Hver var Murat Reis? Og hvers vegna réðist hann á Ísland?

 corsairsÞrjú skip sigldu í gegnum Gíbraltarsund. Eftir að hafa lónað meðfram ströndum Evrópu í fáeina daga, tóku þau stefnuna á norðurhöf. Um borð í skipunum voru 300 vígamenn frá sjóræningjagreninu Selé í norður Afríku. Árið var 1627. Foringi þeirra, alræmdur sjóræningi, sem gekk undir nafninu Murat Reis hinn yngri, hafði ákveðið að taka skip sín á ókunnar slóðir, lengra enn hann hafði nokkru sinni siglt áður. Sem leiðsögumann í leit að verðmætasta varningi sjóræningja sem gerðu út við Miðjarðarhafið, þ.e. hvítum þrælum, hafði Murat Reis með sér danskan sjómann sem sagðist þekkja til í norðurhöfum. Um miðjan Júlí mánuð komu þeir til Íslands. Þeir gerðu strandhögg á fjórum stöðum þ.a.m. í Vestmannaeyjum og höfðu með sér af landinu  yfir 400 manns. Fólkið var flest  selt fyrir gott verð á þrælamörkuðunum í Alsír og í Selé nokkru seinna. Athygli vekur að varðskip Danakonungs sem venjulega voru komin til landsins í byrjun sumars, létu ekki sjá sig þetta árið, fyrr en ránin voru afstaðin.

Moorish-AmbassadorEn hver var þessi Murat Reis foringi sjóræningjanna? Hans rétta nafn var Jan Janszoon. Jan Janszoon var fæddur í borginni Harlem í Hollandi. Ungur að árum gerðist hann sjóræningi og herjaði fyrir hönd þjóðar sinnar á spánskar skútur og skip meðfram ströndum Evrópu. Það leið ekki á löngu þar til hann flutti sig um set suður að Fílbeinsströndinni þar sem hann herjaði á allt og alla annað hvort undir hollenska flagginu eða rauða hálfmánanum. Með því sagði hann sig úr lögum við Holland og varð sinn eigin herra. Árið 1618 var hann handtekinn og færður í járnum til Alsírborgar. Þaðan var stunduð mikil sjóræningjaútgerð. Ottóman veldið átti þar nokkur  ítök og voru því íbúar svæðisins oft ranglega nefndir Tyrkir af Evrópubúum.

Jan Janszoon var fljótlega sleppt úr haldi eftir að hann hafði gerst múslími. Hann tók upp sína fyrri iðju og stundaði sjórán í félagi við fræga sjóræningja eins og Sulayman Raiseinnig þekktur undir nafninu  Slemen Reis en  upprunalegt nafn hans var De Veenboer.  De Veenboer var landi Jans og hafði einnig gerst múslími. Þá sigldi Jan Janszoon um tíma með Simon de Danser.

Árið 1619 eftir dauða De Veenboer, gerðist Jan Janszoon foringi sjóræningjanna og ákvað að færa bækistöðvar sinar frá Alsírborg til Sele í Mórakó og stofna þar fríríki. Hann tók sér nafnið Murat Reis hinn yngri. Jan var valinn fyrsti forseti fríríkissins en lét sér nægja titilinn landsstjóri eftir að hafa komsist að samkomulagi við  Moulay Zaydan Sultán og innlimað Selé aftur í Tyrkjaveldi árið 1624. tyrkir

Í Selé giftist Jan márískri konu af ættum Barbara og gat með henni mörg börn. Synir þeira fluttu seinna til nýju Harlem í Bandaríkjunum (New York) og af honum eru komnir kunnir Bandaríkjamenn, eins og Cornelius Vanderbilt, Jackie Kennedy og Humphrey Bogart.

Eftir komuna frá Íslandi flosnaði upp úr samkomulagi hans við sultánin og hann flutti sig og útgerðina aftur til Alsírborgar og fór þaðan í ránsferðir til Englands og Írlands næstu ár á eftir.Á fjórða áratugnum var hann tekin til fanga af templarariddurum á Möltu en tókst að flýja þaðan 1640. Eftir það settist hann að í Oualidia kastala nálægt  Safi í Morakó þar sem hann hafði verið gerður að landstjóra. Þangað kom til að dveljast hjá honum um hríð, dóttir hans frá fyrri konu í Hollandi, Lysbeth Janszoon van Haarlem. Ekki er vitað neitt um afdrif Jans eftir að  hún fór aftur til Hollands nokkrum mánuðum seinna.

Ekki er vitað um dánardægur Jans eða hvar hann er grafinn. Ég rifja þetta upp hér vegna þess að í tvö hundruð ár eftir að ránin voru framin á Íslandi var staðin vakt upp á Helgafelli í Vestmanneyjum ef vera kynni að sjóræningjarnir snéru aftur. Landlægur ótti við Tyrki og flest allt sem úr austri kom festi hér rætur og virðist enn, þrátt fyrir öld upplýsinga og frjálsu flæði þeirra, plaga okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skattborgari

Þetta var slæmt væri gaman að vita af hverju danska varðskipið var ekki komið fyrr en þeir voru farnir. Áhugaverð lesning eins og venjulega Svanur.

Skattborgari, 10.6.2008 kl. 19:21

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Skattborgari;Það eru svo sem til tilgátur um það, en aðeins tilgátur. Yfirvofandi erjur við Evrópu er ein, yfirstandandi deilur við Noreg önnur, mútur og fl er þar talið fram.

Svanur Gísli Þorkelsson, 10.6.2008 kl. 22:42

3 Smámynd: Skattborgari

Takk fyrir svarið Svanu.  Ætli það sé hægt að draga sjóherinn þeirra fyrir rétt í dag fyrir að bregðast skyldum sínum? bara nokkrum öldum of seint.

Skattborgari, 10.6.2008 kl. 22:50

4 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Svanur

Ég sé að Murat Reis hefur vakið áhuga þinn. Þegar ég vann ásamt Þorsteini Helgasyni að myndaröðinni um Tyrkjaránið þá heimsóttum við kastalann í Oualidia þar sem Murat eyddi ævikvöldinu. Einnig ræddum við tvo menn sem höfðu stúderað kallinn, einn Íra og einn Hollending.Ég sá hjá bloggara um daginn að hann notaði orðið hundtyrki yfir múslima. Hann var ekki búinn að jafna sig á „Tyrkjaráninu“ þó langt se um liðið.

Hjálmtýr V Heiðdal, 10.6.2008 kl. 23:19

5 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Hjálmtýr.Hann hefur verið mér hugleikinn síðan ég var í Eyjum hérna í denn.

Mig rámar í þessa þætti. Var ekki myndefnið samt af skornum skammti?  Yrði ekki að gera leikna mynd til að fá almennilega mynd um kauða?:=)

Ég held að ég viti hvaða blogg þú ert að meina. Ég setti inn smá svar og fékk ádrepu fyrir. Annað hefði náttúrulega verið óviðeigandi :) 

Svanur Gísli Þorkelsson, 10.6.2008 kl. 23:44

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir það Kurr og Kjarri. Stóðst ekki mátið að ávarpa ykkur saman :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 10.6.2008 kl. 23:46

7 Smámynd: Aðalsteinn Baldursson

Sælir og takk fyrir góðan pistil.

Vaktin sem menn stóðu á Helgafelli eftir þessa örlagaríku "heimsókn" varð að fyrsta og (hingað til eina) skipulagða her landsins. Eins og þú veist eru síðan til mörg örnefni í Eyjum sem að minna á komu sjóræningjanna. Má þar m.a. nefna Hundraðmannahelli, Sængurkonustein ofl.

En enn og aftur, takk fyrir skemmtilega pistla.

Aðalsteinn Baldursson, 11.6.2008 kl. 05:04

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já, þessi atburður varð íslendingum afar minnistæður.  Td. hefur gamall maður sagt mér (fæddur um 1920) að þegar hann var krakki hafi hann verið búinn að skipuleggja flóttaleið og felustað EF svo skyldi fara að tyrkirnir birtust.  Allt planað.

 En með atburðinn, þá er alveg hægt að leiða rökum að því, að gert hafi verið eins mikið úr honum og hægt var eftirá.  Hann var ma. notaður sem dæmi um hvað gæti gerst ef fólk væri ekki á beinu brautinni trúarlega.  Þe. refsing Guðs yfirvofandi.

Það sést td. á ummælum Björns á Skarðsá um ástæður þess að hann skrifar Tyrkjasögu að hann er mjög upptekinn af trúarlega faktornum  (eftirfarandi er líklega eigi alveg orðrétt eftir Birni, það er tekið úr umfjöllun Þorsteins Helgasonar er skrifaði ritgerð um tyrkjaránið):

"1. Af atburðunum sjálfum má draga þann lærdóm að „þegar hönd drottins styður ekki, þá liggur mannskepnan fallin“ og því er rétt að ástunda bæn.

2. Neyð er það að dvelja hjá óguðlegri þjóð þar sem ekkert gott er að sjá eða heyra.

3. Mikið liggur á að biðja guð að hlífa oss og börnum vorum við því áfalli að vera píndur til að neita skapara sínum.

4. Mikið liggur við að biðja fyrir fólki sem ratar í slíka nauð.

5. Guði skal þakkað fyrir útlausn þeirra sem frelsaðir eru eða verða.

6. Nauðsyn er að þakka frelsaranum fyrir „að hann lét oss ekki, vorar kvinnur og börn, verða fyrir slíkri harmkvælingu...“

7. Þessi „stórtíðinda frásögn“ minnir á að menn þakki drottni fyrir að þessi óþjóð hefur ekki komið aftur.

Svo bætir hann við 8. atriðinu er hve nauðsynlegt sé að Ísland hafi einhverjar varnir.

(Tek þó fram að eg mun ekki nenna að fara að deila um eðli Tykjaránsins eða hversu hræðilegt það var... nóg er nú samt)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.6.2008 kl. 13:39

9 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Hm hm.. þetta átti ekkert að verða letur af stærri gerð.  Eitthvað klikk.  Sorry.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.6.2008 kl. 13:41

10 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir þessi gögn Aðalsteinn og Ómar. Fínar viðbótarupplýsingar :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 11.6.2008 kl. 13:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband