1.9.2008 | 18:58
Tintagel; þar sem Arþúr konungur er sagður getinn
Í Cornwall verður ekki þverfótað fyrir stöðum sem tengjast sögu Bretlands og ekki hvað síst þeirri sögu sem Bretar sjálfir eru hvað hrifnastir af, goðsögninni um Arþúr konung.
Á norðurströnd Cornwall er að finna tanga einn sem ber nafnið Tintagel. Nafnið merkir "virki" á fornu máli íbúa Cornwall. Á tanganum er að finna rústir kastala sem sagan segir að hafi verið eitt af virkjum Gorlusar hertoga af Cornwall. Hann átti fagra konu sem hét Ígerna og dvaldist hún í Tintagel. Gorlus átti í útistöðum við Úþer Rauðgamm (Pendragon) sem reyndi að brjóta undir sig England og Cornwall.
Til að ræða sættir bauð Gorlus Úþer að koma til Tintagel og gerði honum þar veislu. Þegar Úþer sér Ígernu verður hann örvita af ást. Hann brýtur í framhaldi alla friðarsamninga við Gorlus sem varðist sem hann mátti í Dimilioc, öðrum kalstala sem hann átti ekki langt frá Tinagel. Úþer kallaði til sín seiðkarlinn Merlín og biður hann um að hjálpa sér að ná fundum, ef ekki ástum Ígernar. Merlín gerir Úþer líkan Gorlusi og í því gerfi sængar hann hjá Ígerni og getur með henni frægasta son Bretlands, Aarþúr konung. Þá sömu nótt var Gorlus veginn og Úþer tók Ígernu sér fyrir konu.
Þær kastalarústir sem nú má sjá á Tintagel eru að mestu frá 1230 þegar að Ríkharður Prins af Cornwall byggði sér þarna virki. Hann byggði samt á eldri grunni sem talinn er vera frá 1141 og Reginald nokkur Jarl er sagður hafa lagt. Fornleifar nokkrar hafa fundist á staðnum, frá fimmtu öld þær elstu. Um er að ræða leirkersbrot frá Túnis og diskabrot frá Karþagó. - Árið 1998 fannst á staðnum steinhella ein og af henni mátti lesa orðið ARTONOU sem gæti verið skírskotun til Arþúrs, en orðið merkir "björn" á fornri tungu Kelta.
Niður við sjávarmál undir tanganum, er að finna hellisskúta einn og sá kenndur við Merlín. Í einni af fjölmörgum útgáfum sögunnar um Arþúr, tekur Merlín Arþúr í fóstur skömmu eftir fæðingu og felur hann um stundarsakir í þessum helli.
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Dægurmál, Menning og listir, Vefurinn | Facebook
Athugasemdir
Var ekki Pendragon (Uther) bróðir konungsins, sem studdi bróður sinn dyggilega í valdabaráttunni en konur voru hans veikleiki sem Merlin spilaði á og kom Uther og eiginkonu hertogans saman í þeim eina tilgangi að skapa Arthur?
Ég hef nefnilega skilið það þannig að allt plottið væri komið frá Merlin...
Kolbrún Hilmars, 1.9.2008 kl. 19:34
Sæl Kolbrún. Takk fyrir athugasemdina.
Það eru til margar útfærslur af þessari sögu og stundum er Merlín konungsgerðarmaðurinn og örlagavaldur alls og stundum er hann tregur þjónn Úþers og svo Arþúrs. Þá útfærslu að Úþer hafi verið konungsbróður hef ég ekki heyrt fyrr, nema í skáldsögu sem var skrifuð um 1970 og heitir The Crtistal Cave að mig minnnir.
Svanur Gísli Þorkelsson, 1.9.2008 kl. 20:57
Skemmtilegur fróðleikur og góðar sögur. Gaman væri að geta einhvern tímann komist á þessar söguslóðir.
Rúna Guðfinnsdóttir, 1.9.2008 kl. 21:06
Athyglisvert - takk fyrir.
Edda i Englandi (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 22:08
Svanur, mín söguminning segir að konungurinn Ambrosius hafi verið nefndur "the last of the Romans", og að bróðir hans Uther Pendragon hafi orðið konungur eftir að Ambrosius féll í orrustu.
Kolbrún Hilmars, 1.9.2008 kl. 22:41
PS. Mikið öfunda ég þig af verunni í Cornwall, hef sjálf aldrei komið nær en til Somerset og Wales...
Kolbrún Hilmars, 1.9.2008 kl. 22:46
Fróðlegt...
Gulli litli, 1.9.2008 kl. 22:55
Cornwall er mitt uppáhalds svæði í Bretlandi. Yndislega fallegt þarna og það er saga í hverjum hól. Ferlega ert þú heppinn Svanur að búa í einni af fallegustu borgum Englands, Bath og geta svo skroppið til Cornwall þegar þannig ber við.
Sigrún Jónsdóttir, 1.9.2008 kl. 23:55
takk
Hólmdís Hjartardóttir, 2.9.2008 kl. 00:21
Áhugaverður fróðleikur. Öfunda þig af því að vera þarna úti, stundum.... Ein af betri bókunum sem ég las sem unglingur var bókin Kristalshellirinn (The Crystal Cave) eftir Mary Stewart.
Sigga Hjólína, 2.9.2008 kl. 10:05
Mætt.
Rut Sumarliðadóttir, 2.9.2008 kl. 11:31
Ég hef lesið um að orðin Arthúr og Camelot þýða Ar-thur æðsti konungur.. high king.. Came-lot.. virki á hæð. Þetta sé það gamalt að þetta var orðið að þjóðsögnum á miðöldum enda um 1000 ár í tíma á milli..
en þjóðsögurnar eru auðvitað miklu skemmtilegri en raunveruleikinn :)
Óskar Þorkelsson, 2.9.2008 kl. 16:10
Gaman að gömlu sögnunum Erlingur hér að ofan minntist á Joseph of Arimathea, sagan segir að sá maður hafi komið til Bretlands, oftar en einu sinni í viðskiptaerindum. Joseph er sagður hafa, sem gamall maður í síðustu heimsókninni, tekið með sér The Holy Grail til Bretlands og grafið dýrgripinn þar í jörð.
Kolbrún Hilmars, 2.9.2008 kl. 20:59
Sæl öll og takk fyrir athugasemdirnar enn og aftur.
Ég held að það sé mikilvægt að greina á milli þess sem "sagnfræði" og þess sem eru greinilega goð og helgisögur. Sagan af Jósef frá Armaþeu og tengsl hans við Bretland, kaleikinn helga og fleira, eru ekki "sagnfræði" heldur goðsögn. - Sögurnar af Arþúr eru það líka og þótt einhver Arþúr eða Arþúr líkur foringi kunni að hafa verið til, eru sögurnar af honum og riddurum hans seinni tíma tilbúningur. Það tekur ekkert frá boðskap sagnanna sem slíkra, sem er sígildur.
Svanur Gísli Þorkelsson, 2.9.2008 kl. 22:10
Sæll Svanur,
Mikið öfunda ég þig að búa þarna, ég eyddi fimm dögum í Cornwall í sumar og er algjörlega heilluð af svæðinu, skokkaði einmitt upp í Tintagel-kastalann. Ótrúlega fallegt. Ef þú ert ekki búin að því nú þegar þá mæli ég með að þú skoðir nornasafnið í Boscastle.
Skemmtileg og fræðandi síða hjá þér.
Bestu kveðjur,
Árný í LÖ
ljufa (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 19:50
Takk fyrir ábendinguna Ljúfa. Galdrasafnið hefur alveg farið fram hjá mér til þessa. Kíki þangað næst:)
Bestu kveðjur,
Svanur Gísli Þorkelsson, 3.9.2008 kl. 20:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.