Farinn í gönguferð með didgeridú og búmerang að veiða Kengúrur

aboAð fara í gönguferð (walkabout) hefur ekki sömu merkingu meðal okkar flestra og það hefur á meðal frumbyggja í Ástralíu. Menning þeirra og tungumál sem töldu allt að 750 mismunandi mállýskur áður en hvíti maðurinn kom til skjalanna seint á átjándu öld, hafa átt í vök að verjast. Enn eimir samt eftir af þjóðháttum þeirra  og orð eins didgeridú, búmerang og Kengúra ( Kangooroo) sem eru komin úr málum frumbyggjanna, eru þekkt víðast hvar í heiminum. Þegar landnám hvítra mann hófst í Ástralíu er talið að tala frumbyggja hafi verið nálægt 750.000 manns. Í dag telja þeir um 410.000.

Saga frumbyggjanna er um margt afar merkileg, ekki hvað síst fyrir þær sakir að enn hefur ekki verið skýrt hvernig þeim tókst að komast frá Afríku yfir til Ástralíu fyrir allt að 125.000 árum eins og sumir fræðimenn halda fram en fundist hafa staðfestar mannvistarleifar í Ástralíu sem eru 40.000 ára gamlar.

Sjálfir tala frumbyggjar um forsögulega tíman sem Altjeringa eða"draumaskeiðið" (dreamtime). Draumaskeiðið á við um þann tíma þegar forfeður þeirra og skaparar sem þeir kalla "fyrsta fólkið" ferðuðust um suðurhluta álfunnar og nefndu alla hluti um leið og þeir sköpuðu þá.

Draumaskeið hefur einnig ákveðna merkingu í daglegu lífi frumbyggja. Það er einskonar samheiti yfir afstöðu þeirra til náttúrunnar og samskiptin við anda forfeðranna. Þeirra á meðal eru Regnbogaslangan, Baiame og Bunjil svo einhverjir séu nefndir. Hér kemur ein sagan úr digrum sjóði arfsanga sem tilheyra draumaskeiðinu. 070507-aborigines-dna_big

Öll veröldin svaf. Allt var hljótt, ekkert hreyfðist, ekkert gréri. Dýrin sváfu neðanjarðar. Dag einn vaknaði Regnbogaslangan og skreið upp á yfirborðið. Hún ruddi sér leið um jörðina. Eftir að hafa farið um landið varð hún þreytt og hringaði sig upp og sofnaði. Þannig skildi hún eftir slóð sína. Þegar hún hafði farið um allt, snéri hún til baka og kallaði á froskana. Þegar þeir komu voru magar þeirra fullir af vatni. Regnbogaslangan kitlaði þá og þeir fóru að hlægja. Vatnið gusaðist upp úr þeim og fylltu slóða Regnbogaslöngunnar. Þannig urðu til ár og vötn. Gras og tré uxu í kjölfarið og jörðin fylltist af lífi.

aborig

Manndómsvígsla frumbyggjana nefnist  gönguferð (walkabout). Þrettán ára að aldri halda ungir menn einir út í óbyggðirnar til að fylgja svo kölluðum Yiri eða söngvarákum sem eru slóðir forfeðranna sem farnar voru á draumaskeiðinu. Þeim er ætlaða að endurtaka hetjudáðir áanna, finna sjálfa sig og spjara sig sjálfir á þessari þrautagöngu. Hver ganga tekur ekki minna en sex mánuði og mun lengur ef hugur þeirra og hjarta býður þeim svo. Frumbyggjar fara líka í gönguferð seinna á ævinni eða þegar andinn kallar á þá. Án þess að gera neinum viðvart halda þeir út í buskann, oft frá konu börnum og ferð þeirra verður ein samfelld pílagrímsferð um landið þvers og kruss. Samneyti við andanna og draumalíf er megin tilgangur gönguferðanna.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

enn einn góður pistill frá þér Svanur, ég verð að hrósa þér fyrir það hversu mikið þú veist og að þú skulir koma því á prent.. ég vildi að ég gæti gert sömuleiðis.. en á meðan nýt ég bara þessara fróðlegu pistla sem þú berð á borð fyrir okkur hin.. takk fyrir mig :)

Óskar Þorkelsson, 23.7.2008 kl. 18:51

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sigríður Thorlacius þýddi  "walkabout" sem "að fara á ról".  Frábær þýðing.

Kolbrún Hilmars, 23.7.2008 kl. 19:59

3 identicon

Einhvern tímann las ég að forfeður þeirra hafi skapað heiminn með því að syngja hann í tilvist. Og að goðsaga þeirra eigi grunn sinn í þessum söngvum. Um land þeirra liggja e.k. "söngvalínur" og þeir þurfa að ganga þær reglulega og syngja veröldina áfram í tilvist. Annars hverfi hann.

jóhann (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 21:18

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Jóhann.Þessar söngvalínur er það sem ég kalla söngvarákir en goðsögurar sem voru geymdar mann fram að manni voru sönglaðar. Alla vega kemur étta allt heim og saman; Takk fyrir innlitið og athugasemdina.

Kolbrún:Ég er ekki alveg sannfærður. Í minni málvitund er að komast á ról og vera rólfær svona rétt að meika það og gefast upp á rólunum eins og Grýla gamla gerði, í samræmi við það. Þessar gönguferðir frumbyggjanna geta staðið í mörg ár og þeir fara víða.

Óskar; Svo lengi sem varir, vertu velkominn :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 23.7.2008 kl. 21:38

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Svanur, að vera á róli er samkvæmt orðabókinni: að vera á ferli/að vera á flækingi, án tímamarka.  Gönguferð á hins vegar frekar við skemmtigöngu, svona eins og á milli húsa eða álíka takmarkaðan tímabundinn göngutúr.

Merkingarfræðin (semantics) var alltaf uppáhaldsfagið mitt...

Kolbrún Hilmars, 23.7.2008 kl. 22:17

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Líkleg rétt hjá þér Kolbrún, svona bókstaflega. það mætti þá líka  kalla þetta "flakk" eða fara á flakk :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 23.7.2008 kl. 23:04

7 Smámynd: Skattborgari

Skemmtileg lesning hjá þér Svanur. Því miður hafa frumbyggja tekið upp ýmsa ósiði hvíta mannsins sem ógnar þeim áfengi sem er bannað í sumum samfélögum frumbyggja ástralíu í dag.

Kveðja Skattborgari 

Skattborgari, 23.7.2008 kl. 23:18

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Já, Svanur, það er eiginlega það sem walkabout þýðir; að fara á flakk.  Mér finnst bara þetta með rólið svo frábær þýðing - en ég er nú oft svo hræðilega forn í hugsun...

Kolbrún Hilmars, 23.7.2008 kl. 23:20

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég hef sagt það áður, ég veit eiginlega ekki neitt um neitt.  Mikið skelfing er ég ánægð með það.  Leiðist ekki að lesa pistlana þína.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.7.2008 kl. 00:05

10 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Skatti, þeir eru viðkvæmir fyrir víninu eins og margir frumbyggjar annarsstaðar í heiminum.

Jenný my darling, þú ert djúpvitur kona að vita hvað þú veist lítið :) Vildi ég að vér værum svo öll.

Kolbrún, Ég skil þig alveg og þoli forna hugsun afar vel :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 24.7.2008 kl. 00:13

11 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Takk fyrir fróðleik

Hólmdís Hjartardóttir, 24.7.2008 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband