Bullað við börnin

bambiBíum bíum bamba. Hvað er það?  Fékk aldrei viðhlítandi skýringu á því svo við krakkarnir bjuggum til okkar eigin. Eftir að teiknimyndin um Bamba frá Disney kom út sungum við hástöfum;

Bíum bíum Bamba út, böðum hann í aur og grút.

Adam átti syni sjö...Hvaðan er sú tala fengin? Í biblíasögunum lærði maður að þeir hefðu verið þrír Kain, Abel og Set og kannski fleiri. En það er hvergi talað um sjö. Kannski kom sú viska frá sama stað og "Jólasveinar einn og átta" þegar allir vita að þeir eru þrettán???

Hún er svo mikil dúlla, var oft sagt um systur mínar.  Hvað er dúlla... nákvæmlega? Ég þekkti reyndar konu sem var kölluð Dúlla og hún var ekkert sérstaklega sæt. Alla vega fundust mér systur mínar ekki vera neitt líkar henni.

Fyrst var bara notað "hókus pókus" í öllum galdatrikkum en svo var farið að nota eitthvað miklu skuggalegra eða "fí fa fó"og það var sko alvöru. En hvaðan kemur sá seiður?

Íslensk börnHvers vegna kitlar fólk ungabörn undir hökuna og segir "gúdjí gúdjí"? Hvað er það? Og þegar þeim er lyft upp er sagt "obsasí"???? Stundum hélt maður að fullorðið fólk kynni hreint ekki að tala eins nátttröllin í þjóðsögunum. Það var nógu erfitt að skilja setningar eins og ; "Snör mín en snarpa" , en hvað í ósköpunum er; dillidó og korriró???? Það var aldrei útskýrt.

Og hvernig getur fólk orðið alveg "gaga" og hvers vegna er talað um "húllumhæ" þegar eldra fólk er að skemmta sér en "hopp og hí" hjá krökkum og hvað er eiginlega hvorutveggja?

Svo var fólk alltaf að gera eitthvað með "kurt og pí". Eru það kannski Þýskur leikari og japanskur keisari? Og hvað hefur eiginlega "lon og don" að gera með sjónvarpsgláp?

Hvernig átti að skilja setningu eins og þessa og sögð var af einhleypri frænku minni eitt sinn; "Æ þetta var óttalegt frat. Hann mætti þarna á þetta húllum hæ alveg gaga, tuðaði lon og don í mér að dansa en kvaddi svo bara með kurt og pí og fór".

Þegar talið var saman í leiki og allir voru búnir að reikna út á svipstundu hverjir mundu lenda saman ef notast var við hina einföldu úr-talningarromsu "Ugla sat á kvisti" og sú niðurstaða þótti með öllu óásættanleg, var brugðið á það ráð að nota "Úllen dúllen doff" Allir réttu fram hendurnar og síðan lamdi úrteljarinn á kreppta hnefana og fór með romsuna;

Úllen dúllen doff
kikke lane koff
koffe lane bikke bane
úllen dúllen doff

 

Hvaðan þessi ósköp komu var aldrei útskýrt og einhverjar hálfkaraðar kenningar um að hér sé á ferðinni afbökum á latneskri talnaröð finnast mér frekar langsóttar.

pianos3Ekki tók betra við þegar manni var kennt það sem kallað var "Gamli Nói" upp á Grænlensku. Ég lærði það svona en þetta er örugglega til í hundrað útgáfum.

Atti katti nóva

atti katti nóva

emisa demisa

dollaramissa dei.

Seta kola missa radó

Seta kolla missa radó

Atti kati nóva

atti katti nóva

Emisa, demisa,

dollaramissa dei.

Það trúðu allir því eins og nýju neti að þetta væri alvöru Grænlenska. Rannveig og Krummi í Stundinni okkar eiga þetta sko á samviskunni, en þau gerðu þetta vinsælt.

Upprunalegi textinn kemur frá Þýskalandi  og á að vera saga af Eskimóafjölskyldu sem fer á hvalveiðar. Hann hljómar svona ;

Atte katte nuwa, atte katte nuwa,
emi sademi sadula misa de.
Hexa kola misa woate, hexa kola misa woate.
Atte katte nuwa, atte katte nuwa,
emi sademi sadula misa de.

 

Danska útgáfan er engu minna bull og hljómar svona;

 

Ake take noa, ake take noa,
hej missa dej missa dulla missa dej.
Hexa missa dulla våhda, hexa missa dulla våhda.
Ake take noa, ake take noa,
hej missa dej missa dulla missa dej.

 

Mér þótti gaman að læra vísur, ekki hvað síst ef þær voru eftir "gaga" kalla eins og æra Tobba.

Þambara vambara þræsingssprettir
því eru hér svo margir kettir?
Agara gagara úra rænum
illt er að hafa þá marga á bænum

En hvað þýða feitletruðu orðin??? Og hvenær varð "Þræsingssprettir" að "þeysingssprettir" og "úra rænum" að "yndisgrænum" eins og margir syngja vísuna í dag og halda það hljómi eitthvað skinsamlegra.

PS: Ég gleymdi alveg; "Upp á stól stendur mín kanna"??? Ekki "Upp á hól stend ég og kanna" sem gæti hljómað nokkurn veginn rökrétt sé einhver að gá til veðurs. Nei, það sem er mikilvægt hér er að uppá stólnum stendur kannann svo litlir guttar eins og ég sem allt af voru á þeytingi gætu haft áhyggjur af því hvað mundi gerast ef hún dytti af stólnum og splundraðist í þúsund mola.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Ekki grænan Guðmund.

Rut Sumarliðadóttir, 13.1.2009 kl. 17:00

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Það sem þú "pælir" ekki í Svanur....eða er það "pælar"?

Sigrún Jónsdóttir, 13.1.2009 kl. 17:04

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ha ha ég skemmti mér konunglega við þennan lestur og upprifjun frá æskunni.. gaman að lesa þetta með Atti katti nóa ;)

Óskar Þorkelsson, 13.1.2009 kl. 17:10

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Hér kemur hann þá, mín kæra Rut.

Svanur Gísli Þorkelsson, 13.1.2009 kl. 18:10

5 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Gvendur, minn maður!!!

Rut Sumarliðadóttir, 13.1.2009 kl. 18:34

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Rétt hjá þér Sigrún, þessi útskýring er ansi "snöggsoðin". ;)

Svanur Gísli Þorkelsson, 13.1.2009 kl. 23:22

7 identicon

Það er algjör óþarfi hjá þér að auglýsa NÓVA í skrifum þínum.

Textinn er: Atti katti nóa...

Svo er löngu búið að útskýra textann: Upp á stól stendur mín kanna.

Það var gert af Árna Björnssyni, dr. phil. í menningarsögu, en hann skrifaði:

Svar

Þessi vísa birtist fyrst í seinna bindinu af þjóðsögum Jóns Árnasonar árið 1864:
Upp á stól
stendur mín kanna;
níu nóttum fyrir jól,
þá kem ég til manna.
Stóllinn sem kannan stendur á heitir könnustóll og var þekkt húsgagn á heimilum heldri manna á miðöldum. Á honum stóðu ýmis ílát með vínföngum. Vísan virðist vera úr samnorrænu danskvæði og á að líkindum ekkert skylt við jólasveina. Vísurnar um jólasveinana annars vegar og könnuna hins vegar standa heldur aldrei saman í handritum. Meira má lesa um þá fyrri í svari sama höfundar við spurningunni Hver er réttur texti við lagið "Jólasveinar ganga um gólf"?

Árið 1949 gáfu Friðrik Bjarnason og Páll Halldórsson út Nýtt söngvasafn handa skólum og heimilum en í því birti Friðrik lag sitt við vísurnar tvær. Þær höfðu ekki verið tengdar saman áður, en lagið og vísurnar urðu brátt mjög vinsæl og hafa valdið því að nú telja flestir að vísurnar hafi átt samleið frá alda öðli. Samt eru ekki nema 57 ár síðan þær sáust fyrst spyrtar saman.

Kringum 1990 var farið að kenna börnum í sumum leikskólum upphaf seinni vísunnar með þessu afbrigði:
Upp á hól
stend ég og kanna.
Þessi texti á sér enga forsendu. Auk þess er það hugsanavilla að einhver standi upp á hól og kanni – án þess að tilgreina hvað það sé sem kannað er. Enginn vill nú gangast við að eiga upptökin að þessari útgáfu vísunnar. Hún hefur samt illu heilli komist á geisladisk með söng hins ágæta barnakórs Kársnesskóla og gerir það líklega erfiðara um vik að kveða villuna niður.

Egill (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 10:09

8 identicon

Ha ha ha......Enginn skortur á snillingum hér og allt fullt af gagnlegum upplýsingum, legg þær á minnið maður veit jú aldrei hvenær þarf að grípa til vitneskju um Atti katti noa...... Gæti bjargað á ögurstundu :)

kær kveðja

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 11:04

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Egill og þakka þér þetta. Eitthvað var hún Sigrún að ýja að þessu með "könnustólinn" sem samkvæmt þessu var þá stássgagn á heimili trölla.

Nú eru til þrjár útgáfur af kvæðinu og er þá ekki talin fantasían hans Helga en sú sem hefur gilda stafinn og hólinn finnst mér best. Að ganga upp á hól til að skyggnast um, bæði til veðurs og mannferða var afar algengt ekki hvað síst áður en lagst var í ferðalög og sumir hólar meira að segja nefndir eftir því eins og t.d. Kögunarhóll.

Annars er ekkert sem mælir á móti því að nota allar útgáfurnar og mín athugasemd einungis til að vekja athygli á að sumt sem börn læra er aldrei útskýrt. 

Svo þú lærðir "nóa" líkt og Danir segja og ég "nóva"  sem er líkara upprunalegu vitleysunni á þýsku. Gaman að því. Reyndar er íslenska útgáfan einkennileg blanda af þeirri þýsku og þeirri dönsku.

Svanur Gísli Þorkelsson, 14.1.2009 kl. 11:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband