Hvar eru allar geimverurunar?

Steve_BikoMér þykir gaman að tala og hugsa um hugmyndir. Auðvitað er til fjöldi fólks sem getur sagt það sama, en samt verð ég alltaf uppveðraður þegar ég hitti persónur sem leggja sig meira eftir því að ræða eða jafnvel skrifa um hugmyndir frekar en atburði og fólk eins og þorri fólks gerir.

Ég er að sjálfsögðu meðvitaður um að ekki eru allar hugmyndir þess virði að hugarorku sé eytt á þær, einnig að margar hverjar eru ekki tímabærar þótt áhugaverðar séu. En það sem gerir hugmyndapælingarnar þess virði að leggjast í þær er að af og til rekstu á hugmyndir hvers tími er kominn. Og í orðum hins merka manns Stephen Bantu Biko frá Suðurafríku, sem lést í fangelsi á dögum aðskilnaðarstefnunnar þar í landi, er "Ekkert eins máttugt og hugmynd hvers tími er kominn."

Nú er ég ekki að halda því fram að neðanritað falli sérstaklega undir þann flokk hugmynda, en eitt er víst að margir ræða þetta sín á milli.

Enrico_Fermi_1943-49Sú hugmynd sem mig langar að tjá mig um að þessu sinni er stundum kölluð Fermi mótsögnin. Hún er kennd við Ítalann Enrico Fermi sem hlaut Nóbelverðlaunin fyrir 1938 fyrri störf sín í þágu eðlisfræðinnar og lagði m.a. mikið af mörkum til þróunar skammtafræðinnar.

Fermi sat ásamt vinum sínum, sumarið 1940 og ræddi við þá líkurnar á lífi á öðrum hnöttum í alheiminum. Út frá þeim staðreyndum að í Vetrarbrautinni einni eru 100 milljónir fastastjarna og að líf þróaðist tiltölulega snemma og stöðuglega hér á jörðinni, þótti þeim líklegt að viti bornar verur ættu að hafa þróast fyrir löngu á öðrum hnöttum og gætu hæglega hafa lagt undir sig nærliggjandi sólkerfi á nokkrum milljónum ára. Þeir ályktuðu sem svo að viti bornar lífverur ættu að vera frekar algengar í stjörnuþokunni. Fermi hlustaði þolinmóður á þessar pælingar og spurði svo; hvar eru þá allir?

Í fimmtíu ár hafa mennirnir skimað himnanna með öflugum sjónaukum og hlustunargræjum og ekki fundið nein staðfest ummerki um ójarðneskt vitsmunalíf. Hvers vegna?

alien_playing_poolÍ fljótu bragði mætti ætla að svörin við þessari spurningu geti verið mörg, en mér virðast aðeins þrír möguleikar koma til greina

Fyrsta tilgátan er; alheimurinn er svo gríðarlega stór að líkurnar á að við finnum merki um líf eru hverfandi jafnvel þótt við hlustum og skimum í mörg hundruð ár.

Þetta getur vissulega verið rétt, en þá er vitmunalíf ekki eins algengt og félagar Fermi vildu vera láta.

Önnur tilgáta er að vitmunaverurnar feli sig fyrir jarðarbúum, annað hvort af því að þeir vilja ekki hafa áhrif á "eðlilega framþróun" siðmenningar okkar eða að þeir álíta okkur svo vanþróaða og hættulega að það sé ekki þess virði að skipta sér af okkur.

Þesssi tilgáta gerir ráð fyrir slíkri ofurtækni að hún er næstum óhugsandi. Að fela útvarpsbylgjur og aðra geislun, ummerki sem gefa til kynna þróaða siðmenningu,  er nánast útilokað.

Þriðja tilgátan og jafnframt sú kaldhæðnislegasta er sótt í ákveðna túlkun á okkar eigin siðmenningu og er reyndar sú hugmynd sem varð kveikjan af þessum pistli. 

Skömmu fyrir aldamótin 1900 og allt fram eftir tuttugustu öldinni einkenndust uppfinningar mannkynsins af viðfangsefnum raunheima. Bílar, flugvélar, rafmagnsljós, ryksugur, ísskápar, brjóstahöld og rennilásar. En árið 2008 einkennast flestar uppfinningar af sýndarveruleika. Topp tíu eigendur nýrra einkaleyfa eru IBM, Matsuhita, Canon, Hewlett-Packard, Micron Tecnology, Samsung, Intel, Hitachi, Toshiba og Sony. - Ekki Boeing, Toyota eða Wonderbra.

1Hér á jörðinni eiga viðskipti sér ekki lengur stað í raunveruleikanum heldur í sýndarveruleika eins og íslendingar hafa orðið illþyrmilega varir við á síðustu mánuðum.

Þótt vísindin bjóði fólki upp á fleiri möguleika en áður til að viðhalda líkamlegu þreki og fegurð er eftirsóknin í sýndarheima útlits,  förðun, lýtaaðgerðir og fitusog,  meiri en í þrekhjólin.

Og svo er miklu auðveldara að tína sér í "Friends" í sjónvarpinu en að afla sér raunverulegra vina.

Getur verið að flestar framandi siðmenningar hafi farið sömu leið? Getur verið að þær taki sýndarheima fram yfir raunveruleikann og séu uppteknir við að spila úber-tölvuleiki þar sem þeir leggja undir sig alheiminn eins og við gerum með Star Wars.

Endanleg útkoma slíkrar siðmenningar er auðvitað að það er setið á sama stað og samt verið að ferðast.

Þessi tilgáta felur í sér þá niðurstöðu að allir vitsmunir leiði þróunarfræðilega á endanum til þess að fullnægja sér á sem auðveldastan hátt og að hermiheimar og sýndarveruleiki séu mun auðveldari viðfangs en raunveruleikinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mín skoðun á geimverum er að líklega erum við einu geimverurnar sem muni finnast á þeirri tíðni sem við erum stödd í. En aftur á móti er fylgst með okkur og það er undir þeim komið hvort að þær vilji sjást.

Það eru margir spenntir að bíða eftir að Obama taki við og hvort að þá verði hulunni svipt af hugsanlegu geimskipshrapi í Nevada, Area 51

ET (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 10:22

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hvers vegna verðum við aldrei vör við aðrar lífverur er vissulega merkileg spurning. Vitsmunalíf hlýtur að hafa þróast víða í alheiminum. Hingað til hefur mér fundist tímafaktorsskýringar á þessu líklegastar. Það er að segja að siðmenningarsamfélög tortími sér ætíð sjálf á endanum og tíminn ásamt því að þetta sé tiltölulega sjaldgæft ráði þessu. Skýring þín um sýndarheimana er áhugaverð og gæti vel staðist og jafnvel til viðbótar við aðrar. Svo er á það að líta að þessi fimmtíu ár sem þú talar um eru afar stuttur tími og leitin oft mjög ófullkomin á þessum tíma. Ég tók þátt í SETI verkefninu á sínum tíma en hef ekki heyrt mikið af því í seinni tíð.

Sæmundur Bjarnason, 8.12.2008 kl. 11:02

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Sæll Svanur.

Þú skrifar alltaf góðar greinar og hlýtur mína þökk fyrir.

Ég er sjálfur viss um það að líf finnist á öðrum stöðum í alheimnum, því allt bendir til þess byggingarefni lífs myndist tiltölulega auðveldlega.  Stóra spurningin er hinsvegar sú hversu líklegt er að lífverur þrói vitsmuni sambærilega okkar?  Ég er ekki viss um það að það gefi lífverum aukna samkepnishæfni sem borgar sig að vitsmunir þróist.

Það virðist oft vera þannig þegar fólk ræðir saman um líf utan jarðar þá er alltaf verið að tala um vitsmunalíf, og mörgum finnst að það væri sóun á plássi ef við finnum ekki einhverja til að tala við á öðrum hnöttum.  Ég hefði ekkert á móti því að búa í e.k. StarTrek heimi, en ég verð bara að segja að ég held að það sé líklegra að ef við verðum eihverntíman það tæknilega þróðuð að við getum ferðast á milli sólkerfa eins auðveldlega og við ferðumst milli heimsálfa í dag þá munum við finna að líf þrífist á mun fleiri stöðum en við teljum líklegt í dag, og að við munum þurfa oftar en einu sinni að endurskilgreina hvað er líf, en að við munum ekki finna "sálufélaga" okkar.

Axel Þór Kolbeinsson, 8.12.2008 kl. 12:28

4 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Þessi 3D hugsun mannsins er við það að fara með allt til fjandans. Eins „raunverulegur“ og hinn þrívíði heimur lítur út, þá stendur hann mannkyni fyrir þrifum. Yfirvöld heimsins gera sér fullkomnlega grein fyrir þessari staðreynd og gera allt til að halda honum að fjöldanum og þá sérstaklega í formi „afþreyingar“.

Mæli með þessum fyrirlestri Nassim Haramein.  Í heildina er fyrirlesturinn um 8 klukkutímar, en hægt er að nálgast styttri útgáfur á t.d. YouTube.

Ásgeir Kristinn Lárusson, 8.12.2008 kl. 12:34

5 identicon

Ef það er útí geimnum vitsmunalíf sem fann upp útvarpið fyrir 1000 árum og plánetan þeirra er í 1000 ára fjarlægð þá heyrum við ekki í þeim fyrr en á morgun.

Tóti (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 13:11

6 identicon

Semsagt, ef plánetan þeirra er í 1000 ljósára fjarlægð þá ...

Það er tiltölulega stutt fjarlægð í óravíddum himingeimsins.

Annars er hérna um að ræða þrjú stig af lífi;

í fyrsta lagi lífverur sem er ekki órökrétt að sé víða til,

í öðru lagi vitsmunaverur á svipuðu stigi og við, sem þarf ekki að vera svo algengt samanber að við erum eina tegundin á þessum hnetti sem kunnum á fjarstýringu

og loks í þriðja lagi ofurvitsmunalíf sem ræður við það að ferðast annaðhvort ógurlega hratt eða lifir af þúsalda ferðalag, að hitta fyrir slíka vitsmuni væri jafn merkilegt og sanna tilvist guðs.

Tóti (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 13:18

7 identicon

Takk fyrir frábær skrif og skemmtilega hugleiðingu. Hef hugleit hvar heimurinn endar? Og endi hann hvað er þá hinumegin?

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 13:29

8 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Hallgerður:

Samkvæmt vinsælustu skilgreiningunni í dag þá er alheimurinn óendanlegur í fyrstu þremur víddunum, en takmarkaður í þeirri fjórðu.  S.s. óendanlegur í rými en takmarkaður í tíma.  Hinar víddirnar 5-7 er lítið vitað um, og það gæti verið allt annar fjöldi en það.

Mæli sterklega með myndinni What the Bleep do we know?  Hún fjallar einmitt um eðli heimsins.

Axel Þór Kolbeinsson, 8.12.2008 kl. 13:46

9 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Biðst afsökunar, en myndin virðist ekki vera lengur í boði, en ég fann hana líka hér.

http://www.watch-movies.net/movies/what_the_bleep_do_we_know/

Axel Þór Kolbeinsson, 8.12.2008 kl. 14:12

10 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Til að byrja með þakka ég ykkur öllum fyrir athugasemdirnar.

ET kemur aðeins inn á gamla "samsæriskenningu" um geimskipið sem átti að hafa brotlent í Nevada eyðimörkinni 1948 og menjar þess hafi hrundið af stað þróunarverkefni sem hýst er á svokölluðu svæði 51. Carter forseti gerði sitt besta á sínum tíma og lét birta öll opinber gögn um þetta mál. Það nægði ekki til að slá á raddir "samsæriskenningarmanna" . Þess vegna er ég efins í að Obama geti gert eitthvað betur. 

Þetta spursmál með hversu skamman tíma við höfum reynt á vísindalegan hátt að leita vitsmunalífs er vissulega rétt hjá Sæmundi. En ef gengið er út frá því að eins auðvelt sé fyrir líf að þróast og gerðist á jörðinni og berum síðan þann tíma saman við tíman frá því að fyrstu sólkerfin byrjuðu að myndast í Vetrabrautinni ætti hún að vera iðandi af lífi og vitsmunum. Tortímingarkenningin er vissulega ein sem tilálita kemur, hvernig sem hún er síðan útfærð.

Sveinn talar um fjarlægðirnar, en þær ættu ekki að halda aftur af geislun og öðru siðmenningarsuði ef við gefum okkur að fyrstu siðmenningarnar í Vetrabrautinni hafi byrjað að þróast fyrir nokkur þúsund milljón ljósárum.

Axel kemur inn á  erfiðleikana við að skilgreina líf og að möguleikar séu á allt annarskonar lífi (væntanlega ekki karbon bösuðu) sem er vissulega fyrir hendi. Gallinn er sá að við þekkjum ekkert annað og það er erfitt að leiða líkur að því sem engar upplýsingar liggja fyrir um.

Ásgeir kemur akkúrat með punktinn sem ég var að vekja athygli á í pistlinum og gerir hann heimfæranlegan upp á okkar tíma. Takk fyrir ábendinguna og tengilinn á Nassim.

Tóti vekur máls á "Voru Guðirnir geimfarar" spekúleringunum, þ.e. að vitsmunir geti þróast miklu lengra og á annan hátt en við þekkjum. Það kann vel að vera, en þá aftur, hversvegna eru engin ummerki eftir jafnvel frumstæðustu stig þess eins og útvarpssendingar eða einhver púls með vitræna uppbyggingu.

Skammtafræðipælingarnar í WTBDWN eru skemmtilegar Axel og þar eru spurningarnar orðaðar á næstum því á sama hátt og Hallgerður gerir. En þar erum við komin út í metafisískar hugrenningar sem gerir ráð fyrir öðrum tilverustigum en vísindin þekkja. Og þá vaknar líka spurningin um hversu vel vísindalegar aðferðir eru fallnar til að mæla það sem ekki er mælanlegt, sjá það sem ekki er sjáanlegt o.s.f.r.

Svanur Gísli Þorkelsson, 8.12.2008 kl. 14:17

11 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

En fyrst þú minntist á sýndarveruleika þá er til gamans hægt að benda á það að talið er að eftir 15 - 30 ár muni reiknigeta tölva vera sambærileg manna.

Því hefur svo verið fleygt fram að plássið sem þarf til að vista manneskju með öllu sé á bilinu 10 - 100 Petabyte (10.000 - 100.000 Terabyte), og miðað við þá þróun að geymslugeta harðra diska tvöfaldist á 24 mánaða fresti, þá verður sú geymslugeta kominn á einn disk eftir 60 - 80 ár.

Ef við tökum þá pælingu áfram og höfum til hliðsjónar að öll náttúrulögmál sé hægt að setja fram sem stærðfræðiformúlum, eins og flestir vísindamenn telja, þá er ekkert því til fyrirstöðu að búa til sýndarveruleikheim sem er í öllu nákvæmlega eins og hinn raunverulegi.  Það raunverulegur að sá sem er í sýndaveruleikanum telji hann raunverulegan.

Þessi hugmynd hljómar óraunveruleg, en hver veit nema við búum í sýndarveruleikaheim án þess að vita það?  Og hugmyndin er mun eldri en kvikmyndin Matrix.

Axel Þór Kolbeinsson, 8.12.2008 kl. 16:03

12 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Varð að koma ÞESSU að.  Þetta efni er svona fullorðins...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 8.12.2008 kl. 17:39

13 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Það sem gerir þess hugmynd enn áhugaverðari Axel er möguleikinn sem skammtafræðin býður upp á, eða að hér sé um að ræða sýndarveruleika frá upphafi og að við séum í óða önn að búa til annan sýndarveruleika innan hans :)

Þakka þér Sveinn hlý orð og ábendinguna á bók Guðmundar. Það sem mér skilst að þú sért að segja er að Vetrabrautin sé enn of ung til að líf af þeirri gráðu sem við erum að tala um geti hafa þróast þar í umtalverðum mæli. En hvað þá með aðrar stjörnuþokur? Ég tel víst að líf megi finna á öðrum hnöttum (plánetum og tunglum) en spyr enn og aftur, hversvegna eru engin ummerki um siðmenningu þeirra?

Nú vitum við að ótrúlega heppileg skilyrði voru til staðar á jörðinni fyrir æðra líf og kom þar til s.m.k. nýjustu kenningum tilurð mánans eftir árekstur Þeu (þ.e. plánetuna sem var á sömu braut og jörðin og rakst á hana svo úr varð máni) við jörðina að ekki sé minnst á Júpíter sem ryksugar allt stórt sem á okkur gæti lent. Ég hef aldrei rekist á reiknilíkan sem tekur þessa þætti inn í jöfnuna þegar reiknaðar eru líkurnar á þróun vitsmunalífs annarsstaðar. En kannski hafa þessar sérjarðnesku breytur ekkert vægi Þegar tekið er tillit til stærðar og aldurs alheimsins :)

Aftur þakka ég Ásgeiri fyrir "fullorðins" ábendinguna.

Svanur Gísli Þorkelsson, 8.12.2008 kl. 18:22

14 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Vá er það tilviljun að í gær skrifaði ég blogg um alveg sama efni :)
http://www.steinisv.blog.is/blog/steinisv/entry/646506/

En það er gaman að margir pæli í þessu!  Ég var reyndar með allnokkuð fleiri skýringar á Fermi mótsögninni.  Sú sem mér þykir merkilegust er að það séu einfaldlega sáralitlar líkur á því að vitsmunalíf geti orðið til á plánetu, jafnvel þó að hinn ógurlega stærð alheimsins sé tekin með í reikninginn.  Sjá
http://tal.forum2.org/rare

Þorsteinn Sverrisson, 8.12.2008 kl. 19:05

15 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þetta er alveg frábær tilviljun Þorsteinn, næstum því spookí :) En þá ber að gæta þess að hugmyndir eru ætíð á flögri einhversstaðar og oft á sama tíma. Við nálgumst þetta hver frá sínu sjónarhorni sé ég sem er vel. Takk fyrir innlitið.

Svanur Gísli Þorkelsson, 8.12.2008 kl. 19:53

16 Smámynd: Brattur

... mjög skemmtilegur pistill og umræða... en svo eru það hinir fjölmörgu "Fljúgandi furðuhlutir" sem sést hafa... hvað um þá?

Ég sjálfur sá fyrir mörgum árum ljós á lofti sem hoppað upp og niður, skáhallt á himninum í langan tíma...
Það var heiðskír haustmorgun... ljósið var skært en skipti um lit, varð blátt og rautt þegar það hoppað... ég horfið á þetta í u.þ.b. 15 mínútur... en þurfti þá að fara að vinna... ljós þetta var enn á lofti þegar ég fór inn í hús... aldrei veit ég hvað þetta var og vakti ekki athygli á þessu, enda yfirleitt hæðst að fólki sem sér eitthvað á lofti sem er ekki hægt að útskýra almennilega...

... annars finnst mér ólíklegar að lífið hérna á jörðinni sé það eina sem til er í alheiminum, heldur en hinn möguleikinn að það sé hvergi annað líf að finna... 

Brattur, 8.12.2008 kl. 23:20

17 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já, hvað með UFO ?

http://en.wikipedia.org/wiki/Unidentified_flying_object

En jú jú, sjálfsagt mun einhver segja að slíkt flokkist ekki sem "staðfest"

Enda margar hliðar á UFO málum náttúrulega.  Sem dæmi að þó staðfest væri að um ójarðneskan fljúgandi hlut (eða veru þessvegna) væri um að ræða - þá er í sjálfu sér ekki endilega hægt að segja, að þar væru komin faratæki eða vitsmunaverur frá öðrum hnöttum heilar á húfi.

Gætu nefnilega alveg eins verið úr öðrum víddum - eða bara jörðinni !  Hvað ef það þrífst háþróuð menning inní jörðinni - eða neðansjávar.  (ég efa þó jarðneskann uppruna UFO.  En mér finnst samt margt benda til að einhverjir óþekktir hlutir séu á sveimi en hvað nákvæmlega það er - ég er enn open minded.)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.12.2008 kl. 00:14

18 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég held að það séu um 0,0000000001% líkur á því að geimverur hafi heimsótt jörðina jafnvel þótt líf geti verið á 1.000.000.000.000 stjörnum víðsvegar í alheimi. Vandamálið er að megnið af þessu lífi er frumstætt og svo auðvitað ógnarstærð alheimsins, en ekki endilega það að vitsmunaverurnar séu að glápa á sjónvarpið og nenni ekki að koma. Áhugaverðar pælingar samt.

Emil Hannes Valgeirsson, 9.12.2008 kl. 00:34

19 identicon

Sæll Svanur ! Erich von Däniken setur fram kenningar um sannanir fyrir því ósannanlega, einnig mætti benda á Esekiel í Biblíunni, einnig eru til fjölmargar óhrekjanlegar frásagnir fjölda fólks um bein samskipti við utanjarðarverur, einnig ætti að hafa í huga Bermudaþríhyrninginn og miklu fleiri frásagnir fólks hvaðanæva á jarðarkúlunni. Ég neita að trúa því að allt þetta fólk, sem segir að það hafi komist í samband við utanjarðarverur, sé að segja ósatt. Það meikar ekki sens. Við erum að tala um hundruðir manna og kvenna.  Kv. Kristján.

Kristján Helgason (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 02:17

20 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þorsteinn Sverrisson rekur í góðri grein um 10 hugsanlegar ástæður fyrir því að við höfum ekki fengið "staðfesta" tilvist vitsmunalífs á öðrum hnöttum og á sumar hverjar hefur verið minnst hér eins og sú sem Emil nefnir,

Það hafa þegar fundist merki í loftsteinum um frumstætt líf á öðrum hnöttum og um líkurnar á því efast fáir. Það er vitsmunalíf á borð við það sem við þekkjum eða jafnvel "æðra" sem styrinn stendur um. 

það sem einkum háir því að hægt sé að taka fyrirbrigði og reynslu (upplifun) eins og Brattur og Kristján lýsa, er að hún er persónuleg og um leið ill-rannsakanleg. Afstaða margra verður því lík og Ómar segir, það liggja einfaldlega ekki fyrir næg gögn til að geta sagt fyrir með neinni vissu hvað hér er á ferðinni.

Talsverðu púðri hefur verið eytt í að afsanna slík fyrirbæri með því m.a. að dáleiða fólk sem segist hafa séð eða jafnvel hafa verið uppnumið af óþekktum fljúgandi hlutum, en það hefur ekki tekist heldur. Margar af þeim kenningum sem leitt hafa líkur að því að hin jarðneska siðmenning eigi geimverum tilvist sína að þakka, hafa þó verið lagðar til hliðar í ljósi líklegri skýringa.

Svanur Gísli Þorkelsson, 9.12.2008 kl. 10:59

21 Smámynd: kiza

Alltaf fjör hjá Svani :) 

"Þesssi tilgáta gerir ráð fyrir slíkri ofurtækni að hún er næstum óhugsandi. Að fela útvarpsbylgjur og aðra geislun, ummerki sem gefa til kynna þróaða siðmenningu,  er nánast útilokað."

Óhugsandi fyrir okkur klæddu apana, já.  Kannski ekkert óhugsandi fyrir ofurgeimverur

Mér finnst stundum að við mannfólkið höfum tendence til að áætla að  geimverur myndu þróast á sama hátt og við sjálf höfum gert.  Kannski alveg skiljanlegt, þar sem við höfum engan annan ramma til að miða við.  Kannski eru verur þarna úti sem eru methane-based frekar en carbon-based, verur sem fúnkera á öðruvísi 'bylgjulengd', eða  búa við skilyrði sem við gætum aldrei dílað við (eins og litlu dýrin sem búa ofan í eldfjöllum hafsins)...

Kannski eru þær humanoid, kannski róbotar....kannski eitthvað allt annað.  En ég er nokkuð viss í mínu hjarta að þær eru til...þegar ég hugsa um hinn möguleikann (við erum alein í alheiminum) þá fyrst finn ég fyrir minnimáttarkennd og vægrar hræðslu.  Og ef þær eru æðri okkur, þá finnst mér alveg líklegt að þær geri hvað sem er til að forðast kontakt við villimenn eins og mannkynið 

-Jóna
...starir upp í himinhvolfið...

kiza, 9.12.2008 kl. 16:14

22 identicon

Held að málið sé fjarlægðin, við að leita að vitsmunalífi í himingeimnum er eins og ef örverur á sandkorni í miðjum Sprengisandi reyndi að hafa samband við ákveðnar örverur aðrar án þess að vita í hvaða heimsálfu ströndin er sem geymir sandkornið með þeim.

Tóti (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 17:30

23 identicon

Skemmtilegar pælingar :)

Held að það sé fyrst og fremst tvennt sem geri það að verkum að við höfum ekki enn haft kynni að vitsmunalífi af öðrum hnöttum, ef það er þá til. Í fyrsta lagi þá getum við gert ráð fyrir því að vitsmunalíf sé langtum sjaldgæfari en annarskonarlíf.  Í öðru lagi þá er geimurinn það ógurlega stór að það er ekkert skrítið, þrátt fyrir að aðrar lífverur kynnu að hafa forskot á okkur, að við höfum ekki enn heyrt einhvers konar útvarpssendingar frá þeim (fyrir utan það að þær yrðu líklega ekki mjög skiljanlegar eftir það mikla ferðalag sem þær þyrftu að fara).

Tökum aðeins fyrir þessar fjarlægðir.

Fjarlægðir í geiminum eru mældar í ljósárum en það er sá tími sem ljós ferðast á einu ári eða 9.460.730.472.580,8 (næstum því tíu billjarð) kílómetrar.

 Nútíma geimskutla er sögð komast upp í 50.000 kílómetra á klukkustund. Það tæki slíka skutlu 21.585 ár að ferðast eitt ljósár. Þá er náttúrulega ekki tekið með í myndina bensín- og klósettstopp :P

Ef við værum svo góð að stökkva fram í þróun geimskutlna og náð að búa til eina sem kæmist upp í 10% ljóshraða þá yrðum við náttúrulega tíu ár að fara eitt ljósár.

Næsta stjarna við okkur er Proxima Centauri sem er 4,3 ljósár í burtu. Við yrðum því 43 ár að ferðast þangað.

Stjörnukerfið okkar, vetrarbrautin, samanstendur af 200 til 400 milljörðum stjarna og er talið vera um 100.000 ljósár í þvermál.

Árið 1999 mat hubble sjónaukinn að það væru 125 milljarðar stjörnukerfa í alheiminum. Nálægasta stjörnukerfið, Andromeda stjörnukerfið, er 2.2 milljón ljósára í burtu.

Þetta eru frekar rosalegar tölur að mínu mati og væri það hugsanlega svolítið eins og að reyna að finna saumnál í geimþoku eins og að reyna að finna vitsmunalíf í þessu fjarlægðum. Þó hlýtur það einhvern tímann gerast ef það er nú til.

Kær kveðja,
Jakob

. (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 20:16

24 identicon

p.s. þeir sem eru í vísindaskáldskapnum eru þó líklega á því að alvöru geimverur fari hraðar ljós og ferðast með því að sveigja spacetime eins og það er kallað :P - svona svipað eins og að beygla blað og stökkva frá punkti A til punkts B í staðinn fyrir að fara beina línu.

kobbi

. (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 20:22

25 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hér er fjallað um Fermi-þversögnina.

Sigurður Þór Guðjónsson, 11.12.2008 kl. 01:08

26 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir athugasemdirnar Kobbi og Kiza og þér Sigurður fyrir linkinn á þess flottu umfjöllun sem tekur ánæstum öllum þeim hugmyndum um Fermi mótsögnina sem komið hafa fram í athugsemdum hér nema þeirri sem ég setti fram sem þriðju tilgátuna í pistlinum.

Svanur Gísli Þorkelsson, 11.12.2008 kl. 01:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband