16.12.2008 | 16:15
Gervi-framtíð
Árið 2005 var haldin mikil sögusýning í Ameríska náttúrugripasafninu þar sem afrek Charles Darwins voru tíunduð og gerð góð skil. Dagbækur og áhöld Darwins voru þarna til sýnis en merkilegastur sýningargripa þótti skjaldbaka ein, sem höfð var í búri við útganginn á sýningunni.
Skjaldbakan hafði verið flutt frá Galapagos eyjum sérstaklega fyrir sýninguna og það sem merkilegt þótti við hana var að hún var svo gömul að hún var nýfædd þegar að Darwin var á eyjunum við rannsóknir sínar.
Fjölmörg skólabörn sóttu sýninguna og af öllum sýningargripunum þótti þeim mest koma til skjaldbökunnar.
Í ljós kom að flest þeirra ályktuðu að skjaldbakan væri ekki ekta skjaldbaka heldur róbót. Skjaldbakan hreyfði sig lítið og þegar þeim var sagt að skjaldbakan væri raunverulega ekta eldgömul skjaldbaka, lýstu þau yfir furðu sinni. Hvers vegna að flytja gamla skjaldböku alla þessa leið til að loka hana inn í búri þar sem hún hreyfði sig lítið sem ekkert, þegar að líkan eða róbót hefði dugað jafn vel eða betur?
Aðalatriðið í sambandi við skjaldbökuna virtist gjörsamlega fara fram hjá þeim, eða að skjaldbakan hafði verið á lífi á sömu slóðum og Darwin gerði frumrannsóknir sínar sem leiddu til þess að ein mikilvægasta vísindalega kenning allra tíma, var sett fram.
Það sem hreifir við mér í þessu sambandi er að það eru greinilega að alast upp kynslóðir víða í heiminum þar sem ekki skiptir máli hvort hlutirnir eru ekta eða gervi, svo fremi sem þeir komi að sama gagni. Hvers virði er að eitthvað sé lifandi ef eitthvað dautt getur þjónað sama tilgangi?
Þetta leiðir hugann að því hvernig í auknum mæli farið er að nota róbóta til að vera gæludýr fyrir gamalmenni og börn. Frægastur þessara róbóta er eflaust Paro, einskonar stóreygður selur sem bregst við augnahreyfingum eiganda síns og hvernig hann strýkur á vélselnum feldinn. Augnaráð vélselsins getur verið angurvært, samúðarfullt eða fullt óvissu. Um hann getur farið hrollur eða velsældar hrísl. Náið samband við róbótana myndast auðveldlega og bæði börn og gamalmenni nota orðið ást yfir tilfinningar sínar gagnvart róbótunum.
Spurningin er hvað sú ást er sem byggist á einhliða tilfinningalífi og endurspeglun þess í vélrænum hlut.
Í kvikmyndinni Simone þar sem Al Pacino leikur kvikmyndastjóra sem er gefið forrit sem býr til svo eðlilega sýndarveruleika-persónur að ekki er hægt að sjá muninn á þeim og alvöru leikurum, er spunnið út frá sýndarveruleika-þemanu á all-sannfærandi hátt. Í myndinni tekst Al jafnvel að plata þúsundir sem koma til að sjá leikkonuna sem hann skapaði halda tónleika, þannig að allir halda að hún sé raunveruleg manneskja af holdi og blóði. Til þess beitir Al þrívíddatækni líkt og notuð er í Star Wars og fleiri kvikmyndummyndum við fjarskipti, sem reyndar er komin á það stig að það sem var vísindaskáldskapur í kvikmyndinni er orðið raunverulegt í dag.
Með þessari tækni munu ýmsir draumar rætast sem áður voru óhugsanlegir. Það væri t.d. hægt að efna til hljómleika með Bítlunum þar sem þeir spiluðu sem þrívíddarpersónur. Mundi það breyta nokkru fyrir alla þá sem áttu þann draum heitastan að sjá þá spila saman einu sinni enn, og svo aftur og aftur og ....?
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Bloggar, Menning og listir, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:18 | Facebook
Athugasemdir
Blessaður Svanur.
Er ekki bara spurning um það hver verður fyrstur að láta vaða með Bítlana.
Hvernig voru ekki hugmyndirnar hjá sumum um að varpa auglýsingum á Ingólfsfjall. Nú eða tunglið.
Kv
Davíð
Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 08:04
egvania, 17.12.2008 kl. 21:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.