30.7.2008 | 17:09
Fleiri Minningar - En ekki fyrir klýjugjarna!!
Ég minnist á það í færslu hér um daginn að ég hefði ungur að árum farið á "vertíð" til Norðfjarðar og kynnst þar ýmsu fólki. m.a. Ólafsvíkur-Kalla. Áður en Kalli sá aumur á mér og bauð mér sambýli við sig, hírðist ég í herbergiskytru sem átti að heita íbúðarhæf en var að alls ekki. Þetta var líka áður en ég hóf að vinna með "aðgerðargenginu" og ég hafði tíma til að borða hádegismat og kvöldmat. Ég komst að samkomulagi við fjölskylduna sem bjó á hæðinni fyrir ofan herbergiskytruna um að fá að borða með þeim og kynntist þeim þannig lítilsháttar.
Þetta var stór fjölskylda a.m.k. fimm börn, fjögur á bilinu 2-6 ára og eitt þeirra aðeins brjóstmylkingur enn. Í fyrsta sinn sem ég kom í mat fékk ég hálfgert áfall. Borðhald var allt hið einkennilegasta, jafnvel fyrir mig sem alist hafði upp á barnmörgu heimili og kallaði ekki allt ömmu mína í þeim efnum.
Í boði var soðin fiskur og kartöflur, sem húsfreyjan hafði til og setti á diska fyrir mig, húsbóndann og börnin fjögur. Engin hnífapör voru sett fyrir börnin og tóku þau til matar síns, með guðsgöflunum einum saman. Ekki leið á löngu fyrr en maturinn var kominn út um allt borð. Krakkarnir létu illa við borðið og köstuðu matnum í hvert annað án þess að fá svo mikið sem tiltal frá foreldrunum. -
Loks þegar lokið var við að borða, bauð húsfreyjan mér upp á kaffi. Ég þáði það. Hún færði mér svart kaffi í krús. "Áttu nokkuð mjólk", spurði ég. Notarðu mjólk, spurði hún á móti. Já, gjarnan ef þú átt hana. Húsfreyjan horfði á mig um stund, tók síðan krúsina og bar hana upp að öðru brjóstinu sem einhvern veginn var komið út úr kjólgopanum sem hún var í. Eftir örstutta stund rétti hún mér krúsina aftur. Ég sá að það var mjólk í kaffinu, ásamt smá fituskán sem flaut á yfirborði þess. Ég satt að segja, sautján ára gamall, áttaði mig ekki alveg strax á því sem hafði gerst. Ég bragðaði á kaffinu og fann að það var ekki eins á bragðið og ég átti að venjast. Húsbondinn horfði á mig skælbrosandi. Hva, líkar þér ekki kaffið, spurði hann. Jú, jú, það er bara... Þú þarft ekkert að drekka það frekar en þér sýnist, hélt hann áfram, þreif krúsina úr hönd minni og teygaði kaffið með áfergju.
Af nísku föðurins.
Seinna sama dag, sátum við saman ég og húsbóndinn sem líka var að vinna í SÚN við útskipunina sem var í gangi. Við röbbuðum saman á meðan beðið var eftir bíl. Hann sagði mér frá æskuárum sínum þar sem hann var alinn upp á kotbýli á fyrri hluta síðustu aldar einhverstaðar á Austfjörðum.
Faðir hans var víst annálaður nirfill og skammtaði heimilisfólkinu matinn úr búri áfast eldhúsinu sem hann einn hafði lykil að. Stundum þegar allir voru farnir að hátta mátti heyra í karlinum paufast í myrkrinu inn í búrinu þar sem hann var að gæða sér á því sem hann vildi þegar hann hélt að aðrir sæju ekki til.
Kvöld eitt urðu allir þess var að karlinn var í búrinu. Eftir skamma stund heyrast þaðan óhljóð mikil, spýtingar og uppsölur. Á milli óhljóðanna hrópar karlinn og biður um að kveikt verði á lampa. Húsfólkið dreif að með ekki færri en þrjá lampa á lofti. Sjónin sem við blasti var ekki geðsleg. Karlinn hafði augljóslega verið að kafa með annarri hendinni í súrtunnu með slátri í, líkast til að leita að keppi sem orðin var meir á súrnum. Eftir að hafa fundið kepp á botni tunnunnar sem hann taldi að væri orðinn of meir til að geymast mikið lengur, tekur hann á það ráð að stýfa hann úr hnefa. Óhljóðin, spýtingarnar og kokhljóðin hófust ekki fyrr en hann var kominn inn í miðjan kepp.
Í ljósinu frá lömpunum sást greinilega það sem eftir var af keppnum þar sem hann lá við fætur karlsins. Nema að keppurinn var ekki sláturskeppur, heldur löngu dauð rotta sem greinilega hafði dottið í súrinn einhvern tíman um veturinn, drukknað og fallið til botns á tunnunni.
Eftir þetta, tók karlinn víst ætíð með sér ljós þegar hann fór í búrið eftir háttatíma.
Ég borðaði hjá þeim hjónum í fáeina daga eftir þetta en varð mikið feginn þegar boðið kom frá Kalla, jafnvel þótt það þýddi sveskjugraut og plokkfisk í alla mata.
Af skiljanlegum orsökum nafngreini ég ekki sögupersónur. Ljósmyndin er af Karli Guðmundssyni (Ólafsvíkur-Kalla) og kann ég þeim sem sendi mér hana (barnabarni Karls) bestu þakkir fyrir.
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:04 | Facebook
Athugasemdir
Svanur!! ARG
Jenný Anna Baldursdóttir, 30.7.2008 kl. 18:05
Hehe.
Gott á hann.
Aðalsteinn Baldursson, 30.7.2008 kl. 18:17
þetta er var nú gott á kallinn að hafa lent á rottu....
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 30.7.2008 kl. 18:41
Af misjöfnu þrífast börnin best....
Gulli litli, 30.7.2008 kl. 19:41
úff
Hólmdís Hjartardóttir, 30.7.2008 kl. 20:17
ha ha yndislegt.. alveg yndisleg saga .. gott á karlinn
Óskar Þorkelsson, 30.7.2008 kl. 21:42
Þetta minnir mig á heimilishaldið hjá mér ;)
DoctorE (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 22:09
jæks!
Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 23:32
Já, ég vissi að þetta mundi fanga ímyndunarafl ykkar :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 31.7.2008 kl. 00:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.