Nálaraugað

Zulu-indunaEngin veit nákvæmlega hvenær mannkynið byrjaði að nota fatnað. Það þykir samt nokkuð ljóst að fatnaður var notaður til að skýla líkamanum fyrir náttúruöflunum, hita og kulda, vatni og vindi, og til að verjast skordýrum. Án vafa var fyrsti fatnaðurinn gerður úr skinnum.

pittendrigh-liceRannsóknir á litningum lúsa sýna að þær hafi tekið sér bólfestu meðal manna og á mannslíkamanum fyrir meira en 130.000 árum.

Vegna hárleysis mannsins geta lýs ekki hafst við á líkamanum nema hann sé klæddur. Aðrar rannsóknir á erfðamengi lúsa benda til að lýs og men hafi átt samleið miklu fyrr eða fyrir allt að 530.000 árum.

800px-Sewing_needle_eye_with_threadTil að gera sér fatnað þurfti maðurinn að ráða yfir tækni sem gerði honum kleift að skera til efnið sem hann notaði og halda því saman utan á líkamanum, jafnvel þótt hann væri á hreyfingu. Þvengir og ólar hafa eflaust þjónað þessu hlutverki til að byrja með, en elstu saumnálar sem fundist hafa eru rétt um 40.000 ára en þær fundust í  Kostenki í Rússlandi árið 1988. Þær voru gerðar úr beinum og tré.

AGAVE%20PARRYI%20Sm%20FmBÍ norður Ameríku notuðu frumbyggjar aðrar aðferðir. Þeir lögðu í bleyti lauf Agave plöntunnar uns trefjar þess skildu sig frá kjötinu. Trefjarnar enduðu í oddhvössum þyrni og eftir að hvorutveggja hafði verið þurrkað var þar með komin bæði nál og tvinni.

Þeir eru ekki margir munirnir sem notaðir voru af forfeðrum okkar á þeim tímum er þeir reikuðu út úr Afríku, sem enn eru notaðir svo til á hverju heimili. Svo er þó um saumnálina.

Í dag eru saumnálar einkum gerðar úr stáli og húðaðar nikkel eða gulli til að vernda þær fyrir tæringu. Bestu nálarnar eru samt gerðar úr platínu.

Nálar koma oft fyrir í sögum og ævintýrum heimsins og nálaraugað orðið mörgum hugleikið og oft notað á táknrænan hátt í dæmisögum og trúarbrögðum.

Í Babýlónísku Talmútunum notar rabbíninn nálaraugað til að skýra eðli drauma og hvernig þeir eru sprottnir úr huga mannsins;" Þeir sýna manni ekki pálmatré úr gulli eða fíl ganga í gegn um nálarauga."

Í Midrash (Gyðinglegu afbrigði) af ljóðaljóðunum er að finna skírskotun til nálaraugans í tengslum við vilja og getu Guðs til að frelsa syndarann. "Hinn heilagi sagði, opna fyrir mér dyr á stærð við nálarauga og ég mun opna fyrir þér dyr sem tjöld og Kameldýr komast um."

kamelÍ Kristindómi er nálaraugakenning Krists afar merkileg. Ungur og auðugur maður kemur til hans og spyr hvað hann þurfi að gera til að komast í himnaríki. Kristur segir að hann eigi að halda boðorðin, selja eigur sínar og gefa fátækum og síðan fylgja sér.

Ungi maðurinn vildi þetta ekki og þá mælti Kristur við lærisveina sína: "Sannlega segi ég yður: Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki. Enn segi ég: Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki." Matt. 19:23:24

eyeneedleÞeir sem þróuðu auðhyggjuna (Kapítalismann) út frá Kalvínískum hugmyndum um að auður og ríkidæmi væri merki um velþóknun Guðs, hafa greinilega ekki haft til hliðsjónar þessa litlu dæmisögu Krists.

Í tengslum við þessa sögu hefur verið bent á að grísku orðin fyrir kameldýr og kaðal eru afar áþekk og þarna gæti verið um mistök í afritun að ræða.

eye_of_a_needlesAðrir hafa bent á að hlið eitt á útveggjum Jerúsalemborgar kallað "Nálaraugað" var svo þröngt að Kameldýr komst aðeins í gegn um það á hnjánum og án byrða. Engar sögulegar heimildir eru fyrir því að þetta hlið hafi nokkru sinni verið til en e.t.v. hefur sagan gefið auðmönnum smá von um að komast í himnaríki.

Í Kóraninum er nálaraugað notað til að sýna fram á ólíkindi þess að eitthvað geti gerst.

"Fyrir þá sem hafna táknum vorrum og nálgast þau með yfirlæti, mun engin glufa opnast á himnum, né munu þeir komast inn í garðinn fyrr en kameldýrið getur komist í gegn um nálaraugað. Slík eru laun syndaranna. Al-Araf (The Heights) 7:40.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Gunnar Dal hafði ÞETTA að segja um auðmenn í Kastljósi gærkvöldsins.

Greta Björg Úlfsdóttir, 12.11.2008 kl. 13:30

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Takk annars fyrir enn einn góðan pistil.

Greta Björg Úlfsdóttir, 12.11.2008 kl. 13:30

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir það Greta. Gunnar er einn af mínum uppáhalds íslendingum.

Svanur Gísli Þorkelsson, 12.11.2008 kl. 14:00

4 identicon

Frekari upplýsingar um midrash-útgáfu af ljóðaljóðunum væri vel þegnar, þá helst hvar þetta stendur svo ég geti flétt þessu upp sjálfur.

Sófisti (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 16:03

5 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þessi linkur hjálpar kannski Sófi. http://www.biblicalhebrew.com/nt/camelneedle.htm

Svanur Gísli Þorkelsson, 12.11.2008 kl. 16:58

6 Smámynd: Óskar Þorkelsson

skemmtileg lesning Svanur, takk fyrir mig.

Óskar Þorkelsson, 12.11.2008 kl. 17:01

7 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Steinvala, ef þú veist hvað stendur í Biblíunni um auðmenn þá finnur þú nú auðveldlega tengingu við aðalumræðuefni moggabloggsins í þessum pistli...

Greta Björg Úlfsdóttir, 14.11.2008 kl. 13:01

8 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

Nálin hefur bæði auga á öðrum endanum og odd á hinum.  Val mannsins er líklega að drösla sér einhvern veginn í gegnum nálaraugað, áður en oddurinn stingst í gegnum hjartað ?  Líf eða dauði !  Annaðhvort er maður ljós heimsins eða myrkur þess !  Takk fyrir pistilinn.  Sammála um Gunnar Dal.

Máni Ragnar Svansson, 14.11.2008 kl. 17:50

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Vel að orði komist Máni. Þakka athugasemdirnar Óskar og Steinvala. Þetta passar alveg hjá þér Greta :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 14.11.2008 kl. 19:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband