20.8.2008 | 19:35
Glastonbury þyrnir
Arfsögn sem fyrst er skráð á sextándu öld af ókunnum skrásetjara, segir frá ferð Jósefs af Arimaþeu, auðugum frænda Jesú, til Bretlands eftir krossfestingu frelsarans. Förin var farin í þeim erindum að boða hina nýju trú. Jósef átti göngustaf einn góðan, gerðan af þyrnitré, af sömu tegund viðar og kóróna Krists var ofin úr þá hann var krýndur af hæðnum ítölskum hermönnum fyrir krossfestinguna.
Þreyttur af langri göngu á refilstigum Bretlands, lagðist Jósef til svefns þar sem nú rís Glastonbury hæð. (Á þeim tímum var hæðin umleikin vatni á alla vegu) Hann stakk staf sínum í mjúkan svörðinn og sofnaði. Þegar hann vaknaði, hafði stafurinn tekið rætur og óx af honum mikill þyrnimeiður.
Í tímanna rás hefur þessi þyrnir vaxið við og í nágrenni Glastonbury og greinir sig frá öllum öðrum þyrnum af svipuðum ættum með að blómgast tvisvar á ári; um jól og um páska. Þyrnirinn er af algengri ætt þyrnirunna (Crataegus monogyna) sem finna má um alla Evrópu og Austurlöndum nær, en þær bera blóm aðeins einu sinni á ári.
Samkvæmt arfsögninni endurnýjaði hið upphaflega tré sig á hundrað ára fresti þar til það var höggvið af hermönnum Cromwells í bresku borgarastyrjöldinni, vegna gruns um að tréð stuðlaði að hjátrú meðal íbúa Glastonbury og Somerset-sýslu.
Einhvern veginn tókst að bjarga kvislingi af trénu og hann gróðursettur aftur í bakgarði biskupsins og þar stóð þyrnirunni af þessum sérstaka meið allt fram til ársins 1991. Það tré hafði staðið í áttatíu ár þegar það visnaði. Aftur var kviðlingum plantað af því tré og er þá nú víða að finna í Glastonbury-bæ.
Snemma varð að hefð að senda afskurð af "hinum blómstrandi heilaga þyrni" til Buckingham hallar á jólum og er þeim sið en fram haldið. Er það elsti nemandi St Johns Infants School í Glastonbury sem fær þann heiður að færa þjóðhöfðingjanum afskurðinn.
Allar tilraunir til að endursá fræjum þyrnisins hafa endað í venjulegum þyrni, (Crataegus oxyacantha praecox) þ.e. þeim sem aðeins blómstrar einu sinni á ári; að vori.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Ferðalög, Menning og listir, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Gaman að þessu. Takk fyrir, mjög áhugavert.
alva (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 23:16
Það er svo fræðandi að les þig. Takk fyrir.
Halla Rut , 20.8.2008 kl. 23:18
Merkilegt, takk fyrir þennan fróðleik.
Sigrún Jónsdóttir, 20.8.2008 kl. 23:25
Merkilegt. Vá.
Jenný Anna Baldursdóttir, 20.8.2008 kl. 23:29
Maður hverfur aftur á unglingsárin í sögutíma
Afar skemmtilegt að reka hér inn nefið og lesa hinar ýmsu frásagnir þínar.
Bestu kveðjur inn í nóttina.
Rúna Guðfinnsdóttir, 20.8.2008 kl. 23:59
Allt veit þú drengur!
rut sumarliðadóttir (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 10:32
Átti náttúrulega að vera allt veist þú drengur!
Rut Sumarliðadóttir, 21.8.2008 kl. 10:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.