Æskan í einum hnút

_40680730_knots_ap203bodyInkar tileinkuðu sér þá tækni að geyma sögu sína í hnútum. Þetta hnútaletur er afar torráðið og enginn skilur það í dag. Til eru mörg hnútaknippi sem geyma sögu Inkanna og bíða þess tíma að einhver snillingur höggvi á gátuna eða finni Rósettastein hnútanna. 

Æska mín er eins og hnútur. Um leið og ég losa um hann rennur sá tími upp fyrir mér eins og þræðir sem liggja í allar áttir og lokast jafn hraðan um leið og ég herði aftur að.

 

bat1bÆskan var alheimur sem stjórnað var af órjúfanlegum lögmálum og konstöntum. Lífið var hrikalega spennandi þrátt fyrir konstantanna því það var verið að þýða rit sem fundust við dauðahafið sem mundu varpa nýju ljósi á allt og þegar höfðu fundist 2000 ára leirker í Bagdad sem voru reyndar rafhlöður sem notaðar voru til að gull og silfurhúða aðra minna verðmætari málma. Að auki var svo til 1500 ára gömul risastór járnsúla í Indlandi sem ekki ryðgaði.

139365169_45a6cc4a7dÍ alheimi æskunnar hafði allt sinn tíma og allir sinn stað. Afi vann í efnalauginni, Amma í Apótekinu (aldrei skorti apótekara eða saltpillur), Mamma van heima og Pabbi í frystihúsinu. Höfnin iðaði af fiski og fólki sem var á leiðinni í Litlu eða Stóru milljón, Jökul, Atlandor, eða HF.  Eyfi var í íþróttahúsinu og heimtaði alltaf að allir tækju kalda, Búkki í musterinu sem kallað var bókasafn, Hermann var skólastjóri sem þú sást bara tvisvar á ári, við setningu og þegar hann kom í stofuna á litlu jólunum til að líta á töfluskreytinguna. Kristján skalli var kennari og Jósafat rak Kyndil þar sem leikarabúntin voru seld og grímurnar fyrir gammárskvöld.

Bubbi rak Nonna og Bubba, Hafsteinn sá um UMFK, Siggi Steindórs um KFK og Helgi S. um skátana. (Því var hvíslað að hann hefði verið Nasisti og við lágum oft í leyni að reyna sjá hann gegnum gluggana heima hjá honum marsera um gólf í Nasista-búninginum en tókst það aldrei)  

Svínó og Mánavöllur voru alltaf uppteknir, á vetrum var skautað upp á vötnum, Kiddi seldi fisk, Sölvi og Kæja í Sölvabúð, Þórður á Dorró og Bjössa og Félagsbíó voru bæði opin á hverjum degi.Heima hjá kanastrákum mátti horfa á sjónvarpið og þar var Vic Morrow úr Combat með beygluðu sígarettuna  svalastur. Næstur á eftir honum var Popeye.

Alþýðubrauðgerðin seldi maltbrauð, Amma Jóns bakaði flatkökur og Diddi bíló var almesti töffarinn. Eitt sinn kom hann inn á Dorra, klæddur rauðum gallajakka og í þröngum hvítum gallabuxum, tók upp litla skammbyssu og miðaði henni á afgreiðslustúlkuna. Einn Palmal, sagði hann skipandi. Stelpan var að míga á sig af hræðslu. Hún setti pakkann á borðið. Diddi , tók hann með annarri hendi, reif hann upp með tönnunum án þess að sleppa miðinu af stelpunni, slóg eina sígarettu upp úr pakkanum og greip hanna með öðru munvikinu. Svo hleypti hann af skammbyssunni og fram úr hlaupinu stóð loginn, sem hann notaði til að kveikja sér í sígarettunni. Hvað er það mikið spurði hann svo.

Roy-Rogers-Trigger-Photograph-C12148201

Pollarnir í bænum voru djúpir og cupachino brúnir, allstaðar risu stillansar upp við við nýbyggingar og allir voru með einhverskonar dellu. Það var leikaradellan, þar sem Bonansa serían var lengst og verðmætust og Logi Þormóðs átti hana alla , hasarblaða della, þar sem Combat blöðin ofan af velli voru vínsælust og Andrés Önd var fyrirlitin, Parísardella þar sem flugbeittum skátadálkum var kastað í stóra-parís, yfir, (stjórnað af stelpum) servéttudella sem bara stelpur höfðu, Cowboy della ala Roy, og skylmingardella ala Prins Valíant og sunddella ala Guðmundur Harðar. Hjóladella,  kassabíladella, kastaladella, trukkadella og brennudella, (saltpétur og sykur). Síðan mátti á milli áhugamálanna stelast upp á flugvélahauga eða völl til að kaupa sugardaddy sleikjóa í sjálfsölunum sem voru náttúrulega toppurinn. Grjótharður karamelluhlunkur sem sem var á við 20 haltu kjafti karamelur.

head4671d72e596e2Fótbolti var ekki della, heldur lífsmáti, þess vegna telst hann ekki með. Á sumrum var spilað frá 10 til 10. Á vetrum var teikað og farið upp á vötn að skauta. Gísli Torfa teikaði víst einu sinni Sandgerðishringinn.

En almesta dellan var hljómsveitardellan. Hún greip um sig eftir að Hljómar urðu frægir. Ég spilað lengi (a.m.k. í tvær vikur) í hljómsveit með Sigga svarta, Jóni bæjó og Bjössa á Sunnubrautinni. Við fengu að æfa, a.m.k. einu sinni á græjurnar hjá Óðmönnum niðrí Ungó og við spiluðum tvisvar opinberlega. Í fyrra sinnið í pásu hjá Bendix á balli upp í Æskulýðsheimili, og seinna hjá Ómönnum sem spiluðu á árshátíð skólans. Í hvorugt skipti tókst okkur að halda lagi en það var í góðu lagi því við vorum í hljómsveit.

Veröldin var í föstum skorðum og allt sem gat, endaði á ó.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta Gunnarsdóttir

Allt var gaman og ekki skorti hugmyndaflugið. Þetta voru frábærir tímar. Takk.

Marta Gunnarsdóttir, 17.8.2008 kl. 08:43

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

skemmtileg saga og gaman að lesa hana svona að sunnudagsmorgni með kaffibollan í hendinni :)  Takk fyrir söguna.

Óskar Þorkelsson, 17.8.2008 kl. 10:38

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Skemmtileg færsla, takk.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.8.2008 kl. 10:38

4 identicon

Sæll Svanur,

takk fyrir síðast fyrir 100 árum. Sá allt liðið fyri mér við þessa upprifjun, þetta voru margir hverjir sérstakir karakterar, manstu eftir Blakka? og Þribba? Verst að ég man svo illa nöfn en gleymi ekki andlitum. Annars les ég pistlana þína samviskusamlega og hef gott og gaman af þeim. Gangi þér vel.

rut sumarliðadóttir (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 13:52

5 identicon

Frábær pistill

ég er frá öðru bæjarfélagi og er nokrum árum yngri en samt var mín æska ljóslifandi við lesturinn 

takk 

Loki (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 19:00

6 Smámynd: Óttar Felix Hauksson

Það er einhver hlýr tónn eftirsjár í þessu. Eftirsjá eftir veröld sem var, þar sem allt var kyrrt á sínum stað og allir virtust hafa sín óbreytanlegu hlutverk. Þett er vel skrifað, myndrænt og skemmtilegt. Ég kannast við sumar myndirnar sem dregnar eru upp. Ég starfaði í eitt ár með Hljómum í Keflavík það var 1968. Ungó, Stapinn, pylsa og kók eftir ball á Aðalstöðinni hjá Stebbu og allt það.... ég elskaði Keflavík. 

Óttar Felix Hauksson, 17.8.2008 kl. 19:15

7 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Rut. Gaman að heyra frá þér aftur eftir allan þennan tíma. Kynntumst við annars ekki fyrst á Austfjörðum?

Loki, Jenný, Óskar og Marta; Takk fyrir innlit og athugasemdir.

Óttar; Ég man vel eftir þér úr Keflavík þegar þú varst að vinna fyrir Hljóma. Þú spilaðir meira að segja bolta við okkur stráka eitt sinn. Takk fyrir innlitið og athugasemdina :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 17.8.2008 kl. 20:46

8 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Yndisleg færsla Svanur.  Á hverju hausti öll mín ungdómsár kom ég siglandi til Keflavíkur með m.a. Mb. Bergvík og Mb. Hamravík eftir síldarvertíðir fyrir norðan eða austan.  Keflavík var öðruvísi.  Kanasjónvarp, sem við stálumst til að horfa á þegar Maggi Bergmann(kommanisti!) var ekki heima!.  Þarna var öðruvísi lykt (sennilega vegna flugumferðar) já og allar þessar flugvélar, sem flugu yfir ótt og títt.  Íslenskan var "sungin" með Keflvískum hreim.  Seinna voru það hljómsveitargæjarnir.  Ég fékk einu sinna að koma við gítarinn hans Gunna Þórðar, sem var í geymslu á Heiðarveginum......og varð fræg fyrir það heima í mínu litla þorpi.

Takk aftur fyrir hugljúfar endurminningar

Sigrún Jónsdóttir, 17.8.2008 kl. 21:04

9 identicon

Varst þú með á puttanum að austan eða austur man ekki hvort? Man ekki hver var með mér en við húkkuðum far með miðaldra hjónum en svo fór okkur ekki að lítast á blikuna þar sem bílstjórinn var að súpa á pela sem hann hafði milli framsætanna svo samferðamaður minn sem ég man ekki hvort varst þú, bauðst til að keyra. Það var samþykkt og bílstjórinn opnaði hurðina og valt út úr bílnum. Ég fæ enn hroll þegar ég hugsa um þessa ferð yfir fjallvegina fyrir austan.

Man ekki hvort við kynntumst fyrir austan eða hér í Kefló. Var líka fyrir austan, smá tenging í fjölskyldunni en ég var barnapía fyrir héraðslækninn á Eskifirði og átti kærasta á Norðfirði. Man hins vegar eftir þér. Sömuleiðis gaman að hitta þig hér.

rut sumarliðadóttir (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 23:15

10 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Skemmtileg færsla hjá þér Svanur, þakka þér fyrir.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 18.8.2008 kl. 01:00

11 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sigrún. Frábært að fá þetta sjónarhorn á Keflavíkina fyrir 45 árum eða svo.

Rut; Jú það var á Norðfirði, því kærastinn þinn (S) var góður kunningi minn. En þessi ferð sem þú lýsir hefur greinilega verið í anda tímans þótt ég minnist ekki að hafa farið hana.

Takk fyrir það Lilja :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 18.8.2008 kl. 09:50

12 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Skemmtilegar pælingar, sérstaklega hnútaletrið eða hárhnútarnir!

Edda Agnarsdóttir, 18.8.2008 kl. 15:51

13 identicon

Meiriháttar gaman að fara svona til baka í tíma. Takk fyrir þessa færslu

Valsól (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband