Rigning

Það rignir. Regnið fellur lóðrétt til jarðar, ekki eins og á Íslandi þar sem það fýkur upp í öll vit ef þú gengur ekki undan vindi. Ég bókstaflega horfi á trjákrónurnar laufgast, vorið er komið. Suður í Afríku fyllir Robert Gabriel Mugabe hjólbörurnar sínar af seðlum til að kaupa brauð. Hann er enn við stjórnvölinn í landinu og er að hugsa um að taka nokkur núll aftan af Zimbabwe dollaranum til að létta sér burðinn. Hvað þau verða mörg er ekki víst, kannski bara sama fjölda og hann lét taka aftan af atkvæðafjölda andstæðinga sinna í nýafstöðnum kosningum.

Í garðinum tútna túlípanarnir út í rigningunni og Rauðbrystingarnir mega vara sig þegar hnappblöðin byrja að falla. þau eru rauð og þung, kjötmikil og safarík eins og hold munkanna í Tíbet sem kínverska stjórnin er svo hrædd við að hún lætur aflífa þá. Ólympíuloginn heldur áfram að lýsa upp skömm Kínverja og á eftir að fara um eftirtaldar lendur; Islamabad, Pakistan; New Delhi, India; Bangkok, Thailand; Kuala Lumpur, Malaysia; Jakarta, Indonesia; Canberra, Australia; Nagano, Japan; Seoul, South Korea; Pyongyang, North Korea; and Ho Chi Minh City, Vietnam.

Á meðan telja gjaldkerarnir í Bejing bandarísku ríkisskuldabréfin sem þeir keyptu af Bush svo hann gæti fjármagnað stríðið í Írak. Það hefur kostað hingað til litlar 2 trilljónir bandaríkjadala og stefnir víst í þrjár. (Hver kann skil á svona mörgum núllum nema kannski Mugabe.) Kínverjar töldu það miklu betri ávöxtunarleið heldur en að aðstoða til bjargræðis 1.2 biljón íbúa landsins sem líða skort.

Jamm, það rignir.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband