Bakhitara, lífið eins og það var fyrir 10.000 árum

bactiari_heardersFyrir tíu þúsund árum var fremsta menningarstig þjóða heimsins hirðingjastigið. Það sem kom þeim á það stig var tilkoma taminna húsdýra þ.e. kinda og geita. Hundurinn sem gerst hafði félagi mannsins löngu áður, kom nú í góðar þarfir við smalamennsku og gæslu hjarðarinnar. Hvernig það nákvæmlega gerðist að fólk hætti að reiða sig á það sem hægt var að veiða eða finna sér til matar og rækta þess í stað mataruppsprettuna, fer ekki sögum af. Í dag eru samt enn til fáeinir ættbálkar sem aldrei hafa yfirgefið hirðingjastigið og líf þess fólks hefur lítið breyst í  þúsundir ára. Einn slíkur ættbálkur; Bakhitara, byggir Khuzestan í norðvestur Íran. Mannfræðirannsóknir á þessum hópi fólks hefur gefið okkur innsýn inn í líf forfeðra okkar eins og það var áður en þeir hófu að yrkja jörðina og byggja borgarsamfélög.

bakhtiari4Konum er þröngur stakkur sniðinn meðal Bakhitara. Fyrst og fremst er hlutverk þeirra að ala af sér karlafkvæmi. Fæðist of margar stúlkur stefnir í vandræði. Fyrir utan að ala börn er hlutverk þeirra að tilhafa mat og klæði. Þær matast eftir að hafa gefið körlunum mat sinn en að öðru leiti snúast störf þeirra eins og karlmannanna um hjörðina. Þær mjólka, baka á hituðum steinum, gera jókúrt í geitarbelg og notast að öllu leiti við tækni sem hægt er að flytja úr einum stað í annan á hverjum degi. Líf þeirra byggir aðeins á því sem er nauðsynlegt til lífsafkomu ættbálksins. Þegar þær spinna ull með sínum einföldu og fornu aðferðum, er það til að bæta föt eða gera ný sem eru þeim nauðsynleg til fararinnar.

Ekki er hægt að flytja með sér neitt sem ekki á að nota þegar í stað og Bakhitara fólkið kann ekki einu sinni að búa til slíka hluti. Ef það þarf nýjan járnpott, fá þau hann í skiptum fyrir mjólkurafurðir, eins er með flesta aðra hluti sem það notar, frá ístöðum til leikfanga. Líf þeirra er of einhæft til að rúm sé fyrir nýungar, hvað þá þá sérhæfingu sem þarf til að framleiða hluti. Þeir hafa ekki tíma til þess heldur. Frá morgni til kvölds er hópurinn á hreyfingu, frá haga til haga, að koma og fara alla lífsins daga. Það er ekki tími til neins annars, ekki einu sinni til að setja saman lagstúf. Einu siðirnir sem fólk hefur eru gamlir siðir og metnaður hvers sonar er að verða eins og faðir sinn.

bakhtiari-women-on-horsesLíf þeirra er tilbreytingasnautt. Hvert kvöld er endir dags eins og gærdagurinn og þegar morgnar er aðeins ein spurning sem kemst að í hugum þeirra; komum þeir hjörðinni yfir næsta skarð. Á hverju ári taka þeir hjarðir sínar um 6 fjallgarða sem sumir eru í 4 km. hæð yfir sjávarmáli. Lágar grjóthrúgur sem varða leið kvennanna um skörðin er það eina sem þeir byggja. Aðeins að einu leiti hefur líf þeirra breyst frá því fyrir tíu þúsund árum. Á þeim tíma báru þeir allar sínar pjönkur sjálfir á bakinu. Í dag nota þeir burðardýr, hesta, asna og múlasna. Ekkert merkilegt gerist, engin minnismerki eru reist, ekki  einu sinni um  hina dauðu. Þeir sem eru of gamlir eða veikir til að halda ferðinni áfram eru skildir eftir til að deyja. 

Bakhtiari-Man-with-sheep

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Takk fyrir fróðleik......ótrúlegt að svona lifi þetta fólk enn í dag

Hólmdís Hjartardóttir, 11.8.2008 kl. 17:15

2 Smámynd: Skattborgari

Fer svona hirðingjum ekki fækandi í dag þegar nútíminn knýr dyra með tækniframförum á fleiri og fleiri stöðum hægt og rólega?

Kveðja Skattborgari 

Skattborgari, 11.8.2008 kl. 23:56

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Svo sannarlega Skatti, en það eru örfáir eftir í Evrópu, nokkrir í Asíu og Afríku. En þessi færsla er í tengslum við færslu sem ég er að undirbúa um næsta menningarstig, jarðyrkjuna :)

Hólmdís; Satt segirðu.

Svanur Gísli Þorkelsson, 12.8.2008 kl. 01:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband