Að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum

Í tilefni af talverðri umræðu á blog.is þessa dagana um stöðu kvenna, vændissölu og jafnréttismál, ákvað ég að birta hér greinargerð til Sameinuðu þjóðanna frá Bahai samfélaginu um þessi mál.

Myndirnar sem fylgja eru ekki úr greinargerðinni.  

Lagabætur einar nægja ekki: Hlutverk menningar og hæfni við að uppræta ofbeldi gagnvart konum og stúlkum

women1. Staða kvenna hefur að mörgu leyti batnað umtalsvert undanfarin fimmtíu ár. Lestrarkunnátta og menntun kvenna hafa aukist, meðaltekjur þeirra hafa hækkað og þær hafa áunnið sér frama bæði í starfi og stjórnmálum. Enn fremur hefur með víðtæku samstarfsneti kvenna í svæða-, lands- og alþjóðasamtökum tekist að koma hagsmunamálum þeirra á dagskrá á heimsvísu, og ýta undir lagalegar og opinberar aðgerðir þessum hagsmunamálum til framdráttar. Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun, heldur miskunnarlaust ofbeldi gegn konum og stúlkum áfram að geysa sem faraldur í öllum hlutum heims; ofbeldið birtist – og er raunar viðhaldið – í félagslegum venjum og hefðum, öfgum af trúarlegum toga og efnahags- og stjórnmálalegri kúgun. Um leið og alþjóðasamfélagið leitast við að setja lög til verndar konum og stúlkum er augljóst að djúp gjá skilur enn að lagalegar ráðstafanir og menninguna – sem felst í gildismati okkar, hegðun og stofnunum – sem þarf til að stemma stigu við þessum faraldri.

violence2. Hið skelfilega ofbeldi gegn konum og stúlkum á sér stað í heimsástandi sem einkennist af tvenns konar en þó samstíga þróun. Annars vegar er ferli upplausnar, sem hefur afhjúpað getuleysi úr sér genginna stofnana, úreltra kennisetninga og ósæmilegra hefða um víða veröld og á öllum sviðum lífsins, ferli sem veldur glundroða og þjóðfélagshnignun. Raddir öfgamanna og lífsskilningur efnishyggjunnar, sem afneita mannlegri reisn, hafa fyllt upp í það siðferðilega tómarúm sem trúarbrögðin hafa skilið eftir sig þegar dregið hefur úr hæfni þeirra til að hafa siðræn áhrif. Arðránshagkerfi sem kyndir undir öfgum auðs og fátæktar, hefur hneppt milljónir kvenna í efnahagslegan þrældóm og svift þær réttindum á borð við eignarétt, erfðarétt, líkamlegt öryggi og jafnan rétt til þátttöku í almennri verðmætasköpun. Kynþáttaátök og vanhæfni stjórnvalda, hafa leitt til mikillar fjölgunar kvenna sem hafa flosnað upp og jafnvel orðið landflótta. Þetta ástand hefur aukið enn frekar líkamlegt og efnahagslegt óöryggi þeirra. Niðurlægjandi meðferð á konum og börnum sem og útbreiðsla kynferðislegrar misnotkunar, hafa aukist innan sem utan heimilisins og hafa, ásamt miklu heimilisofbeldi, hraðað þessu ferli upplausnar.

0013. Samhliða fyrra ferlinu má greina annars konar ferli; ferli uppbyggingar og sameiningar. Það á sér rætur í siðfræði Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og sækir kraft í vaxandi samstöðu um aðgerðir kvenna á heimsvísu en með þeim hefur á síðastliðnum fimmtán árum tekist að koma málefnum sem snerta ofbeldi gegn konum og stúlkum á dagskrá um allan heim. Sá viðamikli og samræmdi lagarammi sem var mótaður á þessum árum hefur beint athygli alþjóðasamfélagins, sem ekki hafði verið með á nótunum, að því menningarviðhorfi að svona misnotkun væri meinlaus og væri því liðin og jafnvel afsökuð. Þáttaskil urðu hins vegar árið 1993 með Yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um að uppræta ofbeldi gegn konum,1 þar sem sett var fram eftirfarandi skilgreining á hugtakinu „ofbeldi gagnvart konum“: [Ofbeldi gagnvart konum er allt] ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga kvenna, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi. 2 Í þessari skilgreiningu var véfengd sú ranga afstaða að ofbeldi gegn konum og stúlkum væri einkamál. Þar með voru heimilið, fjölskyldan, menning okkar og hefðir ekki lengur hinn eini og endanlegi dómari um gerðir er varða ofbeldi gegn konum og stúlkum. Stofnun embættis sérlegs skýrslugjafa [Sameinuðu þjóðanna] um ofbeldi gegn konum nokkru síðar, var enn eitt úrræðið til þess að rannsaka og fá fram í dagsljósið hinar mörgu hliðar á þessu hættulega ástandi, og til þess að beina athygli alþjóðasamfélagsins að því.

2311849706_9f3133f15d_o4. Þrátt fyrir mjög miklar framfarir undanfarin fimmtán ár, hefur vangeta þjóða heims til þess að draga úr ofbeldi, sýnt fram á augljósa annmarka á þeim aðferðum sem fyrst og fremst bregðast við eftir á. Smám saman hefur þróast víðari sýn þar sem forvarnir gegn ofbeldi eru orðnar að markmiði. Með öðrum orðum þá er meginverkefni alþjóðasamfélagsins nú að átta sig á hvernig hægt verði að skapa samfélagsgerð þar sem félagslegar og efnislegar aðstæður eru til þess fallnar að konur og stúlkur geti þroskað hæfileika sína til fulls. Þær nýju aðstæður munu ekki aðeins byggja á yfirveguðum tilraunum til að breyta hinu lagalega, stjórnmálalega og efnahagslega umhverfi samfélagsins, heldur munu einnig þurfa að byggja á öðru sem er jafn mikilvægt, það er á umbreytingu einstaklingsins — umbreytingu karla og kvenna, drengja og stúlkna — þar sem núverandi gildismat þeirra viðheldur á einn eða annan hátt hegðunarmynstri misnotkunar. Sjónarmið bahá’í trúarinnar er að forsenda allra samfélagsumbóta sé sá grundvallarskilningur að einstaklingurinn búi yfir andlegum eða siðferðilegum eðlisþáttum. Þær víddir móta skilning hans á tilgangi eigin lífs, og á ábyrgð sinni gagnvart fjölskyldunni, samfélaginu og umheiminum. Meðfram mikilvægum breytingum á hinu lagalega, pólitíska og efnahagslega umhverfi sem er hægt og sígandi að taka á sig mynd er þroski siðferðilegra og andlegra hæfileika einnig nauðsynlegur og grundvallandi þáttur í þeirri erfiðu viðleitni að hindra ofbeldi gegn konum og stúlkum alls staðar í heiminum.

5. Hugmyndin um að efla tiltekin siðferðileg gildi kann að vera umdeild þar sem slík viðleitni hefur í fortíðinni of oft tengst þvingandi trúariðkun, kúgun vegna pólitískrar hugmyndafræði og þröngri sýn á almannaheill. Engu að síður er það siðræn færni, sem samræmist almennu mannréttindayfirlýsingunni og ætlað er að hlúa að.

 1 Auðkenni yfirlýsingarinnar á ensku er: United Nations General Assembly resolution 48/104 of 20 December 1993. Declaration on the Elimination of Violence Against Women, Article 2. UN Document A/RES/48/104.

2 Þýðing Mannréttindaskrifstofu Íslands á 1. gr. yfirlýsingar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 20. desember 1993 „um afnám ofbeldis gagnvart konum,“ vefslóð: http://www.humanrights.is/log-og- samningar/mannrettindasamningar/sameinudu-tjodirnar/yfirl-afnam-ofbeldis-konur/ andlegum, félagslegum og vitsmunalegum þroska allra manna, sem nauðsynleg er til að móta ofbeldislaust þjóðfélag. Þar að auki þurfa slík gildi að eiga rætur í þeim félagslegu og andlegu meginreglum samtímans, að allir menn eru innbyrðis háðir og mannkynið innbyrðis tengt. Þungamiðja siðrænna framfara færist þá frá einstaklingsmiðuðum hugmyndum um ,,frelsun” einstaklingsins yfir á siðrænar framfarir mannkynsins í heild. Rétt eins og okkur hefur nú tekist að þroska með okkur skilning á félagslegu og efnislegu skipulagi samfélagins, sem felur í sér þetta grundvallarmarkmið, verðum við einnig að leggja rækt við og þroska með okkur siðferðisgetu til að takast á við nútímalíf.

women_rights_16. En hvernig kennum við þetta? Allmargir skólar og æðri menntastofnanir á vegum bahá’ía hafa skilgreint ákveðna siðræna getu til að búa börn og ungmenni undir að þroska með sér siðræna rökhugsun og ábyrgð á að leggja sitt af mörkum til að bæta samfélag sitt. Undirstaða slíkrar námsskrár er vissan um að sérhver manneskja sé andleg vera með takmarkalausa hæfni til göfugra gerða en til þess að slík hæfni birtist í verki verður að rækta hana meðvitað og kerfisbundið með námsefni sem miðast við þessar grundvallareigindir mannsins. Meðal þeirra siðrænu hæfileika sem bahá’í menntastofnanir tilgreina eru (1) að geta tekið virkan þátt í sameiginlegri ákvarðanatöku án þess að líta á þátttakendur sem andstæðinga (í þessu felst að umbreyta skaðandi hegðunarmunstri sem byggir á valdbeitingu og þeim misskilningi að átök séu hornsteinn mannlegra samskipta); (2) að geta komið fram af heiðarleika á grundvelli siðrænna gilda; (3) að rækta með sér tilfinningu fyrir reisn og sjálfsvirðingu; (4) að geta haft skapandi en agað frumkvæði (5) að vera tilbúinn til að taka þátt í styrkjandi fræðslustarfsemi, (6) að geta skapað framtíðarsýn sem byggir á sameiginlegum siðrænum gildum og meginreglum og vakið með öðrum hugsjón til að vinna að slíkum árangri, (7) að geta greint samskipti sem byggjast á yfirgangi og breytt þeim í samskipti byggð á gagnkvæmni og þjónustu. Þannig leitar námsefnið eftir því að ná fram heildrænum þroska einstaklingsins með því að samþætta hið andlega og efnislega, hið fræðilega og hagnýta og tilfinninguna fyrir því að framfarir hvers og eins tengist þjónustu við samfélagið.

WomenFlee~cmp30~capt_1000565819pakistan_afghanistan7. Þótt slík gildi sé hægt að kenna í skóla þá er það í faðmi fjölskyldunnar sem börn vaxa úr grasi og mynda sér skoðanir um sig sjálf, heiminn og tilgang lífsins. Að því marki sem fjölskyldunni mistekst að uppfylla grundvallar þarfir barnanna, mun samfélagið bera afleiðingar vanrækslu og misnotkunar og líða sárlega fyrir sinnuleysi og ofbeldi sem af því leiðir. Það er innan fjölskyldunnar sem barnið lærir um eðli valds og hvernig því er beitt í persónulegum samskiptum; það er hér sem það lærir fyrst að samþykkja eða hafna ráðríki og ofbeldi sem tjáningarleið og leið til þess að leysa ágreining. Í þessu umhverfi verður útbreitt ofbeldi, sem framið er af körlum gagnvart konum og stúlkum, árás á grunneiningu samfélags og þjóðar.

8. Jafnræði innan fjölskyldu og hjónabands gerir kröfur til sífellt meiri hæfni til þess að samræma og sameina í stað þess að sundra eða einblína á einstaklingsþarfir. Í heimi örra breytinga þar sem fjölskyldur standa frammi fyrir óbærilegu álagi sem fylgir umbrotum í umhverfis- , efnahags- og stjórnmálum, þá er getan til að treysta og vernda fjölskylduböndin og búa börnin undir samfélagsskyldur í flóknum og síminnkandi heimi mikilvægust. Í þessum aðstæðum er brýnt að hjálpa karlmönnum til þess að skilja þá ábyrgð sem þeir bera í fjölskyldunni sem feður, auk ábyrgðar á fjárhagslegri velferð hennar, þannig að í sjálfri fjölskyldunni verði til fyrirmynd að sjálfsaga, heilbrigðum samskiptum og jafnri virðingu beggja kynja. Þetta er viðbót og stuðningur við móðurhlutverkið, en móðirin er fyrsti fræðari barnanna og hamingja hennar, öryggistilfinning og sjálfsvirðing eru forsenda þess að hún nái árangri í hlutverki sínu.

children9. Það sem börn læra innan fjölskyldunnar er ýmist í samræmi eða í mótsögn við þau félagslegu samskipti og gildi sem móta samfélagslíf þeirra. Allt fullorðið fólk í samfélaginu — kennarar, heilbrigðisstarfsfólk, atvinnurekendur, stjórnmálamenn, trúarleiðtogar, lögregla, fjölmiðlafólk og aðrir — ber sameiginlega ábyrgð á að vernda börn. Þó virðist öryggisnet samfélagsins víða svo illa farið að það verði ekki bætt: miljónir kvenna og stúlkna eru seldar mansali á hverju ári og neyddar til vændis eða ofurseldar aðstæðum sem jafnast á við þrælkun. Farandverkakonur hafna utangarðs með tvennum hætti, bæði fyrir að vera konur og fyrir að vera uppflosnaðar, og líða fyrir andlega, líkamlega og fjárhagslega misbeitingu vinnuveitenda sinna í svörtum hagkerfum. Ofbeldi gegn vaxandi fjölda eldri kvenna, sem geta oft ekki borið hönd fyrir höfuð sér, hefur aukist mjög mikið. Barnaklám breiðist út eins og veira á óseðjandi, stjórnlausum markaði sem ekki lýtur neinum landamærum; og jafnvel það að sækja skóla setur stúlkur í mikla hættu á að sæta líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi í eða á leið í skóla. Ástandið sem skapast af linku ríkisstjórna og skorti á lögum verður enn verra vegna djúpstæðrar siðferðiskreppu knýr samfélagið til að spyrja: „Hvað kemur fólki til þess að misnota líf og sæmd annarrar manneskju? Hvaða siðrænu grunngildi hefur fjölskyldu og samfélagi mistekist að rækta?”

squad210. Í gegnum tíðina hafa trúabrögð sinnt afgerandi hlutverki um heim allan í að rækta gildi samfélagsins. Margar þær raddir sem í dag tala í nafni trúar verða þó að teljast mesta hindrunin við að uppræta ofbeldi gagnvart konum og stúlkum. Málsvarar öfgafullra trúar-túlkana sem nota trúarlegt ákall til að bera uppi vald sitt, leitast við að ,,temja” konur og stúlkur með því að hefta ferðafrelsi þeirra utan heimilisins, takmarka aðgang þeirra að menntun, láta þær sæta líkamlega skaðlegum venjum, stjórna klæðaburði þeirra og jafnvel taka þær af lífi fyrir gerðir sem sagðar eru vanvirða heiður fjölskyldunnar. Það eru trúabrögðin sjálf sem þarfnast sárlega endurnýjunar. Lykilatriði slíkrar endurnýjunar er að trúarleiðtogar lýsi yfir með ótvíræðum hætti og verði í fararbroddi fyrir meginreglu jafnréttis karla og kvenna – meginreglu sem hefur siðrænt og hagnýtt gildi og brýn þörf er á til að framfarir verði á pólitískum, félagslegum og efnahagslegum sviðum samfélagsins. Nú verður að grandskoða þær trúarlegu athafnir, kenningar og kreddur sem fara svo svívirðilega í bága við alþjóðlega mannréttindastaðla og muna að í öllum trúarbrögðum eru raddir kvenna sem að mestu leyti hafa verið fjarri skilgreiningunni, sem sífellt er í mótun, um hvað trúabrögð séu og hvers þau krefjist.

11. Einstaklingurinn, fjölskyldan og samfélagsumhverfið eru þegar allt kemur til alls undir verndarvæng ríkisins; það er á þessu stigi sem svo sár þörf er á upplýstri og ábyrgri forystu. Flest stjórnvöld halda engu að síður uppteknum hætti og varpa frá sér ábyrgðinni á þeim alþjóðlegu skuldbindingum sínum að vinna gegn og refsa fyrir misnotkun og ofbeldi gegn konum og stúlkum. Fjöldi þeirra skortir pólitískan vilja, sum veita ekki nægu fjármagni til að framkvæma lögin, víða eru ekki til sérhæfðar stofnanir til að takast á við ofbeldi gagnvart konum og stúlkum og forvarnarstarf hefur í nánast öllum tilfellum verið staðbundnar skammtímaaðgerðir.3 Í rauninni geta fá ríki státað af því að hafa dregið hið minnsta úr heildartíðni ofbeldistilfella4. Mörg ríki halda áfram að fela sig á bak við menningarlega og trúarlega fyrirvara þegar kemur að alþjóðlegum sáttmálum sem fordæma slíkt ofbeldi. Þannig varðveita þau enn frekar andrúmsloft lagalegs og siðferðilegs refsileysis og gera um leið bæði ofbeldið og fórnalömb þess að mestu ósýnileg.

untitled412. Vinnunni við að þróa lagaramma þarf nú að fylgja eftir með áherslu á framkvæmd þessarra laga og fyrirbyggjandi aðgerðum. Grundvöllur slíkra aðgerða er áætlun sem byggir á að veita börnum menntun og þjálfun sem gerir þeim kleift að þroskast jafnt vitsmunalega sem siðferðilega, að rækta með sér tilfinningu fyrir reisn og ábyrgðartilfinningu fyrir velferð fjölskyldu sinnar, samfélags síns og heimsins alls. Með tilliti til fjárlaga krefjast fyrirbyggjandi ráðstafanir þess að kynbundnar aðgerðir séu teknar upp með markvissum hætti til að tryggja að hlutfallslega sé nægu fjármagni ráðstafað til aðgengilegri félagsþjónustu og lagalegra úrræða. Slíkar aðgerðir þarf að styrkja með því að ofbeldi sé skýrt skilgreint, með skilvirkri gagnasöfnun til að geta metið viðleitni landsins á þessu sviði, og með því að auka skilning karla og kvenna á alvarleika og útbreiðslu ofbeldisins sem á sér stað í samfélagi þeirra.

13. Alþjóðasamfélagið hefur gegnt mikilvægu hlutverki í þessu málefni með yfirlýsingu sinni árið 1993 og með að viðurkenna að ofbeldi gagnvart konum og stúlkum „hindri jafnrétti, þróun og frið“ og eins með vinnu hins sérstaka skýrslugjafa. En engu að síður hefur það verið klofið og atkvæðalítið hvað varðar að koma orðum sínum í framkvæmd. Árið 2003 var vangeta þess til að framkvæma undirstrikuð á 47. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem, í fyrsta skipti sögu nefndarinnar, náði ekki að koma sér saman um samþykktir varðandi ofbeldi gagnvart konum. Í því tilviki voru menningar- og trúarleg rök notuð til að reyna að sniðganga skyldur ríkja eins og þær voru settar fram í yfirlýsingunni 1993. Það er því mjög áríðandi að á fundum nefndarinnar verði í framtíðinni komist skýrt og ákveðið að orði í samþykktum varðandi það að uppræta ofbeldi gagnvart konum og stúlkum og fram komi ekki aðeins lagalegur heldur einnig siðferðilegur andi sem hæfi þessum hnattræna faraldri.

14. Til þess að geta staðið við hinar mörgu skuldbindingar sínar þarf alþjóðasamfélagið að auka til muna völd, yfirráð og fjárráð tileinkuð mannréttindum kvenna, kynjajafnrétti og eflingu kvenna. Alþjóðlega bahá’í samfélagið er aðili að umræðum 3 . Deild Sameinuðu þjóðanna fyrir framgöngu kvenna (2005). Skýrsla fundar sérfræðihópsins: Góðar venjur í eyðingu ofbeldis gagnvart konum.17-20 maí 2005, Vín - Austuríki. http://www.un.org/womenwatch/daw/egm/vaw-gp-2005/docs/FINALREPORT.goodpractices.pdf 4 Ibid. þar sem lagt er til að stofnuð verði sjálfstæð stofnun innan Sameinuðu þjóðanna með víðtækt umboð tileinkað öllu sviði réttinda og málefna kvenna. Þessar hugmyndir eiga rætur að rekja til Beijing aðgerðaáætlunarinnar, vinnuáætlunarinnar frá Kaíró og sáttmálans um afnám allrar mismununar gagnvart konum, og tryggja það að mannréttindasjónarmið séu samþætt til fulls í öllu starfi Sameinuðu þjóðanna. Til að tryggja konum rödd á hæstu stigum ákvarðanatöku innan Sameinuðu þjóðanna þyrfti slíkri stofnun að vera stýrt af framkvæmdastjóra sem hefði stöðu aðstoðar- framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Til þess að geta sinnt umboði sínu með áhrifaríkum hætti þarf stofnunin að hafa næg áhrif gagnvart þjóðríkjum jafnframt því sem hún þarf á að halda sjálfstæðum sérfræðingum í málefnum kvenréttinda sem ættu sæti í stjórn.

women_1315. Vinna við að uppræta þennan ofbeldisfaraldur gagnvart konum og stúlkum verður að halda áfram og eflast á öllum sviðum mannlegs samfélags – allt frá einstaklingum til alþjóðamfélagsins. Þó mega aðgerðirnar ekki einskorðast við að bæta lög og stofnanir, því slíkar umbætur taka einungis á hinum augljósa glæp en megna ekki að koma á hinni djúpstæðu breytingu sem þarf til að skapa menningu þar sem réttlæti og jafnrétti ríkja yfir hvatvísi gerræðislegs valds og líkamlegs afls. Innri og ytri víddir mannlegs lífs eru vissulega gagnverkandi – ekki er hægt að breyta öðru án þess að breyta hinu. Það er þessi innri, siðferðilega vídd sem nú þarfnast umbreytingar og myndar þegar allt kemur til alls traustasta grunninn að gildum og hegðun sem efla konur og stúlkur og veldur þannig framförum alls mannkyns.

Lagabætur einar nægja ekki: Hlutverk menningar og hæfni við að uppræta ofbeldi gagnvart konum og stúlkum Yfirlýsing Alþjóðlega bahá’í samfélagsins júlí 2006 Skrifstofa Alþjóðlega bahá’í samfélagsins hjá Sameinuðu þjóðunum 866 United Nations Plaza Suite 120 New York, NY 10017 oaw-nyc@bic.org (212) 803-2500 BIC skjal nr. 06-0702


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Vá vel skrifuð grein.  Takk fyrir þetta.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 18.7.2008 kl. 12:30

2 identicon

:) Gott að þetta komist til skila.

Jakob Regin (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 12:37

3 Smámynd: halkatla

það er alltaf gott þegar trúfélög álykta svona eða taka málin fyrir. Mjög gott að sjá þetta, takk.

halkatla, 18.7.2008 kl. 15:35

4 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Ég skil ekki það fólk sem talar fyrir frelsi einstaklingsins til að selja sig, það er ekki bæði hægt að berjast fyrir upprætingu á kúgun og ofbeldi gegn konum og börnum og um leið að samþykkja sölu á kynlífi.

Sálfræðingar og áfengisráðgjafar hafa aldrei haft eins mikið að gera eins og í dag því  margir eru vansælir, sjálfsmorðum og glæpum fjölgar. Grundvöllur mannlegrar reisnar er sjálfsvirðingin, hún byggir á þeim viðhorfum sem við höfum til okkar sjálfra og ekki síður því sem við bjóðum sjálfum okkur uppá.

Alveg eins og það eru til efnisleg lögmál eins og aðdráttar afl jarðar þá eru til andleg lögmál, kasti ég mér fram af húsi þá er það lögmál um aðdráttar afl jarðar sem gerir það að verkum að ég slasa mig. Ef ég lýg eða misbýð sjálfri mér og sjálfsvirðingu minni t.d. með vændi þá væri það brot á andlegu lögmáli, afleiðingin er léleg sjálfsvirðing og brotin sjálfsmynd.

Vilji fólk gott samfélag er ekki nóg að uppfylla efnislegar þarfir, eiga næga peninga, við þurfum ekki síður að uppfylla andlegar þarfir okkar.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 18.7.2008 kl. 15:50

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.7.2008 kl. 16:33

6 identicon

Ég vildi gjarnan hafa sömu trúna á Sameinuðu Þjóðirnar (Ríkin) og ég hef á Bahá'í samfélagið. Fyrir áhugasama mæli ég með bók Jóns Orms "Sameinuðu Þjóðirnar - Tálsýn og veruleiki.

Hákon (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 18:07

7 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir athugasemdirnar öll, sérstaklega Hrafnhildi þó :)

Hákon; Það er eitt og annað að hjá SÞ en spurningin er hvort það jákvæða sem þær gera vegi ekki þyngra?

Svanur Gísli Þorkelsson, 19.7.2008 kl. 09:47

8 identicon

Mér finnst leiðinlegt að draga fram svona einn lítin neikvæðann punkt í annars mjög góðri lesningu.  Fyrst vil ég þó segja að það er frábært framtak hjá hverjum sér er að berjast gegn því óréttlæti sem konur um víða veröld þurfa ganga í gegn um. 

Þú segir að dregið hafi úr hæfni trúarbragða til þess að hafa siðræn áhrif og þessu kennir því efnishyggjunni í þessari grein. Ertu ekki að grínast? Það er einmitt vegna trúarinnar og feðraveldisins sem trúin boðar sem konur hafa þurft að þola harðræði af mönnum sínum, sem konur hafa verið órétti beittar t.d. hvað varðar erfðarétt og fleira, nei trúin hefur ekki verið besti vinur kvenna það er nokkuð sem felstum ef ekki öllum ætti að vera ljóst. Sjá bara hvernig konan er niðurnjörfuð af feðraveldinu í múslimalöndum, hjá strangtrúar gyðingum og sjá svo hvernig hver trúarhópurinn af öðrum í Bandaríkjunum sýnir af sér feðraveldis hugmyndafræði sem er óhugnalegt. 

Frábært að lesa það sem Hrafnhildur Ýr skrifar, algjörlega sammála. 

Valsól (IP-tala skráð) 21.7.2008 kl. 00:26

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir það Valsól.

Feðraveldið var óumflýjanlegt á sínum tíma, jafn óumflýjanlegt og það er úrelt í dag. Allir yfirburðir í krafti líkamsburða sem óneitanlega voru mikilvægur hluti af frumstæðum þjóðfélögum, eru ekki lengur ástæða forræðis.  Það versta er að efnishyggjan sem fólk reiðir sig nú á eftir að trúarbrögðin hafa gengið úr sér, býður upp á afar svipaðar ef ekki verri kúgun.

Svanur Gísli Þorkelsson, 21.7.2008 kl. 01:22

10 identicon

Ég er ekki alveg að fatta hvernig efnishyggjan er kúgunartæki gegn konum. Alla vega væri gaman að fá stutta skýringu á því hvernig þú sérð þetta.

Valsól (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband