Smá aðventu-jólablogg

Musteri SaturnusarEins og allir vita eru jólin haldin til að minnast fæðingar Jesú Krists. Flestir vita líka að ekki er vitað hvenær ársins nákvæmlega Kristur fæddist. Þess er hvergi getið í Nýja testamentinu né í öðrum heimildum. Talið er að frumkristnir hafi ekki haldið upp á fæðingardag frelsarans með nokkrum hætti. Hinsvegar voru í ýmsum löndum á þeim tíma er Kristni var að breiðast út, haldnar hátíðir í desember og í janúar sem áttu uppruna sinn að rekja til ýmissa fornra trúarbragða austurlanda. Þeirra stærst og útbreiddust var án efa sólstöðuhátíðin 25. des. sem Rómverjar héldu upp á og kölluðu Saturnalíu og var haldin til heiðurs Satúrnusi, landbúnaðarguði þeirra.

Reyndar bera sólstöður á vetri að meðaltali upp á 21. des, en samt sem áður náðu hátíðarhöldin í sambandi við daginn hápunkti sínum þann 25 des. Sólstöður eru þegar sól er lengst í norður eða suður frá miðbaug og dagurinn þá annaðhvort stystur eða lengstur. Á vetrarsólstöðum er dagurinn stystur á norðurhveli. Rómverjar til forna, gerðu 25. des að þjóðhátíðardegi sínum og kölluðu hann fæðingardag hinnar ósigrandi sólar. Var þá mikið um dýrðir, sungið dansað og drukkið, ekki ósvipað og við gerum nú á jólum.

Á sama tíma var líka haldin hátíð í bæ sem var kölluð Juvenalaía. Hún var fyrst og fremst tileinkuð ungviði Rómverja, börnunum. Þriðja hátíðin sem einkum efri stéttar Rómverjar héldu upp á á þessari mestu hátíðaönn ársins, var afmælisdagur guðsins Mithra sem var sólguð og barnguð, var fæddur af steini þann 25. des.

Júlíus l PáfiEkki er ólíklegt að kirkjufeðurnir hafi á fjórðu öld komið sér saman um að yfirtaka hin fornu blót og gera þau að kristilegum hátíðum og auka þannig líkurnar á að fólk tæki kristna trú. Alla vega var það Júlíus páfi fyrsti sem ákvað að þann 25. des skyldi haldinn hátíðlegur fæðingardagur frelsarans. Þetta reyndist snjallræði fyrir kirkjuna því Kristur hafði þá hvort eð er tekið á sig nokkuð svipaða mynd og þeir Guðir höfðu, sem hinir heiðnu tilbáðu. Fyrst voru jólin kölluð "fæðingarhátíð" en ekki Kristsmessa og sem slík bárust þau skjótt um álfur. Árið 432 var fæðingarhátíðin upptekin í Egyptalandi og til Englands barst hún í lok sjöttu aldar.

Norrænir menn héldu einnig sína vetrarsólstöðuhátíð og blótuðu þá bæði Þór og Óðin og héldu miklar veislur sem kenndar voru við jólagleði. Á tímabili var hátíðin bönnuð af hinu kirkjulega valdi vegna óspekta og ofáts sem á henni viðgekkst. Í lok áttundu aldar var farið að kenna hina fornu blótahátíð Jólanna á Norðurlöndum við Kristsmessu en gamla nafnið Jól fékk að halda sér.

jolahafurMargir þeirra siða sem enn eru í heiðri hafðir í jólahaldi norrænna manna má rekja beint til blótanna til forna. Nægir í því sambandi að nefna jólahafurinn sem útbúin er úr stráum bæði í Svíþjóð og Noregi sem sérstakt jólatákn. Þá er í raun verið að gera eftirmynd af hafri Þórs. Í meðförum geitarfárra Íslendinga varð hafurinn að ketti, eða hinum íslenska jólavargi, jólakettinum.

Segja má að jólin hafi í þau rétt 1500 ár sem um þau getur í heimildum verið í stöðugri þróun. Á stundum lagðist hið kirkjulega vald gegn þeim og reyndi að banna þau, en á öðrum tímum hafa þau notið fylgis þess jafnt sem allrar alþýðu. Jólum er fagnað á mismunandi vegu í hverju landi og jólasiðir margir og mismunandi.

Bæði gríska og rússneska rétttrúnaðarkirkjan halda upp á fæðingarhátíð Krists 13 dögum eftir 25. desember eða 7. Janúar og halda sig þannig við gamla Júlíanska dagatalið.

jolakotturÍslendingar halda einir þjóða upp á jól í 13 daga og fara þannig beggja bil og halda í heiðri að hluta til siðum þeirra sem fara eftir gamla Júlíansaka dagatalinu og því sem flestar vestrænar þjóðir nota, hinu Gregoríska. En eins og fólk rekur eflaust minni til var það Gregoríus Páfi þrettándi, sem bjó til þrettándann okkar með því að gera leiðréttingu á Júlíanska dagtalinu þann 24. febrúar árið 1582 og færði árið fram um 13 daga.

Jólasveinninn

Eitt helstamerki þess nú til dags um að jólin séu að nálgast, er að sjá jólasveina á stjái. Margt hefur verið um jólasveininn sagt og fjallað síðustu áratugina, en fæst af því sannleikanum samkvæmt.  Heilu kvikmyndirnar hafa verið framleiddar og sýningar uppfærðar þar sem persóna hans hefur verið notuð á frekar óprúttinn hátt. Fyrirtæki sem eygja sér gróðamöguleika með því að bendla nafn sitt við hans, gera það óhikað og eigna mér þá ýmissa eiginleika sem í raun eru honum framandi og alls-óskildir.Gríla með Leppalúða og Jólakötturinn

Segja má að Íslendingar sjálfir hafi gengið hvað lengst í því að rugla fólk í ríminu, því hér á landi er Jólasveinninn ekki einn heldur fjöldi ómennskra óknyttadrengja sem hafast við á fjöllum og eru getnir af tröllum.

(Tröll hafa ætíð í mínum huga verið tákn hins lægra eðlis og hins dýrslega í fari mannsins, þó það sé nánast orðið hól að segja manninn dýrslegan á þessum síðustu og verstu tímum þegar maðurinn hagar sér oft miklu ver en dýr mundi nokkru sinni haga sér.)

En svo við byrjum á byrjuninni þá var hinn eini sanni jólasveinn, eða öllu heldur upphaflega fyrirmynd hans, fæddur 6. desember í gríska þorpinu Patra í litlu Asíu, snemma á fjórðu öld og nefndur Nikulás. Foreldrar hans voru Kristnir og faðirinn efnaður kaupmaður þar um slóðir. Allt frá fæðingu er sagt að hann hafi borið af öðrum börnum í kristilegu hátterni og sú saga sögð af honum að þegar hann var skilinn frá móður sinni eftir fæðingu hans, hafi hann staðið upp í vöggunni og lofað Guð. 

Boyana_AngelSem ungabarn er sagt að hann hafi  neitað að sjúga brjóst móður minnar á föstudögum þegar öllum sannkristnum mönnum var ætlað að fasta. Strax sem unglingi þótti honum miður að sjá fátækt meðbræðra sinna og bera það saman við ríkidæmi föður síns. Hann tók að gefa fátækum af auði og erfðafé sínu eins og ég mátti. Langfrægast þessara góðverka var þegar honum var sagt frá manni einum sem bjó ekki langt frá borginni og var svo fátækur að sýnt þótti að dætur hans þrjár sem orðnar voru gjafvaxta, myndu fljótlega neyðast til að vinna fyrir sér á götum borgarinnar, þar sem honum mundi aldrei verða mögulegt að reyða fram það fé sem nauðsynlegt var í þá tíð að gefa í heimamund með dætrum sínum, til að gifta þær og tryggja þeim þannig heiðvirða framtíð. Faðir Nikulásar hafði skilið eftir sig talsvert fé sem Nikulás reyndi eftir megni að ráðstafa til fátækra. Meðal muna í fórum hans voru þrír afar verðmætir gullknettir.Hann tók því til ráðs að laumast að húsi fátæka mannsins og dætra hans þriggja, þrjár nætur í röð og skildi í hvert sinn eftir einn gullknattanna. Hann gerði þetta á laun til að særa ekki stolt mannsins né gera dætur hans skuldbundnar sér. Þannig varð fátæka manninum kleift að gefa dætur sínar ásamt góðum heimamundi í sæmandi hjónaband.

Þrátt fyrir launungina komst samt þessi saga í hámæli og löngu seinna eftir að Nikulás hafði verið sæmdur nafnbótinni dýrlingur, gerðu veðlánarar hann að verndardýrlingi sínum og hnettina þrjá að merki sínu. Þess vegna má sjá enn í dag þrjá knetti hanga fyrir utan búðir veðlánara í flestum löndum heims, þar sem þeir þrífast á annað borð.

596px-Gentile_da_Fabriano_063Snemma á ævinni ákvað Nikulás að gerast þjónn Guðs og helga sig útbreiðslu trúar hans. Hann var m.a.  viðstaddur  í Níkeu árið 325 þegar Konstantínus keisari safnaði saman öllum helstu kennimönnum kristinnar trúar til að samræma kenningar kirkjunnar.

Konstantín átti kristna móður, sem hét Helena en sjálfur var hann ekki viss hvoru megin hann stóð, Krists eða heiðinna goða. Það var hann sem gerði sunnudag að hvíldardegi kristinna manna árið 321 en þeir höfðu haldið laugardaginn helgan fram að því.

Seinna átti Nikulás við hann nokkur samskipti því hann fór stundum með ofríki gegn þegnum sínum.

 Einu sinni hneppti hann í fangelsi þrjá unga prinsa sem ekkert höfðu sér til sakar unnið annað enn að vera af tignum ættum. Gekk Nikulás þá fram fyrir skjöldu og fékk þá með fortölum lausa. Reyndar hélt Konstantín því fram seinna að Nikulás hefði komið til hans í draumi og beðið drengjunum vægðar og aðeins eftir það, hefði hann ákveðið að láta þá lausa.  Vegna þessa atviks og annarra var Nikulás þegar fram liðu stundir gerður að verndardýrlingi barna og kórdrengja. 

Heilagur Nikulás BiskupNikulás gekk undir biskups-vígslu og skömmu eftir þann atburð varð uppskerubrestur í umdæmi hans. Hann fékk þá því framgengt að kaupskip nokkur sem voru á leið til Alexandríu hlaðin matvælum, lönduðu þeim í Myru heimaborg sinni. Hann lofaði  skipstjórum skipanna því að þeim yrði endurgoldið þegar þeir kæmu til Alexandríu af biskupinum þar. Allt gekk þetta eftir eins og Nikulás hafði fyrir sagt. Af þessum sökum varð ankerið eitt af táknum hans, því sjómenn urðu einnig til að ákalla nafn hans þegar erfiðleikar steðjuðu að þeim.

Sjómenn í hafnarborginni Bari á Ítalíu voru svo sannfærðir um mátt hans til að halda yfir þeim hlífðarskildi í stormi og stórsjó að þeir létu færa jarðneskar leifar líkama hans frá Myru, heimabæ hans, þar sem þær höfðu verið jarðsettar, til borgarinnar Bari. Þetta gerðist árið 1089. Um leið og þeir fluttu beinin, létu þeir smyrja þau með ilmolíum. Þannig gerðist það að þegar þau voru flutt í land í Bari fann fólk af þeim góða lykt. Af þessum sökum var hann nokkru seinna gerður að verndardýrlingi þeirra sem fást við ilmvatna og ilmefna gerð.

Í margar aldir var Heilagur Nikulás í hugum flestra Evrópubúa aðeins einn af fjölmörgum dýrlingum sem  ákallaðir voru í neyð. Hollendingar sem voru miklir sjófarar og kaupmenn voru hvað duglegastir við að halda nafni Nikulásar á lofti.

Faðir KristmessaEnglendingar urðu samt fyrstir til að farið var að tengja Nikulás fæðingarhátíð Jesús Krists. Kom það til af því hversu nálægt fæðingardagur hans, sem gjarnan var mynnst af börnum og sjófarandi kaupmönnum, var upphafi aðventunnar að kristmessu. Þar var farið að kalla hann faðir Kristsmessu snemma á 19. öld.

Með Hollenskum innflytjendum barst Nikulásar dýrkunin til Bandaríkjanna og í upphafi þessarar aldar var farið að teikna hann á kort og auglýsingar í þeirri mynd sem flesti Þekka hann í dag. Í dag er hann þekktur undir nokkrum nöfnum eins og Santa Claus,  Saint Nicholas, Father Christmas. Kris Kringle eða bara "Santa".

Rauði liturinn á Kápunni hans er auðvitað litur fórnarinnar en klæðnaðurinn, rauð hvít brydduð húfan, rauður stakkur stakkurinn með giltum hnöppum og hvítum skinnbryddingum, svart leður belti með gylltri sylgju,  rauðar buxur og svört stígvéli,  hefur þróast smá saman.st-claus

(þó hef ég óljósan grun um að hann hafi einnig verið valin af því að fyrirtækið sem fyrst varð til þess að nota ímynd hans í áróðri sínum, hafði einmitt valið þennan lit í vörumerki sitt.)

Fljótlega spunnust upp sögur í Bandaríkjunum um allt annan uppruna Nikulásar en raunin var á. Það er alls ekki víst a hinum upprunalega Nikulási hefði geðjast  að hugmyndinni um að búa í stórri smíðaskemmu á norðurpólnum við að smíða gjafir með aðstoð fjölda álfættaðra hjálparsveina. Eða þá að eitt af hlutverkum hans væri að rækta hreindýrategund sem getur flogið.

Jólatré

JólatréUm uppruna jólatrésins er flest á huldu, en talið er að rætur þess liggi í einhverskonar trjádýrkun djúpt í mannkynssögunni. Í Róm og víðar skreyttu menn til dæmis í fornöld hús sín um nýárið með grænum trjágreinum eða gáfu þær hver öðrum, og átti það að boða gæfu. Mistilteinninn í Englandi var afsprengi sömu hugsunar.

Einnig er til fjöldinn allur af goðsögum og sögnum, þar sem alheimstré er látið tákna heiminn. Það ber ýmis nöfn, eftir því hvaðan vitneskjan er runnin, en alltaf er það sama uppi á teningnum: kenningin um „miðjuna“. Eitt þessara trjáa er Askur Yggdrasils, úr trúarbrögðum norrænna manna, og annað er Lífsins tré í Eden.


Í jólaskapi eftir Árna Björnsson eru eftirfarandi upplýsingar um jólatréð að finna.

Jólatréð eins og við þekkjum það er ekki mjög gamalt í  heiminum.
Elstu heimildir um skreytt tré í heimahúsum á jólum er frá Suður Þýskalandi á 16. Öld en ekki eru nema tvö hundruð ár síðan síðan farið var að festa kerti á þessi grenitré. Allra fyrstu jólatré munu hafa sést á íslandi í kringum 1850, en þó helst hjá dönskum eða danskmenntuðum fjölskyldum. Algeng urðu þau ekki , fyrr en komið var fram yfir síðustu aldamót.Það er mjög skiljanlegt, af hverju siðurinn festi ekki fyrr rætur á Íslandi. Hér var víðast hvar engin grenitré að hafa, og flestar aðrar vörutegundir hefur þótt nauðsynlegra að flytja inn. Auk þess tók sigling  oft svo langan tíma , að örðugt hefði  reynst að halda þeim lifandi. Þetta gerðu þó sum félög til þess að halda jótrésskemmtanir fyrir börn , og milli 1890 – 1900 má sjá auglýst bæði jólatré og jólatrésskraut. Fyrir meira en hundrað árum hafa menn sumstaðar byrjað á því að búa til gervijólatré.

Gamalt íslensk JólatréVar þá tekinn mjór staur , sívalur eða strendur, og festur á stöðugan fót. Á staurinn voru negldar  álmur eða boraðar holur í hann og álmunum stungið í. Þær voru lengstar neðst, en styttust upp eftir og stóðu á misvíxl. Þær voru hafðar flatar í endann, og á honum stóðu kertin. Venjulega var staurinn málaður grænn eða hvítur og vafið um hann sígrænu lyngi. Síðan voru mislitir pokar hengdir á álmurnar og eitthvert sælgæti sett í þá. Þessi heimatilbúnu jólatré voru mest notuð , þar til fyrir nokkrum áratugum, þegar farið var að flytja grenitré inn í stórum stíl. Á síðustu árum hafa svo íslensk  jólatré komið á markaðinn í æ ríkari mæli 

Jólatréð hefur í heila öld verið eitt helsta tákn jólanna um heim allan. Það er þó tiltölulega nýtt af nálinni í núverandi mynd. Talið er að jólatré hafi borist til norðurlanda skömmu eftir 1800. Árið 1862 nefnir Jón Árnason sögu um reynitré og brunnu ljós á greinum þess alla jólanótt sem slokknuðu ekki hversu mjög sem vindur blés.

Venjulegt jólatréÁrið 1952 fékk Reykjavík í fyrsta sinn stórt jólatré að gjöf frá Ósló. Var það sett upp á Austurvelli, og hefur sú venja haldist síðan. Í fyrstu var jafnan kveikt á trénu síðasta sunnudag fyrir jól, en sú dagsetning færðist framar eftir því sem almennur jólaundirbúningur hófst fyrr. Síðan hafa margar erlendar borgir sent vinabæjum sínum á Íslandi jólatré.

Fyrstu auglýsingar um innflutt jólatré birtust þegar árið 1896 en þau tóku samt ekki að seljast í stórum stíl fyrr en eftir 1940.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Mikill fróðleikur þarna Svanur minn. Takk fyrir og gleðilega aðventu

Sigrún Jónsdóttir, 5.12.2008 kl. 00:55

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Takk fyrir þetta og njóttu aðventu

Hólmdís Hjartardóttir, 5.12.2008 kl. 01:34

3 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Svanur

Þetta er sannarlega mikill fróðleikur hjá þér og skemmtilegt aflestrar. Mig langar að benda þér á nokkur atriði sem þú gætir haft gaman af að skoða nánar:

1) Í Tékklandi er jólasveinninn víst byggður í kringum heilagan Václav sem ferðaðist um og gaf gjafir, einnig kallaður heilagur Wenceslaus, eða Wenceslaus I af Bóhemíu. Nokkur bresk jólalög sem byggja á þessu minni eru til, þar á meðal "Good king Wenceslas" eftir kvæði Neals.

2) Sólstöður eru á tímabilinu frá 20. - 23. desember, að meðaltali 21. des, og hafa verið frá því gregoríanska tímatalið var tekið upp 1582. Fyrir þann tíma var notast við júlíanska tímatalið (sem enn er notað sums staðar).

Júlíanska tímatalið var sett að tilstuðlan Júlíusar Sesars en það er villa í því - það oftelur hlaupársdaga. Á hverjum 400 árum eða svo hliðrast það til um 3 daga. Eftir því sem mönnum varð þetta ljósari jókst þörfin á "villulausu" tímatali, og hlaupársreglan frá Júlla (hlaupár fjórða hvert ár) var uppfærð í nýja reglu: Hlaupár fjórða hvert ár nema 100 gangi upp í nema 400 gangi upp í. Þannig eru 2000 og 2004 hlaupár en 2100 verður ekki hlaupár.

Þegar gregoríanska tímatalið var tekið upp var dagatalið leiðrétt um 10 daga yfir í núverandi stöðu. Þessi leiðrétting náði þó aðeins aftur til 4. aldar þegar ýmsir hátíðisdagar voru fyrst staðsettir í dagatali á tímum Konstantínusar. Þá hafði júlíanska tímatalið þegar verið í notkun frá því 45 f.o.t. og því var komin í það skekkja - upp á 4 daga eða þar um bil.

Sólstöður voru sem sagt á 25. desember þegar Júlíanska tímatalið var tekið upp og þar er að finna ástæðu þess að Jesú og margir aðrir guðir og hálfguðir eru taldir fæðast á þeim degi.

3) Rómverjar héldu upp á fæðingu sólarinnar, Sol Invictus, vetrarsólstöðum þann 25. des. Satúrnalían var á sviðuðum tíma, frá 17. des og teygði sig með tímanum fram til 23. des. Loks var Juvenalía yfirleitt haldin á 1. janúar.

Satúrnalía var til heiðurs Satúrnusi en Júvenalía var fyrst haldin af Neró til að fagna þess þegar hann rakaði sig í fyrsta sinn, 21 árs árið 59 e.o.t.

Með aukinni tilbeiðslu sólarinar sjálfrar sem guð í Rómarveldi runnu Satúrnalía og Sol Invictus hátíðirnar saman. Margir urðu síðan til að setja samansemmerki milli Sol Invictus og Jesú, t.d. er talið að Konstantínus hafi ekki gert skýran greinarmun þarna á milli. Besta sönnun þess er að kirkjan skuli taka upp sunnudag sem hátíðisdag, það er einmitt dagurinn sem helgaður er Sol Invictus hjá Rómverjum (Gyðingar nefndu ekki vikudagana).

4) Ástæðan fyrir því að jól eru haldin þann 7. janúar í mörgum rétttrúnaðarkirkjum er ekki sú að það eru 13 dagar milli 25. des og 7. jan (reyndar er 7. janúar 14. dagurinn ef maður telur 25. með - enda er þrettándinn á 6. janúar). Ástæðan er einfaldlega sú að réttrúnaðarkirkjurnar tóku ekki upp júlíanska tímatalið og skekkjan í því færði sífellt sólstöðurnar aftar. Leiðréttingin sem fólst í upptöku gregoríanska tímatalsins nam 10 dögum, síðan hafa liðið um 500 ár sem ættu að gefa aðra fjóra daga í skekkju (fyrstu 3 dagarnir í skekkju, millí Júlíusar Sesars og Níkeu, eru í báðum dagatölunum). Réttrúnaðarkirkjurnar hafa neitað að taka upp gregoríanska tímatalið og lítil samstaða er um að leiðrétta það júlíanska. Jólin verða því þann 7. janúar skv. gregoríanska tímatalinu (en 25. samkvæmt því júlíanska) fram til ársins 2100 þegar aftur bætist við einn dagur í skekkju.

5) Jóladagarnir þrettán (eða tólf + 1) eiga sér væntanlega skýringu í því að hér er fyrst og fremst um dagatals-hátíð að ræða og talan tólf er grundvallandi í öllum dagatalsútreikningum enda eru flest sólarár með 12 tunglmánuði (einstaka með 13). Það er talið niður til sólstöðu, frá 12 niður í 1 - síðan kemur dagur "0", svo er aftur talið upp frá 1 í 12.

Jóladagarnir eru því í rauninni þrir - eða réttara,  tvær nætur og einn dagur. Ef sólstöður ber upp á 21. des, svo dæmi sé tekið, þá virðist sólin í hádegisstað ná lágmarki þann 20., er kjur þann 21. og 22. og hækkar svo sýnilega aftur þann 23. (þetta má auðveldlega sjá með skuggamælingu). Sólin er því "dauð" í þrjá daga. Hér er hugsanlega komin skýringin fyrir því af hverju jólin eru haldin hátíðleg kvöldið fyrir vetrarsólstöður, en ekki á vetrarsólstöðum (eins og hjá okkur). En önnur skýring er sú að það var algengt á fornöld að telja daginn hefjast kl. 6 að kvöldi, sbr. Gyðinga.

6) Reyndar er margt athyglisvert við vetrarsólstöður. Fornmenn fylgdust vel með himintunglunum og ein einföld mæling sem allir geta framkvæmt er að merkja hvar skuggi fellur á hádegisstað á hverjum degi ársins. Merkin mynda hallandi 8-lagað form sem kallað er "analemma". Áttan er breið neðst (á veturna) en mjó efst. Við sólstöður "stoppar" sólin efst eða neðst, enda merkir orðin "solstice" og "sólstöður" það sama - sólin staðnæmist. Á veturna er þetta mun meira áberandi en á sumrin vegna þess hversu toppmjó að ofan en flöt að neðan áttan (analemman) er.

það er því full ástæða til að lengja hátíðarhöldin, tólf dögum fyrir jól er sólin farin að hægja verulega á sér (bilið milli hádegismerkjanna minnkar) og þegar kemur að sólstöðum sjálfum er nánast enginn munur frá degi til dags - sólin er stopp. Þessi "stöðvun" sólarinnar er langmest áberandi frá hádegi deginum fyrir sólstöðudag til hádegis daginn eftir sólstöðudag. Sólin "stoppar" eða "deyr" í tvær nætur.

Þarna vilja margir sjá skýringuna á því hvers vegna Jesú er sagður dauður í tvær nætur. Hann deyr að kvöldi eins dags, liggur í gröfinni tvær nætur og einn dag, og vaknar til lífsins með sólinni á þriðja degi. Enda taka öll fjögur guðspjöllin það skýrt fram að hin opna gröf finnst um sólarupprás. Þar sem þau nota öll mismunandi orðalag um sólarupprásina virðist sem um mismunandi tímasetningar sé að ræða (frá rétt fyrir sólarupprás hjá Matthíasi í eftir sólarupprás hjá Jóhannesi) en það er vegna þess að sólarupprásin sjálf er aðal atriðið - Jesú er sólin sem er risin aftur á táknrænan hátt.

Vorjafndægrið, sem Jesú er drepinn á, er auðvitað sólarhátíð líka, sléttum 9 mánuðum fyrir jól. Getnaður sólarinnar - og lífsins, tími sáningar og fæðingartími lambsins. Táknmyndirnar eru margar ef maður nennir að leita að þeim - sem gerir þær auðvitað ekki sannar.

En það getur verið gaman að pæla í þessu.

Brynjólfur Þorvarðsson, 5.12.2008 kl. 09:08

4 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Smá leiðrétting:

Í liði 4 segi ég að upphaflega villan í báðum dagatölum sé 3 dagar en hún er 4 dagar (sbr. lið 2).

Í liði 5 segi ég að tunglmánuðir séu stundum 13 í einu ári. Tunglið er 27.3 daga að fara í kringum jörðina en frá jörðu séð líða 29,5 dagar ef mælt er frá einu fullu tungli til annars. Það geta því ekki verið 13 tunglmánuðir í einu ári, að meðaltali eru þeir 12,37.

Það geta hins vegar verið 13 full tungl í einu sólarári, það gerist ekki svo sjaldan eða 2. til 3. hvert ár (2,7 að jafnaði).

Brynjólfur Þorvarðsson, 5.12.2008 kl. 09:18

5 Smámynd: Nexa

Dagur Sánkti Nikulásar er haldinn hátíðlegur hér í Hollandi í dag. Reyndar á hann afmæli á morgun og t.d. í Belgíu fá börn gjafir í fyrramálið, en einhverra hluta vegna hefur "Sinterklaas" fest sig í Hollandi að kvöldi 5. desember.

Börnin hér í Hollandi trúa því að hann eigi heima á Spáni ásamt aðstoðarmönnum sínum (Zwarte Piet) og hvíta hestinum sínum. Hann kemur til Hollands í lok nóvember með gufubát og fer að gefa börnum litlar gjafir í skóinn og svo gefur hann stærri gjöf á aðfangadegi afmælisdagsins.

Í kvöld verður sungið og vísur samdar, börnin finna poka af gjöfum úti (eftir að Zwarte Piet hefur bankað á gluggana) og mikil spenna er í loftinu. Aftur á móti er sjálf jólahátíðin engan vegin sambærileg við það sem við þekkjum. Mér skilst reyndar að það fari mjög eftir hefðum hverrar fjölskyldu.

Nexa, 5.12.2008 kl. 09:31

6 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Takk fyrir fróðlegan og góðan pistil Svanur, og Brynjólfur fyrir gott innlegg sem líka var gaman að lesa.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 5.12.2008 kl. 09:59

7 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Enn eitt varðandi jólatré og jólasveina: Bók sem skrifuð var um barnabörn Viktoríu drottningar og aðdraganda 1. heimsstyrjaldar (sem er núna oní kassa hjá mér) nefndi að Alexandra hin danska, eiginkona Eðvarðs VII (og langamma Elísabetar II) hefði komið með danska jólasiði til Buckinghamhallar, þar á meðal jólatréð. Þau hjónin nutu talsverðrar virðingar og margir Bretar tóku upp þessa nýju siði eftir konungshjónunum. Frá Bretlandi eiga þessir siðir greiða leið til Bandaríkjanna en eflaust hafa þeir (og aðrir svipaðir) farið þangað eftir öðrum leiðum líka.

Walt Disney og Coca Cola bjuggu síðan til í sameiningu þessa staðalímynd sem allir þekkja í dag.

Danir eru farnir að tala um "julenisser" og nota þá til skrauts alla vega um miðja 18. öld og það má vel vera að Alexandra hafi notað þá sem skreytingu hjá sér. Hvernig þeir voru klæddir á þessum tíma veit ég ekki, en sjálfsagt líkari húskörlum - toppmjóa húfan er hins vegar dæmigerð nisse-húfa.

Rauða skikkjan eða kápan með hvítu bryddingunum á sér hins vegar frekar augljósan uppruna. Purpurarautt er konunglegur litur (einnig litur karlmennsku, stríðs og fórna) og safalabryddaðar purpuralitaðar skikkjur eru einmit með því allra dýrasta sem hægt var að klæða sig í - svona eins og að keyra um á Benz jeppa í silkijakkafötum. Safalaskinn eru hvít með litlum svörtum doppum, þær hafa hins vegar glatast í núverandi útgáfu jólasveinsins.

Sleðinn hef ég heyrt (og finn engar frekari upplýsingar um núna) að hafi verið notaður í tengslum við heilagan Wenseslas í A-Evrópu enda voru slík farartæki algeng þar á vetrum. Hreindýrin hafa auðvitað ekkert með það að gera!

Brynjólfur Þorvarðsson, 5.12.2008 kl. 10:28

8 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Fróðlegt eins og alltaf.

Rut Sumarliðadóttir, 5.12.2008 kl. 11:06

9 identicon

Mjög áhugavert að venju Svanur og Brynjólfur.

Jakob (IP-tala skráð) 5.12.2008 kl. 13:22

10 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sigrúnu, Hólmdísi, Hippó, Kristni, Rut og Jakobi þakka ég góðar undirtektir.

Nexa, umfjöllun um jólahald og siði í hinum ýmsu löndum væri skemmtileg samantekt. Takk fyrir þitt framlag.

Brynjólfur, Þakka þér frábæra og greinagóða viðbót. Skemmtileg þessi víbending um að jólatréð hafi komið frá Danmörku til Bretlands.

Svanur Gísli Þorkelsson, 5.12.2008 kl. 15:09

11 Smámynd: kiza

Frábær pistill og kommentin bæta bara ofan á :)  Finnst alltaf áhugavert að lesa um og sjá hvað sólin og himintunglin hafa í raun mikil áhrif á okkar hegðun, og þá sérstaklega á hátíðardögum (sem oftast nær eru einmitt tengdir gangi himintunglanna) :)

Mamma á tvo jólahafra sem er alltaf stillt upp fyrir jólin.  Þeir kölluðust á okkar heimili 'bokken' sem ég held að sé sænska orðið yfir þá.  Þegar ég var lítil var ég alltaf dauðhrædd við þá af einhverjum ástæðum, og mamma segir mér að ég hafi viljandi tekið hring framhjá þeim og fylgst með útundan hvort þeir ætluðu að ráðast á mig ;)  Í dag eru þeir eitt af uppáhalds jólaskreytingunum mínum, eiga sérstakan stað í hjartanu

Fyndið. 

kiza, 5.12.2008 kl. 15:09

12 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Kiza, Þú bætir enn um betur og skreytir þessa færslu með skemmtilegri sögu af jólahöfrunum. Þakka þér.

Svanur Gísli Þorkelsson, 5.12.2008 kl. 15:15

13 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Æi, ég þarf aðeins að eyðileggja fyrir ykkur jólaskapið, enda ertu allt of snemma á ferðinni með jólaseríurnar Svanur.

Hinn ægifróði maður, Brynjólfur Þorvarðsson, fer örugglega rangt með danskan uppruna jólatrésins á Bretlandseyjum.

Í mínum bókum er talið að fyrsta jólatréð hafi verið tendrað árið 1808 á Suðursjálandi og í Kaupmannahöfn árið 1811. Danir hafa nebbnilega tékk á öllu sem kostar pening, enda eiga þeir sér vinsælan jólasálm sem endar svo, og takið nú undir: Julen varer længe, koster mange penge.

Jólatréð var komið til Bretlandseyja með þýsku kóngunum á 18. öld. En þar sem Tjallinn var lítt hrifinn af Þýskum, breiddist siðurinn ekki að ráði. Það var hins vegar eftir að jólatré Victoríu og Alberts var sýnt í Illustrated London News árið 1846, að þessi siður fór að dreifa sér meðal kolafturhaldsams lýðsins á Englandi.

Svo er nú það og það er nú svo. Vona að tröllið hafi ekki stolið jólunum ykkar.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 5.12.2008 kl. 15:53

14 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

He..Vilhjálmur, það er ekki ráð nema í tíma sé tekið eins og þú sérð sjálfur. Við hefðum auðveldlega getað farið í gegn um alla jólaföstuna án þess að átta okkur á þessu með upptöku jólatrjáa í Danmörku og á Bretlandi. Þess vegna þakka ég þér athugasemdina :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 5.12.2008 kl. 17:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband