Bloggsöknuður

nikÉg hef aðeins bloggað í rúmt ár og miðað við þá sem lengst hafa skrifað á blog.is er ég algjör nýgræðingur. En á þessum skamma tíma hefur áhugi minn og að vissu leyti umhyggja fyrir þessum anga menningarinnar, vaxið til muna. Bloggið hefur samt breyst ótrúlega mikið á þessu eina ári og mest á síðustu mánuðum.  - 

Auðvitað bloggar fólk af mismunandi ástæðum, en það er eins og að margir hafi hreint og beint fundið köllun sína í bloggheimum eftir að himnarnir hrundu í höfuðið á íslenskri alþýðu. Um leið og bloggið og bloggefnið varð þrengra og einlitara (að mínum dómi), geystust fram á ritvöllinn með gustó, fjöldi dágóðra penna með hið alþekkta og rammíslenska besserwisser heilkenni í farteskinu í bland við messíanskan eldmóð.

En þindarlaus pólitísk gagnrýni, endalaus álitsgjöf á mönnum og málefnum þar sem margir éta upp eftir hvor öðrum ágreiningsefnin, fara illa í minn pólitískt-óharðnaða maga. Í kjölfarið finnst mér eins og bloggumræðan hafi líka sett ofan. Athugasemdirnar koma yfirleitt frá sömu hópunum (the usual suspects) sem raðað hafa sér upp samkvæmt gömlu flokksfylkingunum á bloggsíðum "sinna manna/kvenna".

Frá mínum lága bæjarhóli séð eru persónulegu bloggin miklu fyrirferðarminni en áður og umtalsvert færri. Í staðinn hefur fréttabloggurum fjölgað til muna. Þessi þróun hefur orðið til þess að ég (og þar er ég sjálfsagt í miklum minni hluta) heimsæki mun færri bloggsíður en ég gerði áður.

ascii-blogger-portraitsNýlegt bann á birtingu blogga á forsíðu blog.is sem ekki fylgja þjóðskrárnöfn  höfunda, gerir mörg skemmtileg blogg næstum því ósýnileg og sum þeirra eru því miður horfin með öllu.

Það verður að segjast eins og er að um mörg þeirra léku ferskustu vindarnir. Ég sakna þeirra og ég sakna þess að sjá hressilegar fyrirsagnir á bloggforsíðunni sem ég er ekki þegar búinn að lesa á fréttasíðu MBL.is

Þá er að verða mun algengara að fólk nýti sér "skilaboðakerfið"  til að auglýsa færslur sínar. Almennt talað finnst mér að það eigi að spara kerfið fyrir "sérstök" skilaboð þannig að maður hætti ekki að nenna að lesa þau. Ef samkomulag er milli bloggvina um annað er það auðvitað sjálfsagt, en að ganga að skilaboðaskjóðunni sem sjálfsögðu auglýsingakerfi hugnast mér lítt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gulli litli

Best ad hafa thetta eins og ég, bulla bara og mjøg fåir lesa og allir ånægdir.

Gulli litli, 14.1.2009 kl. 20:06

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég segi bara pass að þessu sinni.. 

Óskar Þorkelsson, 14.1.2009 kl. 20:20

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Gulli; Mér finnst bull sem á að vera bull fínt í bland. Verra þegar.... 

Óskar; Þú fellur náttúrnáttúrlega alltaf undir "present company accepted" í minni bók. 

Svanur Gísli Þorkelsson, 14.1.2009 kl. 20:37

4 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

já, sæll.

Rut Sumarliðadóttir, 14.1.2009 kl. 23:00

5 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

HE he snögg upp álagið með Kebblvískuna vinkona

Svanur Gísli Þorkelsson, 14.1.2009 kl. 23:19

6 Smámynd: Hannes

Bloggið sýnir það hvað aðilinn sem skrifar það hugsar og breytist með flórunni sem les það og bloggar hverju sinni.

Skemmtileg og góð grein eins og alltaf hjá þér.

Hannes, 14.1.2009 kl. 23:35

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Endurspeglar bloggið ekki bara þjóðarsálina? Þegar allt leikur í lyndi eru persónuleg umfjöllunarefni algeng. Þegar hriktir í samfélagsstoðunum er skiljanlegt að hugsanir bloggara hverfist um þá atburði. Raunar hafa bloggtilefnin í samfélagsumræunni verið svo mörg að undanförnu að það má tala um ofgnótt.

En ég er sammála þér varðandi skilaboðakerfið - það er hvimleitt hvernig bloggarar hafa tekið það í þjónustu sína til að vekja athygli á eigin bloggfærslum. Fyrir vikið tekur maður ekki eftir persónulegum skilaboðum lengur því maður er farinn að líta framhjá þeim.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.1.2009 kl. 00:47

8 identicon

Það held ég nú...

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 06:37

9 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

ég hef orðið miklu minni áhuga á blogginu vegna þessara hluta sem þú nefnir......það er orðið skemmtilegra á snjáldurskinnu (facebook) þar sýnir fólk á sér jákvæðari hliðar, allavega ennþá.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 15.1.2009 kl. 08:27

10 identicon

Ég tek undir með Hrafnhildi, ég er nánast hætt að skoða blogg og mitt eigið (5 ára gamalt)  lagðist í dvala.  Snjáldrið er hins vegar alltaf opið hjá mér.

Árný Leifsdóttir (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 10:17

11 Smámynd: Óttar Felix Hauksson

Þar sem þú skrifar nú svo léttan og lipran texta Svanur, þá er leiðinlegt að sjá sömu íslenskuvillurnar skjóta upp kollinum aftur og aftur. Að vissu leyti skrifar maður með ypsiloni (að lúta að einhverju) að því leytinu lýtur það einhverju máli. Aftur á móti skrifar maður á næsta leiti  með einföldu i, þá er leitið í merkingunni hæð, eða það sem ber við sjóndeildarhring (að líta til einhvers) sem er á næsta leiti. Ef þú ætlar að hitta einhvern um kaffileytið þá er leyti sem tímamörkun ávallt með ypsiloni. Að lokum vil ég óska þér alls góðs á nýju ári og þakka þér kærlega fyrir frískleg og oft á tíðum fræðandi skrif hér á síðunni.

Óttar Felix Hauksson, 15.1.2009 kl. 10:40

12 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Svo skrítið sem það er nú var það færsla þín Ólína um bætta efnisflokkun á blog.is sem varð kveikjan að þessari hálf önugu pælingu minni. En það er eflaust rétt hjá Hannesi að fólk tekur oft mið af hvert öðru. Hallgerður, Árný og Hrafnhildur; Þakka ykkar athugasemdir. Ég hef enn ekki látið fésabókina tæla mig en nú ætla ég að kynna mér það mál betur.

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.1.2009 kl. 10:51

13 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Rétt er það félagi Óttar að ypsílon tilfinningin þróaðist hjá mér seint og illa. Að auki treysti ég á hraðferð minni, of mikið á púkann. Ég ætla að taka mig á :=) Þakka þér  góða athugasemd og bestu óskir sömuleiðis.

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.1.2009 kl. 11:04

14 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Góðar pælingar að venju Svanur. 

Þegar þú mætir á fésbókina væri gaman ef þú stofnaðir "Ég var á Núpi........" hóp

Sigrún Jónsdóttir, 15.1.2009 kl. 13:28

15 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sigrún, ég er aðeins að kíkja á fésbókina. Þar veður allt í andlitum sem ég þekki og þekkti. En þetta með Núpsverja er góð hugmynd.

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.1.2009 kl. 14:56

16 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ég var á núpi... 

fésbókin kemur ekki í staðinn fyrir blogg fyrr en sá möguleiki er fyrir hendi á fésbók að blogga.. ef hann er þar þá er hann vandlega falinn fyrir mér..  

Óskar Þorkelsson, 15.1.2009 kl. 17:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband