Hjúkka

Sjúkrahús eins og aðrar mannlegar stofnanir hafa ekki ætíð verið til. Í byrjun níttjándu aldar voru aðeins tvö sjúkrahús starfrækt í Bandaríkjunum og árið 1973 voru þau aðeins 178. Ástæðan fyrir því að sjúkrahús voru ekki stofnsett almennt í ríkjum heims fyrr en í byrjun tuttugustu aldar, var að umönnun sjúkra var álitið í verkahring fjölskyldunnar. Hræðsla við sjúkleika ókunnugra, smit og hvers kyns líkamslýti áttu sinn þátt í að koma í veg fyrir þróun líknarstarfa á samfélagslegum grundvelli.

hospitalinteriorwebAssýríumenn og nánast allar siðmenningar í kjölfar þeirra, breiddu út þann boðskap að sjúkleiki væri refsing fyrir syndir manna sem aðeins gæti læknast með iðrun eða með göldrum. Þar af leiðandi var lítil virðing borin fyrir þeim sem reyndu að veita sjúkum líkamlega aðhlynningu og það féll venjulega í hlut ekkna, skækja eða atvinnulauss sveitafólks. Hjúkrun var oftast ekki launað starf og þeir sem hana lögðu fyrir sig gátu í besta falli búist við húsaskjóli að mat að launum og voru ávallt skilgreindir sem þjónar. Í lögum Theodusar Keisara (438 EK) var  hjúkrunarkonum bannað að sækja leikhús vegna "óskammfeilni þeirra, grófleika og ofbeldishneigðar".

Image51Stundum voru líknarstörf stunduð af þeim sem sögðu líkn vera dyggð og vildu mótmæla grimmd heimsins. Rómverska konan Fabíóla var eins slík. Hún var tvískilin og náði að sefa óhamingju sína með því að gerast kristin og setja á stofn sjúkrahús þar sem hún vann sjálf myrkrana á milli við að hjúkra hverjum þeim sem að garði bar. Annar var Basil Hinn Mikli, biskup í Caesarea (300-79 EK) sem lét byggja heilt úthverfi þar sem hann gat líknað sjúkum og hrjáðum, kysst holdsveika til að sýna þeim stuðning og sinnt þörfum þeirra. Öðru fólki þótti þetta líknarstarf vera tilraun til að snúa öllu við á annan endann. Þannig varð til þriðja ástæðan fyrir því að líkn næði að verða samfélagsleg ábyrgð, því flesta langaði alls ekki að verða píslarvottar, munkar eða nunnur, hvers sál skipti meira máli en líkaminn.

Árið 1633 var Líknarsystra-reglan stofnuð í Frakklandi sem varð að fyrirmynd góðhjartaðra kvenna sem stunduðu mannúðarstörf í Evrópu og Ameríku. - Þær bjuggu ekki í klaustrum né sóttust þær eftir heilagleika með íhugun og bænum. Þær ferðuðust um Frakkland og seinna til annarra landa og aðstoðuðu sjúka og hugguðu bæði sorgmædda og fátæka. Samt nálguðust þær starf sitt eins og af yfirbót eða sem píslarvætti.

Stofnendur þessarar líknarreglu voru undraverðir einstaklingar sem sameinuðu krafta sína í sönnum kærleika. Vincent de Paul (1581-1660) var fátækur bóndasonur sem var rænt af sjóræningjum og hnepptur í þrældóm í Túnis í a.m.k. ár þangað til honum tókst að flýja. Louise de Marillac (1591-1660) var ósligetið barn aðalsmanns sem var alin upp sem "bæði kona og maður". Hún hlaut nokkra menntun í heimsspeki og málaralist, giftist konunglegum ritara og þjáðist af þeirri hugsun að hún ætti að skilja við mann sinn og gera eitthvað þarflegra við líf sitt. - Þau trúðu bæði að hver betlari væri Kristur á jörðu og hver sjúklingur væri að upplifa krossfestingu hans. Þess vegna ætti að líkna þeim og þjóna í mikilli auðmýkt. Til að ná sannri auðmýkt ætti hjúkrunarkonan að vinna á ókunnum slóðum. "Það er nauðsynlegt að líkna ókunnugum" sögðu þau. Hamingja til handa þeim sjálfum var ekki markmið heldur að miðla hamingju og ánægju þrátt fyrir erfiðleika og mótlæti. Haft er eftir Louise að ekki hafi dagur liðið á ævi hennar án sársauka.

Allar þær væringar sem urðu á seinni tímum meðal stétta í umönnunarstörfum voru fyrir séðar af þessum tveimur dýrlingum.- Þau voru staðráðin í að koma í veg fyrir valdastreitu meðal reglusystkina sinna með því að láta þær skiptast á um að sjá um skipulagningu og neita öllum um sérréttindi og yfirráð. Fyrirmyndin að sjálflausu hjúkrunarkonunni varð þar með til.

early-nurseEn þessi fyrirmynd var ekki gallalaus. Hjúkrunarstörf voru unnin bæði af bæði körlum og konum sem önnuðust sjúklinga hvert af sínu kyni. Á sautjándu og átjándu öld varð hjúkrun að kvennastarfi eingöngu. Þetta opnaði mikla möguleika fyrir konur en með ófyrirsegjanlegum og hörmulegum tilfinningalegum afleiðingum. Fólk fór að trúa því að að konur einar gætu sinnt hjúkrunarstörfum og að slík störf væru sambærileg við húsmóðurstörf sem auðvitað voru á endanum háð yfirvaldi karlmannsins.

Yfirmaður skurðdeildarinnar við Sjúkrahúsið í New York lét fara frá sér þá yfirlýsingu árið 1860 að; "karlmenn, þótt þeir séu öllum kostum gæddir, geta ekki komið á móts við þarfir hinna sjúku. Þeir hafa ekki tilfinningu fyrir því sem með þarf". Álitið var að konur einar réðu yfir þeirri næmni sem þurfti til að hjúkra sjúkum á fullnægjandi hátt.

Á liðnum öldum heyrði það til undantekninga að læknar störfuðu við sjúkrahús, enda voru þau að mestu geymslur fyrir fátæklinga. Starf hjúkrunarkvenna var að mestu fólgið í að gefa sjúklingunum að borða, enda var það hungrið sem hrjáði fátæklingana mest.  Seint á átjándu öld mótmæltu læknar því að besta leiðin til að lækna sjúka væri alltaf að gefa þeim sem mest að borða og hófu að taka stjórn sjúkrahúsa í sínar hendur. Þeir umbreyttu sjúkrahúsunum smám saman í rannsóknastofnanir þar sem beitt var tæknilegum lausnum til lækninga sjúkdóma í stað þess að einblína á andlega heilsu sjúklingsins. Loks fór svo að sjúkrahús urðu að vísindastofnunum sem hægt var að reka á fjárhagslegum grundvelli og þar með náði tæknin og virðingarsessinn yfirhöndinni. Líknin hvarf ekki en varð að undirsáta framleiðninnar.

Florence Nightingale sagði eitt sinn; "Ég hlakka til þegar öll sjúkrahús verða aflögð". Hún var talsmaður þess að hjúkrun færi fram á heimilum og varaði við því að hjúkrunarkonur myndu verða harðbrjósta af of mikilli læknisfræði. "Þú getur ekki orðið góð hjúkrunarkona án þess að vera góð kona" sagði hún.

Í dag, þegar heimurinn dáist að hjúkrunarfólki hvar sem það er að störfum í heiminum er það undarvert að þeim er gert erfiðara fyrir en nokkru sinni fyrr að stunda starf sitt með ánægju.  Óánægja hjúkrunarfólks er meira en sambærilegar menntastétta. Ástæðan er ekki endilega lágt kaup, sem er samt staðreynd, heldur að því finnst það vera hindrað í að gefa sjúklingum þá umönnun sem það telur sæmilega og sá mikli ágreiningur sem er á milli gilda heilbrigðikerfisins og þeirra. Samhliða þessum ágreiningi þarf fólk í umönnunarstörfum að takast á við streituna sem skapast af því að halda stöðugt utan við umræðuna því sem viðkemur kynlífi, úrgangi og dauða sjúklinga, allt mál sem enn eru tabú meðal almennings.

Heimildir;

An Intimate history of Humanity Theodore Zeldin

A History of Civilizations Fernand Braudel

Society Sketches in the XVlllth Century Norman Pearson

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

pistillinn gladdi mitt litla hjúkkuhjarta..........en því miður eymir eftir að því að það þurfi ekki að borga fyrir þessi störf.

Hólmdís Hjartardóttir, 9.9.2008 kl. 01:58

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Hólmdís það gerir það og þess vegna tók ég þetta saman til að skoða hvers vegna í sögulegu samhengi .

Svanur Gísli Þorkelsson, 9.9.2008 kl. 08:48

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Fróðlegur pistill.  Það má læra margt af sögunni.  Takk fyrir.

Svanur Sigurbjörnsson, 9.9.2008 kl. 11:57

4 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Sæll Svanur,

það eimir enn þann dag í dag eftir af þessum gömlu hugmyndum, þekki hugmyndir um að börn með fötlun séu refsing guðs því foreldrar séu sekir um syndir. Lengi vel var t.d. talið að einhverfa væri tilkomin vegna tilfinningakulda foreldra! Ótrúlega lífsseigt.

Rut Sumarliðadóttir, 9.9.2008 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband