Sagan af Jósef litla.

Fyrir skömmu birti ég jólasögu fyrir unglinga og nú er komið að börnunum. Sagan er skrifuð fyrir tvær litlar tátur á sínum tíma, en kannski hafa fleiri gaman að henni.

Ysta gistihúsið í bænum iðaði af mannlífi.  Ekki bara af kaupmönnum á leið til Jerúsalem, heldur fjölmörgum gestum sem flestir sögðust hafa búið í Betlehem í eina tíð eða aðra.

Það var komið kvöld og Jósef litli sat á tröppunum sem lágu upp á þak hússins og horfði á móður sína bera fram hvert fatið af öðru hlaðið ólífum, döðlum og brauði sem hvarf jafn hraðan ofaní glorsoltna ferðalangana. Í forgarðinum fyrir utan biðu eiginkonurnar í þéttum hóp ásamt börnum sínum og skröfuðu saman. Þær voru nýrisnar upp frá bænum og biðu nú þess óþreyjufullar að eiginmenn þeirra lykju sér af svo að þær gætu líka satt hungur sitt. Börnin stóðu álút og þreytt og einstaka kjökraði um leið og það togaði í yfirhöfn móður sinnar. Jósef hafði aldrei séð jafnmargt fólk á ferðinni fyrr og hann hafði heyrt pabba sinn segja að það ætti að vera í lögum að telja skyldi fólk á hverju ári því þá mundi hann ekki þurfa að kvarta yfir nokkrum sköpuðum hlut. Jósef skildi varla hvað pabbi hans átti við enda aðeins átta ára gamall. En svo hafði málið skýrst talsvert þegar að hann heyrði einn af ferðamönnunum hneykslast á keisaranum í Róm sem hét víst Ágústus og þeirri áráttu hans að vilja vita nákvæmlega hvað margir byggju í heiminum. "Hann gerir þetta bara til að vita betur hve mikið hann getur látið ónytjunginn Heródes skattleggja þjóðina" heyrði hann gestinn segja. Jósef hafði oft heyrt minnst á þennan Heródes. Hann var konungur Gyðinga, en mamma hans hafði samt sagt að Heródes gæti varla verið sannur konungur fyrst hann léti keisarann í Róm ráða yfir sér. Jósef horfði hugfanginn á allt fólkið og velti því fyrir sér hvort hann sjálfur ætti nokkurn tíma eftir að ferðast til ókunnugra staða.

Þegar að leið á kvöldið færðist smá saman ró yfir litla gistiheimilið og gesti þess. Eftir að konurnar og börnin höfðu borðað gekk hver og einn til sinnar úthlutuðu hvílu og matsalurinn var orðinn að risastórri flatsæng þar sem a.m.k. fjórar fjölskyldur sváfu. Jóel faðir Jósefs hafði gott lag á því að koma öllum fyrir og fáir kvörtuðu yfir þrengslunum. Til að nýta allt gistirými til fullnustu hafði hann búið um Jósef litla og móður hans upp á þaki gistihússins. Sjálfur sagðist hann ætla að sofa út við dyr forgarðsins því þannig kæmist enginn hvorki inn né út án þess að hann yrði þess var. Jósef fannst þetta svo spennandi að hann gat varla sofnað.

Stjörnubjartur himininn og svöl kvöldgolan hafði örvandi áhrif á hann. Móðir hans var aftur á móti varla lögst útaf þegar að hún var byrjuð að hrjóta. Jósef horfði upp í himininn og reyndi eftir megni að telja allar stjörnurnar sem hann sá. Allt í einu virtist honum sem ein stjarnan hreyfði sig. Út við sjóndeildarhringinn sá hann hvar ein af stjörnunum virtist sigla hraðbyri í áttina að honum. Gapandi af undrun stóð Jósef á fætur og horfði í forundran á það sem í fyrstu virtist aðeins lítill ljósdepill, verða að skínandi bjartri stjörnu sem honum fannst stöðugt nálgast. Hann var í þann mund að fara að vekja móður sína til að sýna henni þetta merkilega fyrirbæri og leita hjá henni skýringa þegar að hann heyrði að bankað var á dyr forgarðsins. Hann fylgdist með föður sínum rísa úr fletinu við dyrnar og opna. Inn í forgarðinn komu tvær manneskjur, kona sitjandi á asna og maður sem teymdi undir henni. Tal þeirra barst vel í kvöldkyrrðinni til hans;

"Afsakið hversu seint við erum á ferðinni, en við erum búin að leita okkur að gistingu í allt kvöld. Öll gistihús í bænum eru sögð full og þið eruð okkar seinasta von." Sagði maðurinn "Við erum komin alla leið frá Júdeu til að láta skrásetja okkur því hér er ég fæddur."

Jósef horfði á föður sinn klóra sér í höfðinu og  horfa vandræðalega á gestina. Skyndilega var eins og hann tæki ákvörðun, byrsti sig og setti hendurnar á mjaðmir sér eins og hann gerði alltaf þegar hann var að þrefa við kaupmennina um vöruverð á markaðstorginu.

"Heitmey þín segirðu, svo þið eruð ekki gift" spurði hann svo með þjósti.

"Hún er heitmey mín" endurtók maðurinn.

"Ja sveiattan" hrópaði faðir hans, "ekki skal mig undra þó ykkur hafi verið vísað á dyr alls staðar annarstaðar. Hvernig dirfist þú að ferðast um með þessa konu í þessu líka ástandi."

Faðir hans benti nú með vandlætingarsvip á konuna sem sat á asnanum. Jósef horfði á konuna og reyndi að gera sér grein fyrir hvað pabbi hans meinti. Hann sá ekkert óeðlilegt við hana annað en hún var svolítið feit.

"Nei" hélt faðir hans áfram, "þið fáið enga gistingu hér". Hann veifaði höndunum og pataði þangað til að gestirnir snéru aftur út um hliðið og lokaði því að baki þeirra.

Jósef fyldist með þeim þar sem hann stóð á þakinu og sá hvar þau stöldruðu við og maðurinn horfði í kringum sig. Konan virtist segja eitthvað við hann og skyndilega snéru þau aftur við og héldu í átt að fjárhúsinu sem byggt hafði verið utaná lítinn helli í fjallshlíðinni skammt frá gistihúsinu. Jósef sá hvar maðurinn leiddi asnann inn í fjárhúsið og skömmu seinna hvar ljósglætu, greinilega frá litlum olíulampa, lagði frá útihúsunum.  Jósef velti því fyrir sér hvort hann ætti að fara niður og vekja pabba sinn sem búinn var að hreiðra um sig aftur við forgarðsdyrnar, og segja honum að hinir óvelkomnu gestir væru búnir að koma sér fyrir í fjárhúsinu.

 Hann var svo til búinn að ákveða að gera það þegar að hann tók eftir því að stjarnan sem hann hafði séð hreyfast skömmu áður í áttina að sér, var nú komin á fleygiferð og stefndi rakleiðis að honum fannst í átt að sér. Hræðsluópið sem var á leið úr barka hans stoppaði í kokinu á honum því allt í einu staðnæmdist stjarnan, beint fyrir ofan fjárhúsin. Þó að Jósef væri aðeins átta ára og hefði aldrei gengið í skóla vissi hann að svona höguðu stjörnur sér ekki. Ósjálfrátt fylltist hann eftirvæntingu og óseðjandi forvitni og hann vissi að ekkert skipti máli annað en það að komast niður af þakinu og upp að fjárhúsinu því þar væru að gerast undur og stórmerki.

Hann læddist nú niður stigann, niður í dagstofuna, tipplaði á milli  umlandi gestanna sem  sváfu þar á gólfinu og smeygði sér inn í eldhúsið. Á eldhúsinu var lítill gluggi sem Jósef hafði oft leikið sér að að smjúga í gegnum. Það gerði hann því léttilega og áður en varði var hann kominn að fjárhúsinu. Hann var í þann mund að gægjast innfyrir, á milli gysinna viðarborðanna sem húsið var byggt úr, þegar að hann heyrði mannamál. Jósef snéri sér við og sá sér til mikillar undrunar hvar grillti í nokkra menn sem  komu hlaupandi niður fjallshlíðina í myrkrinu. Þeir báru langa stafi og af því vissi Jósef að þeir voru fjárhirðar.

Jósef var viss um að þeir væru þarna komnir til að reka konuna og manninn út úr fjárhúsunum. Þeir höfðu örugglega séð til ferða þeirra og hugsuðu þeim nú þegjandi þörfina. En þegar þeir komu nær sá hann að fjárhirðarnir voru alls ekki reiðir. Þeir voru brosandi og í stað þess að ryðjast inn í fjárhúsið, stóðu þeir eins og varðmenn við hrörlegar dyrnar og töluðust við í hljóði. Þeir virtust engu skeyta um Jósef sem þó var viss um að þeir hefðu séð sig.

Jósef snéri sér því aftur við og kíkti í gegnum rifuna. Í daufri skímunni frá litlum lampa sá hann hvar konan lá á bakinu og maðurinn bograði yfir henni með uppbrettar ermar. Á maganum á konunni var hvítur klútur. Kaldur sviti spratt út á enni Jósefs því honum sýndist maðurinn vera að gera eitthvað hræðilegt og andlit konunnar bar vott um að henni leið ekki vel. Ópið sem staðnæmst hafði í kokinu á honum nokkru fyrr var í þann mund að losna þegar að ennþá fleiri undur og stórmerki gerðust. Í eini svipan hélt maðurinn á barni. Barnið byrjaði að kjökra en þagnaði þegar það var lagt ofaná magann á konunni og hún vafði það í dúkinn sem lá ofaná henni. Gleðisvipur lék nú um andlit konunnar og maðurinn horfði hreykinn á bæði barn og móður. Þegar að hjarðsveinarnir heyrðu barnsgrátinn greip um sig á meðal þeirra mikill fögnuður. Þeir dönsuðu við hvern annan og hlógu. Brátt steig maðurinn út úr fjárhúsinu og bauð þeim að koma inn. Þeir stigu inn í fjárhúsið lotningarfullir og alvarlegir eins og þeir væru að fara inn í bænahús og Jósef sá hvar þeir krupu við jötuna þar sem konan hafði lagt barnið.

Jósef fylgdist með öllu þessu opin eygður og reyndi að átta sig á því sem var að gerast. En hann gat bara ekki fundið neinar  sennilegar  skýringar á öllu því sem hann hafði séð. Eins og til að rugla hann enn frekar í ríminu fannst honum nú sem hann heyrði bjölluhljóm. Augun ætluðu bókstaflega út úr höfðinu á honum þegar að út úr myrkrinu birtust þrír úlfaldar hver með sína bjöllu um hálsinn.

Reyndar hafði Jósef oft séð úlfalda áður, en aldrei hafði hann séð jafn tígulega búna menn eins og þá sem á baki þessum úlföldum riðu. Jósef varð samstundis ljóst að þetta hlutu að vera ákaflega tignir menn, jafnvel konungar. Um leið og þeir komu að fjárhúsinu létu þeir dýrin leggjast á framfæturna og stigu af baki. Hver um sig tók upp úr farangri sínum einhvern hlut sem var vafinn í dýrindis efni og síðan héldu þeir einn á eftir öðrum inn í fjárhúsið.

Í gegnum rifuna á fjárhúsinu sá Jósef hvar fjárhirðarnir viku fyrir mönnunum þremur sem krupu í þögulli lotningu fyrir framan jötuna og lögðu hlutina sem þeir höfðu tekið með sér til fóta barnsins. Eftir nokkra stund stóðu þeir upp og mæltu nokkur orð til konunnar á máli sem Jósef skildi ekki. Því næst komu þeir út og stigu á bak farskjótum sínum og riðu aftur út í myrkrið.

Jósef stóð agndofa og horfði á eftir þeim. Fljótlega komu fjárhirðarnir líka út og hurfu á braut upp fjallið þaðan sem þeir komu. Stjarnan sem skinið hafði skært yfir höfðum þeirra á, meðan að öllu þessu fór fram dofnaði smásaman og varð ein af óteljandi ljósdeplum á síðnæturhimninum.

Jósef var þess fullviss að eitthvað afar merkilegt var að gerast.  Myndi einhver nokkurn tíma geta skýrt öll þessi fyrirbæri fyrir honum. Mundu pabbi hans og mamma trúa einu orði af þessu öllu saman ef hann segði þeim frá því sem fyrir augu hans hafði borið? Jósef sá í gegnum rifuna að maðurinn og konan voru strax farin að búa sig til brottfarar. Mundi hann einhvern tíma komast að því hver þau væru. Og hvað með þetta barn sem Jósef var nú réttilega búinn að álykta að hann hefði séð fæðast. Mundi hann nokkurn tíma heyra frá því aftur.

Jósef snéri sér við og ákvað að halda aftur heim áður enn allir vöknuðu. Hann var varla búin að taka fyrsta skrefið þegar hann heyrði konuna inni í fjárhúsunum segja skýrt og greinilega: 

"Jósef minn, geturðu aðeins komið hérna".  

Jósef stirðnaði upp. Gat verið að konan hafi vitað af honum allan tímann og ekki bara vitað af honum heldur einnig hvað hann héti? Átti hann að svara.

"Jósef, ertu sofnaður" heyrði hann konuna segja aftur.

Hann var í þann mund að svara þegar að hann heyrði manninn segja:

"Nei María mín ég er ekki sofnaður, ég er bara að horfa á barnið og velta fyrir mér hvað við eigum að nefna hann".  

"Hann á að heita Jesús" svaraði konan.

Jósef litla var létt. Nei þau vissu ekkert af honum hugsaði hann. Eins og fætur toguðu hljóp hann til baka að litla gistihúsinu og áður en varði var hann kominn undir brekánið við hlið móður sinna upp á þakinu. Þegar að Jósef vaknaði seint um morguninn var hann ekki viss um hvort atburðir næturinnar hefðu í raun og veru gerst eða hvort hann hafði dreymt þá. Bæði móðir hans og faðir voru svo upptekin við að sinna gestunum sem margir voru á förum, að Jósef fann hvergi tækifæri til að segja þeim neitt um það sem hann taldi sig hafa séð.

Í raun var hann heldur ekki viss hvort hann ætti að segja þeim neitt. Hver mundi trúa að hann hefði séð stjörnu koma fljúgandi og staðnæmast fyrir ofan fjárhúsið, að hann hefði séð fjárhirða dansa af kæti um miðja nótt, að hann hefði séð konu fæða barn og mann taka á móti því, og hver mundi trúa að hann hefði séð þrjá konunga ríðandi á úlföldum koma með gjafir handa barninu. Nei, líklegast var best að þegja. Og svo var þetta kannski bara allt draumur.

Jósef greip brauðhleif úr eldhúsinu og hélt út á götuna fyrir framan litla gistihúsið. Fjöldi fólks streymdi hjá í báðar áttir. Hann settist niður við vatnsbrunninn skammt frá og horfði á iðandi mannfjöldann. Mitt í fjöldanum sá hann þá kunnuglega sjón.  Maður kom gangandi í áttina að honum, leiðandi asna og á asnanum sat kona sem hélt á reyfabarni. Jósef stóð upp og beið þar til þau voru komin alveg upp að honum. Jú ekki var um að villast, þetta voru þau. Brosandi gekk hann að konunni sem nú hafði greinilega komið auga á hann líka. Jósef rétti henni brauðhleifinn sinn þegjandi án þess þó að vita hversvegna. Konan tók brauðhleifinn og kinkaði til hans kolli. Og eins og fyrir tilviljun snéri hún barninu í fangi sér þannig að Jósef horfði nú beint í andlit þess. Um leið opnaði barnið augun og  geislandi bros þess leið Jósef aldrei úr minni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: egvania

Takk fyrir sögurnar þínar.

Kærleikur til þín kveðja Ásgerður

egvania, 19.12.2008 kl. 04:43

2 identicon

Takk takk !

kær kveðja,

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 11:23

3 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

Hugljúf tær og geislandi saga hjá þér Svanur Síðasta setningin um að barnið opnaði augun og geislandi brosið festist í minni, minnir mig á þegar ég og bróðursonur minn áttum tveir einir saman hálfann dag síðasta sumar í sumarbústað.  Ég var að baksa við troða nokkrum trjáplöntum í jörð og á eftir mér labbaði sá litli, ekki enn byrjaður að tala en kunni að benda og samskiptamáti okkar fólst í því að benda hvor öðrum á eitthvað.  Svo fór hann að gráta en varð aftur sæll og glaður eftir að við höfðum farið inn og hann hafði hámað í sig heilann kexkökupakka.  Þá brosti hann og andlit hans ljómaði   Hann benti svo á málverk á veggnum af konu sitjandi úti í guðs grænni Íslenskri náttúru eftir fyrsta Íslenska landslagsmálarann okkar Þórarinn B Þorláksson og horfði á mig.  Þegar honum fannst ég ekki alveg skilja sig, benti hann aftur á hana og horfði á mig og brosti Ég skildi hvað í hvað í honum söng og við röltum svo saman aftur út í góða veðrið.  Vísuðum hvor öðrum leið með því að benda og settumst svo niður í grasbala meðal himneskra blóma í alsælu ógleymanlegra andartaka.  Kona gekk hjá og brosti til okkar.  Þarna sátum við svo sælir og glaðir kumpánarnir, en af því eitthvað þurfti að hafa fyrir stafni og ég soldið stríðinn, sleit ég upp strá og potaði því upp í nefið á honum.  Þetta þótti honum afskaplega gaman og skríkti í honum.  Hann gat vart beðið að ég gerði þetta aftur og svo enn aftur og þannig leið tíminn og heyra mátti nið í læk skammt frá.  Fullkomnir svifum við um í draumi hvors annars og líkt og biðukollufræ bárust þessi andartök okkar burt með hægum straumi loftsins, burt en enginn veit svo sem hvurt, máski í fjarlæga jörð eða upp í ský sem ferðast um ríki himnanna, kannski kveikti þessi glóð í hjörtum okkar í einhverju slíku skýi, svo það logar að innan, fagurt einsog Engill eða þá Jésúbarnið þegar það opnar augun og geislandi bros þess færir okkur birtu og yl.  Takk fyrir Barnajólasöguna Svanur og lifðu heill

Máni Ragnar Svansson, 19.12.2008 kl. 18:00

4 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Gleðileg jól

Hólmdís Hjartardóttir, 23.12.2008 kl. 22:08

5 Smámynd: Anna Gísladóttir

Takk fyrir skemmtilega sögu

Gleðilega jólahátíð  

Anna Gísladóttir, 25.12.2008 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband