12.8.2008 | 14:57
Kraftaverkið hveiti.
Í færslu fyrir stuttu fjallaði ég stuttlega um hirðingja og hvernig sá lífsmáti býður ekki upp á miklar framfarir í mannlegu samfélagi. Til að menning mannkyns tæki verulegum framförum, þurfti að koma til varanleg búseta og aðgangur að endurnýjanlegu lífsviðurværi.
Jarðyrkja var svarið. En það lá ekki beint við að rækta korn sem gaf af sér nægjanlegt hveiti, þótt svo kunni að virðast í fljótu bragði. Til þess að svo yrði kom til furðuleg framvinda sem hægt er að kalla "náttúrulegt kraftaverk" ef það er ekki mótsögn í sjálfu sér. Hveiti eins og við þekkjum að í dag er langur vegur frá hinni upprunalega kornaxi sem menn byrjuðu að nýta sér.
Einhvern tíman eftir að Ísöld lauk náði ákveðin kornaxartegund að ryðja sér til rúms þar sem nú eru mið-austurlönd. Fundist hafa sigðar til kornskurðar gerðar úr gaselluhorni og tinnusteini allt að 10.000 ára gamlar. Þær voru notaðar til að fella þetta villta kornax (Triticum dicoccoides) en uppskeran var rýr og kornið sjálfsáð. En þá gerðist merkilegur atburður, kannski mörgum sinnum á mörgum stöðum í einu. Fjórtán litninga kornax blandaðist jurt (geitagrasi Aegilops searsii ) sem líka var með fjórtán litninga og úr varð tuttugu og átta litninga jurt, Emmer öx. (Triticum dicoccon) Emmer öxin eru mikil um sig og geta dreift sér sjálf með vindinum og eru frjó. Slíkur sambræðingur tveggja tegunda er afar óalgengur meðal planta. En saga hveitisins verður fyrst virkilega vísindaskáldsöguleg þegar að önnur tilviljun á sviði þessarar litningasambræðslu á sér stað. Emmer jurtin blandaðist annarri tegund geitargrass (Aegilops tauschii) og úr varð enn stærra krosskyn með fjörutíu og tvo litninga.
Að þetta skuli hafa gerst var afar ólíklegt í sjálfu sér og nú vitum við að brauðhveitisaxið sem varð til hefði ekki verið frjótt nema af því að til kom stökkbreyting eins litningsins í jurtinni. Sagan gerist samt enn ótrúlegri því þótt nú væri komið fallegt og stórt eyra fullt af öxum, var það of lokað og þétt til að berast með vindinumog ná að fjölga sér og breiða úr sér. Öxin féllu nákvæmlega niður á þann stað sem þau uxu á, ólíkt forverum sínum sem gátu dreift sér með vindinum. Brauðhveitið hafði misst þá eiginleika. Þess í stað þurfti það að reiða sig á manninn.
Þannig gerðist það fyrir 8000 árum að til varð samvinna milli jurtar og manns, sem fleytti honum af hjarðmannsstiginu yfir á akuryrkjustigið sem gerði borgmenningu mögulega og tryggði jurtinni um leið afkomu og leið til að fjölga sér.
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Menning og listir, Stjórnmál og samfélag, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:01 | Facebook
Athugasemdir
Að mínu mati er þetta engin "tilviljun" maður getur varla gert sér í hugarlund hvernig lífið væri ef þetta hefði ekki átt sér stað.
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 12.8.2008 kl. 18:28
Úr kjólum í hveiti.......hvert svo? Þetta er orðið spennandi :)
kveðja
Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 12.8.2008 kl. 18:32
Það er mjög margt í þróunninni sem er ótrúlega tilviljunakent. Það þarf oft ekki nema eina uppgvörun til að gjörbreyta heiminum eða hvernig þróunin verður.
Kveðja Skattborgari.
Skattborgari, 12.8.2008 kl. 20:16
Svanur: Hvað ertu að fara með þessu?
Tinni (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 10:37
Það er ótrulega merkilegt að skoða sögu mannkyns og sjá hversu samtvinnuð sagan er korn tegundum sem maðurinn hefur notað til að framfleita sér.
Aðal tegundirnar eru bygg, hrísgrjón og nátturulega hveitið sem þú talar um hér Svanur.
Það fór nátturulega eftir aðstæðum hvaða tegundir voru notaðar á hinum ýmsu landssvæðum hvar hvaða tegundir gátu vaxið við mismunandi landslag og veðráttu.
Ingó (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 11:22
afskaplega fróðlegt.. þetta hafði maður ekki hugmynd um En grasafræði er ekki mín grein...
Óskar Þorkelsson, 13.8.2008 kl. 23:49
Tinni: Þetta er auðvitað all sérstæð þróun, sem eiginlega fellur illa undir venjulegar náttúruvalskenningar. Eiginlega eins og flest sem viðkemur þróun mannsins.
Skatti og Hrafnhildur, ;) tilviljun já.
Íngó, Óskar, Undrin leynast víða ..
Svanur Gísli Þorkelsson, 14.8.2008 kl. 00:09
En er ekki þróun manna og dýra einmitt tilviljunum háð? Náttúrulegt úrval sér svo um að velja út hver af þessum tilviljunum halda áfram á þróunarbrautinni.
Darwinistar segja að Þróun allra lífvera eigi sér, í raun, ekkert markmið og enginn leið sé að vita hvert stefnir.. þetta bara gerist...
Náttúrlugt úrval sem byggir á að sá hæfasti lifi af er miskunnarlaust ferli og hræðileg tilhugsun ef mannskepnan byggði samfélög sín algerlega á slíku ferli.
Richard Dawkins hefur haldið því fram að náttúrulegt úrval hafi gefið manninum stærri heila er gerði honum kleyft að skapa samfélag er stendur utan við það ferli, að sá hæfasti eigi að lifa af. En það er ekki þar með sagt að við þróumst ekki. Darwin sjálfur velti fyrir sér af hverju stél páfuglsins hefði ekki þróast í burtu. Álitið er að mannskepnan gæti t.d. þróast eftir , ef kalla mætti, öðru "náttúrulegu ferli" svo kölluðu "sexual selection" Kannanir hafa sýnt að konur velji sér barnsfeður eftir því hvort þær álíti viðkomandi "góða" persónu... Þannig það er von fyrir mannkynið við virðumst vera að þróast í átt að betri mönnum... þá á ég við betri við hvorn annan..
Hér eru því engin kraftaverk á ferð heldur náttúrulegur drifkraftur...
Tinni (IP-tala skráð) 15.8.2008 kl. 09:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.