Himnafestingin

MjólkurvegurinnÍ gærkvöldi var stjörnubjart hér um slóðir og ég eyddi dágóðum tíma í að góna upp á himnafestinguna og reyndi að rifja upp og átta mig á hvaða nöfn hafa verið gefin staka ljósdepli í gegnum tíðina.

Vetrarbrautin sem vel var sýnileg eins og slæða eftir há-himninum fékk mig til að hugleiða þetta íslenska nafn stjörnuþokunnar sem sólkerfið okkar tilheyrir; VETRARBRAUT. 

Það heiti ku vera komið úr sænsku (Vintergatan) en gæti hæglega hafa verið samnorrænt hér áður fyrr. Skýringin á nafninu er sögð sú að Skandinavíubúar hafi reiknað út komu vetrar frá stöðu stjarnanna sem kann vel að vera satt.

Mér finnst samt líklegra að nafnið komi af því að stjörnuþokan er einfaldlega miklu sýnilegri á vetrarnóttum en um bjartar sumarnætur norðurslóða.

Hera og HerakleasÁ ensku heitir stjörnuþokan "The milky Way" (bókstaflega þýtt Mjólkurvegurinn) sem er þýðing á gríska hugtakinu Galaxias eða Galaxy (Mjólkurhringurinn) en það tengist grískri goðsögn. Seifur átti Herakles með Alkmene, mennskri konu. Seifur lætur Herakles sjúga brjóst Heru konu sinnar á nóttum þá hún svaf til að sveininn fengi guðlega eiginleika. Hera vaknar og ýtir Heraklesi af brjóstinu. Við það flæddi brjóstamjólk hennar út í alheiminn og úr varð Mjólkurvegurinn. 

Það var rithöfundurinn og fjölfræðingurinn  Geoffrey Chaucerninn (1343-1400) sem fyrstur notar enska heitið á prenti.

800px-Mostra_Olearie_-_sistro_1010384Það voru reyndar fleiri þjóðir en Grikkir sem settu himnafestinguna í samband við mjólk því Egyptar trúðu því að hún væri mjólkurpollur úr kýrgyðjunni Bat sem seinna rann saman við gyðjuna Hathor sem sögð var dóttir Ra og Nut.

Bat átti hljóðfæri sem nefnt var "sistrum" og þegar að hún rann saman Haf-þóru (Hwt-Hor) fékk Haf-Þóra hlutverk tónlistargyðju einnig. Sistrum  (sjá mynd) varð í tímanna rás að hálsmeni og verndargrip sem ég hef oft séð um hálsinn á íslenskum ungmennum heima á Fróni. Líkt og þegar Loki stal Brísingameni Freyju  var sistrum rænt af gyðjunni Haf-Þóru sem hún og endurheimti að lokum.

254px-Hathor_svgÞá segir í norrænni goðafræði frá kúnni Auðhumlu sem ís og eldar, auðn og gnótt Niflheims og Múspelsheims skópu.  Auðhumla var móðir fyrsta guðsins Búra og frá henni runnu 4 mjólkurár. Hún nærði einnig þursinn Ými en úr höfði hans var himnahvelfingin gerð.

Á öllum tungumálum þar sem nafn stjörnuþokunnar er ekki þýtt beint úr latínu (Via Lactea=Mjólkurvegurinn) á heiti hennar rætur sínar að rekja til fornra goðsagna. Sumar þeirra eru afar skemmtilegar og ég læt hér fylgja með nokkur sýnishorn.

Ungverjar kalla himnafestinguna "Veg stríðsmannsins" eða Hadak Útja. Eftir honum átti Ksaba, hinn goðsagnakenndi sonur Atla Húnakonungs að kom ríðandi væri Ungverjum ógnað.

Finnar voru svo glöggir, að löngu áður en vísindamönnum tókst að sanna það, vissu þeir að farfuglar nota himintunglin til að rata milli hvela jarðarinnar. Þeir kalla stjörnuþokuna Linnunrata sem þýðir "Stígur fuglanna".

Cherokee Indíánar í Norður Ameríku kalla Vetrarbrautina Gili Ulisvsdanvyi. Sagan segir að hundur einn hafi stolið maís korni og verið hrakinn með það á braut. Hann hljóp í norður og missti niður allt kornið smá saman á leiðinni. Úr varð hið tilkomumikla nafn fyrir himnafestinguna "Leiðin sem hundurinn hljóp í burtu".

Satt að segja minnir nafngift Cherokee indíánanna á goðsögnina frá  Armeníu. Í henni er það guðinn Vahag sem stelur, einn kaldan vetur, stráum frá Barsham konungi Assýríu og flytur það til Armeníu. Hann flýði með stráin um himnaveginn og tapaði nokkru af stráunum á leiðinni. Nafnið á stjörnuþokunni okkar er því "Stráþjófsleiðin".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Jahá. Það var nebblega það.

Rut Sumarliðadóttir, 14.1.2009 kl. 16:57

2 Smámynd: Gulli litli

Af hverju finnst mér ég vera vitlausari nú en oft áður? þú ert einfaldlega hafsjór!

Gulli litli, 14.1.2009 kl. 17:27

3 identicon

Psst!  Seifur.

Árný Leifsdóttir (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 10:12

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Seifur... auðvitað

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.1.2009 kl. 10:32

5 identicon

Er hægt að sjá þetta fyrirbrigði með berum augum?

Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband