29.10.2008 | 20:37
Aðfangadagskvöld allra heilagra messu.
Senn líður að messu allra heilagra sem haldin er samkvæmt hefðum þann 1. Nóvember og í kjölfar hennar; "Allra sálna hátíðin" sem er haldinn 2. Nóvember.
Aðfangadagskvöld allra heilagra hátíðarinnar sem haldin er 31. Október er að sjálfsögðu betur þekkt undir ameríska nafninu Halloween.
Bæði messa Allra heilagra og Dagur allra sálna eru kaþólskir helgidagar, en aðfangadaginn ber upp á hátíð sem á rætur sínar að rekja alla leið aftur til forn Kelta og nefndist þá Samhain hátíðin. Samhain (trúlega samstofna íslenska orðinu "sumar") var lokadagur sumars þar sem tvær megin árstíðirnar vetur og sumar mætast.
Það var Gregory IV páfi (827-844) sem flutti dag Allra heilagra, sem var sameiginlegur dagur allra dýrlinga sem ekki áttu sér þegar sérstakan dag, frá 13 Maí til 1. Nóvember og hafði þá líklega í huga að velja dag sem ekki var helgidagur fyrir eins 13. Maí sem var forn Rómverskur helgidagur kenndur við Lúmeríuhátíðina.
Aðfangadagskvöld allra heilagra messu (Halloween) sem hefur til skamms tíma verið kallað á íslensku "Hrekkjavaka" svipar mikið til Jónsmessunætur og þrettánda dags jóla. Sem kunnugt er er það sá tími þegar álfar og huldfólk og aðrar vættir eru á sveimi öðrum tímum fremur og menn eru líklegri til að sjá þær og hafa við þær samskipti.
Á "hrekkjavökunni" eru draugar og yfirnáttúrulegar verur sagðar á ferð og mörk þess sem er raunverulegt og óraunverulegt færast úr stað. Haldið er upp á kvöldið í Bandaríkjunum, Kanada, Írlandi, Puerto Rico, Japan, Nýja Sjálandi, Bretlandi og sumstaðar í Ástralíu. Í Svíþjóð er Allraheilagra messa haldin hátíðleg fyrsta laugardag í Nóvember.
Í Bandaríkjunum ber Hrekkjavökuna upp á svipaðan tíma og grasker verða fullþroska. Úr þeim er gjarnan gert ljósker og skrumskælt andlit skorið út úr kerinu. Þá er einnig siður barna að klæðast grímubúningum og fara hús úr húsi til að snýkja sér sælgæti.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:41 | Facebook
Athugasemdir
Það hræðir mig stundum hvað þú veist asskoti mikið Svanur
kv
E
Einar Ágúst (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 21:46
Fróðleg lesning eins og venjulega.
Kveðja Skattborgari.
Skattborgari, 30.10.2008 kl. 00:27
skemmtileg lesning
Hólmdís Hjartardóttir, 30.10.2008 kl. 01:17
Orðið Halloween kemur úr enskunni og stendur fyrir: Hallow eve(ning) (heilagt kvöld eða "hið frátekna kvöld").
* Rétt er að íslenska nöfn páfa, eða setja þau í sitt rétta form á latínu þegar efni er tekið úr ensku. Þannig yrði Gregory að Gregor á íslensku eða Gregorius á latínu.
Baldur Gautur Baldursson, 30.10.2008 kl. 08:09
Alltaf fróðlegt að kíkja í heimsókn. Takk fyrir góða grein
Kveðjur og heilsanir.
Rúna Guðfinnsdóttir, 30.10.2008 kl. 09:40
Sæll Baldur og takk fyrir athugasemdina;
Orðið "Halloween" er stytting frá "All Hallows' Even" og er eins og ég segi í greininni er aðfararkvöld "All Saints' Day" sem einnig er þekkt undir "All Hallows". Kvöldið sjálft er ekki heilagt heldur fær nafn sitt af deginum á eftir.
Ég hef ekki hugmynd um þetta "frátekna kvöld" sem ert að tala um og skil ekki heldur hversvegna þú vilt frekar nota latínu en engilsaxnesku eða germönsku málin við nefningu Páfa.
Svanur Gísli Þorkelsson, 30.10.2008 kl. 09:55
Páfinn þetta...páfinn hitt....maður teflir nú bara við páfann og lætur það duga
Máni Ragnar Svansson, 30.10.2008 kl. 15:10
Takk fyrir að fræða mig um þetta.
Greta Björg Úlfsdóttir, 30.10.2008 kl. 17:43
Takk fyrir þennan fróðlega pistil Svanur. Á Íslandi er talað um "Halló vín" en sjaldnar um "Halloween"
Sigrún Jónsdóttir, 30.10.2008 kl. 17:58
Þakka innlit og athugasemdir.
Svanur Gísli Þorkelsson, 30.10.2008 kl. 19:45
Blessaður Svanur Gísli
Þar sem hið eiginlega tungumál rómversk katólsku kirkjunnar er latína, er eðlilegt að þá er við nefnum páfana með nafni, að það sé gert eftir "frummálinu" eða latínunni, en ekki öðru tungumáli. Rétt er að annað hvort að notast við nafnið eins og það er notað af páfunum sjálfum (t.d. Benedictus, Gregorius, Joannes, Pius, Paulus) eða íslenska nafnið hreinlega (Benedikt, Gregoríus, Jóhannes, Píus, Páll). Beinlínis er órökrétt að taka nafnið úr enskunni. Gregory, John, Paul hljómar illa í íslenskunni þar sem öll þessi nöfn eru jú til íslenskuð. :)
Það sem ég á við með að "frátekið kvöld" er bein þýðing úr "heilagur", en orðið heilagur merkir í raun "frátekinn" (af Guði). Kvöldið er frátekið, til undirbúnings fyrir það sem kemur. Íslenskan á orð yfir þetta: aðfangadagur. Mög lönd halda upp á aðfangadag jóla, páska, allra heilagra messu og hvítasunnu.
Bestu kveðjur, Baldur
Baldur Gautur Baldursson, 31.10.2008 kl. 07:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.