Í kringum árið 590 fyrir Krist lauk gríski stjórnmálamaðurinn Solon við röð pólitískra og efnahagslegra umbóta í Aþenu. Til að gefa þeim tóm til að skjóta rótum fór hann í langferð til Egyptalands. Nákvæm lýsing á ferðalagi hans hefur því miður ekki varðveist en talið er að Solon hafi heimsótt stjórnarfarslega höfuðborg Egyptalands, Sais, sem stóð aðeins 16 km frá Naucratis einu Grísku hafnarborg landsins. Heimsókn Solons til Sais var söguleg. Hann hafði mikinn áhuga á liðnum tímum og gerði sér far um að ræða við fornfræðinga, skjalaverði og sagnfræðinga og ekki hvað síst, við presta gyðjunnar Neith.
Einn af þeim sagði honum einkennilega sögu af styrjöld sem geisað hafði í fornöld og af meginlandi sem sokkið hafði í sæ. Það lítur út fyrir að Solon hafi orðið djúpt snortinn af frásögninni sem honum var sögð til að sanna að sagnfræðileg gögn Egyptalands næðu lengra aftur en þau grísku.Ýmislegt bendir til þess að Solon hafi ritað hjá sér minnispunkta, ef til vill með það fyrir augum að setja saman skáldsögu um efnið þegar hann kæmi heim. Ef svo var tókst honum það ekki, en hann endursagði frásögnina góðum vini og ættingja, Dropidesi. Dropides sem var kominn fast að níræðu, sagði söguna barnabarni sínu Critiasi sem sagði hana sínu barnabarni Critiasi öðrum. Critias hinn yngri var náskyldur Platoni, manni sem lýst hefur verið sem mestum allra grískra heimspekinga. munnmæli þessi urðu heimildir Platons að frásögn sinni af Atlantis. Ef til vill hafa fylgt frásögn Critiasar minnisblöð Solons en þeirra er hvergi getið. Seinna ákvað Platon að deila þessum heimildum með heiminum og gerði það í tveimur ritverkum, Timaeus og Critias. Þó sagan væri brotakennd, varð hún grundvöllur að heilum iðnaði sem þrífst vel enn þann daginn í dag og er fyrsta og elsta heimild okkar um Atlantis.
Í Timaeusi eru frásagnarbrotin heillegri og hefjast á lýsingu hugmynda Egypta um endurtekningu hörmunga. Prestar gyðjunnar Neith skýrskota til grísku arfsagnarinnar um Phaethon sem eyddi öllu á jörðinni með eldi vegna þess að hann missti stjórn á vagni föður síns Heliosar. Þó að um táknræna lýsingu væri að ræða, fullyrti presturinn að hér væri raunsönn lýsingu á ferð um hvernig himinhnettirnir hefðu rekist saman á himninum og valdið mikilli eyðingu á jörðinni. Hann gefur einnig í skin að slíkir atburðir eigi sér stað með vissu millibili í alheimssögunni. Presturinn heldur síðan áfram að segja sögu forfeðra Salons Aþenubúanna, sem Egyftaland geymdi heimildir um allt að 9000 ár aftur í tíman. Á þeim tímum, sagði hann, var til í Atlantshafi, utan súlna Herkúlesar, eða Gíbraltar eins og þær eru kallaðar í dag, eyja nokkur stærri en Libya og Asía til samans. Yfir henni og fjölda smáeyja, ríkti voldugt herveldi hvers yfirráð teygði sig allt að ströndum norður Ítalíu. Herveldi þetta réðist inn í Egyptaland og Grikkland níuþúsund árum fyrir tíma Solons. Þegar styrjöldin braust út féll Egyptaland en borgríki Aþeninga héldu velli gegn ótrúlegum líkum og tókst að síðustu að snúa styrjöldinni sér í hag og frelsa nokkur af þeim ríkjum sem sigruð höfðu verið. Þetta voru erfiðir tímar fyrir Atlantis. Í kjölfar hernaðarósigrana gengu yfir heimaeyju þeirra svo öflugar jarðhræringar og flóð að allar herdeildir þeirra sukku í jörðu og sjálf eyjan Atlantis hvarf í djúp hafsins.
Samkvæmt frásögn Solons eins og hún er höfð eftir Platon gengu hörmungarnar yfir á einum degi og einni nóttu, og ollu því að Atlantshafið varð í langan tíma ósiglanlegt vegna misturs og leðju.
Í bókinni Critas útskýrir Plató arfsögnina um upphaf Atlantis og segir frá því hvernig guðirnir skiptu jörðinni í hluta til þess að skapa mannkynið. En lýsing hans á meginlandinu og íbúum þess líkist meira sagnfræði.
Hálfa leið eftir allri eyjaálfunni var frjósöm strandlengja. Nokkrum mílum í burtu í miðju eyjarinnar stóð lágt fjall, kannski ekki meira en hæð, en á henni byggðu eyjaskeggjar sína elstu borg. Borgin var umkringd þremur dýjum, sem arfsögnin sagði að guðinn Póseiton hafi grafið. Gnægð var af gróðri og dýralífi sem virðist hafa verið svipað og gengur og gerist í hitabeltinu.
Þar var unninn úr jörðu óþekktur málmur,oricalsinum, sem lýst er sem verðmætari en nokkuð nema gull. Borgin á hæðinni varð að höfuðborg landsins. Skurður var grafinn frá sjó að ysta díki og höfn í miðju landi búin til. Díkin sjálf voru brúuð á mörgum stöðum og margir minni skurðir grafnir milli þeirra og inn og útgönguleiðir varðaðar með turnum. Veggir voru reistir í kringum hvert díki. Ysti veggurinn var lagður kopar, miðveggurinn tini og innsti veggurinn oricalsinum. Í borginni mátti finna almenningsböð, jafnt sem einkaböð, gosbrunna og rennandi vatn, sem hitað var upp, og jafnvel reiðvelli. Úr grjótnámu ekki langt frá var höggvinn steinn svartur, rauður og hvítur sem notaður var í allar byggingar. Fyrir utan borgina fóru flutningar og áveita eftir þéttu neti skurða, sem voru svo stórir að Plató átti auðsjáanlega erfitt með að trúa að þeir hefðu verið gerðir af manna höndum.
Stjórnarfarslega var Atlantis samband 10 konungsdæma sem hvert um sig var sjálfstætt ríki en samt bundið saman með ákvæðum um að hvert þeirra skyldi útvega hermenn til að verja veldið í heild. Meirihluti atkvæða hinna tíu konunga var nauðsynlegur til þess að hægt væri að dæma Atlantisbúa til dauða.
Frásögn Platós kynnti undir ímyndunarafl bæði þeirra sem lásu og skrifuðu um hana. Nýleg áætlun gerir ráð fyrir að yfir 1000 bækur hafi nú verið gefnar út um Atlantis og er sú áætlun talin hógvær. Þessi ritverk má flokka í þrjá meginflokka. Þann sem leitast við að sanna að Atlantis hafi verið til, þann sem styður og lýsir lifnaðarháttum og menningu Atlantis og að síðustu þann sem afneitar því að Atlantis hafi verið til í raun og veru en leitar að öðrum sögulegum skýringum á arfsögninni.
Ein af þeim bókum sem fyllir fyrsta flokkinn og er ein af eldri útgefnu bókunum um efnið, er Atlantis, The Antediluvian World eftir Ignatius Donnelly. Donnelly sem gaf út bók sína árið 1882 var heillaður af líkum menningar- og tungumálaþáttum forn-Egypta og þeirra sem byggðu suður-Ameríku til forna. Hann benti á að báðar þjóðirnar hefðu byggt píramída, báðar smurðu lík sín og báðar réðu yfir háþróaðri stjarnfræði.
Arfsagnir beggja vegna Atlantshafsins geyma líkar frásagnir, jafnvel staðarnöfn eru lík. Til að skýra þessar sameiginlegu þætti gerði Donnelli ráð fyrir Atlantískri menningu sem breiddist samtímis út til austurs og vesturs þegar eyálfan sökk. Annan flokkinn fylla meðal annars rit Maddam Blavanský sem leit á sögu Atlantis sem hluta af 18 milljón ára sögu mannkynsins og rit Edgar Cayce hins fræga Ameríska sofandi spámanns, sem dró upp myndir af Atlantis sem í mörgum tilvikum líkjast stórbrotinni vísinda-skáldsögu. Cayce trúði því ásamt fjölda annarra dulrænna rithöfunda að í raun hefði Atlantis sokkið þrisvar og þeir atburðir sem Plató lýsir hefðu gerst þegar Atlantis sökk í þriðja og síðasta sinn. Í reynd hefðu þá síðustu leifar mikillar heimsálfu, sem náði frá Mexíkóflóa yfir í Miðjarðarhaf, verið að sökkva í sæ. Það eina sem eftir standi pp úr sé hluti Ameríku, Vestur-Indíum og Bahama-eyjar.Cayce kenndi að á Atlantis hefði þrifist hátæknivædd menning sem grundvallaði vísindi sín á kristöllum, vísindum sem nú eru týnd. Það eru greinilegar vísbendingar um það í ritum Cayces að síðustu hörmungarnar sem gengu yfir Atlantis hafi verið af mannavöldum og orsök mikils vopnabúnaðar sem nota átti til þess að frelsa kynþátt þræla undan tilbúninni og stökkbreyttri herraþjóð.
Þriðja flokkinn fylla bækur eins og bókin End of Atlantis eftir Prófessor Luce, sem bendir á að frásögn Platós af hinni týndu álfu eigi margt sameiginlegt með því sem við vitum um hábronsaldar menningu Aegeana. Siðmenning sú blómstraði löngu fyrr en Egypsku heimildirnar segja til um, en nútímafræðingar halda að ef til vill hafi Plató einfaldlega ruglast á eða ranglega þýtt níuþúsund ár fyrir níuhundruð. Ef svo er hafa hörmungarnar sem eyddu Atlantis átt sér stað í kringum 15oo fyrir Krist frekar en 9600 f.K. Svo einkennilega vill til að sé reiknað með tímasetningunni 15oo f.K. ber hana upp á þann tíma er ótrúlegar hamfarir sannanlega eyddu miklu heimsveldi, þ.e. Minoan-veldinu á eyjunni Krít. Hamförunum ollu mikið gos í eldfjalli á eynni Santorin 70 mílur norður af Krít. Þetta eldgos er talið hafa verið 5 sinnum öflugra en þegar eyjan Krakatoa sprakk í loft upp og sendi flóðöldur þvert yfir Kyrrahafið á síðustu öld. Öldur frá Santorin skullu án efa á Krít og ollu gereyðingu slíkri að hið gamla heimsveldi náði sér aldrei aftur á strik.
Athugasemdir
Þetta var ótrúlega skemmtileg lesning. Ég þakka kærlega fyrir. Viltu kannski nefna mér eina góða bók um Atlantis.
sigrún
Sigrún Björgvinsdóttir, 3.5.2008 kl. 21:09
Sæl Sigrún. Þessi hér er góð. Ein af þessum klassísku:)
Svanur Gísli Þorkelsson, 3.5.2008 kl. 21:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.