Að vera konungur, hugleiðing á heiðríkum degi

Að vera konungur; var eitt sinn draumur allra, ekki bara stjórnálamanna, heldur feðra sem réðu yfir börnum sínum, eiginmanna sem komu fram við konur sínar eins og þjóna, yfirmanna sem gátu nánast aflífað mann á staðnum  og  embættismanna sem gleymdu um stund gyllinæðinni  með því að ímynda sér að sóðalegu stólarnir sem þeir sátu í væru hásæti.Í raun og veru hefur meiri hluti mannkynsins,  síðustu fimm þúsund árin, verið undirgefinn, bugtað sig fyrir yfirvaldinu  og fyrir utan fáein tilfelli mótmæla sem yfirleitt voru fljótlega kveðin niður, fórnað sjálfu sér svo lítill minni hluti gæti lifað býlífi.  Þessi meirhluti hefur samt aðeins fallist á að skríða í dustinu vegna þess að flestir fundu einhvern annan sem þeir gátu leikið einvald yfir, einhvern sem var veikari eða yngri. Ójafnrétti  var liðið svona lengi vegna þess að hinir kúguðu fundu fórnalömb  til að kúga sjálfir. Hinn sterki leiðtogi var virtur vegna þess að hann var valdið holdi gætt sem almúgurinn þráði á laun að verða í eigin lífi. – En nú örlar á að farið sé að efast um ágæti  þessarar  þráhyggjulegu löngun í völd og yfirráð í krafti meiri víðsýni, þrá eftir uppörvun, löngun til að finna einhvern til að hlusta, treysta og ofar öllu til að virða. Vald til að gefa fyrirskipanir er ekki lengur nóg.Fyrrum voru hin ytri tákn um virðingu, að taka ofan eða hneigja sig , sönnun þess  að fólk viðurkenndi undirgefni sína við þá sem höfðu valdið. Nú til dags byggir samband tveggja einstaklinga á fleiru en stöðu og stétt.  Þótt stjórnmálamenn hafi sett sjálfa sig í stöðu konunga, eru þeir lítt dáðir fyrir stöðu sína, miklu minna en t.d. læknar og vísindamenn eða leikarar og illa launaðir kennarar. Það er ekki að undra þótt konur almennt hafa ekki viljað gerast stjórnmálamenn af gamla skólanum. Í hvert sinn sem stjórnmálamaður lofar einhverju sem hann efnir ekki, kvarnast upp úr traustinu sem fólk ber til þeirra sem langar til að verða konungar.

Veröldin skiptist í tvo heima. Í öðrum fer valdabaráttan fram eins og hún hefur gert frá alda öðli. Í hinum ásælist fólk ekki vald, heldur virðingu. Vald tryggir ekki lengur virðingu. Jafnvel valdamesti maður heims, forseti Bandaríkjanna,  er ekki nógu voldugur til að vinna virðingu allra.  Vaninn var að umbreyta virðingu í vald, en nú er hún eftirsóknarverð fyrir eigin verðleika. Mörgum finnast samt þeir ekki vera sýnd næg virðing en hún er eftirsóknarverðari en vald í þeirra augum. Athygli fólks beinist nú að fjölskyldulífinu þar sem tilgangurinn er ekki lengur að eignast sem flest börn til að tryggja afkomu sína seinna í lífinu, heldur að styrkja fjölskylduböndin og kærleikann á milli meðlima fjölskyldunnar, stuðla þar með að gagnkvæmri  virðingu í fjölskyldu og vinahringnum. Í raun er það ekki lengur ættbálkurinn eða þjóðin sem ákveður hvern skal hata og hvern skuli vingast við. Það er gert meira grín að þeim sem hafa völd þótt sumir óttist þá líka. Nútíma ríkisstjórnir, sem reyna að stjórna miklu fleiri þáttum lífs okkar en konungarnir gerðu áður fyrr, eru stöðugt auðmýktar vegna þess að lög þeirra ná sjaldnast tilætluðum árangri, er ekki framfylgt og ná aldrei fram þeirri hugarfarsbreytingu sem nauðsynleg er til að eitthvað breytist. Lög og reglugerðir þeirra ná heldur ekki að koma neinu skikki á spákaupmennsku og alþjóðavæðinguna sem öllu virðist ráða í dag.

Þýtt og endursagt úr bókinni An Intimate History of Humanity eftir Theodore Zeldin

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband