1.1.2009 | 21:05
Piparúði
Ýmislegt bendir til þess að chilies pipar-tegundir hafi verið ræktaðar frá örófi alda. Indíánar í Mexikó þekktu og ræktuðu ýmsar tegundir þess fyrir 5500 árum, þ.á.m. chiltecpin, jalapeño, ancho, papriku, serrano og cayenne pipar. Ekki hafa fundist nein gögn sem benda til þess að þeir hafi notað þessar sterku kryddjurtir til líkamsmeiðinga líkt og gert er í dag í mörgum löndum.
Þó að ekki sé ýkja langt síðan að byrjað var að nota piparúða er notkun rauðs Chili-pipars vel þekkt úr mannkynssögunni sem vopn bæði frá Indlandi og Kína. Kínverjar og ekki síst stríðsmenn þeirra fundu upp ýmsar leiðir til að nota kryddjurtina til sjálfsvarnar og í hernaði. Meðal þeirra var að mala þurrkaðan pipar og vefja hann hrísgrjónapappír sem síðan var kastað í andlit óvinarins.
Meðal hinna frægu japönsku Ninja herliða var þessi aðferð vel þekkt til að gera óvininn óvirkan um stund. Á Tukagawa-veldis-tímabilinu í Japan notuðu lögregluliðar svokallaða Metsubishi kassa en í þeim var komið fyrir fínmöluðum Chili-pipar sem blásið var í augu þeirra sem gerðust sekir um glæpi.
Á 14. og 15. öld þegar að þrælasala var algeng á vesturlöndum, komust þrælasalar upp á lag með að nota kryddið til að fanga þræla í Afríku. En það var einnig notað á sama tíma sem vopn og var vinsælt við pyndingar þræla og glæpamanna.
Það var ekki fyrr en á níunda áratug síðustu aldar að farið var að nota piparinn í formi úða.
Bannað er að nota piparúða í stríði samkvæmt I.5 grein alþjóðlega sáttmálans um efnavopn sem undirritaður var árið 1993 og varð að alþjóðlegum lögum 29. Apríl 1997. Sáttmálin er viðauki við hinn svo kallaða Genfar sáttmála sem hefur verið í gildi frá því 1925.
Þrátt fyrir þessi ákvæði er piparúði löglegt sjálfsvarnarvopn fyrir almenning í mörgum löndum heims og hluti að búnaði lögreglumanna.
Á Íslandi er piparúði notaður af lögreglu en ólöglegt er fyrir almenning að bera eða beita slíku vopni.
Auðveldasta leiðin til að forðast áhrif piparúða er að setja upp vel þétt skíðagleraugu og vefja klút fyrir aðra hluta andlits síns.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.1.2009 kl. 01:00 | Facebook
Athugasemdir
athyglisvert að þetta skuli vera bannað í hernaði en leyft í lögreglunni..
Óskar Þorkelsson, 1.1.2009 kl. 21:17
Athyglivert, sala skíðaglerauga mun fara vaxandi hér í kreppunni
Sigrún Jónsdóttir, 1.1.2009 kl. 21:51
Lögreglan er búin að lækka þröskuldinn verulega fyrir því hvenær skuli beita piparúða. Það þýðir að notkun hans mun fljótlega hætta að bera tilætlaðan árangur.
Theódór Norðkvist, 1.1.2009 kl. 22:51
Óskar; Það finnst mér líka. Spurningin hvort notkunin er gerð "lögleg" með reglugerð eða lögum gefnum út af Alþingi. Mig grunar að hið fyrra sé rétt. Þá væri gaman að vita í tengslum við hvaða lög sú reglugerð er sett.
Satt að segja skil ég ekki Sigrún hvers vegna að fólk mætir ekki með skíðagleraugu og skíðagrímur. Eins og Theódór bendir á er notkun piparúða að vænta frekar en ekki eins og staðan virðist vera þegar til mótmæla kemur.
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.1.2009 kl. 23:31
Gaman að lesa þessa hlið á málinu! Kannski kominn tími til að lögreglan fái nýtískulegra vopn en kylfu. Er ekki kylfan talin elsta verkfæri mannkynsins?
Þorsteinn Sverrisson, 1.1.2009 kl. 23:58
Þegar innbrot og líkamsmeiðingar eru þær aðferðir sem "mótmælendur" beita, finnst mér ekkert skrítið þó að piparúða sé beitt. Þau rök margra mótmælenda að þeir hefi ekkert gert heldur sé það lögreglan sem að veldur því að upp úr sjóði finnst mér heldur léttvæg. Ráðist þú gegn lögreglu eða ryðst inn í hús þar sem þú ert ekki velkominn þá máttu búast við því að á þér sé tekið. Eins og staðan er hér á landi í dag er piparúðinn eina "tækið" sem að lögreglan hefur til þess að dreifa hópi fólks sem að stefnir heilsu og/eða eignum annarra í hættu með aðgerðum sínum.
En hvað sem öðru líður þá vona ég að þú hafir haft það gott um áramótin og að þú munir eiga gott og farsælt ár 2009.
Bestu kveðjur, Aðalsteinn.
Aðalsteinn Baldursson, 2.1.2009 kl. 00:22
Rétt Þorsteinn, kylfan er gömul og eflaust úrelt miðað við ástandið í flestum vestrænum þjóðfélögum. Vildi ég samt að svo væri ekki. Lengi vel gengu löggur hér í Bretlandi bara með kylfur en núna ganga þær flestar um með úðabrúsa líka og jafnvel byssur. Heimur versandi fer...greinilega. Samt finnt mér eitthvað afar óíslenskt við að sjá íslenskar löggur vopnaðar.
Tak fyrir Kveðjurnar Aðalsteinnog sömuleiðis. Geir Jón fyrrum starfsbróðir minn úr Vestmanneyjum verður að hugsa málið til enda. Það dugar ekki að nota piparúðan til að tvístra fólki. Hann ætti aðeins að nota í nauðavörn ef að lögreglunni er ráðist með ofbeldi. Slíku var ekki til að dreifa samkvæmt myndum af því sem gerðist niður við Hótel Borg. -
Fram að þessu hefur verið farið tiltölulega varlega í sakirnar af lögreglu. Ég er hræddur um að í næsta sinn mæti akativistar vopnaðir eða með skíðagrímur. Hvað ætlar lögreglan þá að gera til að tvístra hópnum. Ná í skotvopnin?
Svanur Gísli Þorkelsson, 2.1.2009 kl. 00:45
Skrýtið að leyfa óbreytum borgara að bera á sér vopn sem er bannað í hernaði.
Ég vissi ekki að það væri búið að nota pipar sem vopn svona lengi.
Það sem skiptir mestu máli með vopn sem löggan notar eru líkur á meiðslum og ég held að piparúðinn sé töluvert skárri upp á það að gera en kylfan.
Löggan í Kanada fór yfir notkun vopna og skoðaði meiðsl og í ljós kom að það voru mun meiri meiðsl sem fylgdu kylfunni en rafbyssunni. Að vísu er hætta á að hjartasjúklingar fái hjartaáfall og fólk á ákveðnum eiturlyfjum líka en fólk sem slæst við lögguna gerir það á eigin ábyrgð.
Hannes, 2.1.2009 kl. 03:35
Sælir aftur.
"Hann (piparúðann) ætti aðeins að nota í nauðavörn ef að lögreglunni er ráðist með ofbeldi.". En það var einmitt það sem var að gerast, að ráðist var á bæði lögguna og starfsfólk hótelsins og Stöðvar 2. Glóðuraugu og kinnbeinsbrot eru engan veginn ásættanleg þegar mótmæli eru annarsvegar. Einnig hefur það því miður komið fyrir að lögregluþjónn hefur m.a. verið bitinn í þessum látum undanfarið. Ég er ekki sáttur við ástandið eins og það er í landinu í dag en ég er algerlega mótfallinn því að því sé mótmælt með ofbeldi. Þá set ég undir sama hatt þegar ráðist er á fólk og þegar eignir eru skemmdar.
Kv. Aðalsteinn
Aðalsteinn Baldursson, 2.1.2009 kl. 20:16
Það var ekki ráðist á lögregluna fyrr en eftir ofbeldi þeirra, þar sem þeir úðuðu liggjandi fólk á flótta héldu fólki hálstaki til að geta úðað í augun á þeim. Það starfsfólk sem var á staðnum gekk mun harkalegar fram en mótmælendur, eins og kemur greinilega fram á fréttamyndum Stöðvar 2.
Sá lögreglumaður sem var bitinn í alþingishúsinu hafði áður kýlt stúlku og hélt bitvarginn hálstaki.
Mér finnst líka verulega sorglegt þegar fólk leggur að jöfnu eignaspjöll og ofbeldi.
Nonni, 3.1.2009 kl. 02:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.