Íslendingar, Gazaströnd og forsjónin

0127391850085Íslensk stjórnvöld verða að þakka forsjóninni þessa dagana fyrir að þeir eiga ekki sæti í öryggisráði sameinuðu þjóðanna. Þar hefðu þeir þurft að taka afstöðu með eða á móti fordæmingu á innrás Ísraelsmanna á Gaza.

Miðað við hik forsætisráðherra til að fordæma aðgerðirnar fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar, hefðu Íslendingar eflaust haldið tryggð við stefnu Bandaríkjanna í utanríkismálum og kosið gegn fordæmingu og frekari aðgerðum SÞ til að stöðva árásina og þar með gert alla Íslendinga eina ferðina enn samábyrga fyrir ódæðisverkunum.

Þrátt fyrir að utanríkisráðherra hafi persónulega fordæmt innrásina er ég ekki viss um að þau sjónarmið hefðu orðið ofaná við borð öryggisráðsins ef til þess hefði komið.

Bandaríkjamenn hafa komið sér upp ákveðnu flokkunarkerfi  þar sem kveðið er á um við hverja má tala og hverja ekki, hverjir eru réttdræpir og hverjir ekki.

Fram að þessu eru allar alvöru samningaviðræður við Hamas (flokkaðir sem hryðjuverkamen) útilokaðar vegna afstöðu Bandaríkjanna. Þeir hindra jafnframt aðrar þjóðir heimsins í sameinuðum aðgerðum til að stöðva blóðbaðið í krafti neitunarvalds síns í öryggisráðinu.

gaza_mother_dead_childrenEinbeittur vilji ísraelska stjórnvalda til að ráða niðurlögum Hamas án tillits til þess hversu mörg börn og saklausir borgarar deyja, árásir þeirra á hjálpaskýli sameinuðu þjóðanna og sjúkrahús, setur Ísraelsstjórn greinilega í sama flokk og notaður er til að skilgreina hryðjuverkamenn.

Hvað þarf til að íslensk stjórnvöld sendi frá sér skýlausa fordæmingu á miskunnarlausum og stöðugum drápum á saklausu fólki?

Ég held að það sé alveg sama hvernig málin snúast á Gaza, því þeir sem eru nú við völd á íslandi hafa sýnt það og sannað að þeir eru persónulega siðlausir og taka með sér það siðleysi yfir á þann pólitíska vettvang sem þeir starfa á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Þetta er svo mikill hryllingur að maður er hálf lamaður! Var að lesa hjá bloggaranum sem þú linkaðir á í gær og það er ekkert hægt að gera nema skæla eins og smábarn.

Þvílík mannvonska sem við búum yfir.

Heiða B. Heiðars, 6.1.2009 kl. 14:56

2 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Þetta er kynþáttar og trúarstríð í boði Bandaríkjanna. Ísraelar munu tapa stríðinu þó það verði ekki fyrr en eftir 2100. Það er ekki svo langur tími miðað við fyrstu skærur þeirra sem bókaðar eru í GT.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 6.1.2009 kl. 16:17

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Svanur, hefur öryggisráð UN yfirhöfuð ályktað nokkuð? 

Er réttlætanlegt að kenna USA alfarið um ástandið?  Hver er ábyrgð Breta?  Hver er ábyrgð Sameinuðu þjóðanna?  Ótölulegur fjöldi hefur verið myrtur á þessum slóðum eftir stofnun Ísraelsríkis - á báðar hendur.  Eflaust eru það þó nokkrar milljónir síðustu 2 - 3 þúsund árin ef allt er talið með. 

Þú ert fróðari en margir aðrir um þetta landssvæði; hefur þú einhverjar hugmyndir um hvernig binda mætti enda á þetta linnulausa (ævaforna) blóðbað?

Kolbrún Hilmars, 6.1.2009 kl. 17:41

4 Smámynd: Sema Erla Serdar

Að fólk þurfi að velta því fyrir sér hvort fordæma eigi aðgerðir Ísraelsmanna eða ekki er að mínu mati algjör brandari og hámark heimskunnar. Hvað er það virkilega sem fólk þarf að velta fyrir sér?  Hvernig er ekki hægt að fordæma útrýmingu einnar þjóðar á annarri. Ætlar einhver að fara að segja að Rúanda hafi bara verið í fínu lagi....

Sema Erla Serdar, 6.1.2009 kl. 18:29

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sema, við þessi gömlu erum búin að fordæma síðan 1967 - og hver er árangurinn?

Kolbrún Hilmars, 6.1.2009 kl. 19:37

6 Smámynd: Sema Erla Serdar

Kolbrún, og eigum við þá bara að hætta? Þá er það bara næsta skref, slíta öll stjórnmálaleg tengsl sem við höfum við þetta hryðjuverkaríki! Alveg merkilegt hvað enginn þorir að gera neitt eða segja neitt þegar kemur að Ísrael og systur þeirra Bandaríkjunum! Hvað þurfa mörg börn að deyja þar til ríkisstjórninni hentar að segja að þetta sé jú kannski frekar ósmekklegt allt saman! Hvar eru Sameinuðu Þjóðirnar? ESB? Bara alþjóðasamfélagið í heild.. að það sé hægt að horfa upp á þetta er mér óskiljanlegt!

Sema Erla Serdar, 6.1.2009 kl. 19:51

7 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sema, við eigum EKKI að hætta - enda voru það ekki mín orð.  Það leysir heldur engan vanda að við fitjum upp á trýnið og slítum stjórnmálasambandi við þessi stríðandi samfélög í Palestínu.  Við erum nefnilega ekki það stóra og áhrifamikla Ísland sem okkur var talin trú um fyrir örfáum mánuðum. 

Þau eru býsna mörg börnin, úr báðum herbúðum, sem hefur verið fórnað á þessu blóðbaðsaltari í Palestínu frá stofnun Ísraelsríkis og hvert það afl sem hefur mátt til þess að stöðva þessi gagnkvæmu morð hefur minn stuðning. 

Því spurði ég Svan, sem hefur meiri þekkingu á málefnum svæðisins en sjálfur utanríkisráðherrann okkar, hvað honum sýndist.  Ég vona bara að hann erfi það ekki við mig ...

Kolbrún Hilmars, 6.1.2009 kl. 20:32

8 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Kolbrún.

Öryggisráð sameinuðu þjóðanna komst ekki að samkomulagi um eina eða neina yfirlýsingu varðandi innrásina í Gaza í þetta sinn. Þær þjóðir sem hafa neitunarvald á ráðinu verða að vera fylgjandi yfirlýsingum ráðsins annars ná þær ekki fram að ganga. Fulltrúi Bandaríkjanna sagði eftir fundinn að Afstaða Bandaríkjanna væri sú að Hamas væru hryðjuverkasamtök og Bandaríkin mundu aldrei semja við slík samtök eða gera annað en að fordæma aðgerðir þeirra. Bandaríkin ráða því sem þau vilja ráða enda hafa þau jafnan Bretland með sér. Brown hefur þó fordæmt blóðbaðið og kallað eftir vopnahléi. En á meðan skilyrðislaus stuðningur USA við Ísrael sem byggist á geó-pólitískum og þjóðhagslegum forsendum og eins og almennt er talið, að verið sé að lækka rostann í Íran með því að veita Hamas og Palestínumönnum (skjólstæðingum Írana) getur Ísraelsstjórn athafnað sig að vild.

Gyðingar hafa lengi átt ábúð á Gaza ströndinni en oft verið fjarlægðir þaðan af þeim sem réðu "landinu" hverju sinni. Rómverjar flæmdu þá í burtu og þar á eftir krossfararnir. Þá reyndi Napóleon, Ottóman Tyrkir og loks Bretar að varna þeim búsetu á svæðinu. Á 15,16, og 17 öld undir Ottóman veldinu bjuggu Arabar og Gyðingar víða í Ísrael í tiltölulega góðri sátt, þ.á. m. í þorpum á Gaza ströndinni. Eftir að Gyðingum varð heimilt að snúa aftur til Palestínu sem gert var með yfirlýsingu Tyrkja-sultáns árið 1944 fóru Gyðingar að snúa aftur til Landsins Helga og tóku sér búsetu m.a á Gaza ströndinni. Þeir voru þvingaðir frá heimilum sínum af upp úr 1929 einkum af uppreisnarmönnum Araba og síðan Bretum  sem reyndu þannig að friðþæga Arabana. Í þeim átökum létust 135 Gyðingar. Einhverjir Gyðingar snéru aftur upp úr 1946 þegar Kfar Darom kibbutz var stofnað til að forða því að Negev yrði hlutuð frá Ísraelsríki.

Árið 1947 gerðu Sameinuðu þjóðirnar ráð fyrir stofnun Arabísks ríkis á ströndinni frá Yavneh til Rafiah á Egypsku landamærunum. Í sjálfstæðisbaráttu Gyðinga flúðu flestir Arba sem bjuggu á svæðinu til Gaza borgar. Ísraelsher hertók allt svæðið en lét það Egyptalandi eftir að megninu til en héllt eftir Ashdod og Ashkelon. Árið 1956 skall aftur á stríð við Egiptaland, Ísrael vann allt Gazasvæðið en afhenti það Egyptalandi aftur.

Ísraelar hertóku allt svæðið aftur í sex daga stríðinu 1967. Eftir að hafa reynt að byggja svæðið með landnemum var Gaza ströndin rýmd af Gyðingum í Ágúst 2005 og Palestína varð að sjálfstjórnarríki.

Hamas samtökin vinna síðan óvæntan kosningasigur yfir Hamas á Gaza 2006 en á þau hafa m.a. á stefnuskrá sinni að stofna Íslamískt lýðveldi á sínum sögulega heimalandi, Palestínu í stað Ísrael. Hamas sér þetta sem trúarlega skyldu sem áréttuð er í Hadíðunum.

Lausn þessa máls kann að hljóma dálítið draumkennd og langt undan. En hún gæti t.d. falið í sér eftirtalda þætti.

Til að leysa þetta má verða Sameinuðu þjóðirnar að öðlast meir styrk og framkvæmdavald. Þær verða að gera Jerúsalem að hlutlausri borg, og taka að sér umsjá öryggis hennar.

Hverfa verður aftur til sama hlutfalls land og ákveðið var árið 1947 eða 55% fyrir Gyðinga og 45% fyrr Araba. Nú halda Arabar 22%.

Koma á fyrir öflugum sveitum frá Sameinu þjóðunum við landamæravörslu og binda þetta samkomulag í sáttmála sem allar þjóðir heimsins eiga að undirrita og lofa að styðja.

Reisa verður flugvöll, höfn og fjölda skóla án tafar og með alþjóðlegri hjálp á Gaza. Endurbyggja sjúkrahús og atvinnulíf almennt o.s.f.r.

Svanur Gísli Þorkelsson, 6.1.2009 kl. 20:43

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

með því að veita Hamas og Palestínumönnum ráðningu, (átti þetta að vera)

Svanur Gísli Þorkelsson, 6.1.2009 kl. 20:46

10 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Og aftur...Hamas samtökin vinna síðan óvæntan kosningasigur yfir Fatha...átti þetta vitanlega að vera. Það er svona þegar farið er á hálfgerðu hundavaði yfir flókið mál, en ég vona að þú erfir það ekki við mig Kolbrún :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 6.1.2009 kl. 20:52

11 identicon

http://arnold.blog.is/blog/arnold/

Arnar Þór Kristjánsson (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 21:18

12 Smámynd: Aðalsteinn Baldursson

Það þyrfti að taka á þessu máli á sama hátt og tekið var á aðskilnaðarstefni S-Afríkumanna, loka á öll stjórnmálaleg samskipti og einangra þá í samfélagi þjóða þangað til að þeir láta sér segjast. Að vísu þarf líka að sjá til þess að Hamasliðar hætti sínum eldflaugaárásum og hryðjuverkum. Málið er langt frá því að vera einfalt en við verðum engu að síður að láta vita að við erum á allan hátt mótfallin þessu ástandi.

Aðalsteinn Baldursson, 7.1.2009 kl. 01:42

13 Smámynd: Hannes

Þetta er flókið mál. Þegar öll mannréttindi eru brotin á fólki og það er lokað fyrir vatn og allt sem okkur þykir eðlilegt þá ertu að búa til útungunarvélar fyrir hatur sem leiðir af sér öfgamenn sem leiðir svo af sér sjálfsmorðssprengjumenn og ofbeldi.

Sjúkrabílar eru stoppaðir og leitað í þeim og á meðan hann er í tékki þá deyr kannski sá sem er aftan í honum.

Hannes, 7.1.2009 kl. 02:20

14 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Þakka þér Svanur fyrir fróðlegt og skilmerkilegt svar eins þín er vísa 

Auðvitað eiga Ísraelar að skila hernumdu svæðunum og hverfa a.m.k. inn fyrir upprunalegu landamærin.  Reyndar hef ég aldrei skilið því þeir fengu upphaflega svona mikið land - og með þessum fleyg suður að Rauða Hafinu? Líbanon er næstum því helmingi minna. 

Það er sorglegt að UN skuli þegjandi samþykkja alla útþenslu Ísraelsríkis og lyfti ekki litla fingri  til þess að stöðva stríðsátökin í Palestínu.  Það hlýtur eitthvað fleira að hanga á spýtunni en atkvæði USA 

Hugmynd þín um að gera gamla þrætueplið Jerúsalem að fríríki er snjöll, ég man ekki eftir að hafa séð hana nefnda áður. 

Kolbrún Hilmars, 7.1.2009 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband