Disneys hafi verið teiknuð af íslensk-ættuðum manni og að fyrirmynd hans hafi einni verið íslensk stúlka var eftir því sem ég best veit Gréta Björg Úlfsdóttir.
Ég læt hér fylgja að lokum tvær teiknimyndir eftir Karl sem allir sem komnir eru til vits og ára eiga að kannast við úr bernsku sinni.
Það var Davíð Kristjánsson góðvinur minn á Selfossi sem vakti athygli mína á þessum merka Íslandssyni og þeim möguleika að andlit einnar þekktustu teiknimyndarpersónu heimsins væri einnig af íslenskri konu.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Kvikmyndir, Sjónvarp, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:53 | Facebook
Athugasemdir
"Barnfóstran frá Íslandi og Tolkien-fjölskyldan" eftir Lindu Ásdísardóttur, birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 1999, bls. 26-27 A.
Hægt að finna, stækka og lesa á http://timarit.is/
Þorsteinn Briem, 18.1.2009 kl. 02:30
Kalli Kanína Var einmitt að skoða inná utube í fyrradag teiknimynd um Kalla. Þetta er eflaust mesta menningarsögulega afrek nokkurs Íslendings á 20.öld. Af hverju hefur þetta aldrei verið dregið framí dagsljósið. Eru teiknimyndir ekki mikið svona "Æðri list". Man ég las einhverja Íslenska blaðagrein í sambandi við Mjallhvít fyrir nokkrum árum en Kalli Kanína. Bara takk fyrir þetta Svanur Það gat ekki verið annað en Íslendingur. Af hverju fattaði maður þetta ekki.....doh. Það mun ekkert stöðva okkur sem þjóð ef Kalli Kanína er kominn um borð. Velkominn um borð Kalli. Nú verður bara sett á fullt stím
Máni Ragnar Svansson, 18.1.2009 kl. 02:42
Þú ert snillingur Steini. Þakka þér kærlega.
Sammála Máni. Bugs var í miklu uppáhaldi hjá mér en ég þoldi aldrei Andrés Önd.
Ég er líka sammála þér um að þetta er ákveðið afrek, eða framlag sem ekki er hampað þótt full ástæða sé til. Reyndar kom fram tillaga á blogginu hennar Grétu um að reisa styttu af Mjallhvíti í Skagafirði.
Svanur Gísli Þorkelsson, 18.1.2009 kl. 03:16
Takk fyrir góða grein. Falleg og frábær á hvaða tíma sem er, á krepputímum eður ei, kreppan hvað - við getum alveg skoðum í kistuna okkar (þar er margt að finna, þó að óþarfi sé nú að ofmetnast) Hún hefur ekki verið opnuð LENGI. Heyriði brakið í hjörunum!
Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson, 18.1.2009 kl. 15:15
meina auðvitað að "við getum alveg skoðað í kistuna okkar" Innsláttarvilla - og ef einhverjum dettur í hug að þetta sé líkistan, þá er það risa misskilningur!
Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson, 18.1.2009 kl. 15:18
Fróðleg lesning, minnir mig hafa lesið um þetta einhverstaðar. Teiknimynir hafa alltaf a Islandi verið alitin óæðri list...ef þa list! Þekki þetta sjalfur, gerði fyrstu islensku teiknimyndina 1970 og hef siðan gert yfir 80 teiknimyndir af öllum lengdum, fra 30 sek-30 min en fæst af þvi sest heima
sigurður örn brynjolfsson (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 17:54
Um að gera að tína úr handraðanum Sveinbjörn.
Sæll Sigurður Örn; Þakka þér innlitið og athugasemdina. Er eitthvað eftir þig að finna á youtube eða öðrum aðgengilegum myndamiðlurum? Les úr færslu þinni að þú sét búsettur í útlandinu. (e.a.heima) og starfir e.t.v. enn við gerð teiknimynda.
Svanur Gísli Þorkelsson, 19.1.2009 kl. 17:45
Sæll, já eg by erlendis (kannski sem betur fer núna!) reyndar i Eistlandi. Þvi miður er ekkert eftir mig a youtube eða annarstaðar, gæti komi seinna eða a wefsiðunni minni www.puandpa.com Eg var farinn að starfa mikið erlandis uppur 1985 m.a. til að finna samstarfsfolk i teiknimyndum (vil frekar kalla það animation) en það var ekki til a Islandi. Erlendis fann eg lika strax að animation er alitin merk listgrein og eg kynntist mörgum goðum lisamönnum sem unnu a þessu sviði... a islandi var deilt um það hvort þetta væri kvikmyndagerða eða eitthvað annað (þa var Mikki Mus 60 ara!) Islendingar þurfa alltaf að finna upp hjolið. Eg er hættur þessu nuna, var settur uti kuldan af Kvikmyndastofnun Islands...en þetta var skemmtilegur timi og starf. Er nuna að vinna að minni myndlist og teikningum
sigurður örn brynjolfsson söb (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 10:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.