18.8.2008 | 17:30
Svínin hans Bladuds
Út um allar grundir í borginni Bath getur að líta svín sem hafa verið máluð og skreytt listilega af hagleiksmönnum borgarinnar. Þau eru eitt hundrað að tölu og voru gerð til þess að minnast stofnunar Bath-borgar af konunginum Bladud sem þjóðsagan segir að hafi verið fyrstur til að reisa þar mannvirki. Hvernig svínin koma þar við sögu, getið þið lesið um hér að neðan, þar sem ég hef tekið saman helstu atriðin úr þjóðsögunni um Bladud.
Bath er sögufræg borg og þar hafa fundist mynjar um mannvistir langt aftur úr steinöld. Líklegast er þó talið að það hafi verið Rómverjar sem fyrstir ákváðu að nýta sér heitavatnslindirnar sem þar eru að finna en þeir nefndu staðinn Aquae Sulis (Vatn Sulis) . Þeir byggðu þar rómverskt bað um miðja fyrstu öld E.K. og er hluti þess enn í notkun. Þetta ku vera eini staðurinn á Bretlandseyjum þar sem heitt vatn (ca 46 gráðu heitt) seytlar upp úr jörðinni. Bretar hafa um aldir haft mikla trú á lækningarmætti vatnsins og við lindirnar var reist sjúkrahús fyrir holdsveika snemma á elleftu öld og stendur það enn. Seinna á átjándu og nítjándu öld varð Bath að helstu slæpingjaborg breska aðalsins og vinsæll dvalarstaður hóstandi skálda.
Sagan af Bladud
Eitt sinn ríkti konungur yfir Bretlandi sem hét Rud Hud Hudibras. Þetta var á þeim tímum sem konungur og ríkið voru eitt og svo lengi sem konungurinn var sterkur og heilbrigður, farnaðist landinu og íbúum þess vel. Hann átti son einn fríðan sem hét Bladud og skyldi hann erfa ríkið að föður sínum gengnum. Hudibras sendi Bladud til mennta alla leið til Grikklands þar sem hann lærði öll þau vísindi sem lærðustu menn þess tíma kunnu. Þegar hann snéri heim hafði hann í för með sér fjóra heimspekinga sem stofnuðu háskóla í Stamford í Lincolnsýslu. Á ferð sinni til baka frá Aþenu smitaðist Bladud af holdveiki. Hudibras þótti ekki tilhlýðilegt að holdsveikur maður tæki við völdum af sér og rak því Bladud í burtu og gerði hann útlægan frá hirð sinni. Niðurlægður og vafinn sóttarbindum hélt Bladud í burtu frá Lundúnum. Hann eigraði um landið en settist að lokum að í þorpinu Swainswick og gerðist svínahirðir. Swainswick er í nágrenni þeirrar borgar sem nú nefnist Bath.
Dag einn sat Baldud og gætti svínanna. Allt í einu tóku þau á rás og héldu í átt að skóglendi einu þar sem eymyrju mikla lagði upp af jörðinni. Bladud vissi að bændurnir í kring höfðu illan bifur á þessum stað og töldu illa anda vera þar á sveimi. Svínin hlupu eins óð væru beint inn í skóginn og Bladud átti þess einan kost að fylgja þeim eða tapa þeim öllum ella. Inn í skóginum lá eymyrjan yfir öllu og mikill óþefur var í loftinu. Bladud hafði samt ekki farið langt þegar hann kom að rjóðri þar sem svínahjörðin veltist um í daunillri eðju. Bladud óð út í eðjuna og streittist við að toga svínin upp úr henni og reka þau til baka.
Loks þegar öll svínin voru kominn upp úr foraðinu, var Bladud orðin svo þreyttur að hann skreið á fjórum fótum upp úr eðjunni og steinsofnaði. Þegar hann opnaði augun aftur sá hann geislandi hvítklædda veru standandi yfir sér. Bladud vissi að þetta var engin önnur en Minerva Sulis sú sem Grikkir kölluðu Aþenu. "Mundu mig þegar þú tekur við riki þínu" mælti gyðjan. Svo leystist hún upp og sameinaðist gufunni sem lagði upp af eðjunni.
Bladud sá að svaðið hafði myndast við að heitt vatn streymdi upp úr jörðinni. Bladud týndi nú af sér leppana og hugðist þvo af þeim mesta leirinn í heita vatninu en sér þá að hold hans var hvergi opið og að hann er orðinn alheill sára sinna.
Bladud vissi að nú gæti faðir sinn ekki snúið sér burtu og því héllt hann til baka til Lundúna og var þar fagnað vel. Tók Bladud við ríki föður síns eftir andlát hans og ríkti í 20 ár. Minnugur orða gyðjunnar lét hann byggja hof yfir heitavatnsuppsprettuna og tileinkaði það Mínervu Súlis. Varð hofið strax fjölsótt af þeim sem sjúkir voru og læknuðust allir við að taka inn vatnið eða baða sig í leirnum sem það rann ofaní.
Þegar að Bladud tók að eldast, fékk hann mikinn áhuga á öllu sem viðkom flugi. Taldi hann líklegt að maðurinn gæti flogið eins og fuglinn svo fremi sem það tækist að smíða vængi úr nógu léttu efni. Lét hann gera sér vængi úr ýmsum efnum og gerði nokkrar misheppnaðar tilraunir til flugs. Loks fékk hann gerða vængi úr stráum og vaxi sem hann taldi að mundu duga. Hann lét boð út ganga að hann mundi reyna vængina sjálfur á ákveðnum degi og mundi flugið hefjast á hæð einni nálægt hofinu sem hann hafði byggt fyrir Súlis. Á þessum tiltekna degi safnaðist aragrúi af fólki saman fyrir neðan hæðina og fylgdist þar með konungi sínum hlaupa af stað og baða út vængjunum sem hann hafði látið reyra við handleggi sína. Og viti menn, nákvæmlega á því augnabliki sem allir önduðu frá sér eftir að hafa haldið niður í sér andanum af eftirvæntingu, tókst Bladud á loft. Hann flaug í hringi yfir mannfjöldanum og svo tók hann stóran sveig inn yfir skóginn. Hann lét sig svífa niður að hofinu og hvarf ásjónum fólksins inn í heita gufuna sem lagði upp af því. Þegar hann kom ekki aftur út úr gufunni var farið að athuga hvort hann hefði hugsanlega lent í skóginum. Skömmu seinna fannst Bladud með bráðnaða og brotna vængi liggjandi á altarinu fyrir utan hofið með svöðusár á höfði og voru dagar hans þar með allir.
Sonur hans tók við völdum en hann hét Lér og var gerður ódauðlegur í einu verki ónefnds rithöfundar, löngu, löngu seinna.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Ferðalög, Trúmál og siðferði, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:57 | Facebook
Athugasemdir
Svanur, þú reddaðir deginum.
Takk fyrir þessa frásögn.
Jenný Anna Baldursdóttir, 18.8.2008 kl. 17:42
Jebb you did it again!
Takk fyrir fræðsluhornið, orðinn ómissandi þáttur í mínum "annasama" degi!
kveðja
Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 18:30
Frábært - takk.
Edda Agnarsdóttir, 18.8.2008 kl. 20:27
Takk fyrir mig
Sigrún Jónsdóttir, 19.8.2008 kl. 00:02
Takk fyrir þennan fróðlega pistill Svanur.
Kveðja Skattborgari.
Skattborgari, 19.8.2008 kl. 00:03
Áhugavert enn og aftur.
Aðalsteinn Baldursson, 19.8.2008 kl. 01:01
Afar áhugavert takk enn og aftur!
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 19.8.2008 kl. 23:24
Takk öll fyrir innlit og athugasemdir.
Svanur Gísli Þorkelsson, 20.8.2008 kl. 12:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.