26.6.2008 | 16:11
Tilberar og tíðablóð
Þegar ég var að alast upp á Snæfellsnesi hékk ég öllum stundum í jakkalafi afa míns. Ég var á spyrjaísífelluánþessaðandatímabilinu þegar ekkert er svo ómerkilegt að ekki megi spyrja um það. Eitt sinn tók ég eftir hvítri skán á steinum sem erfitt var að skafa af. Aðspurður sagði afi að þetta væri tilberaspýja. Ég lét þetta svar nægja um sinn þótt ég vissi hvorki hvað tilberi eða spýja væri.
Seinna þegar ég las mig til um fyrirbærið og þótti mér það athyglisvert af ýmsum ástæðum. Hvernig verða svona þjóðsögur til?
Nú hefur því verið haldið fram að trú íslendinga á huldufólk hafi komið til og síðan verið viðhaldið af þörf okkar til að halda friðinn þar sem við hírðumst fjölmenn (miðað við húsakost) í þröngum baðstofum þar sem náin umgengni var ekki umflúin. Ef að smáhlutur hvarf, var ekki ráðlegt að þjófkenna heimilisfólkið heldur lýsa því yfir að huldukonan eða huldumaðurinn í hólnum fyrir utan garð hefði fengið hann lánaðan. Oftar en ekki var hlutnum skilað aftur og allt féll í ljúfa löð. Þá reyndist nauðsynlegt að feðra sum börn með huldumönnum til að rýrð félli ekki á húsbóndann eða fyrirmanninn sem fékk að gista. Ef að skýra þurfti óeðlilega nytjarýrnun kúa, voru tilberar góðir blórabögglar. Þá þurfti ekki að skyggnast neitt lengra eða leita eftir einhverju mennsku sem saug kýrnar á laun.
Fyrir nokkrum árum var ég með hóp af útlendingum í skoðunarferð um Suðurland og hitti þá konu á Geysi sem var að nema Þjóðháttafræði í HÍ. Einhvern veginn komu tilberar til tals og hafði þessi kona, sem ég man því miður ekki hvað heitir, ákveðna skoðun á uppruna þeirra. Sagði hún líklegt að hjátrúin hefði orðið til þegar að konur til forna notuðu rifbein vafið ull á sama hátt og konur í dag nota dömubyndi. Rifbeinið væri þannig lagað að það hefði hentað til þessa brúks og svo hefðu karlmenn sem ætíð hafa haft einhvern óskiljanlegan stugg af tíðablóði, (sem er nú alveg efni í sérblogg og kannski áhugaverðara en þetta) séð gjörninginn og búið til hryllingssögu úr öllu saman. Þetta finnst mér í dag afar líkleg skýring þótt ég hafi hvergi heyrt hana annarsstaðar.
Á vef Galdrasýningarinnar á Ströndum fann é eftirfarandi lýsingu á tilbera.
Tilberi er þannig til orðinn að kona stelur rifbeini úr dauðum manni í kirkjugarði á hvítasunnumorgni og vefur það síðan grárri sauðarull svo það verði að öllu útliti sem ullarvindill, og lætur það liggja um hríð milli brjósta sér. Þannig útbúin fer hún til altaris þrjá sunnudaga í röð og dreypir í hvert sinn víni því hún bergir á tilberaefnið með því að spýta því út úr sér í barm sér og í kjaftinn á tilberanum.
Hið fyrsta sinni er konan dreypir á tilberann þá liggur hann grafkyrr. Í annað sinn hreyfist hann og hið þriðja sinni er hún dreypir á hann verður hann fullmagnaður og svo fjörmikill að hætta er á að hann spretti fram úr barmi hennar. Þær konur máttu gjalda hinn mesta varhug við að ekki kæmist upp um þær, því þá réð snakkurinn þeim bráðan bana.
Þegar tilberinn er orðinn fullmagnaður þá þolir konan hann ekki lengur á brjósti sér. Vökvar hún sér þá blóð innanlæris og gerir þar sepa á og lætur hann sjúga sig þar fastann. Þar lifir hann og nærist á blóði konunnar ávallt meðan hann er heima. Tilberamæður þekkjast á því að þær eru haltar og hafa blóðrauða vörtu líka spena innanlæris.
Tilberann notuðu konurnar til að sjúga ær og kýr annarra manna úti um haga og færa þannig björg í bú. Þeir koma svo á búrglugga móður sinnar á meðan hún skekur strokkinn og segja:
Fullur beli, mamma.
Þá tekur konan lokið af strokknum og segir:
Gubbaðu í strokkinn, stráki.
Ælir þá tilberinn öllu því er hann hefur sogið þann daginn ofan í strokk móður sinnar og verður þar af tilberasmjör.
Tilberar voru notaðir til annars en að sjúga málnytpening og stela mjólk. Þeir voru einnig hafðir til að stela ull og vöfðu þeir þá ullinni utan um sig.Þegar tilberamóðir eldist og lýist þá gengur tilberinn svo nærri henni að hún þolir ekki að láta hann sjúga sig lengur í gegnum lærspenann. Sendir hún hann þá upp á fjöll og skipar honum að tína saman öll lambaspörð á þremur afréttum. Tilberinn vill allt til vinna að komast sem fyrst til móður sinnar aftur og sprengir sig á því. Hafa menn talið það til sanninda, að oft hafi fundist mannsrif við lambasparðahrúgur á fjöllum uppi.
Tilberar eru ákaflega fljótir og þjóta yfir holt og hæðir. Sýnast þeir þá ýmist velta líkt og bolti, ellegar þeir stingast á endum.
Ætla má að konur á Ströndum hafi eitthvað átt við að koma sér upp tilbera því menn þar um slóðir hafa talið sig séð tilbera á ferð á fjöllum uppi.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Dægurmál, Menning og listir, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Er einmitt að lesa Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar núna...elska góðar og krassandi draugasögur og tilbehör.....
Gulli litli, 26.6.2008 kl. 16:48
Segi það sama hef gaman af krassandi þjóðsögum...en guði sé lof fyrir vængjuð bindi og álfabikara...
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 26.6.2008 kl. 17:24
Takk fyrir þetta, ésús minn hvað ég er alltaf að komast að því hvað ég veit lítið.
Jenný Anna Baldursdóttir, 26.6.2008 kl. 17:39
Áhugavert.
Skattborgari, 26.6.2008 kl. 18:58
Þjóðsögurnar okkar eru margar hverja þrælskemmtileg lesning. Sjálfur las ég Þjóðsögur Jóns Árnasonar nokkuð oft þegar ég var yngri og hafði gaman af. Ég hef að vísu aldrei heyrt fyrr þessa skýringu á tilurð tilberans en þessi skýring er ekki vitlausari en hver önnur.
Aðalsteinn Baldursson, 26.6.2008 kl. 19:51
Síðasta formlega rannsóknin vegna rðróms um galdur, fór fram 1804 á tveim konum sem grunaðar voru um að halda tilbera. Fór húsbóndinn sjálfur fram á rannsókn til að hrinda óorði af heimilinu. Af því má dæma að trúin á slíkt fyrirbæri hlýtur að hafa verið dáldið sterk... jafnvel svo seint... 1804. 200 ár síðan. Bara í gær.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 27.6.2008 kl. 00:11
Vitrar voru þær að nota ullina. Hitajafnandi, græðandi og sveppur á erfitt uppdráttar í henni. Rakadræg, en minnki rakadrægnin á að láta hana liggja í ullarfeiti í smástund. Ullarfeitin er flestra meina bót.
Eydís Hentze Pétursdóttir, 27.6.2008 kl. 10:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.