Illar og alræmdar konur

evil_womanÞegar upp skal telja helstu varmenni sögunnar vefst fáum tunga um tönn. Flestir sem komnir eru til vits og ára geta þulið upp í einni hendingu talverðan fjölda illmenna alveg aftan úr grárri forneskju. Einhvern veginn hefur nöfnum þeirra verið haldið til haga, þótt þau eflaust ætti betur skilið að vera tínd og tröllum gefin að eilífu. Öðru máli gegnir um kvennmenn. Þrátt fyrir að konan hafi lengst af í kristnum menningarsamfélögum verið sökuð um að hafa komið syndinni í heiminn, eru syndir karlmannsins svo yfirþyrmandi að þær skyggja greinilega á illsku konunnar.

Ég er ekki viss um að meðaljóninn geti nefnt án umhugsunar nema eina eða tvær illar konur sem eitthvað hvað að í mannkynssögunni. Á þessu vil ég ráða bót, ef ekki nema til þess að sanna að illar kvensur hafa verið og eru til og að oft leynist flagð undir fögru skinni.

Ég ætla ekki að eltast við þekkta raðmorðingja og sinnissjúkar konur á borð við Myru Hindley, Beverley Gail Allit, Belle GunnessMary Ann Cotton og Katherine Knight. Ég ætla líka að sleppa að þessu sinni Irmu Grese og  Ilse Koch sem báðar voru afurð helstefnu Nasista.

Hér kemur hins vegar stuttur listi yfir konur sem á síðustu öld beittu illsku sinni á almenning í skjóli persónulegra valda eða pólitískra áhrifa maka sinna.

Frú Mao

LanPing

Fjórða kona Maos formanns var kvikmyndaleikkonan Jiang Qing sem varð kunn undir nafninu Lan Ping. Það er ekki ofsögum sagt að hún hafi orðið hataðasta konan í Kína á árum kínversku menningarbyltingarinnar. Almannarómur sagði að hún hefði rutt pólitískum andstæðingum miskunnarlaust úr vegi og að auki látið aflífa leikkonur sem hún taldi að ógnaði leikferli sínum. Í réttarhöldunum sem haldin voru yfir henni og fjórmenningaklíkunni árið 1981, sem reyndi að ná völdum í Kína eftir dauða Maos 1976 sagði hún; "Ég var hinn óði  hundur Maos. Hvern þann sem hann bað mig um að bíta, beit ég."  Jiang Qing var fangelsuð og lést í fangelsi 1991. 

Frú Marcos

marcos_wideweb__430x326

Imelda Marcos er frægust fyrir að hafa sankað að sér yfir 3000 pörum af skóm á valdatíma bónda hennar sem forseta á Filippseyjum. Hún átti líka 6 milljónir punda virði af skartgripum og fjölmargar húseignir. Að auki voru hjónin sökuð um að hafa rænt 2,6 milljörðum punda úr fjárhirslum ríkisins. Marcos var rekin frá völdum 1986 og lést þremur árum síðar. Imelda býr nú í villu í Manilla og skreytir sig með skartgripum úr endurunnu plasti. Hún var dæmd til að greiða milljónir dollara í bætur fyrir mannréttindabrot sín á þegnum landsins á meðan maður hennar var við völd.

Frú Mugabe

happppy_robert_and_grace_mugabe1

Grace, heitir eiginkona Mugabe forseta Zimbabwe sem er eitt fátækasta land Afríku. Hún er þekkt fyrir að vera allt annað en sparneytin og eyddi nýlega  £200 milljónum punda í eldsneyti fyrir einkaþotuna sína þegar hún skrapp í verslunarleiðangur til helstu borga Evrópu.  Þegar hún var spurð að því hvernig hún réttlætti þessa eyðslu þegar að land hennar stæði á barmi hungursneyðar og óðaverðbólga geisaði í landinu, svaraði hún; "Ég er með mjög granna fætur og ég klæðist aðeins Ferragamo." Þegar hún hitti  Mugabe fyrst var hún gift öðrum manni og Mugabe sjálfur, sem er 40 árum eldri en hún, var einnig kvæntur fyrstu konu sinni Sally. Enginn veit hvað varð af eiginmanni Grace eða barninu sem þau áttu saman.

Frú Ceauçescu

Elena_Ceausescu

Elena, Lafði Macbeth af Rúmeníu, gegndi ýmsum tignarstöðum í komúnistaflokki  Nicolai Ceauçescu.  Hún stóð meðal annars fyrir banni á getnaðarvörnum sem varð til þess að fjöldi munaðarlausra barna í heiminum varð hvað mestur í Rúmeníu á þeim tíma. Hún neitaði einnig tilvist alnæmis sem leiddi til þess að sjúkdómurinn breiddist út í landinu óheftur og fórnalömb hans fengu enga hjúkrun. Þrátt fyrir að hafa enga menntun, var hún margheiðruð af menntstofnunum landsins og þáði af þeim ýmsar heiðursnafnbætur. Hún var tekin af lífi ásamt bónda sínum  25. Desember, 1989.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

jæja við erum líklega ekki allar jafnljúfar....

Hólmdís Hjartardóttir, 20.10.2008 kl. 02:12

2 Smámynd: Skattborgari

Skemmtileg lesning hjá þér og sýnir það vel að það eru til siðlausar konur eins og karlar.

Flestir raðmorðingjar eru hvítir karlar á aldrinum 25-45 ef ég man rétt. Sú lýsing á vel við mig.

Kær kveðja Skattborgari.

Skattborgari, 20.10.2008 kl. 02:15

3 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Nóg er nú væntanlega til af illum konum í heimi hér.  En þessar fjórar, sem þú telur sérstaklega upp, eru allar frýr enn verri manna.  Hvers konar jafnrétti er þetta ?

Gastu ekki fundir fjórar, sem voru illar af eigin völdum ?

Hildur Helga Sigurðardóttir, 20.10.2008 kl. 04:29

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Humm Hildur. Jafnrétti????

Ég sé ekki í fljótu bragði hvað jafnrétti hefur að gera með illsku þessara eiginkvenna.

Það liggur í orðum þínum að þú álítir að innræti þeirra hefði verið öðruvísi ef þær hefðu verið giftar valdalitlum mönnum. Það finnst mér ekki líkleg kenning.

Svanur Gísli Þorkelsson, 20.10.2008 kl. 11:18

5 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Ég hef nú aldrei séð annann eins langhund og bloggvinina þína....það er alveg á mörkunum að ég þori í málið. En þú skrifar svo góðan texta að ég ætla að leggja í hann.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 20.10.2008 kl. 13:41

6 identicon

Athyglisvert!

kær kveðja,

Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 16:36

7 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Allar viðhengi karlmanna? Eru ekki til sjálfstæðar vondar konur?

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 20.10.2008 kl. 17:45

8 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Á bak við grimman karl stendur grimmari kona... en karlinn varð frægur en konan gleymdist.

Óskar Þorkelsson, 20.10.2008 kl. 19:44

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Jakobína. Hér koma þrjár "sjálfstæðar" :)

Isabella I af Spáni, Elizabeth Bathory, María Bretadrottning kölluð “Bloody Mary”.

Svanur Gísli Þorkelsson, 20.10.2008 kl. 20:01

10 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Það er greinilegt að bæði Svanur og Kjartan Rafn misskilja notkun orðsins jafnrétti í kommenti mínu hér að ofan.

Hefði þurft að hafa það í gæsum til að þessar elskur skildu að hér væri um kaldhæðni að ræða.   En það er nú líka svo "ókvenleg" tilhneyging að ég skil vel að þið skulið ekki gruna prúða stúlku eins og mig um slíkt

p.s. Var ekki Katrín mikla, Rússakeisarynja, soldið "vond" líka ? Og hvað með Boediccu, Bresku stríðsdrottninguna ógurlegu.

Annars eru þetta skemmtilegar pælingar, því eins og stendur á ísskápshurðinni hjá mér: "Well behaved women rarely make history" 

Hildur Helga Sigurðardóttir, 21.10.2008 kl. 02:21

11 Smámynd: Óskar Þorkelsson

mér datt bocichea líka í hug Hildur en hætti svo við að nefna hana því hún var í hefndarleiðangri eftir dauða manns og sonar ásamt hópnauðgunum rómverja á henni og dætrum hennar.. held nefnilega að hún hafi ekki verið svo grimm í sjálfu sér... 

Óskar Þorkelsson, 21.10.2008 kl. 08:55

12 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Bodichea átti að sjálfsögðu að standa þarna :)

Óskar Þorkelsson, 21.10.2008 kl. 08:56

13 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þakka öllum fínar athugasemdir. 

Af virðingu við þá lesendur mína sem tilnefndu Katarínu miklu sem eina af fimm merkustu konum mannkynssögunnar, var ég ekki að bendla henni við þennan lista.

Bidichea var hugrökk og ákveðin kona samkvæmt þeim litlu heimildum sem til eru um hana og framdi engin illvirki önnur en þau að stjórna Englendingum í skærum við Rómverja.

Á vissan hátt kemur jafnrétti inn í þessa umræðu þótt ég viðurkenni að hafa ekki skilið notkun þess hugtaks í athugasemd Hildar. - Ég vil hins vegar benda henni á hvað varðar ísskápsspekina hennar, að ef hún skipti út orðinu "women" fyrir "men" , mundi setningin vera jafn sönn og sönnust ef á henni stæði "people".

En ég get ekki séð að það sé mikill munur á hegðun kvenna sem komist hafa í valdastöðu, orðið drottningar og keisaraynjur og karlmönnum við sömu eða svipaðar aðstæður. Það er líka vafasamt að bera okkar nútíma vestrænu mælistiku um hvað er gott og hvað er illt upp að þeim. Þess vegna nefndi ég í dæmi mínu konur sem tilheyra okkar tímum og hægt er að bera saman við okkar nútíma gildi.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.10.2008 kl. 11:37

14 identicon

Elizabet Bathory, það var sú sem baðaði sig upp ú volgu meyjarblóði, til að viðhalda unglegu útliti, ekki satt?

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 22.10.2008 kl. 21:05

15 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Rétt Guðmundur, ein af þeim verstu, enda af svipuðum slóðum og Dracula.

Svanur Gísli Þorkelsson, 22.10.2008 kl. 22:01

16 Smámynd: Skattborgari

Goðsögnin af Dracula var upphaflega til þegar einn rithöfundur heyrði af voðaverkum Vlad Tepes ef ég man rétt. Hann átti það meðal annars til þegar hann var búinn að vinna orrustu að stjaksetja hausa óvina sinna. Það hefur verið tilkomu mikil sjón að sjá þegar hann var búinn að því.

Kveðja Skattborgari.

Skattborgari, 22.10.2008 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband