26.6.2008 | 12:08
Fjallkonur allra landa sameinist
Fyrst ég fór að hugsa um fjöll, leiddi það hugann ósjálfrátt að hlutum þeim tengdum. Íslenska fjallkonan var alltaf dálítið dularfull fannst mér. Maður skildi ekki hvernig hún gat búið í fjöllunum ásamt Grýlu og Leppalúða og öllu því hyski. Vitanlega misskildi maður þetta alltsaman. Það hefði verið betra að vita að hún er eiginlega útlensk eftirherma, eða hvað haldið þið?
Fjallkonan er tákn eða kvengervingur Íslands. Kona kom fyrst fram sem kvengervingur landsins í kvæði Eggerts Ólafssonar, Ofsjónir 1752, en Fjallkonan var fyrst nefnd í kvæði Bjarna Thorarensen, Eldgamla Ísafold, og hefur verið algengt tákn í íslenskum skáldskap síðan. Elsta prentaða mynd af Fjallkonunni birtist í enskri þýðingu íslenskra þjóðsagna, Icelandic Legends (1864-1866), og þekkt er mynd Benedikts Sveinbjarnarsonar Gröndal á minningarspjaldi um þjóðhátíðina 1874. Kona í gervi Fjallkonunnar kom fyrst fram á íslendingadeginum í Winnipeg í Kanada 1924 og eftir lýðveldisstofnun á Íslandi 1944 hefur kona í skautbúningi jafnan flutt fjallkonuljóð við hátíðahöld 17. júní.(Tekið af WP)
Konumyndin á að tákna Ísland, því hefur hún ískórónu á höfði, sem eldar gjósa upp úr. Á öxl hennar er hrafninn, Íslands einkennilegasti fugl, Óðins forni vin og skáldanna eftirlætisgoð, fréttafugl mikill og margkunnugur. Yfir sjónum flögrar már, en yfir brimsævi tíma og sögu berast rúnakefli að landi eða upp í fang konunni, og hefur hún þegar náð einu þeirra. Þetta átti svo sem að vera symbolum (tákn) bókmenntalandsins og sögulandsins okkar. Yfir er nótt og stirndur himinn og máninn uppi. Á bak við eru fjöll, tunglroðin á eggjunum.
Mörgum hefur þótt sem fjallkona Zweckers bæri nokkurn svip af Viktoríu Englandsdrottningu sem um þetta leyti mátti vissulega kallast Drottningin með stórum staf í Evrópu.
(tekið af Háskólavefnum)
Hér fyrir neðan eru myndir af þjóðkonum annarra landa. Helvetika (Svissland) Germanía (Þýskaland) Britanía (Bretland) Liberty (Frakkland) Frelsisgyðjan (USA) Hibernía (Írland) Pólanía(Pólland) og loks Sáma Frænka (USA
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Dægurmál, Trúmál og siðferði, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:10 | Facebook
Athugasemdir
Heyrði í útvarpinu um daginn einhverjar vangaveltur um hvort ætti að aðlaga Íslensku fjallkonuna nútímanum. Þá helst þegar blessunin poppar upp á 17. júní. Verð að viðurkenna að fjallkonan hefur aldrei verið mitt uppáhald en samt fyrir mína parta vil ég ekki sleppa henni.
Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir, 26.6.2008 kl. 12:22
Sú íslenska fegurst fljóða.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 26.6.2008 kl. 12:33
Úrelt fyrirbæri
Aðalheiður Ámundadóttir, 26.6.2008 kl. 12:48
Æi mér finnst alltaf eitthvað kjánalegt við fjallkonuna sem dreginn er fram 17 júní....flottar samt þessar myndir af þjóðkonunum
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 26.6.2008 kl. 13:41
Ef fjallkonan er sameiningatákn þjóðarinnar, þá vil ég sameinast þeirri amerísku.
Gulli litli, 26.6.2008 kl. 13:43
Góður Gulli :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 26.6.2008 kl. 13:52
Svanur, hentu þessu út ef þú telur þetta einum of mikið af hinu góða í lengd. En lesningin er áhugaverð:
"Áhugavert er að skoða Fjallkonuna frá sjónarhóli andhverfu hennar; Ástandskonunnar. Hún er hin ábyrgðarlausa kynvera sem virti að vettugi þá helgu dóma sem henni voru faldir í skaut. Hafið sem leikur við fætur fjallkonunnar gegnir mikilvægu hlutverki sem tákn skírlífsbeltis landsins, sem hefur verndað það gegn erlendum áhrifum og árásum í aldanna rás. Í seinni heimstyrjöldinni rofnaði þetta belti og breskir og bandarískir hermenn streymdu til landsins. Nú streymdi erlent sæði um íslensk skaut í þeim mæli að það var tilið ógna hreinleika íslensku þjóðarinnar. Hinn kvenlegi, kynlegi líkami ástandskonunnar ruglaði þannig mörkin á milli þess sem var íslenskt og útlent. En með ástandinu upplifðu íslenskar kkonur það í fyrsta skipti í stórum stíl að á þær var litið sem kynverur fyrist og fremst, en ekki sem hugsanlegar eiginkonur og næður. Fegurðardrottningar okkar tíma eru hins vegar skilgetin afkvæmi fjallkonunnar. Þær hafa tekið yfir hið táknræna hlutverk gyðjunnar ósnertanlegu sem persónugevingar lands og lýðs, heima og heiman.
Ef fjallkonan var móðirin þá er fegurðardrottningin meyjan í íslenskri þjóðarvitund. Sitjandi í hásæti, íklædd síðkjól og með kórónu á höfði, brosir hún í gegnum tárin og inn í hjarta íslensku þjóðarinnar.
Með því að sviðsetja og keppa í fegurð er þjóðin öll virkjuð í því ferli aðskilgreina og viðhalda hugmyndum um það hvers konar fegurð og kvenkostir séu æskilegir og hvernig stúlkur við viljum hafa sem fyrirmyndir hér heima og sem fulltrúa okkar á erlendri grund.
Fjallkonan og fegurðardrottningin, eða móðirin og meyjan, eru gyðjur sem við höfum sett á stall. Báðar tróna í hásæti, með einhvers konar höfuðskart eða kórónu á höfði. Andlit þeirra og líkama sýnum við umheiminum með stolti og í ásýnd þeirra kristallas okkar glæstustu hugmyndir um Ísland og íslenska þjóð.
Þá má segja að fjallkonan, táknmynd sjálfstæðisbaráttunnar, hafi að mestu glatað hlutverki sínu í nútímasamfélagi, þótt henni sé enn stillt upp á pall “17. júní”. Þar trónir hún eins og einmana skrautfjöður, arfleifð fortíðar, tímskekkja í nútímanum. Vegna mikilvægis hennar í þjóernislegu, sögulegu og menningarlegu samhengi vogar sér þó enginn að afboða komu hennar, og leyfa henni að deyja í friði."
Tekið úr Fjallkonan: Myndbirting hennar og rætur. (Fann ekkert höfundarnafn)
Aðalheiður Ámundadóttir, 26.6.2008 kl. 13:55
Er algjör andstæðingur Fjallkonunnar. Hún meira að segja þvælist fyrir mér.
Móðir, kona, meyja er heldur ekki að gera sig, hvað þá fósturlandsins Freyjur.
Svona er ég óíslensk.
Jenný Anna Baldursdóttir, 26.6.2008 kl. 14:32
Þorvaldur; Já tungumál og elsta þjóðfána í heimi ekki satt?
Svanur Gísli Þorkelsson, 26.6.2008 kl. 14:36
Ásta; Spurning hvernig það er hægt nema með því að "sexa" hana upp eins gert er með allt sem úrelt þykir í dag.
Aðalheiður; Fínt innlegg og ekkert of langt fyrir minn smekk. Fólk blaðrar nú annað eins og meira um ekki neitt. Ef fjallkonan stendur fyrir eitthvað í mínum huga þá er það óneitanlega óspjölluð náttúran sem var. Nú hefur hún verið gift eða seld, eftir því hvernig við lítum á það, forríkum álframleiðendum. Takk fyrir þetta.
Jenný; Hvað er að heyra. Kannski er þessu einmitt öfugt farið og það sé alíslenskt að sætta sig illa við tilbúnar ímyndir sem þjóðarsálin hefur aldrei samsamað sig.
Svanur Gísli Þorkelsson, 26.6.2008 kl. 14:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.