Gvendur Þribbi og Dóra Hjörs.

ZKCAGE20WUCA92LP1YCAXO3V2CCANVFTR1CAM29TLMCA15QX56CAEBFRA5CAQO29NYCAEXZNA3CANM0AQBCA3X68MXCAIH8VSOCAC1LSI8CAMBXDH1CA29O2Y3CAQ6YIDGCARHJ6W0Þegar ég var að alast upp í Keflavík (1960+) bjuggu í bænum ýmsir kynlegir kvistir. Sumir þeirra, eins og Guðmundur Snæland, kallaður Gvendur Þribbi af því hann var einn þríbura, voru alkunnar persónur í bæjarlífinu og settu á það sinn sérstaka svip. Mér var sagt að Gvendur Þribbi væri heimsfrægur munnhörpusnillingur og ég trúði því, sérstaklega eftir að ég heyrði hann eitt sinn spila í barnatíma útvarpsins. Þótt Gvendur væri yfirleitt ölvaður var hann mikið snyrtimenni og sjentilmaður. Í seinni tíð gekk yfirleitt um í einkennisbúningi og með húfu í stíl sem minnti um margt á klæðnað Stuðmanna þegar Þeir voru upp á sitt besta eða jafnvel stíl drengjanna í Oasis. Hann var ekki ólíkur þeim sem myndin er af hér að ofan, en gott væri ef einhver lumaði á mynd af snillingnum, að fá hana senda.

Hann kom nokkrum sinnum í heimsókn á heimili foreldra minna á Hringbrautinni, þáði þar kaffi og spilaði fyrir okkur krakkana á munnhörpurnar. Hann hafði venjulega nokkrar slíkar á sér. Ég gat samt aldrei áttað mig á lögunum sem hann spilaði. Ég bað hann einu sinni að spila "Hafið bláa hafið" en eftir hálftíma trillur á munnhörpuna gafst ég upp á að hlusta eftir laglínunni. Kannski var Gvendur allt of djassaður fyrir mig. Gvendur angaði ætíð sterklega af Old spice og ég var aldrei viss um hvort sú angan kæmi frá vitum hans eða bara andlitinu en sjálfsagt hefur það verið bæði.

db_The_Harmonica_Player10Gvendur gaf mér tvær munnhörpur en ég gat ekki fengið mig til að spila mikið á þær vegna þess hversu mikið þær lyktuðu af kogara og rakspíra í bland. Ég átti þær fram eftir aldri en veit ekki hvað af þeim varð.

Munnhörpur voru þróaðar í Evrópu snemma á nítjándu öld. Christian Friederich Ludwig Buschmann er oftast eignuð uppfinning þessa hljóðfæris en margar gerðir af munnhörpum virtust spretta upp bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum á svipuðum tíma.

Á Ensku er munnharpa nefnd "Harmonica". En eins og allir vita er harmónikka allt annað hljóðfæri á Íslandi eða það sem nefnd er accordion upp á enskuna. Hvernig nikkan fékk þetta nafn munnhörpunnar hér á landi eins og í Finnlandi og á mörgum austur-Evrópu tungum, er mér ókunnugt um. Fyrstu harmónikkurnar fóru að berast til landsins upp úr 1874. Þá var notað orðið dragspil yfir fyrirbærið.

hansgretelÁ Sólvallargötu skammt vestan Tjarnargötu, stóðu á sínum tíma húsakynni sem í minningunni voru einskonar blanda af gömlum torfbæ og kofatildri. Garðurinn í kring var afgirtur og í þessum óhrjálegu húsakynnum bjó gömul einsetukona sem mér var sagt að héti Dóra Hjörs. Hún var alla vega aldrei kölluð annað í mín eyru.

Í þau fáu skipti sem ég sá Dóru, var hún klædd í sítt pils með strigasvuntu bundna framan á sig og með skuplu á höfðinu. Hvernig sem á því stóð, hafði Dóra í hugum okkar krakkanna á sér ímynd nornarinnar í ævintýrinu um Hans og Grétu. Ég man ekki eftir neinum stað í Keflavík sem fékk hjartað til að berjast í brjóstinu eins ört og þegar farið var fram hjá kotinu hennar. Það sem kynti undir þessa hræðslutilfinningu voru sögur sem oftast voru eflaust skáldaðar upp á staðnum um krakka sem lent höfðu í því að ná í bolta sem skoppað hafði inn í garðinn hennar þar sem hún ræktaði kartöflur, rabarbara og rófur. Hvað nákvæmlega gerðist var aldrei fullkomlega ljóst, en það var eitthvað hræðilegt. Venjulega var hlaupið á harðaspretti fram hjá húsinu og ekki litið til baka fyrr en þú varst komin vel fram hjá. 

Dag einn var ég á gangi annars hugar og vissi ekki fyrri til en ég var kominn alveg upp að girðingunni í kringum garð Dóru. Ég var í þann mund að taka sprettinn þegar að hún birtist skyndilega beint fyrir framan mig. Ég stóð eins og þvara, lamaður af ótta. Hún fálmaði undir svuntu sína og dró fram brúnan bréfpoka, opnaði hann og rétti hann að mér. Ef hún sagði eitthvað heyrði ég það ekki. Ég sá að í pokanum var kandís. Eins og í leiðslu tók ég einn molann og hélt svo áfram að gapa framan í gömlu konuna. Hún tróð pokanum aftur undir svuntuna og rölti svo í hægðum sínum inn í bæinn.

Það þarf ekki að taka það fram, að það trúði mér ekki nokkur maður, þegar ég reyndi að segja þessa sögu í krakkahópnum. En eftir þetta gekk ég óhræddur fram hjá húsi Dóru Hjörs og skimaði jafnvel eftir henni ef ég átti leið þar fram hjá.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

OH Svanur!!! Yndislegt að lesa þetta!

Heiða B. Heiðars, 1.12.2008 kl. 17:29

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Yndisleg lesning, takk fyrir mig

Sigrún Jónsdóttir, 1.12.2008 kl. 17:39

3 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Gvendur þribbi var náttúrulega bara yndislegur kall og það þekktu hann allir Suðurnesjamenn! Hann kallaði mig alltaf "ameríska frumbyggjan"... honum fannst ég víst eitthvað indíánaleg :)

Man ekki eftir Dóru Hjörs en ég hef heyrt sögur af henni

Heiða B. Heiðars, 1.12.2008 kl. 17:43

4 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Man eftir þeim báðum. Gvendi þó sérstaklega.

Talandi um kandís!! Imba frænka átti alltaf kandís en ég varð að syngja "Nálin mín" til að fá mola. The good old days.

Rut Sumarliðadóttir, 1.12.2008 kl. 18:44

5 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

Dóra Hjörs er gömul---en samt er hún góð---undan svuntunni hún dregur-----mola úr Kandíssjóð.

Skemmtileg saga Svanur af litríkum persónum og smá hjartahlýju.  Hef verið að lesa "Bókina um Veginn" að undanförnu.  Vegurinn er það ekki bara hjartahlýjan sjálf og vegurinn er heitur og hlýr líkt og á sumardegi, bara að hitta stöðugt í mark, beint inn í Taóið eða Guðdómleikann, hverja einustu stund, þá er maður alltaf heima, hjá því dýpsta og fegursta í sjálfum sér.  Lífið er undur en virkar oft sem langur blundur.  Gríska orðið sem yfirleitt er þýtt með orðinu "synd" í Nýja testamentinu er orðið "hamartia" sem á klassískri grísku þýddi "að missa marks" eða í fyrri tíðar enskri bogfimi "að hitta ekki í miðpunktinn" en eins og fyrri daga er ekki hægt að saka þig um neina hamartíu.   

Máni Ragnar Svansson, 1.12.2008 kl. 23:38

6 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Sæll.

Ég kom úr sveit að vestan 1971 til Keflavíkur þá 13 ára í fyrsta skipti í heimsókn í svona stóran bæ. Systir mín sendi mig út í Kaupfélag á Hringbrautinni til að kaupa mjólk og brauð. Sé ég á eftir manni með kaskeiti og korða ganga framhjá og niður Hringbraut. Þegar heim kom segi ég að ég hafi séð bæjarstjórann niðri við búð.

Þegar ég var beðinn að lýsa bæjarstjóranum skellti fólk uppúr og sögðu: "Þetta er hann Gvendur þribbi".

Kristján Sigurður Kristjánsson, 2.12.2008 kl. 00:02

7 identicon

Í mínu hverfi, snemma á sjöunda áratugnum, fengum við kandísinn hjá gömlum hjónum sem bjuggu í litlu húsi. Á sunnudagsmorgnum var þar skál með muldum kandís sem við máttum gera okkur að góðu, á meðan las gamli maðurinn uppúr þykkri bók og sagði dæmisögur. Þegar kandísinn var búinn og kominn fararhugur í okkur, þurfti að draga miða og svo var lesið meira úr bókinni.

Og í okkar hverfi var líka galdranorn. Hún bjó ein í litlum kofa með garði og sást sjaldan. En við vissum vel að hún var rammgöldótt og þurfti að velja leiðir um hverfið með tiliti til þess. Það kom þó ekki í veg fyrir að ungir ofurhugar og spennufíklar legðust í það stórhættulega stórvirki að læðast í garðinn og stela rabbabara þegar dimma tók á haustkvöldum. Þá þurfti að skríða langar leiðir á maganum og undir girðinguna. Á flóttanum var sett íslandsmet í spretthlaupi því grunur lék á að nornin gæti sent púka á eftir okkur.

Gæti trúað að á þessum tíma hafi hvert hverfi átt sína galdranorn því ég hef heyrt af fleirum.

Takk fyrir góða sögu.

sigurvin (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 00:28

8 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þakka þessar skemmtilegu og fróðlegu athugasemdir allar. Mér finnst mest gaman að því þegar fólk tekur sér tíma til að bæta við færsluna eigin reynslusögum og athugasemdum líkt og þið gerið hér.

Svanur Gísli Þorkelsson, 2.12.2008 kl. 22:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband