Er munur á efasemdamanninum og hinum

Efasemdamanninum sem álítur allt sem ekki er snertanlegt eða mælanlegt  tilverulaust, eru ritningar hinna helgu bóka trúarbragða heimsins, hlægileg vitleysa.

 

Hinir auðtrúa og hjátrúarfullu vilja taka allt sem í helgiritunum stendur bókstaflega, sama hversu fáránleg sú túlkun kann að hljóma í ljósi þekkingar nútímans.

 

Efasemdamaðurinn forðast nauðsyn þess að skilja með því að afneita tilvist andans og túlka flest bókstaflega.

 

Hinn hjátrúarfulli forðast skilning með því að afneita engu og túlka flest bókstaflega

 

Vegurinn til skilnings liggur á milli þessara tveggja öfga. Hinn sanni leitandi sem viðurkennir tilvist andans, þarf ekki að sætta sig við guðfræðilegar bábiljur sem eru í mótsögn við skynsemi og rök.

 

Trúarrit  allra helstu trúarbragða mannkynsins voru opinberuð og rituð í þríþættum tilgangi.

 
  1. Að endurnýja og árétta grundvallaratriði trúar Guðs í heimi manna.
  2. Að gefa manninum undirstöður fyrir að siðferði og félagslegan þroska á hverjum tíma.
  3. Að vera vitnisburður um Sáttmála Guðs við mennina í fortíð og framtíð.

Til þess að tjá þessi sannindi urðu boðberar Guðs að nýta sér til fullnustu möguleika hins "ófullkomna" tjáningarforms okkar mannanna, tungumálið.  

Geymsluskrín opinberanna þeirra eru trúarritin Bhagavad Gita,  Zend Avesta, Tóran, Dhammapada, Guðspjöllin og Kóraninn svo einhver séu nefnd.

 

Tungumál þessara rita eru margslungin, sérstaklega fyrir nútímamanninn sem er vanur nákvæmum vísindalegum þankagangi. Við verðum  að gæta þess að trúarrit fortíðarinnar voru ætluð fólki sem  hugsaði um tilveruna á allt annan hátt en við gerum.

 

Allegóría, symbólismi,  astrólogía og geometría voru sjálfsagður og nauðsynlegur hluti af ritun málsins.

Öll túlkun og framsetning sem ekki tekur tillits til þessa getur ekki raunhæf.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur

Sæll Svanur.

Ég held að ég skilji efasemdarmaður allt öðruvísi en þú.

Sjálfur finnst mér orðið efasemdarmaður eiga mun betur við mig en trúleysingja þó það orð sé oftar notað um mig, bæði af mér og öðrum.

Efasemdarmaður held ég einmitt að sé andstaða bókstafstrúarmannsins. Hann velur úr þá þætti trúar sem honum hugnast og aðlagar að sínum hugmyndum.

Kannski á það sem þú segir betur við trúleysingja (án þess að ég ætli að hætta mér út í skilgreiningu á því orði). Vissulega er það rétt að ýmisir eru gjarnir á að gagnrýna trúarbrögð og gagnrýna þá venjulega bókstafinn.

Það er hins vegar misskilningur að það sé vegna þess að þeir "forðast nauðsyn þess að skilja". Málið er þeir sem setja sinn "skilning" í trúarbrögðin eru þá í raun að búa til sína eigin trú. Og það er ekki nema þessi skilningur sé í sérstakri mótstöðu við siðvitund manns að maður fer að gagnrýna þessa trú einstaklingsins.

Hins vegar er mjög þarft að gagnrýna, málefnalega, trúarbrögð og trúarrit þeirra. Það er vegna þess að aðaltilgangur þeirra er stjórna fólki, og þannir stjórntæki ber að gagnrýna.

Megin tilgangur trúarrita er ekki sá sem þú nefnir heldur hitt að setja lög. Hvað á maður að gera. Hvað er bannað að gera. Hver er refsingin við því að brjóta lögin o.s.frv.

Þetta er sett fram í trúarritunum, venjulega sem orð guðs eða vilji hans en án nokkurs rökstuðnings.

Og þó mörg laganna hafi verið nauðsynleg og réttmæt á sínum tíma að þá eru þau það fæst lengur. Þess vegna eru þau gagnrýnd.

Ingólfur, 17.1.2008 kl. 17:53

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Ingólfur.

Þakka þér skemmtilegt innlegg.

Ég get alveg fallist á að ég nota orðið "efasemdamaður" sem samheiti fyrir trúleysingja og þá sem almennt efast um sannleiksgildi trúarbragða þótt þeir hafi einhverja trú. Ein og þú vildi ég forðast þá umræðu ef kostur væri.

Ég nota líka orðið "skilningur"  í persónulegri túlkun eins og allir gera yfirleitt. Sannur skilningur fyrir mig er að reyna að sjá hver raunveruleg merking viðfangsefnisins er eða var, ekki hvernig hann blasir við fólki sem kemur að án þess að taka tillit til þeirra aðstæðna sem trúarbrögðin voru opinberuð undir.

Ég er algjörlega sammála þér um að það eigi að gagnrýna trúarbrögð en mér finnst að gagnrýnendur verði að vers sanngjarnir og horfa ekki á allt í gegnum gleraugu nútímans.

Samfélagsleg lög og setning þeirra er einskonar hliðarafurð trúarbragða. Þau eru aðallega sett fram í þeim tilgangi að vernda mannkynið fyrir sjálfu sér. Sum þeirra verða eins og þú bendir á úrelt með aukinni þekkingu. Stundum eru lögin rökstudd og stundum ekki.  

þessi samfélagslög verður þó að skilja frá svokölluðum andlegu lögmálum, sem eru þau sömu í öllum trúarbrögðum og hafa verið endurnýjuð frá einni opinberun til annarrar. Hegningin við að brjóta þau er andleg, þ.e. hefur við andlegan þroska að gera og stöðnun hans, frekar enn samfélagslega hegningu. Í Íslam t.d. eru mörg veraldleg viðurlög fyrir að brjóta "andleg lögmál" og er sú hegning veitt í þeim skilningi að betra sé að taka út hegninguna í jarðlífinu en þurfa að þjást eilíflega fyrir verknaðinn. Auðvitað er er bókstafstrúin þar á bæ í hávegum höfð.

Svanur Gísli Þorkelsson, 17.1.2008 kl. 19:00

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir það Mr.Promecius.

Svanur Gísli Þorkelsson, 17.1.2008 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband