1.11.2008 | 00:50
Olmekar, frummenning Ameríku
Árið 1862 unnu starfsmenn á plantekru einni þar sem nú er Tabasco fylki í Mexíkó við að ryðja upp jarðvegi. Þeir komu niður á það sem þeir héldu að væri stór járnketill grafinn í jörð. Í von um að hafa fundið falinn fjársjóð grófu þeir áfram uns ljóst var að þarna lá risastórt tilhöggvið steinhöfuð.
Þetta var fyrsta steinhöfuðið af mörgum sem síðar fundust á svipuðum slóðum í Mexíkó og talið er að hafi verið gerð af fólki sem bjó á þessu svæði fyrir 3500 árum. Siðmenning þeirra og það sjálft er kennt við þetta svæði þ.e. OLMEK undirlendið.
Síðan hefur komið í ljós að þessi mennig er sú elsta sem fundist hefur í mið-Ameríku, forverar hinna frægu Maya og allra síðari menninga í þessum hluta Ameríku. Talið er að Olmeka menningin hafi hafist u.þ.b. 1500 árum fk. og horfið í kring um 400 fk. Þar hafa samt fundist mannvistarleifar allt að 22.000 ára gamlar. Líklegt er að Olmekar hafi blandast öðrum þjóðflokkum því menning þeirra á margt sameiginlegt með þeim sem á eftir komu.
Þykkar varir og andlitsdrættir steinhöfðanna þóttu minna mikið á Afríkunegra sem síðan varð til þess að sumir álíta að Olmekar hafi komið frá Afríku. Sú staðreynd að tungumál þeirra líkist mjög nútímamáli Mali búa og líkamsör þeirra svipar til líkamsskreytinga Yoruba þjóðarinnar í Vestur Afríku þykir renna stoðum undir þær kenningar.
Olmekar bjuggu í þremur borgum. La Venta í Tabasco (Eystri hluta landsins), sem verslaði með Kókaó, gúmmí og salt. San Lorenzo Tenochtitlan í Verakruz sem var miðdepill Olmeka siðmenningarinnar og stjórnarsetur og trúar miðstöðvar þjóðarinnar voru staðsettar. Laguna de los Cerros, var einnig í Verakruz, til vesturs. Sú borg stjórnaði hinum mikilvægu Basalt námum en Basalt var notað í millusteina, minnisvarða og styttur.
Olmekarnir hljóta að hafa haft listina í hávegum ef dæma má að þeim fjölda hellamálverka og steinhöggmyndum, jaðistyttum og munum sem fundist hafa á menningarsvæði þeirra. Dæmigerðar fyrirmyndir Olmeka voru Jagúar, hermenn með þykkar varir, karlmenn með tjúguskegg og börn. Olmekar virtust trúa því að þeir væru komnir af Jagúarköttum og þeir báru mikla virðingu fyrir dýrinu. Snákurinn var einni í hávegum hafður. Þeir fylgdu t.d. 365 daga dagatali, byggðu píramída, ræktuðu Maís og tilbáðu sömu guði frjósemi, stríðs, himins og náttúrunnar.
Sólin var einnig tengd ártrúnaðinum sem varð miklu langlífari en þjóðin sjálf og virðist hafa verið iðkuð meðal þjóða sem á eftir komu eins Zapoteka, Teotihuakana og Maya ásamt táknmálinu sem þeir fundum upp og byggingarlistinni sem þeir þróuðu. Það var ekki fyrr en að Spánverjar og kaþólska kirkjan kom til sögunnar að henni tókst að ganga af átrúnaði Olmeka dauðum.
Sum af hinum risastóru basalt höfðum hafa fundist í meira en 100 km. fjarlægð frá þeim stað sem steininn í þau var numinn. Sú staðreynd hefur valdið fornleyfafræðingum miklum heilabrotum því erfitt er að sjá hvernig hægt var að flytja höfuðin eða hráefnið í þau þetta langan veg án þess að nota til þess hjólið sem var tækniþekking sem Olmekar réðu ekki yfir þrátt fyrir að nota það við gerð leikfanga. Líklegasta skýringin þykir vera að Olmekar hafi flutt þau á flekum sem þeir drógu um ár og viðamikið síkjakerfi sem fundist hafa vísbendingar og menjar um.
Olmekar voru fyrstir þjóða til að læra að nýta sér gúmmí og hægt er að sjá á mismunandi styttum af boltaleikmönnum að boltinn var sleginn með olnbogum, mjöðmum og hnjám en að nota hendurnar var ólöglegt. Greinilegt er að þessi boltaleikur var eins og "ísknattleikur" indíána í Kanada nokkru seinna, hluti af trúariðkun Olmeka.
Það sem mér finnst menning Olmeka færa okkur heim sanninn um að fólk er ætíð tilbúið að leggja miklu meira á sig fyrir hugmyndir sem eru stærri enn mannfólkið sjálft.
Guð, guðir, eða guðdómlegir hlutir, lífið eftir dauðann og kosmísk áhrif, fá manninn til að byggja píramída, styttur og mannvirki sem hann mundi aldrei gera í nafni sjálfs síns. Til að byggja mikil manvirki þarf fjöldi fólks að sameinast um verkið. Um þetta vitnar sagan, sama hvar niður er komið í henni. Aftur á móti eru stærstu mannvirkin sem byggð eru í dag, byggð í svokölluðum "hagnýtum tilgangi" eða til dýrðar og fyrir fjármagnið.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 01:23 | Facebook
Athugasemdir
Það verður lítið grafið upp eftir okkur seinna meir en eitthvað innihaldlaust dót úr verksmiðjum, fjöldaframleitt fyrir innhaldslaust fólk, án nokkurs markmiðs, frekar en kýr á beit. Einhver hefur rænt fólkið draumnum(draumaþjófurinn). Hvernig er draumnum rænt ? Með því að beina öllum fókus fólksins að fjármagninu og táknum þess(byggingum o.s.frv), afsalar fólk sér sköpunarmætti sínum og kaupir hann svo aftur, því allir stjórnast af einstaklingshyggju. Upprunalegur sköpunarmáttur fólks fólst í sköpunargleðinni og samtakamættinum og ástinni sem tengdi það saman. Þannig gat það látið sameiginlegann draum sinn rætast í sömu menningu, með því einfaldlega að búa hana til, en núna eru listamenn eitthvað sérfyrirbrigði, aðskildir frá öðrum stéttum og sérhæfa sig í furðulegheitum og sérvisku, einhverju einkaafbrigði af veruleikanum sem þeir einir skilja og þeir sem þá skilja. Ég er sérstaklega að meina myndlistina. Alþýðumenning er hrópuð niður af uppskrúfuðum gagnrýnendaprestum, þó að í henni felist þau jarðbundnu tengsl sem draumur fólksins fæðist í. En martröðin er senn á enda, því sköpunarafl fólks er að losna úr læðingi. Sérkennilegt að íslenska orðið mara þ.e.a.s það liggur mara yfir mér(og martröð), hefur sömu merkingu í Búddisma, þar þýðir orðið svipað....það sem hindrar mann að vakna
Máni Ragnar Svansson, 1.11.2008 kl. 02:29
Það er nú eitt og annað brallað í byggingar- og skreytilist í dag, hvort sem það er til dýrðar mammons, öðrum skurðgoðum eða Guði almáttugum.
Á annarri bloggsíðu má finna þessa grein (sjá slóð hér að neðan)
"Fálkaborg undranna.... Nú á að fara að byggja borg sem inniheldur Pýramídana í Gísa, Eiffelturninn, miðborg Feneyja, skakka turninn í Písa, Kínamúrinn og fleira í fullri stærð og rúmlega það. Þessi borg mun slá Las Vegas út. Og gettu hvar hún á að vera ... Dubai! " http://www.vefjakrot.is/smidjaskaparans/dubai/
Þegar menn fara að grafa upp fornminjar 20.000 ár héðan í frá og finna minjar um veru okkar hér ... geta menn auðvitað lesið eitt og annað um hegðun okkar, lífskjör og gildi. Hvort þeir geta sér rétt til um það sem í gangi var - er auðvitað annað mál. Sama er um það sem við getum okkur til um það sem á undan er gengið. Eitt er þó víst að innan um byggingar Mammoni til dýrðar eða aðrar hagnýtar byggingar - munu finnast listmunir og mannvirki sem sköpuð voru Guði og eilífu lífi eða andlegu lífi til dýrðar, hvort sem menn átta sig á því eður ei, þegar þar að kemur. T.d. hin dýðrlegu verk Bahaía í Ísrael, allar moskurnar, allar kirkjurnar og fullt af himneskum skúlptúr sem til er út um allt. Að öðru leyti góð pæling - en bara soldið föst í naflanum.
skrudda (IP-tala skráð) 1.11.2008 kl. 11:22
Góðar pælingar drengir.
"Hagvöxtur" er guð samtímans; eina raunverulega markmið samfélagsins.
mbk,
Kristinn Theódórsson, 1.11.2008 kl. 11:22
Takk kærlega fyrir þennan fróðleik.
Jenný Anna Baldursdóttir, 1.11.2008 kl. 14:33
skemmtileg lesning
Hólmdís Hjartardóttir, 1.11.2008 kl. 16:47
Ég þakka Mána Ragnari fína útleggingu frá greininni og skruddu góða athugasemd. Ég tek reyndar undir orð Kristins líka.
Takk fyrir innlitið Jenný og Hólmdís.
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.11.2008 kl. 18:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.