Engiltár

Fyrir mörgum árum skrifaði ég stutta sögu fyrir litla stúlku sem núna er löngu orðin fullorðin kona. Þegar ég las hana aftur fyrir skömmu fannst mér hún eiginlega alveg geta verið fyrir börn á öllum aldri, jafnvel fullorðin börn. Sagan sem gerði tilætlað gagn á sínum tíma, hefur í mörg ár ferðast milli tölvanna sem ég hef átt og nú síðast dvaldist hún á einum minniskubbnum mínum þar sem hún átti sér litla von um að verða aftur lesin. Ég veit að það er algjört bloggtabú að birta nokkuð svona langt og ég lái ykkur ekkert þótt þið nennið ekki að lesa. En fyrir þá sem hugsa enn eins og börn hafa þolinmæði eins og afar og ömmur, here goes.

Engiltár

engill 1Hátt yfir iðagrænum dal, á dálitlum skýhnoðra, sem vafði sig purpura hnígandi sólar, sat engill og grét. Tárin streymdu í stórum glærum perlum niður bústna og kringluleita vanga hans, og féllu svo til jarðar í löngum taumum. Líkt og dýrindis festar endurvörpuðu þau  óteljandi litum síðustu geislum sumarkvölds-sólarinnar, og urðu þannig til að vekja athygli lítillar stúlku sem stóð og horfði út um glugga efst í gömlum turni úr steini, sem reis þétt upp við bergið í enda dalsins. Engillinn var alveg viss um að enginn sæi til hans þar sem hann sat í háloftunum yfir þessum ákaflega afskekta og að hann hélt, óbyggða dal. Sorg hans og tregi höfðu slæpt hann svo og sljóvgað, að honum hafði yfirsést varðturninn gamli, sem reyndar hafði kænlega verið valinn staður, þar sem hann rann saman við bergið og duldist í samlitum gráma þess. Og hvern hefði grunað að þarna byggi stúlka, sem á hverju kvöldi í tæp tvö ár, hafði horft út um gluggann á sólsetrin fögru, milli fjallanna háu sem umluktu dalinn. Og nú þar sem hún stóð og dáðist af samspili ljóssins og vatnsins, sá hún hvar eitthvað féll niður í döggvott grasið á flötinni fyrir framan turninn. Hún trúði varla eigin augum  því ofan af himninum hrundu í löngum glitrandi taumum perlulaga eðalsteinar. Í undran sinni og hrifningu hrópaði hún upp yfir sig, klappaði sama höndum og hló.           turninn Í gegnum eigin ekkasog greindu ákaflega næm eyru engilsins hljóð, sem fengu gullfiðraða vængi hans til að blaka sér svolítið ósjálfrátt og stöðvaði samstundis grát hans. Var þetta virkilega óp, óp úr barka dauðlegrar veru, alls ekki svo fjarri heldur ómögulega nærri. Firna fráum augum  leit hann eftir dalnum og um hlíðar fjallanna og fann samstundis gamla varðturninn. Hann kom einnig auga á stúlkuna, sem enn stóð við gluggann og horfði opnum munni, stórum sægrænum augum, beint á hann, að honum fannst. Engiltaugarnar tóku viðbragð og á svipstundu var hann búin að færa sig lengra inn á skýið. Hann vonaði heitt og innilega, að hún hefði ekki séð hann. En tárin höfðu greinilega komið upp um hann. Hvernig hafði hann annars getað verið svona kærulaus. Afar varfærnislega gerði hann örlítið gat á mitt skýið, til þess að geta fylgst með stúlkunni. Þegar hann loks áræddi að gægjast í gegn, sá hann að hún var horfin. Svo birtist hún aftur skömmu síðar, valhoppandi út um dyr turnsins og hóf að safna saman engiltárunum í hugvitsamlega samanhnýtta hvíta svuntu sína. Öðru hvoru leit hún upp og skimaði í kring um sig og englinum fannst að stúlkan hlyti að vita af honum þar sem hann fylgdist með henni í gegnum gægjugatið. Loks lauk stúlkan við að tína upp öll tárin og hraðaði sér með feng sinn inn í turninn aftur og lokaði rammgerðri hurðinni vandlega á eftir sér. Um leið stökk sólin endanlega á bak við fjöllin og nóttin lagðist eins og dimmblá blæja yfir dalinn. Englinum var orðið ljóst að honum var verulegur vandi á höndum. Orsakir grátsins og táraflóðsins, bliknuðu verulega í samanburði við þær ógöngur sem hann hafði nú ratað í. Það að skorta örlæti, var að vísu ástæða til hryggðar, því örlæti var dyggð sem allir englar þurftu að hafa tileinkað sér. En nú hafði hann með óvarkárni sinni, hugsanlega brotið ófrávíkjanleg lagafyrirmæli almættisins sjálfs, sem að allir englar, háir jafnt sem lágir urðu að lúta og kváðu á um að enginn engill mætti geranokkuð það sem gæfi mannfólkinu ástæðu til að trúa eða efast um að þeir væru til. Þetta voru lög sem aðeins almættið sjálft gat veitt undanþágu frá, að viðlagðri hegningu sem ákvörðuð skyldi hverju sinni af tíu þúsund píslarvottum. Það lá við að engillinn færi aftur að vola við tilhugsunina um mögulegar afleiðingar augnabliks óvarfærni sinnar, þá hann fann sér fyrr um daginn, stað til að brynna músum á. Hann harkaði samt af sér og hóf að hugsa ráð sitt. Ef hún hefði ekki séð hann var jú mögulegt að hana mundi ekki gruna að dýrgripirnir sem hún hafði undir höndum væru engiltár. En hvað mundi henda ef hún kæmist að dularnáttúru þeirra, leyndarmáli sem engir aðrir en Guð og englar vissu. Ef hún mundi uppgötva það, þó af tilviljun væri, yrðu afleiðingarnar hræðilegar. Því neytti einhver engiltára, yrði sá hinn sami samstundis eilífur. Eilíf tilvera á jörðinni, klædd takmörkunum holds og blóðs, hversu eftirsóknarverð sem hún kunni að virðast fávísum mönnunum við fyrstu sýn, var sannarlega písl og kvöl sem enginn átti skilið.

diamondsEngillinn þorði ekki að hugsa þá hugsun til enda. Ef slík ógæfa hlytist af óvarkárni hans, mundi öll sköpunin gráta miklum harmagráti.  Hann reyndi að sefa kvíða sinn með því að hugsa um hve hverfandi litlar líkur væru á því að stúlkan færi að leggja sér tárin til munns, sérstaklega ef hún gerði sér grein fyrir vermæti þeirra sem aðalsteina. Hann vissi samt að þá áhættu gat hann ekki tekið og að hann yrði að ná tárunum til baka tafarlaust, hvað sem það kostaði. Hefðu tárin aðeins fengið að liggja kyrr til morguns, hefðu þau gufað upp eins og döggin á grasinu fyrir geislum morgunsólarinnar. En um leið og mennskar hendur snertu þau, misstu þau þann eiginleika sinn og urðu að varanlegu föstu efni. Hann varð að láta til skarar skríða strax og ná eilífðar-elexírnum, engiltárunum sínum aftur, en umfram allt, vera varkár og flana ekki að neinu.  

En hver var þessi stúlka og hvað var hún að gera þarna alein að því er virtist í óbyggðunum, þar sem ekki hafði sést til mannaferða í margar aldir og hvaðan kom hún eiginlega. Engillinn velti þessum spurningum fyrir sér um stund og ákvað svo að leita svara.  Hann hóf sig á loft og með örfáum öflugum vængjatökum flaug hann niður að turninum og settist hljóðlega á sylluna fyrir utan gluggann þar sem hann hafði fyrst séð stúlkuna. Ofur varlega leit hann svo inn um gluggann. Inni í turnherberginu var ákaflega dimmt, en hann sá samt að það var autt og tómt. Á miðju gólfi  var stigaop og upp um það lagði föla flöktandi gula birtu. Engillinn smeygði sér varlega inn um gluggann og gægðist niður opið. Klunnalegur tréstigi teygði sig frá skörinni og niður á steinlagt gólfið fyrir neðan og í skímunni frá kertisstúf sem brann á hrörlegu eikarborði, sá hann hvar stúlkan sat og horfði hugfangin á engiltárin sem lágu í stórri hrúgu fyrir framan hana á borðinu. Birtan frá kertinu brotnaði á þeim og varpaði dansandi myndum á andlit hennar.

Engillinn virti stúlkuna gaumgæfilega fyrir sér og reyndi eftir mætti að draga einhverjar ályktanir af útliti hennar. Hún leit ekki út fyrir að vera meira en tólf ára gömul. Ljósir hrokknir lokkar léku um axlir hennar og römmuðu inn undurfrítt andlitið, sem geislaði af fádæma sakleysi rósrauðra vara og rjóðra kinna, undir skærum sægrænum augum sem endurspegluðu eitthvað allt annað. Kjóllinn sem hún klæddist, var úr dökkbláu flaueli, ákaflega einfaldur að sniðum og féll vel að fagurlimuðum og fíngerðum líkama hennar. Um mitti hennar var hnýtt mjallhvít bróderuð svunta og berir fætur hennar hurfu ofan í mjúka skinnskó, bláa að lit með ísaumaðri perluskel á ristum.

Englinum duldist ekki að þessi litla stúlka hlaut að vera mjög sérstök og ef til vill af tignum ættum. Útlit hennar og fas, bar augljósan vott um smekkvísi og glæsileika. En hvað var hún að gera hér?

Hann kom ekki auga á neitt sem skírði það á einhvern hátt. Umhverfi hennar var í hrópandi mótsögn við útlit hennar. Við hlið borðsins stóð stórt gamalt rúm og yfir það var lagt þykkt ullarteppi. Utan þess, borðsins og stólsins sem hún sat á, voru engin önnur húsgögn í víðu hringlaga herbergi turnsins. Ekkert matarkyns sá hann heldur í þessari frumstæðu vistarveru.

Engillinn settist hljóðlega niður á skörina og gætti þess vel að ekki sæist til hans neðan frá, og hugsaði sinn gang. Trúlega yrði hann að bíða þar til stúlkan sofnaði og freista þess þá að ná tárunum. Svo hófst biðin. Hann beið í margar klukkustundir án þess að stúlkan sýndi þess nokkur merki að syfju sækti að henni. Hún hafði að vísu fært sig úr stólnum upp í rúmið, en þar sat hún bara og lék sér að tárunum, sem hún þreyttist aldrei á að handfatla og skoða. Þótt engillinn væri í eðli sínu, mjög þolinmóður og vanur eilífðartíma, tók þessi bið mikið á hann og þegar skammt var í dögun og stúlkan enn glaðvakandi, gafst hann upp á að bíða og ákvað að breyta um aðferð. Eins og allir englar kunni hann ýmislegt fyrir sér sem mennirnir mundu kalla yfirnáttúrulega kunnáttu. Hann gat meðal annars breitt um útlit að vild. Einmitt þann eiginleika ákvað hann að hagnýta sér. Hann stóð upp, hóf sig á loft og flaug út um gluggann.            

einhirningurÞegar hann lenti fyrir framan dyr turnsins, leit hann ekki lengur út eins og engill, heldur einhyrningur, mjallhvítur á litinn, með gullið fax og tagl. Hornið sem stóð út úr miðju enni hans, notaði hann til að drepa á dyrnar. Eftir nokkra bið, opnuðust þær í hálfa gátt. Stúlkan rak upp stór augu þegar hún sá einhyrninginn, en sýndi samt engin merki um hræðslu, og ekki heldur þegar hann ávarpaði hana á mannamáli.

"Komdu sæl stúlka litla og afsakaðu ónæðið á þessum óvenjulega tíma sólahringsins. En ég er vera eins og þú sérð, sem eðli mínu samkvæmt mundi aldrei raska ró nokkurrar manneskju af ófyrirsynju. Þar af leiðandi getur þú varla efast um að erindi mitt sé brýnt, og þar eð það varðar þig sjálfa, bið ég þið um að hlýða á mál mitt.“

Stúlkan svaraði einhyrningnum engu, en horfði á hann eins og hún skildi ekki orð af hinni háfleygu þulu sem hann hafði romsað út úr sér. "Ég varð fyrir smá óhappi“hélt einhyrningurinn áfram og ákvað að einfalda mál sitt eftir mætti.„Ég tapaði í gærkvöldi, einhversstaðar hér í grenndinni ákaflega verðmætum sjóði eðalsteina, og mér datt sí svona í hug að þú stúlka góð, hefðir ef til vill fundið hann.“ Einhyrningurinn leit á stúlkuna stórum spyrjandi augum, og vonaðist eftir jákvæðum viðbrögðum.„verið getur að vegleg verðlaun séu í boði handa þeim, sem á einhvern hátt getur aðstoðað mig við að endurheimta hinar týndu gersemar.“ bætti hann svo við. Stúlkan sneri sér hægt við í dyrunum og leit í átt að rúmi sínu þar sem engiltárin lágu í bing á ullarteppinu. Svo vatt hún sér aftur að einhyrningnum og sagði hvatvíslega.

"Eitthvað er nú bogið við þessa sögu þína ágæti einhyrningur. Ef þú hefðir vængi eins og hesturinn Pegasus eða værir fugl eins og Fönix, gæti ég ef til vill lagt trúnað á sögu þína. Sannleikurinn er sá að í gærkveldi féllu af himni ofan, niður á flötina hérna fyrir framan, nokkrar stjörnur. Ég hef enga ástæðu til að ætla, að þær tilheyri þér frekar en mér. Þú getur hæglega hafa séð mig safna þeim saman, ágirnst þær og ákveðið að reyna að komast yfir þær með einhverju móti."

Það lá við að englinum félli allur ketill í eld. Svo undrandi varð hann yfir að vera vændur um að segja ósatt að hann stóð hvumsa um stund. Þegar stúlkan gerði sig líklega til að loka hurðinni og ljúka þar með samtalinu, áttaði hann sig og sagði með semingi.

"Ég skal viðurkenna að vissulega er hægt að líta á málavöxtu eins og þú gerir, og að þú hefur að sönnu engar sannanir fyrir því að fjársjóðurinn á rúminu þínu sé með réttu mín eign. En sé það næg sönnun, að þínu mati, að ég geti flogið, sé ég ekkert því til fyrirstöðu að ég haldi fyrir þig smá flugsýningu."

Einhyrningar geta ekki flogið“, svaraði stúlkan um hæl.

"Vertu ekki svona viss um það stúlka góð“ sagði einhyrningurinn og byrsti sig. Í sannleika undraðist hann hversu kotroskin og framhleypin stúlkan var.„Ég get auðveldlega sannað að ég get flogið, en það vekur furðu mína að ung stúlka eins og þú, og að því er virðist reynslulítil, skulir dirfast að standa upp í hárinu á jafn merkilegu fyrirbæri og ég er. Einhyrningar eru nefnilega ákaflega sjaldséðar skepnur og einstakar af allri gerð. Væri því ekki tilhlýðilegt að lítil stúlka, sem sér og ræðir við einhyrning í fyrsta sinn, sýndi honum og erindi hans, meiri virðingu en raun ber vitni?“ Engillinn var að vonast eftir að vekja með stúlkunni vitund um hversu sérstæðar aðstæðurnar væru og hún yrði þar af leiðandi hógværari í samskiptum sínum við hann. En sú litla lét sér fátt um finnast og svaraði fullum hálsi;

"Þú sagðir að þú gætir flogið og ef þú getu það skulum við ræða málin, annars eru frekari umræður tilgangslausar."

Engillinn gerði sér grein fyrir að frekari undanfærslur voru gagnslausar. Þetta var ekkert venjulegt stúlkubarn sem hann átti í útistöðum við. Hann efaðist stórlega um að þó hann flygi fyrir hana, myndi hún trúa sögu hans. Hér þurfti eitthvað meira að koma til. Hann sté nokkur skref aftur á bak og sagði;

"Horfðu nú á og taktu vel eftir því sem þú sérð“.

Á örfáum augnablikum tók engillinn á sig fjölmargar myndir. Hann ummyndaðist fyrst í hinn vængjaða Pegasus, síðan fuglinn Fönix, þá í risavaxinn svan, á eftir fylgdi hans eigin raunverulega engilmynd, silfurlitaður dreki, Svinx og fuglmenni af ýmsu tagi. Loks breytti hann sér aftur í mynd einhyrningsins og stóð að því búnu hljóður og reyndi að lesa úr svip stúlkunnar áhrif stórkostlegra sjónhverfinga sinna. En úr honum varð ekkert ráðið. "Ein af þessum myndum sem ég sýndi þér er mín sanna mynd, en allar gátu ímyndirnar flogið, svo að um þá getu mína þarftu ekki lengur að efast“mælti einhyrningurinn. Stúlkan kinkaði kolli, opnaði dyrnar upp á gátt og sagði;

"Ég held það sé best að svo komnu máli, að þú komir inn, hver sem þú ert. Þetta var sannarlega tilkomumikil sýning hjá þér og sannfærði mig um að hugsanlega geti steinarnir fögru verið þín eign.“

Einhyrningurinn þáði boðið samstundis og brokkaði inn í turninn. Stúkan lokaði dyrunum að baki honum, settist svo við borðið með kaupmanns svip og sagði;"Því miður á ég ekkert matarkyns í kotinu til að bjóða þér, svo við getum snúið okkur beint að efninu. Þú minntist á að fundarlaun væru í boði handa þeim sem aðstoðaði þig við að endurheimta gersemarnar.“

Já fyrir alla muni, ljúkum þessu af sem fyrst. Eins og þig sjálfsagt grunar eftir að hafa séð hversu ég er megnugur, er ekki ómögulegt að ég gæti orðið við einhverri ósk þinni. Lát oss því heyra hvers þú óskar þér að launum fyrir fjársjóðinn. “ svaraði einhyrningurinn.

"Eitt er það sem ég ágirnist og þrái öðru fremur. En svo þú skiljir fullkomlega hvað ég fer fram á, og hvers vegna, verður þú að hlýða á sögu mína.“ sagði stúlkan.

Þetta samþykkti einhyrningurinn umyrðalaust því hann var forvitinn mjög um hagi þessarar undarlegu stúlku. Hann lagðist á gólfið og bjó sig undir að hlusta, og hún hóf frásögn sína.            

"Fljótlega eftir að ég fæddist, varð foreldrum mínum ljóst að þau höfðu eignast harla óvenjulegt barn. Faðir minnvar skósmiður og móðir mín saumakona en þau bjuggu í litlu sjávarþorpi og lifðu eins og milljónir annarra, venjulegu, og frá sjónarhóli mennta- og aðalstéttanna sem stjórnuðu landinu, ákaflega ómerkilegu lífi. Móðir mín tók þegar eftir því að þrátt fyrir að ég hafnaði alfarið móðurmjólkinni og fengist ekki til að neyta annarrar fæðu, óx ég og dafnaði eins og önnur börn. Fyrst í stað, reyndi hún samt að þröngva ofan í mig mat af ótta við að ég dæi úr hugnir. Þegar henni varð ljóst að fæðuleysið hafði engin áhrif á vöxt minnog viðgang, hætti hún öllum tilraunum til að halda að mér fæðu. Sjálf fann ég aldrei fyrir hungri, en fannst ég verða þróttlaus ef sólar naut ekki við í langan tíma. Smá saman fékk ég vissu fyrir því að ég nam alla þá næringu sem ég þurfti, beint úr sólarljósinu. Vel má vera að ég hefði getað átt álíka ævi og önnur börn á mínu reki, ef ekki hefði önnur og öllu einkennilegri sérkenni komið í ljós í fari mínu, eftir því sem ég varð eldri. Eins og hálfs árs var ég orðin altalandi, ekki aðeins á móðurmálið heldur einnig fjórtán önnur tungumál. Að sjálfsögðu var ég læs og skrifandi á þau öll. Tónlist og aðrar listgreinar lágu það vel fyrir mér, að fljótlega urðu þær í mínum augum barnalegar dægradvalir og leikir. Hugur minnog atgervi var slíkt að ég útheimti stöðugt erfiðari viðfangsefni til að kljást við og var á þeim sviðum algerlega óseðjandi. Þegar ég var aðeins fimm ára, og ég orðin alkunn fyrir ýmis afrek á sviðum lista og vísinda um gjörvallan heim, bættist við afburðargetu mína sá eiginleiki að geta séð fyrir óorðna atburði. Fyrst birtustu þeir mér í draumum, en síðar líkt og þeir lifðu fyrir augu mín. Samhliða þeirri þróun, hvarf þörfin til að sofa, jafnvel hvílast, því ég virtist ætíð hafa næga orku til alls. Afleiðing alls þessa var að dagar og nætur urðu samfella ómerkilegra atburða og leiðindi tóku að sækja að mér. Brátt var svo komið að ég þoldi illa við með öðru fólki. Mér fannst það allt vera heimskt og klunnalegt, ómenntað og gróft. Jafnvel færustu vísindamenn og hugsuðir stóðu mér engan veginn snúning og urðu sér að atlægi í návist minni. Ég fór að fyrirlíta allt samferðafólk mitt. Allan ófullkomleika þess, heimsku og galla. Auðvitað vakti afstaða mín og viðhorf, andúð fólks á sjálfri mér sem jókst í samræmi við  getu mína til að sýna fram á yfirburði mína á öllum sviðum. Ég var hötuð og forsmáð, fyrirlitin og öfunduð. Jafnvel foreldrar mínir sem lengst allra sýndu mér ást og alúð, misstu þolinmæðina, gáfu mér þennan klæðnað og vísuðu mér á brott. Um tíma þvældist ég um eiminn og þegar ég náði tíunda aldursári var ástandið orðið algerlega óviðunandi, því ég óttaðist stöðugt um líf mitt. Stærilætisleg framkoma mín og óbilgirni höfðu aflað mér margra óvina og sumir töldu mig réttdræpa ófreskju. Aðeins forsjálni mín forðaði mér frá að verða óvinum mínum að bráð. Að auki við þá eiginleika sem ég hef þegar upp talið, bættist við aðlaðandi útlit og fríðleiki. Hvar sem ég fór vakti ég óskipta athygli. Jafnvel þar sem enginn þekkti mig í sjón, þó þeir hefðu eflaust heyrt mín getið. Þegar hér er komið við sögu, rann það upp fyrir mér hversu gáfur mínar og vitsmunalegir burðir voru í miklu ósamræmi við siðferðilegt atgervi og andlega þroska minn. Ég hafði vissulega reynt að tileinka mér þær dyggðir sem nægt hefðu venjulegri mannveru til að komast í gegnum lífið án stöðugra árekstra við með bræður sína. Afburða manneskju eins og mér, nægðu þær ekki. Sú var í raun ástæðan fyrir því hversu illa mér gekk að lynda við venjulegt fólk og andúð þess var svo rík í minngarð. Ég ákvað að hverfa úr samfélagi manna, draga mig í hlé og freista þess í einrúmi að ráða bót á vandamáli mínu. Ég leitaði uppi þennan afskekkta og óbyggða dal og með aðsetur í þessum forna varðturni hóf að iðka íhugun og sjálfsaga, sem ef til vill yrði til þess að ég sæi mér fært um síðir, að snúa aftur til samfélags manna. Hér hef ég dvalist í því næst tvö ár og stundað hinar andlegu íþróttir af kostgæfni og kappi, án teljandi árangurs, verð ég samt að segja. Þú ágæti einhyrningur, eða hvað sem þú í reyndinni kannt að vera, ert fyrsta veran, fyrir utan fugla og dýr, sem ég hef heyrt eða séð í allan þann tíma. nú þegar þú hefur heyrt sögu mína og veist hvernig í öllu liggur, get ég vel viðurkennt fyrir þér, að mér kom aldrei til hugar að þessir fögru steinar sem duttu af himnum í gærkveldi væru stjörnur. Um gerð þeirra get ég samt ekkert fullyrt þó ég hafi brotið um þá heilann í alla nótt. Þeir líta út eins og tár einhverrar himneskrar veru. En þarna liggja þeir og þú getur tekið þá með þér, ef þú getur uppfyllt ósk mína. Ég leyfi sjálfri mér að efast um að þú getir það, þrátt fyrir að þú hafir sannað að þú ráðir yfir umtalsverðum hæfileikum. Þú sannaðir samt ekki að þú getir framkvæmt eitthvað sem aðeins máttarvöld ofar mínum skilningi kunna að geta. Það sem ég sækist eftir er fullkomnun og það sem mig skortir til að geta talist fullkomin er eilíft líf. Ósk mín er sú að þú sjáir svo um, að ég hljóti eilíft líf".

Einhyrningurinn sem legið hafði tiltölulega rólegur og hlustað, varð svo mikið um orð stúlkunnar að hann stökk nú á fætur, frísandi og fnæsandi eins og hver annar stóðhestur. Hann hlaut að vera óheppnasti engill frá upphafi tíma. rétt þegar lausn vanda hans var innan seilingar, og stúkan búin að samþykkja að skila honum tárunum aftur, hvers eðlis hún hafði komist svo óþægilega nærri að uppgötva, bað hún um að launum nákvæmlega það sem hann hafði verið að reyna að afstýra að hún fengi. Hann var kominn í sjálfheldu sem ekki yrði auðvelt að sleppa úr. Honum leist svo á þess stúlku, að ekki mundi ganga að bjóða henni eitthvað annað. En hvernig gat hann veitt henni eilíft líf á jörðinni. Jörðin var aðeins byrjunarreitur, ekki endastöð, og að vera dæmdur til eilífrar jarðvistar, var eins og að vera getin, og svo skikkaður til að fæðast aldrei og verða að eyða öllu lífi sínu innan takmarka móðurlífsins. Það mátti sannarlega ekki vera hlutskipti nokkurrar manneskju, þrátt fyrir að hún óskaði þess sjálf. Á meðan hugur engilsins leitaði lausna með leifturhraða í öllum viskubrunnum alheimsins og ráðfærði sig við ótal véfréttir og vættir á nokkrum augnablikum, beið stúlkan óþolinmóð eftir svari.

Svo laust svarinu niður í huga hans með slíku afli, að hann var viss um að sjálft almættið hafði skorist í leikinn. Lausnin var svo augljós að hann hálf skammaðist sín fyrir að finna hana ekki strax. Stúlkan hafði beðið um eilíft líf, og eilíft líf skyldi hún fá. Eilíft líf eins og allir aðrir menn áttu í vændum, en ekki eins og tárin gátu gefið. Eilíft líf sem komið undir ræktun andlegra dyggða og eiginleika sem nýtast mundi í samskiptum hennar við aðra menn. Vissulega mundi ýmislegt í fari stúlkunnar breytast. Ef hann gerði stúkunni mögulegt að öðlast eilíft líf, mundi hún missa alla þá yfirburði sem hún hafði haft yfir aðrar mannverur, og verða að venjulegri tólf ára stúlku.

"Samþykkt“ hrópaði hann svo að bergmálaði í turninum.Samþykkt, samþykkt, samþykkt. Eilíft líf er þér hér með veitt, ásamt öllum þeim eigindum sem þú þarf á að halda til að þú getir gert það að hamingjuríku lífi. Lánaðu mér nú svuntuna þína til að bera í fjársjóðinn minn og ég geti haft mig á brott. Engillinn var svo ánægður með þessi málalok að hann langaði til að dansa. Stúlkan virtist líka vera hæst ánægð með kaupin, því hún hló svo að spékopparnir í kinnum hennar dýpkuðu um helming. stúlka og einhurningur"Ég hef eignast eilíft líf, eilíft líf, eilíft líf.“ sönglaði hún um leið og hún sópaði engiltárunum saman í svuntu sína, batt hana saman á hornunum og smeygði henni upp á gullið horn einhyrningsins.„Vertu blessaður ágæti einhyrningur, eða hvað sem þú raunverulega ert, og þakka þér kærlega fyrir,“sagði hún svo og opnaði dyrnar og hleypti einhyrningnum út. Í þann mund brutust fyrstu geislar morgunsólarinnar upp yfir fjöllin og fyllti dalinn af sólstöfum."Ég sé enga ástæðu til að dveljast lengur á þessum stað“, sagði stúlkan allt í einu,„og það er langur vegur til byggða. Má ég ekki sitja á baki þínu þar til leiðir skiljast, svona í kaupbæti, ágæti einhyrningur?“"Hoppaðu þá á bak og ég skal reiða þig út úr dalnum, en þá verð ég líka að snúa aftur,“ svaraði einhyrningurinn. Stúlkan stökk á bak honum umyrðalaust og saman héldu þau út eftir dalnum, og skildu eftir sig slóð í morgundögginni. Ég er svo hræðilega svöng, hugsaði litla stúlkan um leið og hún teygði sig í stórt rautt epli, sem óx á voldugri eik á leið þeirra. Það er einkennileg tilfinning að vera svöng“ sagði hún um leið og hún beit í eplið og hottaði á einhyrninginn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: ...

Hvort sem að þú trúir því eða ekki þá las ég alla söguna, hún er frábær eins og allt sem að þú lætur frá þér fara. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, haltu áfram að gefa okkur sögur og frásagnir, í þessu svartnætti sem að nú ríkir hér á okkar ísaköldu landi því okkur veitir ekki af því að fá svolitla uppörfun eins og ástandið er hér í dag

Kv. Kristján 

..., 8.11.2008 kl. 03:49

2 identicon

Takk fyrir þetta Svanur, frábær lesning með morgunkaffinu :)

kær kveðja

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 09:40

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Takk Svanur!

Ég sendi þér tölvupóst, vonandi sérðu þér fært um þetta.

Greta Björg Úlfsdóttir, 8.11.2008 kl. 14:04

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Yndisleg saga.  Ætla að prenta hana út og lesa fyrir nöfnu mína.

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.11.2008 kl. 23:01

5 Smámynd: egvania

Þakka þér fyrir fallega sögu Svanur, vonandi áttu góða helgi.

Ásgerður

egvania, 8.11.2008 kl. 23:16

6 identicon

Takk fyrir lesninguna Svanur. Er búinn að njóta síðu þinnar svo lengi að ég ákvað að þakka fyrir mig. Já las alla söguna og fannst hún fín. Endilega haltu áfram að veita úr viskubrunni þínum.

ScorpionIs (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 02:37

7 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þakka kærlega innlit og athugasemdir.

Svanur Gísli Þorkelsson, 11.11.2008 kl. 00:23

8 identicon

Góð saga, hlaðin merkingu. Takk fyrir.

Björg (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 17:53

9 Smámynd: Nexa

Jeminn - þessa les ég fyrir börnin mín næstu kvöld.

Takk fyrir æðislega pistla - ég prenta alltaf út nýja pistla og tek með mér í lestarferðina heim úr vinnunni.

Nexa, 12.11.2008 kl. 10:13

10 identicon

Takk!!

Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband