2.12.2008 | 21:12
Skalli
19Borgarmenn Jeríkó sögðu við Elísa: "Borg þessi liggur að vísu vel, eins og þú sjálfur sérð, herra, en vatnið er vont, og landið veldur því, að konur fæða fyrir tímann."
20Hann sagði við þá: "Færið mér nýja skál og látið í hana salt." Þeir gjörðu svo. 21Og hann gekk út að uppsprettu vatnsins, kastaði saltinu í hana og mælti: "Svo segir Drottinn: Ég gjöri vatn þetta heilnæmt. Upp frá þessu skal það eigi valda dauða né ótímaburði." 22Þá varð vatnið heilnæmt samkvæmt orði Elísa, því er hann hafði talað, og er svo enn í dag.
23Þaðan hélt hann til Betel. Og er hann gekk upp veginn, gengu smásveinar út úr borginni, hæddu hann og kölluðu til hans: "Kom hingað, skalli! Kom hingað, skalli!" 24Sneri hann sér þá við, og er hann sá þá, formælti hann þeim í nafni Drottins. Þá komu tvær birnur út úr skóginum og rifu í sundur fjörutíu og tvo af drengjunum. 25Þaðan fór hann til Karmelfjalls og sneri þaðan aftur til Samaríu.
Þetta ætti að kenna fólki að vera ekki að abbast upp á sköllótta menn og uppnefna þá, sérstaklega ef þeir eru í náðinni hjá alvaldinu. Persónulega finnast mér viðbrögð spámannsins dálítið yfirdrifin. Sérstaklega í ljósi þess að honum var sjálfsagt í lófa lagt að fá hár sitt til að vaxa með því að nota sömu aðferð og hann notaði til að gera vatnsuppsprettuna heilnæma.
Einn af forfeðrum mínum, ef marka má móðurafa minn Gísla Guðmundsson sem missti hárið á tvítugsaldri og kenndi þar um ætterni sínu, var Grímur Kveldúlfsson landnámsmaður í Borgarfirði. Hann var sagður ljótur maður, dökkur á brún og brá, berserkur mikill en skáld gott. Hálfþrítugur að aldri var hann orðinn nauðasköllóttur og fékk því viðurnefni sitt Skallagrímur, en undir því nafni þekkjum við hann flest.
Íslendingum þótti greinilega lítið til hárleysis koma á söguöld, hvort sem um höfuð eða andlitshár var að ræða. Frægt er háðið sem Njál á Berþórshvoli og synir hans urðu að þola fyrir skeggleysi sitt og þeir uppnefndir taðskegglingar.
Austur Asíu þjóðir virðast hafa öðruvísi viðhorf til höfuðshárs en vesturlandabúar. Þar er afar algengt að raka allt hár af höfðinu. Mongólar til forna skildu eftir langa fléttu aftast á hnakkanum svo almættið gæti náð taki á einhverju til að kippa þeim inn í himnaríki þegar þeir dóu í miðjum bardaganum. Helgum mönnum og munkum þótti það sjálfsögð afneitun á hégóma þessa heims að raka höfuð sitt og það viðhorf barst meira að segja til hins kristna menningarheims og skýrir að nokkru afar sérkennilegan hárstíl munka í Evrópu á miðöldum.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:37 | Facebook
Athugasemdir
Las einmitt um þennann Elísa í sumar eða vor og hvurslags spámannleg reiði er þetta eiginlega. Þetta virðist hafa lítið að gera með almættið, heldur tengist frekar óstjórnlega miklu sjálfsmikilvægi sem hvorki er hollt fyrir spámenn né pólití-kusa, né nokkurn yfirleitt. Takk fyrir greinina Svanur
Máni Ragnar Svansson, 2.12.2008 kl. 21:43
Allnokkrir staðir á Íslandi draga nafn sitt af "skallanum" m.a. þrír Kollafirðir. Kristnir frumbyggjar landsins rökuðu hausinn að hluta og voru því kallaðir Kollar af "landnámsmönnum".
sigurvin (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 22:02
Mikið rétt Máni Ragnar. Og þótt þetta eigi kannski að vera einhverskonar dæmisaga eru viðbrögð spámannsins svo yfirgengileg að pointið hvert sem það átti að vera, týnist.
Góður punktur Sigurvin.Bloggaði eitt sinn smá um kollabúðir í Þorskafirði og álíka menjar á Bretlandseyjum.
Svanur Gísli Þorkelsson, 2.12.2008 kl. 22:31
Áhugavert. Það eru ótrúlega margir sem eru viðkvæmir fyrir því þegar hárið fer að þynnast.
Helsti kosturinn við að vera sköllóttur er að maður þarf ekki að fara í klippingu sem er dýrt og það sparar pening núna í kreppunni.
Kveðja Skattborgari.
Skattborgari, 2.12.2008 kl. 22:48
Já það er ódýrara að vera sköllóttur og enn ódýrara ef maður er tannlaus líka, en langódýrast er náttúrulega að vera dauður. Það er sko sparnaður sem munar um í kreppunni.
Þorvaldur Guðmundsson, 2.12.2008 kl. 23:00
Góður Þorvaldur
Það sem mé líkar svo við þig Skatti er hversu vel þú sérð alltaf jákvæðu hliðarnar á málum :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 2.12.2008 kl. 23:11
Svanur það þýðir ekkert annað nú til dags þegar allt er að fara til helvítis á Íslandi.
Kveðja Skattborgari.
Skattborgari, 2.12.2008 kl. 23:25
Hvað ert þú að spá í skalla, síðhærður maðurinn? Ég leyfði mér að gera það um daginn og kæri mig auðvitað kollóttan.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 3.12.2008 kl. 11:11
Já Vilhjálmur, ég las greinina þína um þennan íslenska og sköllótta "spámann" og hafði gaman að.
Svanur Gísli Þorkelsson, 3.12.2008 kl. 11:38
Sæll Svanur ! Skalli góð grein. Takk fyrir. Það liggur við að maður fari á skallann við lestur greinarinnar, svo helv... góð er hún. En hvað sem öllum sköllum líður þá er þetta bara skalli gott. Gaman væri ef að við, N úpsverjar gætum komið saman einhversstaðar á vestfjörðum, og átt glaða daga og rifjað upp .........................
Tölum saman síðar.Skilaboð verða send út.
Kristján Helgason (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 01:48
Góð hugmynd með að mæta á Vestfjörðum Kristján, einhverstaðar þar sem við getum verið með hávaða og skall án þess að trufla mikið aðra. Settu þetta í gírinn félagi.
Takk fyrir innlitið :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 4.12.2008 kl. 02:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.