9.6.2008 | 23:10
Sabear, fólkið og trúarbrögðin sem týndust
Flestir sem eitthvað hafa kynnt sér Íslam hafa heyrt talað um Fólk Bókarinnar. Fólk bókarinnar voru það fólk sem ekki gerðust múslímar en áttu samt að njóta sömu réttinda og múslímar undir lögum Íslam, vegna þess að trú þeirra væri upprunalega guðleg. Múhameð tilgreinir fjóra hópa eða trúarbrögð sem öll voru fyrir á Arabíuskaga þegar hann kom fram með kenningar sínar. Þetta voru Gyðingar, Kristnir, Zóroasterstrúarmenn og Sabear. Flestir þekkja fyrstu þrjá hópana eða hafa af þeim einhvern pata.
En hverjir voru þessir Sabear.
Þegar gluggað er í sögubækur eftir upplýsingum um Sabea er hætt við að fólk verði dálítið forviða eða jafnvel ringlað. Það sést fljótlega að ekki er átt við þá Sabea þá sem nefndir eru í Biblíunni og kenndir voru við Sebu í Eþíópíu. Einnig kemur í ljós að smáþjóð ein sem þekkt var undir nafninu Harraniar virðist hafa tekið sér nafnið (Sabear) til þess að geta lifað undir vernd Íslam án þess að þurfa að skipta um trú. Harran borg Harrania var í norðurhluta Mesopotamíu og var fyrst einskonar áningarstaður kaupmanna frá Úr enda nafnið Súmverskt og þýðir "ferðalag" eða "vegamót".
Borgin var þekkt fyrir átrúnað sinn á mánaguðinn Sin og í borginni voru vegleg hof honum til dýrðar sem pílagrímar sóttu og greiddu vel fyrir. Þrátt fyrir að Harraniar hafi gerst kristnir snemma á þriðju öld e.k. viðgekkst átrúnaður þeirra á SIN langt fram á 10 öld þegar þeir loks blönduðust Íslam fyrir fullt og allt. Menning og trúarbrögð Harrania voru með þeim hætti að þótt þeir væru "sveigjanlegir og tækifærissinnaðir" er á engan hátt hægt að telja þá til Fólks Bókarinnar.
En hverjir eru þá hinir raunverulegu Sabeanar.
Meðal þeirra hundruð þúsunda Íraka sem hröktust á vergang eftir innrás USA og bandamanna þeirra, var hópur fólks sem lifað hafði friðsamlegu og fátæklegu lífi flestir í suður Írak og kölluðu sig Mandea. Mandear voru ekki Múslímar, ekki Kristnir og ekki Gyðingar. Þeir iðkuðu skírnarvígslur og báðu bænir sínar til Guðs. Þeir voru ekki fjölmennir (milli 60 og 70.000) en höfðu þó nýlega fengið að byggja sér bænahús í miðri Bagdad. Mandear tala tungumál sem er kennt við þá sjálfa, eða mandaeísku sem er náskyld arameísku, tungumálinu sem Kristur talaði. Trúarrit þeirra nefnist Genzā Rabbā og er oft kölluð Bók Adams og segja arfsagnir þeirra að í hana sé skráð opinberun Adams sem hann fól syni sínum Set að skrifa niður og varðveita.
Trú Mandea er afar merkileg. Þeir trúa á tví-einan Guð sem er bæði kvenkyns og karlkyns í einu. Þeir trúa að sál mannsins sé í útlegð í þessum heimi og hennar sönnu heimkynni séu andlegar veraldir Guðs. Stjörnuspeki er afar mikilvæg og þeir eru sannfærðir um að himintunglin hafi áhrif á líf fólks.
Saga þessa fólks er ekki síður athyglisverð. Fyrir meira en 2000 árum bjuggu þeir í Palestínu en voru hraktir þaðan ásamt öðrum eftir eyðileggingu Jerúsalem árið 99 ek.
Merkilegast af öllu við Mandeana að þeir telja að síðasti boðberi Guðs á jörðinni hafi verið Jóhannes skírari. Þeir trúa því jafnframt að Adam, Abel, Seth, Enosh, Noah, Shem, og Aram, hafi allir verið spámenn guðs en segja að Abraham, Jesus, Moses, og Muhammad hafi verið falsspámenn.
Þetta fólk er kallað "subbi" af Aröbum en sjálfir segja Mandearnir að það nafn komi af þeirra upphaflega nafni Sabear.
Nýlega hefur verið skrifuð nokkuð ýtarleg umfjöllun um Mandeana á Wikipedia. Nú er talið víst að þarna séu komnir hinir upphaflegu Sabeanir sem Múhameð gaf friðhelgi í Kóraninum og eru samkvæmt Bahaí trú fyrstu guðlega opinberuðu trúarbrögð heimsins.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Menning og listir, Stjórnmál og samfélag, Vísindi og fræði | Breytt 10.6.2008 kl. 01:12 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er verulega áhugavert. Mikið skelfing veit ég fátt, enda eins gott, því þá get ég að minnsta kosti bætt við mig.
Takk kærlega fyrir mig.
Jenný Anna Baldursdóttir, 10.6.2008 kl. 00:29
Sæll Svanur
Skemmtilegur og áhugaverður fróðleikur hér á ferð. Hafði sjálfur aldrei heyrt um Sabea eða Mandea áður fyrr. Ég er nú samt ekki sammála þér að Múhameð hafi látið fólk bókarinnar fá sömu réttindi og múslimar. Fólk bókarinnar þarf að greiða sérstakan skatt fyrir að vera annarar trúar og þarf að viðurkenna yfirburði Íslams, semsagt annars flokks borgarar.
009:029
Fight those who do not believe in Allah, nor in the latter day, nor do they prohibit what Allah and His Messenger have prohibited, nor follow the religion of truth, out of those who have been given the Book, until they pay the tax in acknowledgment of superiority and they are in a state of subjection.
Sigurður Árnason, 10.6.2008 kl. 00:33
Ég hafði aldrei heyrt um Sabear áður mjög áhugavert eins og venjulega hjá þér Svanur. Verð alltaf fróðari á að lesa bloggið þitt.
Skattborgari, 10.6.2008 kl. 00:47
Sigurður Árnason; Já þessi tilvitnun verður að temprast með þessari ;“There is no compulsion in religion” [Koran 2:256]. Þetta sem þú nefnir með með skattinn er athyglisvert, því eftir 10 öld lögðu múslímar ekki áherslu á að þjóðir sem þeir sigruðu tæku trúna. Ástæðan, skattheimtan. -
Svanur Gísli Þorkelsson, 10.6.2008 kl. 01:02
Áhugavert.
Aðalsteinn Baldursson, 10.6.2008 kl. 03:55
það sem kemur aftar í kóraninum og á við skipun sem kemur fyrr í kóraninum, er breyting á fyrri skipun og er það með marktækara.
Þótt þeir þurfi ekki að breyta um trú, þá þurfa þeir að borga skatt og viðurkenna yfirburði Íslam. Múslimarnir þurfa ekki að greiða neinn skatt, þessvegna er þetta ekki réttlæti, Fólk af annari trú er annars flokks borgarar. Hvernig væri þessu háttað ef Múslimar þyrftu að greiða sérstakan skatt hér á landi sem kristnir þyrftu ekki að borga, það væri ansi mikið óréttlæti og því verður ekki neitað.
Sigurður Árnason, 10.6.2008 kl. 04:30
Takk fyrir. Varðandi síðustu athugasemdina. Múslimar hafa ætíð og ævinlega verið mjög umburðarlyndir í garð annarra trúarbragða. þannig þrifust kristni og gyðingdómur og Islam hlið við hlið í Ottoman heimsveldinu.kv. B
Baldur Kristjánsson, 10.6.2008 kl. 08:22
Vel skrifuð grein og fróðleg. Hafði heyrt lauslega eitthvað um Mandea en ekkert kynnt mér það og aldrei heyrt um tenginguna við Sabea. Allt hið merkilegasta.
En með þennan skatt þarna, þá á sínum tíma er ólíklegt að hann hafi verið ógurlegt kúgunartæki sem vondir muslimar hafi notað til að níðast á kristnum og fl.
Í rauninni var þetta ekki annað en skattur fyrir að þurfa ekki að gegna herþjónustu en hljóta samt vernd samfélagsins. Einnig voru þeir, stundum allavega, undanþeknir ýmsum öðrum sköttum. En talið er samt að dhimmar hafi oft þurft að borga meiri skatt en aðrir, en jafnframt að það hafi ekki verið neinn afgerandi faktor.
Hvenig dæmið hefur þróast á síðustu öldum er svo annað mál og eg treysti mér ekki til að fullyrða um það að svo stöddu.
En allavega ljóst að þetta er náttúrulega ekkert einfalt. Ekkert hægt að benda fingri útaf þessum skatti og segja: Sjá ! Vondir muslimar !
Ómar Bjarki Kristjánsson, 10.6.2008 kl. 13:23
takk fyrir...þetta er mjög áhugavert eins og annað sem þú skrifar um
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 10.6.2008 kl. 13:34
takk fyrir áhugavert blogg!
innipúkastelpurnar í Japan eru samt örlítið flottari en þessi mandear...
halkatla, 10.6.2008 kl. 18:13
Þakka athugasemdirnar allar.
Anna Karen; Og sannast þar hið fornkveðna að sínum augum lítur hver á silfrið.
Sigurður Árna; Ég hef í sjálfu sér engu við það að bæta sem Baldur og Ómar segja um málið.
Ef við berum saman það sem var að gerast hvarvetna í heiminum á "blómatíma" Íslam, er ekki hægt að neita því að í löndum múslíma þótti ekki vont að búa.
Eitt sinn knúði gufuafl allar vélar heimsins. Í dag er sá orkugjafi aflagður og í staðinn komnir aðrir. Gufuaflið dugar ekki lengur til að knýja heiminn. Það þýðir ekki að gufuaflið hafi verið vont. Það var það besta sem 19. öldin hafði upp á að bjóða.
Ég heimfæri þessa líkingu upp á Íslam.
Svanur Gísli Þorkelsson, 10.6.2008 kl. 18:53
En allavega ljóst að þetta er náttúrulega ekkert einfalt. Ekkert hægt að benda fingri útaf þessum skatti og segja: Sjá ! Vondir muslimar !
Það er enginn að tala um múslima, heldur um múhameð og bókina hans, gagnrýni á Íslam og Múhameð er ekki gagnrýni á múslima. Ég hef ekkert á móti múslimum og hef þekkt marga og ég er ekki að heimfæra þessa gagnrýni á múslima, heldur hugmyndafræði Múhameðs Íslam.
Svanur
Þótt þú telur þetta hafi verið það besta á þessum tíma þá breytir þetta ekki fullyrðingu þinni í byrjun þessarar greinar, sem er röng, að Múhameð veitt fólki annarar trúar jafnrétti, því jafnrétti er ekki að fólk þurfi að greiða skatt og viðurkenna yfirburði annarar trúar. Jafnrétti er sama virðing á öllum trúarbrögðum og enginn skattur sem einn , en ekki annar þarf að borga.
Sigurður Árnason, 10.6.2008 kl. 21:38
Sigurður Árnason; Þeir nutu jafna réttinda en höfðu ákveðnar skyldur umfram múslíma. Þessar auknu skyldur (skattar) komu síðan á móti því að þeir voru ekki herskyldaðir eins og múslímar voru. - En þeir nutu allra borgaralegra réttinda á við múslíma.
Jafnrétti er þegar ákveðið og réttlátt jafnvægi er milli réttinda og skyldna en ekki að eitt sé látið yfir alla ganga án tillits til eins eða neins. -
Svanur Gísli Þorkelsson, 10.6.2008 kl. 22:03
009:029
Fight those who do not believe in Allah, nor in the latter day, nor do they prohibit what Allah and His Messenger have prohibited, nor follow the religion of truth, out of those who have been given the Book, until they pay the tax in acknowledgment of superiority and they are in a state of subjection.
Ekki gleyma undirstrikaða partinum, hann segir allt sem segja þarf.
að þurfa að viðurkenna yfirburði múslima og lifa við ofríki þeirra er ekki jafnur réttur og það er augljóst, sá sem neitar því er að blekkja sjálfan sig.
Sigurður Árnason, 10.6.2008 kl. 23:11
Sigurður Árnason;
Getur þú nefnt mér dæmi um hvernig þetta (acknowledgment of superiority and they are in a state of subjection. ) var túlkað og hvernig þetta var útfært af yfirvöldum eða samfélagi Múslíma á timabilinu 700-1500 ek? Hefur þú gert samanburð á þeirri túlkun/útfærslu á milli landa?
Svanur Gísli Þorkelsson, 10.6.2008 kl. 23:52
Já þetta var túlkað þannig að þeir sem tilheyrðu öðrum trúarbrögðum áttu að viðurkenna yfirburði hinna Íslömsku gilda og reglna og áttu að fylgja þeirra reglum. Svo sagði Múhameð að þeir sem neituðu að breyta trúnni sinni í Íslam ættu að borga Jizya og þeir sem neituð að borga jizya og breyta um trú, ætti að vera barist við.
Book 019, Number 4294:Sigurður Árnason, 11.6.2008 kl. 02:02
Já já, þessi skattur var beint framhald af svipuðum skatti Býsansríkisins og á ef litið er á hann úfrá perspektífi þeirra tíma: Zero merkilegt. Ja... reynar telja sumir fræðimenn að stjórnarfar muslima hafi verið mun mildara í allra staði og almenningur fagnað hinni nýju skipun. Það er bara almennt samþykkt meðal virtra fræðimanna um málefnið. Að vísu skal eg ekki segja hvað Jihad Whatch og hinn víðfrægi "fræðimaður" Hr. Spencer segir eða "spiritual gædinn" Hr. SS ... eg skal ekkert fullyrða um hvað þeir segja.
Þetta er alveg fáránleg umræða. Auðvitað verður að líta á þetta útfrá þeim tíma er viðkomandi spratt úr.
Dísus ! Það er alveg kostulegt að verða vitni að því hvað sumir leggja mikið á sig til að geta sagt: Og sjá ! Vondir muslimar !!
Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.6.2008 kl. 12:14
Ómar Bjarki er greinlega eiitthvað tregur, Það er enginn að gera neitt út á múslima og segja vondir múslimar, þú ert sá eini sem ert að því. Ég er að gera út á hugmyndafræði, Það er allt annað.
Þetta er alveg fáránleg umræða. Auðvitað verður að líta á þetta útfrá þeim tíma er viðkomandi spratt úr.
'Eg kom með vers úr hadith og sýndi fram á hvað skatturinn gekk út á, í eigin orðum Múhameðs. Kristnin kom áður en Íslam var búin til og þar var ekki lagt neinn ósanngjarnan skatt á fólk af annari trú. Fólk fékk að stunda trú sína, án þess að borga skatt.
Sigurður Árnason, 11.6.2008 kl. 20:25
Veistu hvað Bysanríkið var ??
Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.6.2008 kl. 20:35
Efast um að þú vitir það. Skatturinn ógurlegi var tekinn beint frá Byzantine ríkinu sem lögðu slíkann skatt á Gyðinga og ...ekki nóg með það. Líka á þá sem ekki voru "rétt kristnir" Sassanid Persíu veldið hafi svipaðan skatt og heimildir benda til að þetta fyrirkomulag hafi verið alvanalegt. Þetta eru virtir fræðimenn almennt sammála um.
Það sem skeði er muslimar komust til valda var að yfirleitt varð stjórnarfar allt mildara en fyrir var og í mörgum tilfellum var breitingunum fagnað. Þetta eru virtir fræðimenn líka almennt sammála um.
Þið þessir sem eruð að halda fram allskynns steypu og malbiki varðandi muslima og islam eruð sjálfum ykkur til stórskammar. Farið á næsta bókasafn og lesið virt sagnfræðirit. Farið í söguáfanga sem tekur islam og framgang hennar fyrir o.s.frv... en fyrst og fremst hættið að lesa malbiksþvæluna sem kemur frá hatursáróðursmönnum eins og Hr. Spencer og spiritual gædinum Hr. SS.
Sko, eg meina... þið eruð ekki viðræðhæfir og eg nenni ekki eyða tíma mínum í að eltast við slíka bullukolla... enda svo langt leiddir að ykkur er ekki viðbjargandi.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.6.2008 kl. 21:29
Já ég veit hvað það er, afhverju spyrðu?
Svo sýnist mér á síðunni þinni þú leggja mikið upp úr því að geta sagt: sjá ! Vondir bandaríkjamenn og Ísraelar.
Sigurður Árnason, 11.6.2008 kl. 21:44
Hehe Er einn orðinn pirraður að allir eru ekki sammála í hans bandaríkjahatri og sakar fólk um fáfræði sem hefur ekki sömu skoðun á sögunni. Lest þú Hadith og kóraninn meira og berðu það saman við önnur trúarrit, þá skýrist kannski margt fyrir þér. Hvað hlustar þú bara á virta fræðimenn og lætur þá koma skoðunum í hausinn á þér, prufaðu líka að nota sjálfstæða hugsun og kíkja á rit manna sem hafa aðrar skoðanir líka. Svo er ég ekki lesa efni eftir Robert spencer heldur geri mínar eigin rannsóknir á efninu og sé hvað er rangt og hvað er rétt. Gerðu það svo fyrir mig að taka repeat af Zeitgest:)
Sigurður Árnason, 11.6.2008 kl. 21:59
Sigurður Árnason; Þakka þér fyrir þessa tilvitnun sem þú fannst fyrir mig úr Haddíðunum og þú birtir hér fyrir ofan. Hún staðfestir allt sem ég hef verið að segja og hefur einnig komið fram hjá Ómari Bjarka.
Ef við tökum þetta sem þú vitnar til í bókstaflegri merkingu eins og þetta hljómar í enskri þýðingu. Gallinn er að ekkert er sem sýnist þegar að túlkun Kóransins kemur, því miður. Múslímar túlkuðu þennan texta sem við vorum að tala um, Þ.e. viðurkenningu á yfirburðum Íslam og viðurkenna yfirráð þeirra, ekki eins og þú gerir það.
Í þessu var ekki fólgin meiri viðurkenning en t.d. ég verð að sætta mig við hér á Íslandi. Hér er kristin ríkistrú en ég er Bahai. Ég verð að lúta því og get ekki sett mig upp á móti því með neinum hætti sem skiptir máli, þótt ég sé ekki sammála því. Íslenska ríkið krefst þess að ég sýni lögum þess undirgefni og taki þess lög fram yfir lög minnar eigin trúar.
Svanur Gísli Þorkelsson, 11.6.2008 kl. 22:15
Ég er ekki að kaupa það, að Kóraninn sé ekki skiljanlegur rétt á ensku, þar sem arabíska er nútímamál og ekki erfitt að þýða málin á okkar tímum, með alla þá tungumálasérfræðinga sem eru uppi í dag. Þetta væri kannski öðruvísi, ef sanskrít ætti í hlut.
Þú þarft að ekki að greiða skatt fyrir að iðka þína trú, þar liggur munurinn og það er ekkert annað trúarbragð en Íslam sem lætur greiða skatt fyrir það. Það er heldur ekkert annað trúarbragð en Íslam sem gerir út á önnur trúarbrögð með nafni. Íslam hefur alla þá mannlegu eiginleika, en fátt af þeim guðlegu.
Sigurður Árnason, 11.6.2008 kl. 22:27
Vissulega þarf ég að greiða skatt. Kirkjuskatturinn er enn greiddur. Í minni trú er ekki neinn kirkjuskattur.
Svanur Gísli Þorkelsson, 11.6.2008 kl. 22:56
Ef þú ert ekki að kaupa þetta með Kóraninn legg ég til að þú hugsir aðeins um hvernig túlkun Kóransins varð að "vísindagrein" innan Íslam. Við höfum komið inn á þetta áður í umræðum okkar og það er dagsatt að hver málsgrein í Kóraninum hefur hefðbundið a.m.k. 14 mismunandi merkingar.
Rannsakaðu líka þetta með skattinn og þú sérð að ekki var um neina valdaníðslu af hendi múslíma að ræða.
Svanur Gísli Þorkelsson, 11.6.2008 kl. 23:01
Svanur - "Nú er talið víst að þarna séu komnir hinir upphaflegu Sabeanir sem Múhameð gaf friðhelgi í Kóraninum og eru samkvæmt Bahaí trú fyrstu guðlega opinberuðu trúarbrögð heimsins."
Ef ég skil þig rétt, Svanur, þá er sú túlkun misskilningur að "Fólk Bókarinnar" hafi verið Gyðingar og Kristnir eins og hingað til hefur verið talið, eða bara túlkun no. 2 af 14 mögulegum?
En burt séð frá þessum vangaveltum, veistu hvar og hvenær þessi trúarbrögð mynduðust? Hvenær var byrjað að rita þessa bók Genza Rabba og hvenær var því lokið? 700 blaðsíður, tvöfaldur Kóraninn.
Þú nefnir einnig að Múhameð hafi tilgreint 4 hópa eða trúarbrögð þegar hann byrjaði sinn feril á Arabíuskaga, Gyðinga, Kristna, Zóróastrians og Sabea. En hvað um 5. hópinn, Skurðgoðadýrkendur? Voru þeir ekki taldir sem trúarhópur?
Er nokkuð vitað meira um innihald þessarar 700 bls. bókar en það sem þú tilgreinir hér að ofan? Tíðkaðist t.d. umskurn hjá þeim, barnaskírn, niðurdýfingarskírn, handayfirlagning, samband við framliðna (andatrú), lækningar, uppvakningar dauðra? Þeir halda því fram að engillinn Gabríel (sá sami og vitjaði Múhameðs) hafi verið þeim til leiðsagnar. Brenn af forvitni. Alveg sama um skattamálin.
Með kveðju
Sigurður Rósant, 12.6.2008 kl. 18:47
Sigurður Rósant; Ég skrifa: "Múhameð tilgreinir fjóra hópa eða trúarbrögð sem öll voru fyrir á Arabíuskaga þegar hann kom fram með kenningar sínar. Þetta voru Gyðingar, Kristnir, Zóroasterstrúarmenn og Sabear" Hópar skurðgoðadýrkenda voru margir og fjölbreyttir en tilheyrðu ekki allir neinum einum "trúarbrögðum". Múhameð lagði algjört bann við skurðgoðadýrkun í ríki Íslams.
Það sem gerir allar rannsóknir erfiðar í sambandi við Mandea er að afar fáar heimildir er að finna um þá fyrir utan þær sem hafa varðveist meðal þeirra sjálfra. Þeir segja elstu hluta bókar sinnar vera 6000 ára gamla og vera orð Adams gefin Set syni hans. Elstu handrit þeirra eru samt ekki ýkja gömul, rétt 500 ára. Hinsvegar hafa þeir ætíð afritað bókina á eigin máli og er talið að málískan sem notuð er í bókinni sé meira en 3000 ára gömul þó talmál þeirra hafi breyst. Það er ekki til þýðing á allri bókinni en hlutar hennar hafa verið þýddir á ensku. Á meðal efnis hennar eru gnostísk rit sem sögð eru geyma kenningar Jóhannesar Skírara ásamt helgisögum sem minna um margt á fyrstu hluta GT. Gabríel er auðvitað GT persóna einnig. Skírnir (niðurdýfingar) eru hluti af almennri trúariðkun þeirra (líkt og messur) , engin umskurður tíðkast, en þeir trúa á stjörnuspeki og öfl í himinhvolfinu (líkt og andatrú en ekki þó það sama). Það sem hefur þó verið greint af trú þeirra líkja heimsmynd þeirra helst við Gnosta.
Svanur Gísli Þorkelsson, 12.6.2008 kl. 20:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.