Hippar

6a00d8341c717753ef00e54f4e72198834-800piÍ sumar eru fjörutíu ár liðin frá því að hipparnir urðu að alþjóðalegu fyrirbæri og ´68 kynslóðin varð til. Hippar voru hluti af menningarlegri byltingu sem átti sér stað fyrst í Bandaríkjunum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. "Fyrirbærið" var getið af vaxandi óánægju ungs fólks í Bandaríkjunum með Viet Nam stríðið.

Hippar voru aðallega hvítir táningar og ungt fólk sem átti það sameiginlegt að vera illa við og vantreysta hefðbundnum miðstéttargildum. Þeir höfnuðu viðteknum aðferðum stjórnmála og samfélagsins en leituðu þess í stað á vit hugmynda frá austrænum trúarbrögðum, sérstaklega Búddisma.

Margir hippar litu á ofskynjunarlyf eins og Marijúana og LSD (lysergic acid diethylamide),sem leið til að flýja það samfélag sem þeir sættu sig ekki við og til að útvíkka þeirra eigin vitund. Forverar hippana voru hin svo kallaða Beat kynslóð sem kvað sér hljóðs upp úr 1955 með skáldið Allen Ginsberg í fararbroddi sem hipparnir tóku upp á sína arma og gerðu að hetju. Hin uber cool svartklædda Beat kynslóð hélt sig til hlés og var andsnúin þátttöku í stjórnmálum en hipparnir voru aftur á móti háværir og  litskrúðugir.  Berfættir með sítt hárið og í flagsandi mussum andmæltu þeir ríkjandi skipulagi fullum hálsi. -

hippies5Andstaðan við Viet Nam stríðið var málstaðurinn sem sameinaði þá til að byrja með. Ásamt mótmælagöngum og setum, notuðu hipparnir listgreinar, útileikhús, tónlist og myndlist til að koma óræðum skilaboðum sínum á framfæri. Þjóðlagatónlist og ekki hvað síst rokk eins og hljómaði af Bítlaplötunni Sergeant Pepper's Lonely Hearts Club Band voru afar áhrifaríkir þættir hippamenningarinnar.

Í Bandaríkjunum náði hippamenningin flugi strax árið 1967 með miklum tónleikum sem haldnir voru í Gate Park og þar með hófst hið svo kallað "sumar ástarinnar". Sá atburður átti hvað stærstan þátt í að kynna hippalífstílinn og varð til þess að þúsundir ungs fólks hvaðanæva úr Bandaríkjunum flykktust til  San Francisco, með blóm í hárinu eins og Scott McKenzie's söng um í lagi  John Phillips "San Francisco," sem varð að einskonar þjóðsöng hippanna. Árið 1969, komu meira en 500,000 manns saman á  Woodstock tónlistar og lista hátíðinni í Bethel, New York, sem í margra augum er hátindur hippamenningarinnar. 

Hippamenningin átti sér sínar dökku hliðar sem náðu talvert lengra en vanþóknun "almennings" á frjálsum ástum hippanna. Neysla eiturlyfja var algeng á meðal þeirra og lífsmáti þeirra bauð ekki upp á venjubundið öryggi heimilislífsins sem margir töldu að væri börnum nauðsynlegt.

hippies6Upp úr 1975 var hippahreyfingin í rénum þótt margir af þáttum hennar, sérstaklega klæðaburðurinn og tónlistin væru væru almennt meðteknir.

 Rót sjötta áratugarins sem skapaði hippa-jaðarmenninguna var afstaðið og eftir að Viet Nam stríðinu lauk fjaraði fljótt undan henni. Þegar að Punkið og Diskóið hélt innreið sína voru hippar oft álitnir gamaldags uppdagaðir furðufuglar. Arfleyfð þeirra, hugmyndirnar um ást, frið og frjálst samfélag áttu samt eftir að lifa og hafa fundið sér farveg í svokallaðri Ný-hippa hreyfingu sem finna má í menntaskólum og háskólum víða um heim í dag.

Táknið sem varð að skjaldarmerki hippana var "friðarmerkið" svo kallaða. Það var upphaflega hannað af Gerald Holtom árið 1958 fyrir bresku friðarhreyfinguna Direct Action Committee Against Nuclear War sem eins og nafnið bendir til beytti sér fyrir afvopnun kjarnorkuvopna. Táknið myndar stafina N og D sem stendur fyrir Nuclear Disarmament. large_peace_symbol

Andstæðingar hippahreyfingarinnar fundu henni allt til foráttu og sögðu meira að segja táknið sem hún notaði "andkristið". Bent var á að þar væri á ferð gamalt galdratákn sem kallað var Nornarkló. Væri þá krossinn tekinn og armar hans brotnir upp á við og honum síðan snúið á hvolf.

 

Orð í belg frá hippum á öllum aldri vel þegin, sérstaklega ef þau eru um hippaárin hér á Íslandi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Er af svolkallaðri ´68 kynslóð.  Fallegar hugsjónir hippahreyfingarinnar hurfu bókstaflega upp í reyk.

Var aldrei alvöru hippi, alltof mikill materíalisti á þeim árum.  En er gift einum fyrrverandi alvöru hippa sem bjó í kommúnunni Söru á Laugaveginum get ég sagt þér.

Jenný Anna Baldursdóttir, 2.7.2008 kl. 16:24

2 identicon

Þeir sviku margir lit, söfnuðu tagli og keyptu nýjan BMW á níunda áratugnum (80s)

LS.

LS (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 17:02

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

LS, kótelettukarlar voru þeir kallaðir.

Jenný þó, varstu svona sunnudagshippi?

Svanur Gísli Þorkelsson, 2.7.2008 kl. 21:12

4 Smámynd: Marta Gunnarsdóttir

Ég var heldur ekki alvöru hippi en sat um tíma og saumaði í gallabuxur, blóm og iljaför, það þótti æðislega flott ef útsaumurinn var sem mestur og svo voru mussurnar ómissandi, úr indverksri bómull, skæpóttar eða útsaumaðar. Svo var hárið næstum því niður að mitti og skipt í miðju, og það er eini siðurinn sem ég hef haldið frá þessum tíma, að skipta í miðju. En þetta var skemmtilegur tími. Ekki spurning.

Marta Gunnarsdóttir, 2.7.2008 kl. 23:02

5 Smámynd: Skattborgari

Ég er of ungur til að muna eftir þessu tímabili. En hippanir komu með margt gott en annað miður gott.

Skattborgari, 2.7.2008 kl. 23:04

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þetta stemmir allt Marta. Verslað í Karnabæ væntanlega, Húsafell um verslunarmannahelgar, o.s.f.r.

Skatti; ég held að þú hefði kolfallið fyrir hippadóminum ef þú hefði fengið tækifæri til :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 2.7.2008 kl. 23:16

7 Smámynd: Skattborgari

Gæti vel verið ég reyni að kynna mér allt. Stríð hefur ekkert upp á sig nema vandamál.

Skattborgari, 2.7.2008 kl. 23:18

8 Smámynd: Marta Gunnarsdóttir

Jú, mikið rétt, Húsafell um verslunarmannahelgina 1969 og löggan hirti af okkur 5 lítra kút af einhverju bruggi sem við höfðum soðið saman sjálf, við náðum aldrei að bragða á því.

En svo skondið sem það er þá hef ég ekki farið á útihátíð um verslunarmannahelgi nema einu sinni síðan og það var á Bindindismót í Galtalæk.

Tímarnir breytast og mennirnir með.

Marta Gunnarsdóttir, 2.7.2008 kl. 23:32

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jú Svanur, helgarhippi í hippafötum.  Hahaha, rétt hjá þér.

Jenný Anna Baldursdóttir, 2.7.2008 kl. 23:35

10 identicon

Það má líka segja að Hippamerkið sé dauðarúnin inn í hring.

Johnny Rebel (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 23:40

11 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Blessaður Rebel. Long time no see. Dauðarún, sú íslenska????

Svanur Gísli Þorkelsson, 2.7.2008 kl. 23:43

12 identicon

Blessaður Svanur,

Ég var bannaður á blogginu og hef þess vegna lítið látið til mín taka.

Ekki er ég klár hvort sú rún sé íslensk en mynd af líf rúninni er hér

Dauða rúnin er svo einmitt öfug. 

Johnny Rebel (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 23:52

13 Smámynd: egvania

Svanur takk fyrir að vilja vera bloggvinur minn.

Ég kom stundum við á Söru  hér á árum áður, er víst orðið ægilega langt liðið frá þeim tíma.

Ég var ekki Húsfellingur mín leið lá á suðurland.

egvania, 3.7.2008 kl. 11:11

14 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Ásgerður, þakka þér miklu frekar. Suðurland segirðu, áttu við útihátíð þar? 40 ár eru ekki svo mikið, helmingur af meðal ævi, dropi í ómælishafið. En ég held ég viti samt hvað þú átt við :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 3.7.2008 kl. 11:24

15 Smámynd: Óskar Þorkelsson

skemmtileg tilviljun að ég fór að lesa þennan pistil.. og skipti á history channel á sama tíma og þá var verið að sýna heimildaþátt um hippa..

Óskar Þorkelsson, 3.7.2008 kl. 12:33

16 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

skemmtileg og áhugaverð grein !

takk

knús í krús

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 3.7.2008 kl. 12:33

17 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Óskar: Það er alltaf verið að reyna að gera hippatímann upp. Hann lætur fólk ekki í friði enda margir afar ósáttir við hvernig hann leystist upp í Diskói og Kókaíni.

Svanur Gísli Þorkelsson, 3.7.2008 kl. 12:35

18 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Var svona nokkurskonar rebel við þá stefnu, hlustaði á Blues, Motown, rock og svo auðvitað allt með Slow hand.

Idolin mín voru ekki til, því mér fannst músikkin vera tjáning og listamaðurinn skipta minna máli , nema auðvitað Janis og Jimmy.

Semsagt reis upp gegn hippakúltúr, með því að vera ,,vel til hafður"  en fílaði groofið jafn vel og hver annar, jafnvel betur,því ég var ekkert upptekinn af boðskap og svoleiðis nokk bulli.

Vissi sem var, að það breytist allt með the all mighty janky $$$$$$ og barnauppeldi.

Sumir eru flottir ennþá, sjáðu karlhlunkinn í Stones, það se´r andsk. ekkert á honum, nema nokkrar hrukkur í fési.

Peace merkið var notað sem brotinn kross , líkað ekki við það.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 3.7.2008 kl. 13:39

19 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Bjarni: Það sem var skemmtilegt við hippana var að það skipti ekki máli hvort þú varst "vel til hafður" eða ekki svo lengi sem þú fílaðir tónlistina. Það var standard klisja að sjá myndir af jakkafatamönnum með bindið um ennið í stað hálsins á þessum dögum, svona þegar fór að líða á kvöldið.

Svanur Gísli Þorkelsson, 3.7.2008 kl. 14:03

20 Smámynd: Aðalsteinn Baldursson

Málið er að þessi tónlist lifir góðu lífi enn þann dag í dag. Hippahátíðin í Eyjum er gott dæmi um það að nýjar kynslóðir njóta tónlistarinnar og á þessum hátíðum eru bæði "ekta" hippar innan um fólk sem ekki var einu sinni orðið blik í augum foreldra sinna þegar að hippamenningin reis sem hæst. En það skemmta sér allir saman og njóta stemmningarinnar. Ég er búinn að mæta á nokkrar af þessum hippahátíðum og skemmta mér vel. Hippabandið á heiður skilinn fyrir frábært framtak.

Aðalsteinn Baldursson, 3.7.2008 kl. 14:58

21 Smámynd: Stefán Þór Helgason

Upprunamenn hippans, sem vor búnir að vera með þessa starfriðahugsjónir síðan fyrir 1960 komu saman 1967 frekar en 1966 og lýstu yfir að hippinn væri dauður vegna þess að hippinn væri orðin að tísku. Ný-hipparnir tóku að sér hugsanir, hugmyndir, lífsmáta og mottó sem að hippinn voru tileinka sér og gerðu það að sínu, enda sást það seinna með blómabörnunum sem var endanlegur endir á þessu tímabili. Eftir að sýran var búin og reykurinn hvarf urðu þeir allt í einu kapítalistar. Hippinn náði að brjóta upp gamaldags hugsunarhátt inn á heimilum en náði ekki að breyta hugsun ríkisvalds, peningar ráða. Við sjáum það best hvernig USA er í dag.

Allir sem hafa neitt fíkniefna vita það að þitt "norm" breytist og þú hefur ekki fulla stjórn á þíns eigin þankagang. Hugsanabilanir, siðblinda og stöðnun í þroska eru miklir fylgifiskar mikillar neyslu. Ómælanlegur fjöldi fólk í heiminum hafa framið sjálfsmorð vegna fíkniefna, þegar maður les um það sem gekk á bakvið senuna þá er ég ekki mjög hrifin.

Ég er mikill tónlistarunandi og hlust mikið á tónlist frá þessum tíma s.s. Canned heat, Hookerinn, Sabbath og enn eldra eins og Big Joe Williams og auðvitað pönk og hevy metalið sem kom á eftir. Pönkið eða anarkisminn dó einmitt af sömu ástæðu, varð að tískubólu.

 Smá pælingarinnlegg um hippakrids, rétt eða rangt.

Takk fyrir góða grein. 

Stefán Þór Helgason, 3.7.2008 kl. 15:23

22 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Aðalsteinn: Hippahátíin í Eyjum er ásamt ´68 kynslóðarballinu með Pops tvö helstu lifandi minnismerki um hippatímabilið á Íslandi.

Stefán Þór: Þakka þér gott innlegg og eftirmæli. Tískubólan Hippinn er vissulega enn á sveimi í klæðnaði og tónlist okkar tíma, en alvöruhipparnir eru flestir fluttir til Key West til að horfa á eilíft sólarlagið.

Svanur Gísli Þorkelsson, 3.7.2008 kl. 15:40

23 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Skemmtilegur Pistill hjá þér Svanur. 

Mín tilfinning er að þessi fyrsta alvöru "táningamenning" sé að mörgu leiti grunnurinn að mörgu sem er í dag eins t.d auknara einstaklingsfrelsi. Auðvitað liggja ræturnar lengra aftur í fortíðina en á þessu tímabili fannst mér fyrst hristast almennilega upp í íhaldssömum hugmyndum fólks í hinum vestræna heimi. Ég er gallharður á því að áhrifin hafi umturnast í margvíslegar stefnur, allt frá frelsishyggju til umhverfisbaráttu.Þó svo að hinir og þessir hafi orðið að "kótalettukörlum" eða gallhörðum kapitalistum þá er ekki þar með sagt að eitthvað af friðarboðskapnum hafi sigast inn í þetta ágæta fólk. Allaveganna er einhver ástæða fyrir því að t.d baráttumál samtakanna 78 eru teknar af góðar og gildar af meginþorralandans og baráttusamtök eins og Armnesti Inter natual lifa góðu lífi í dag.

Það sem mér finnst aftur á móti athyglisvert er að menn eins og Bob Dylan og John Lennon voru með miklar efasemdir um þessa kynslóð strax á þessum tíma. Allaveganna þykist ég geta lesið það úr textum eins Revolusion og like a Rolling Stones.  

En hvað er ég nú eiginlega að þvaðra.. 

Ég var ekki uppi á þessum tíma. 

Brynjar Jóhannsson, 3.7.2008 kl. 15:47

24 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Brynjar; Þú kemur inn á mál sem hægt er að rekja svo auðveldlega á Íslandi en er erfiðara í mörgu útlandinu og vitanlega kemur þar inn  smæð okkar. Það sem ég á við eru þessi varanlegu samfélagsáhrif hippahreyfingarinnar. Rauðsokkuhreyfingin, samtökin 79, grænfriðungar og fleiri samtök eru stundum sögð skilgetiðn afkvæmi þess þjóðfélagsusla sem hipparnir ollu. Víst er að margar af hugsjónum hippanna fundu sér leið inn í markmið þessara og margra áþekkra samtaka með fólkinu sem byggði upp starfsemi þeirra.

Svanur Gísli Þorkelsson, 3.7.2008 kl. 15:59

25 Smámynd: Gulli litli

Maður yljar sér við minningarnar ....

Gulli litli, 5.7.2008 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband