Förin sem aldrei var farin

Af og til berast svo kallaðar barna-krossferðir á góma, yfirleitt í ræðum eða ritum fólks sem leggur sig eftir að reyna sýna fram á heimsku trúar og/eða trúarbragða, með sem flestum dæmum.

childrenscrusadeSögurnar af barnakrossferðunum hafa nokkuð svipaðar innihaldlýsingar og segja frá þegar tveir drengir, annar þýskur og hinn franskur, á árinu 1212,  áttu að hafa safnað um sig fjölda barna til að fara í krossferð til landsins helga til að hertaka Jerúsalem.

Fyrri ferðinni stýrði Þýski drengurinn Nikkulás. Hann er sagður hafa farið yfir Alpana til Ítalíu og komið til Genóva um mitt ár 1212 með 7000 börn í eftirdragi. Eitthvað fóru málin úrskeiðis þegar komið var að strönd Miðjarðarhafsins því það opnaðist ekki eins og Nikkulás var sannfærður um að það mundi gera. Hópurinn sundraðist fljótlega og er sagt að flest börnin hafi verið hneppt í þrældóm. Alla vega komst ekkert þeirra til Ísrael.

Sama ár boðaði franskur stráklingur að nafni Stefán að honum hefði verið falið af Jesú að leiða börn Evrópu til Landsins Helga og  framkvæma það sem fyrri krossferðum hafði ekki tekist, að vinna og halda Jerúsalem. Hann hafði meira að segja bréf frá Jesú upp á þetta til Frakklandskonungs sem samt lét sér fátt um þau skilaboð frá friðarhöfðingjanum, að hann ætti að greiða götu stráksa, finnast.

Stefán laðaði að sér rétt um 30.000 börn, öll sögð innan 12 ára aldurs og hélt með þau til Marselles. Þaðan var ætlunin að sigla til Ísrael. En það fór fyrir Stefáni svipað og Nikkulási, hópurinn leystist upp og mörg barnanna voru tekin og seld mannsali á þrælamörkuðum Evrópu og Afríku.

ChildrensCrusade04-l

Í Evrópu ríkti mikil upplausn á árunum eftir aldamótin 1200. Stórir hópar af uppflosnuðum fátæklingum fóru um lönd og talið er að 1212 hafi tala fátæklinga í þessum hópum skipt þúsundum.

Elsta heimild um þessa hópa er skrifuð um 1240 og í henni er getið um "pueri" sem þýðir á latínu drengur. Þetta orð var tekið sem það þýddi börn þótt á 13. öld væri alsiða að kalla sveitastráka þessu nafni. Þetta gaf seinni tíma höfundum ástæðuna til að kalla þessa fjölda uppflosnun fátæklinga barnakrossferð.

Þá voru krossfarar á þeim tímum almennt ekki kallaðir krossfarar heldur voru þeir kallaðir  menn sem "tekið höfðu krossinn". Þeir sem báru veifur eða krossa voru stundum kenndir við krossferðirnar þótt þeir hefðu ekkert með þær að gera. Samhljóma niðurstaða seinni tíma söguskoðenda er að þessar "barnakrossferðir" hafi ekki verið farnar og séu að mestu þjóðsaga þótt einhver flugufótur geti verið fyrir tilvist drengjanna Nikkulásar og Stefáns.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skattborgari

Það er oft erfitt að gera sér grein fyrir hvaða heimildir eru réttar eða hve stór hluti af þeim sé réttur sérstaklega þegar verið er að fara mörg hundruð ár aftur í tímann.

Áhugavert þetta eru örugglega að einhverju leiti réttar heimildir en spurning að hve stórum hluta. 

Skattborgari, 20.6.2008 kl. 01:18

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Skatti. Satt segirðu, það er ekki allt sem sýnist alltaf.

Svanur Gísli Þorkelsson, 20.6.2008 kl. 02:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband