2.9.2008 | 21:39
Sagan af Antony Payne; risanum gæfa frá Cornwall
Þegar að Antony Payne var tuttugu og eins árs var hann sjö fet og tveir þumlungar á hæð. Faðir hans var bóndi og kom sveininum í vist hjá óðalsbóndanum Sir Beville Granville frá Stowe. Vistin átti vel við Antony og hann óx tvo þumlunga í viðbót.
Þrátt fyrir stærð (2.27m), var Antony hinn liprasti maður og allir sem kynntust honum undruðust styrk hans og snögg viðbrögð. Hann var ekki luralegur í útliti og samsvaraði sér vel á allan hátt. Ekki skemmdi það fyrir að Antony var gáfaður og skapgóður.
Saga ein er oft sögð sem lýsir vel styrk Antony. Einn kaldan aðfangadag jóla, var drengur einn ásamt asna sendur frá óðalinu til skógar og átti hann að höggva í eldinn. Drengnum tafðist ferðin og þegar hann skilaði sér ekki eftir eðlilegan tíma, var Antony sendur til að leita hans. Antony fann drenginn þar sem hann stumraði yfir asnanum sem sat fastur með byrðarnar í for. Til að spara tíma, tók Antony asnan með byrðum sínum á axlirnar og bar hvorutveggja heim, en drengurinn hljóp við fót við hlið hans.
Þegar að stríð braust út á milli þings og Charles l konungs, árið 1642 studdi óðalsbóndinn Sir Beville konung og Payne sem var líka konungssinni gerðist lífvörður hans. Dag einn bárust þær fréttir að herlið undir stjórn þing-sinnans Stamfords Lávarðar, nálgaðist bæinn. Valdir menn með Payne í fararbroddi voru sendir til að mæta liðinu. Orrustunni lauk með því að lið Stamfords var hrakið á flótta. Payne skipaði mönnum sínum að taka grafir fyrir hina föllnu og lagði svo fyrir að tíu lík skyldu vera í hverri gröf. Þegar að níu líkum hafði verið komið fyrir og mennirnir biðu eftir að Payne kæmi með þann tíunda sem hann bar á öxlum sér að gröfinni, brá svo við að maðurinn sem allir héldu að væri dauður ávarpaði Antony;
"Ekki trúi ég Hr. Payne að þú ætlir að grafa mig áður en ég er dauður?"
Án minnstu fyrirhafnar, tók Antony manninn í fangið og svaraði; "Ég segi þér það satt, gröfin var tekin fyrir tíu manns, níu eru þegar komnir í hana og þú verður að fylla í skarðið".
"En ég er ekki dauður, segi ég" maldaði maðurinn í móinn. "Ég á enn eftir nokkuð ólifað. Sýndu mér miskunn Hr. Payne og flýttu ekki för minni í jörðina fyrir minn tíma"
"Ekki mun ég flýta för þinni" svaraði Payne. "Ég mun setja þig varlega niður í gröfina og þjappa vel að þér og þá getur þú dáið þegar þér sýnist".
Auðvitað var hinn góðhjartaði Payne að gantast með skelkaðan manninn. Eftir að hann hafði lokið við að grafa hina föllnu bar hann særðan manninn til hýbýla sinna þar sem honum var hjúkrað.
Eftir að þing-uppreisninni lauk var John sonur Sir Seville skipaður yfirmaður virkisins í Plymouth af Charles ll konungi og þá fylgdi Payne honum sem atgeirsberi hans. Konungurinn hreifst mjög af þessum skapgóða risa og lét Godfrey Kneller mála af honum mynd. Kneller kallaði málverkið "Tryggi risinn" og er það til sýnis í dag Royal Institute of Cornwall Art Gallery.
Eftir að Payne náði eftirlaunaaldri, snéri hann aftur til Stratton þar sem hann bjó til æviloka. Þegar að koma átti líkama hans úr húsi eftir andlát hans, þurfti að rjúfa gólfið á láta hann síga í böndum sem festar voru í talíur, niður á neðri hæð hússins, þar sem hann var of þungur og of stór til að koma honum niður stigann. tugir líkburðarmanna voru fengnir til að bera feykistóra kistu hans í áföngum að Stratton kirkju þar sem hann var jarðsettur.
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Dægurmál, Menning og listir, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:54 | Facebook
Athugasemdir
Ég hefði samt ekki viljað mæta honum afbrýðissömum í skuggasundi....
Gulli litli, 2.9.2008 kl. 22:44
Gulli; Ekki ég heldur :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 2.9.2008 kl. 22:54
Áhugaverð lesning.
Kveðja Skattborgari.
Skattborgari, 2.9.2008 kl. 22:58
Ég hefði náð honum upp að nafla með alla mín 162 semtimetra! Fróðlegt sem fyrr.
Rut Sumarliðadóttir, 7.9.2008 kl. 14:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.