Að finna sitt sanna sjálf

 Fyrir meira en hundrað árum lýsti Bahá´u´llah, opinberandi Bahá´í trúarinnar því yfir að opinberun hans yrði aðal áhrifavaldurinn til sameiningar mannkynsins og stofnunar nýrrar heimsskipunar sem koma mun á alheimsfriði.  Fáir munu andmæla því að ef leiða á heiminn úr ríkjandi ástandi rósturs og átaka til friðar og einingar verða menn og mannlegar stofnanir að undirgangast róttækar umbreytingar.Hver sá sem í raun og veru hefur áhuga á heimsfriði verður að gaumgæfa hvernig sú umbreyting getur orðið. Með útbreiðslu Bahá´í trúarinnar um heiminn á tiltölulega skömmum tíma og hvernig hún  hefur sýnt fram á umbreytandi áhrif sín á líf fjölda manna og kvenna, hefur vaknað áhugi fyrir að skilja betur með hvaða hætti trúin gerir fólki sem gengst henni á hönd, mögulegt að umbreyta sjálfu sér og finna sitt sanna sjálf. Það verður að taka það fram að ekki er mögulegt að skilgreina eða skilja alla þá krafta víðfeðmrar opinberunar Bahá´u´lláh sem næra og stýra slíkri umbreytingu; en rit hans varpa  samt skæru ljósi á það með hvaða hætti trúin umbreytir lífi þeirra sem hana viðurkenna með því að losa úr læðingi það sem í manninum býr. Áhuginn á því hvernig mannleg geta er leyst úr læðingi er frekar persónulegur en fræðilegur, því milljónir manna þrá að verða það sem Bahá´u´lláh kallar “að fullu göfugir” frekar en að lifa í hlekkjum niðurlægingar.Auðvitað örva kenningar Bahá´u´lláh um þetta breytinga-ferli huga fólks, en þekking á þeim hefur einnig hagnýtan tilgang, því meðvituð þekking á því sem er að gerast innra með okkur sjálfum hjálpar til við að halda því sem áunnið er og gerir okkur mögulegt að skilgreina og sjá ný tækifæri til frekari vaxtar, tækifæri sem oft virðast ónauðsynleg og sársaukafull. Persónuleg umbreyting er megin ástæðan fyrir því að fólk laðast að trúnni, lætur fullvissast um sannleika hennar og gerist að lokum bahá´íar. Hvers vegna er augljóst. Þeir sem kynnast trúnni og finna fyrir umbreytingaráhrifum hennar verða fyrir reynslu sem sannar sig sjálf. Engin getur tekið þá reynslu af þeim og engin fræðileg rök geta gert hana ómerkilega eða óraunverulega.  Mesta gleði sem hægt er að upplifa er að finna að við erum að ná fram því besta sem í okkur býr. Slíkt eykur sjálfsvirðingu okkar, dregur úr árásagirni okkar og tryggir samhygð okkar. – allt eru þetta forsendur einingar og friðar. 

Eðli mannlegrar getu 

En hvað er það “besta” sem í okkur býr?  Bahá´u´lláh kennir að æðsta tjáning sjálfsins sé  fólgin í þjónustu. Hversu vel okkur tekst við þessa æðstu tjáningu veltur á hversu vel okkur gengur að leysa úr læðingi krafta okkar og getu. Ferilið sem við verðum að ganga í gegnum til að finna okkar sanna sjálf  fellst í að þroska grunngetu okkar og fella hana að þjónustu við mannkynið.  Þær daglegu ákvarðanir sem við tökum og  þær daglegu gjörðir sem endurspegla þetta ferli eru í eðli sínu trúarlegar því Bahá´u´lláh leggur að jöfnu störf unnin í anda þjónustu og lofgjörð til Guðs.  Sá sem byrjar að skilja andlegt eðli ferlisins mun ekki einungis uppgötva nýjar víddir í starfi sínu og lofgjörð, heldur mun hann einnig sjá trúarbrögð í nýju ljósi. Hann mun uppgötva það að þegar aflið sem knýr okkur til vaxtar, hverfur úr trúarbrögðunum, verða þau lítið annað en innantómar samfélagshefðir, kreddur og siðir sem koma í veg fyrir tjáningu mannsandans og hindra samfélagslega þróun. Þjónustunni við mannkynið er ljáð dýpt og gæði vegna eiginlegrar getu þess manns sem hana veitir. En hver er þessi “geta”? Bahá´u´lláh skilgreinir hana þegar hann skýrir að tilgangur sköpunar mannsins sé; að þekkja og elska Guð. Þetta eru hinir tveir frumkraftar eða “geta” mannsins, að þekkja og elska, og hér er hún greinilega tengd tilgangi okkar.- ástæðu tilveru okkar. Að finna sitt sanna sjálf, þýðir fyrir bahá´ía, að þroska getu sína til að þekkja og elska, í þjónustu við mannkynið. Þessi útskýring gefur hugmynd okkar um andlegleika meira vægi. Sá er andlegur sem þekkir og elskar Guð og einlæglega leitast við að bæta getuna til að þekkja og elska í þjónustu við mannkynið. Samkvæmt skilgreiningu; er það að hafa lokaðan huga og hafna því að líta á nýjar hliðar – það að hindra getuna til að þekkja eða bregðast við öðrum á hatursfullan hátt, – allt merki um andlegan vanþroska eða andlegan sjúkdóm. Allar aðrar dygðir má skilja sem tjáningu þessara frumkrafta að þekkja og elska í mismunandi myndum við mismunandi aðstæður. Getan til að elska inniheldur ekki bara getuna til að sýna ást heldur einnig að meðtaka ást, laða að sér ást. Ekki er hægt að hugsa sér að elska án þess elskaða. Ef við vitum ekki hvernig á að móttaka ást eða getum ekki þegið hana stöndum við í vegi fyrir þeim sem eru að reyna að þroska getu sína til að elska.  Að geta ekki þegið ást einhvers, upplifa margir sem höfnun og veldur miklum skaða, sérstaklega hjá ungum börnum.Getan til að þekkja felur í sér möguleikann til að læra og til að kenna.  Kennsla og lærdómur eru gagnkvæmar hliðar á getunni til að þekkja. Enginn getur verið góður kennari ef hann getur ekki lært af nemendum sínum og engin er góður nemandi sem ekki spyr kennara sinn spurninga svo bæði kennari og nemandi læri. Hvor þessara eiginleika styður og örvar myndun annarra eiginleika. Til að þekkja, verðum við að elska að læra og ef við viljum elska þurfum við að læra að elska og vera elskuð. Á þessum tveimur frumkröftum er þróun allra mannlegrar getu byggð.  Frá sjónahóli bahá´ía felur sönn menntun það í sér að laða fram og þroska þær eigindir sem í okkur búa. Því miður er stór hluti nútíma menntunnar meira fólgin í því að koma á framfæri upplýsingum,  en að laða fram eigindir. Af þessu sökum eru skólar fyrst og fremst staðir þar sem kennarar miðla staðreyndum og hugmyndum fyrir nemendur  að muna.  Afleiðingin er að prófskýrteini og gráður eru ekkert annað en sönnunargögn um að ákveðnu magni og vissri tegund upplýsinga hefur verið miðlað og þeim sem gráðuna hefur, tókst að sýna fram á að á mismunandi tímum á meðan á formlegri menntun hans stóð, gat hann geymt upplýsingarnar nógu lengi til að geta skrifað þær niður á prófdaginn. Slík skýrteini gefa ekkert til kynna um tilfinningar  nemandans eða getu hans til að elska og þess vegna lítið um (karakter) manngerð hans – orð sem lýsir getu hans til að nota þekkingu sína uppbyggilega og sýna mannkyni ást sína. Enn fremur hefur verið sýnt fram á það að ef getan til að elska er á einhvern hátt bæld, koma upp námsvandamál og þroski þekkingargetunnar skaðast. Þess vegna er hægt að fullyrða að sá skóli sem fylgir hinni þröngu “upplýsingamiðlunar” aðferð getur aldrei þjónað þörfum samfélagsins. Sönn menntun ætti að stuðla að þroska í átt að æðstu stöðu mannsins – þjónustu – og verður þess vegna að sinna öllum einstaklingnum og manngerð hans. 

Trú og þroski mannlegrar getu 

Eitt er að lýsa eðli mannlegrar getu og annað að leysa hana úr læðingi. Bahá´í trúin gerir hvorutveggja. Þegar hefur stuttlega verið fjallað um eðli mannlegrar getu. Við skulum nú kanna hvernig trúin vekur umbreytingaferlið og viðheldur því með að leysa mannlega getu úr læðingi . Meginuppspretta umbreytingarkraftsins eru rit Bahá´u´lláh. Lestur þeirra nærir trúna – og trú er fyrsta forsenda umbreytingar. Með trú er í stórum dráttum átt við afstöðu okkar til þess sem ekki er hægt að vita eða hins óþekkta og gerir okkur kleift að nálgast það á þann hátt að þekking okkar á því verður meiri. Trú er afar sérstakt samspil getunnar til að þekkja og getunnar til að elska. Í eðli sínu er trú það að elska hið óþekkta eða hið óþekkjanlega – að laðast að hinu óþekkta og getan til að nálgast það.  Þar sem Bahá´u´lláh staðfestir að Guð sé óþekkjanlegur, þarf trú til að laðast að honum og tengjast honum. Við höfum öll í okkur eðlislæga þrá til að tengjast öllu, að óendanleika alheimsins  meðtöldum. Þetta er eðlileg hliðarverkun þess að hafa vitund. Þar sem okkur finnst við vera ein og ótengd öllu öðru í alheiminum, erum við knúin til að komast að því hvar við stöndum gagnvart öllu öðru sem er til, einnig því sem er óþekkt eða óþekkjanlegt.  Mesti leyndardómur alheimsins gengur undir mörgum nöfnum; Alláh, Jehóva, Guð, Almættið. Þar sem að maðurinn hefur getu til að trúa – ákveðna afstöðu til hin óþekkjanlega – hefur hann í gegnum aldirnar brugðist við boðberum Guðs sem komu til að opinbera eiginleika þessa mesta leyndardóms alheimsins og svalað hinni kosmísku þrá okkar. Þannig þjónar trú afar mikilvægu hlutverki í tilgangi okkar, að þekkja og elska Guð.  Vel að merkja, ef frumkraftar getu okkar eru að þekkja og elska og ef við erum sköpuð í mynd Guðs hlýtur þekking og ást að vera meðal eiginleika hans. Bahá´u´lláh gefur það til kynna í þessu erindi úr Huldum orðum: Ó Mannssonur! Hjúpaður ómunaverund Minni og í aldinni eilífð kjarna Míns, þekkti Ég ást Mína til þín, því skóp Ég þig, greypti á þig ímynd Mína og birti þér fegurð Mína. 1. Ef Guð er óþekkjanlegur og við erum sköpuð í hans mynd, má þá ekki gera ráð fyrir að eitthvað í okkur sé óþekkt? Hið óþekkta í okkur er leynd geta okkar til að elska og þekkja. Í Dölunum sjö vitnar Bahá´u´lláh í vel þekkt persneskt skáld og  lýsir á mjög dramatískan hátt víðáttum hins óþekkta í okkur. Heldur þú þig vesælt mót, þótt í þér alheimur finnist?2  Í öðru versi segir Bahá´u´lláh; Þér eruð fjárhirsla Mín, því í yður hefi Ég varðveitt perlur leyndardóma Minna og djásn þekkingar Minnar. 3 Ekkert okkar þekkir hversu mikið við getum elskað eða hve mikið við getum lært. Rétt eins og við verðum að hafa trú til að læra um eiginleika Guðs verðum við að hafa trú til að læra eitthvað um sjálf okkur. Við verðum að elska – laðast að og hafa sérstaka afstöðu til – hins óþekkta í okkur sjálfum ef takast á að leysa það úr  læðingi.  Ef við tengjumst á fullnægjandi hátt hinu óþekkta í okkur sjálfum getum við tengst hinu óþekkta í öðrum. Með öðrum orðum; við verðum að viðurkenna aðra ekki bara fyrir það sem þeir eru, heldur fyrir það sem þeir geta orðið, annars stöndum við í vegi fyrir umbreytingu þeirra og vörnum þeim þess að finna sitt sanna sjálf. Þess vegna mun þeim sem hefur gefist upp á sjálfum sér, þeim sem hætt hefur viðleitni sinni og þess vegna svikið getumöguleika sína, finnast öll samskipti sín við aðrar mannverur vera truflandi, ófullnægjandi og jafnvel sársaukafull.  Að viðurkenna aðrar manneskjur og tengjast þeim aðeins á þeim forsendum sem eru til staðar hverja stund tryggir að einungis verður um að ræða yfirborðslegt samband. Ef þú villt öðlast djúpt samband við annað fólk verður þú að samþykkja það að í því búa óþekktir möguleikar og að sú viðurkenning er fólki uppspretta hugrekkis til að virkja þá.  Á persónulegri nótum, ef þú getur getur ekki viðurkennt óþekkta möguleika þína muntu aðeins vera fær um yfirborðslegt samband við aðra og ekki getað hjálpað þeim að virkja sína getu, né getur þú þroskað þína eigin. Þar sem geta mannsins er í raun grundvöllurinn að öllum vexti verður hún að njóta viðurkenningar annarra að því marki að viðkomandi finnist hann algjörlega samþykktur. Algjört samþykki annarra byggir upp sérstakt traust sem erfitt er að svíkja. Það er uppspretta milds þrýstings til að halda áfram viðleitninni og er nauðsynleg forsenda sannrar ástar og vinskapar.  Þessi tegund gagnkvæms þrýstings milli tveggja mannvera mun gera það samband andlegt og er nauðsynleg sérstaklega í hjónabandi. Hann er grundvöllurinn að Bahá´í hjónabandi. Þörfin fyrir gagnkvæmni í slíkum samböndum er undirstrikuð af Bahá´u’lláh í Huldum orðum:  Elska Mig, svo að Ég megi elska þig. Ef þú elskar Mig ekki, getur ást Mín á engan hátt náð til þín. Vit þetta, ó þjónn. 4  Í þessu versi býður Guð okkur, í gegnum opinberanda sinn að við elskum hann og viðurkennum hann þrátt fyrir það að hann sé óþekkjanlegur. Aðlöðun að hinum óþekkjanlega er kjarni trúar. Án trúar er engin aðlöðun að þessum mesta leyndadómi – Guði.  Við verðum fjarri leyndardómum okkar eigin sjálfs og aftengd kraftinum til að vaxa og þroskast. Tilvitnunin að ofan hefst á orðunum, Ó, verundar son og endar á, vit það ó þjónn. Í þessu stutta versi eru hinir tveir grunnkraftar að elska og þekkja aftur undirstrikaðir í samhengi við verund og þjónustu. Hún tengir saman ferlið “að verða” eða “leitast við að verða” og hinna æðstu stöðu, þjónustu.    

Kvíði og hið óþekkta 

Að mæta hinu óþekkta er ekki auðvelt. Tilhugsunin um það, sér í lagi þegar um er að ræða hið óþekkta í okkur sjálfum, veldur okkur alltaf kvíða. Sé hið óþekkta utanaðkomandi er það ávallt álitið ógn við öryggi okkar því það vekur upp í okkur spurningar sem varða hið óþekkta í okkur sjálfum – getum við eða getum við ekki ráðið við eitthvað óþekkt og utanaðkomandi? Kvíði ber öll merki um viðbrögð við ótta nema það að venjulega stýrist hann ekki af skýrri ástæðu.  Viðbrögð við ótta og kvíða einkennast bæði af því að orku er í skyndi veitt á líkamskerfið sem á að bregðast við ógn. Okkur gengur mun betur að bregðast við ótta því orsök óttans er venjulega ljós og hana má forðast eða fjarlægja. Þegar kvíði gagntekur okkur fer allt viðbragðskerfið af stað líkt og að um ógn sé að ræða þótt ekki sé vitað hvaðan hún kemur. Þegar ekki er hægt að beina viðbrögðunum að einhverju ákveðnu er erfitt að ákveða aðgerðir og kerfið veit aldrei hvort hættan er liðin hjá.  Kvíða má því skilgreina sem orku án markmiðs. Árangursríkasta leiðin til að bregðast við kvíða er að líta á þessa orku sem gjöf og finna áþreifanlegt markmið sem beina má henni að og styður jafnframt grunnmarkmið okkar sem er að þroska getuna til að elska og þekkja. Að ákveða hvert það markmiðskuli nákvæmlega vera er e.t.v. ein mest skapandi aðgerð sem hugsast getur. Hún felur í sér áhættu og skref inn í það óþekkta með efann á bakinu, en lika von um að uppgötva nýja möguleika eða nýjar takmarkanir (sem einnig eru hluti af veruleika okkar). Trú, er að laðast að því óþekkta í okkur sjálfum, að geta notfært okkur orkuna í kvíða okkar, með því að skapa markmið og hugrekki er að halda í þá átt.  Trú, efi, kvíði og hugrekki eru nauðsynlegur hluti umbreytingarferlisins – að leysa getu okkar úr læðingi. Ef ekkert væri óþekkt væri engin efi eða kvíði og án efa og kvíða væri engin þörf á trú eða hugrekki. Máttur Bahá´í trúarinnar til að umbreyta mönnum með því að leysa úr læðingi getu þeirra, er fólgin í þeirri staðreynd að hún kemur í veg fyrir að efi og kvíði fari úr böndunum og gefur um leið ástæðu og uppörvun til að mæta þeim á uppbyggilegan hátt með trú og hugrekki. Bahá´u´lláh segir sjálfur að megin uppspretta umbreytingarorkunnar komi frá því að viðurkenna orð hans – orð Guðs. Rit hans eru oft kölluð “hið skapandi orð” einmitt vegna þess að mönnum hefur fundist þeir vera skapaðir að nýju eftir að hafa komist í kynni við þau. Bahá´u´lláh leggur áherslu á að ef þú villt umbreytingu verðir þú að lauga  þig í úthafi orða hans. Við að lauga sig í því úthafi hefst umbreytingarferlið því þá skapast í okkur meðvitund um eðli og tilgang sköpunar okkar. Engin getur lesið orð Bahá´u´lláh án þess að finna hvernig getan til að þekkja og elska er vakin og þroskuð. Ef við höldum áfram að kanna ritin förum við að líta á okkur sjálf og umhverfi okkar öðrum augum. Og er við sjáum okkur og umhverfi okkar öðrum augum, breytist hegðun okkar.Breytt hegðun er áþreifanleg sönnun þess að við erum á ævintýralegri leið til að uppgötva það sem í okkur býr.  Ritin þjóna sem meðvirkt afl sem gerir okkur laus við ótta og klafa og hindra okkur í að taka hin áhættusömu en skapandi skref inn í hið óþekkta. Við vitum að fólk breytist oft við að verða fyrir sérstakri reynslu af einni eða annarri tegund. Að sökkva sér í úthaf orða Bahá´u´lláh er ekki bara að lesa þau, heldur reynsla sem getur verið svo sterk að hún losar fólk úr viðjum og beinir því í áttina að tilgangi sínum. Um leið og við erum laus úr lamandi viðjum þess sem aðrir segja um okkur, eru minni líkur á að við látum stjórnast af því og þróum þess í stað uppsprettu eigin viljahvata.  Ritin draga einnig úr almennum kvíða og efa, niður að viðráðanlegum mörkum með því að gefa skilning á sögu heimsins og því kreppuástandi sem ríkir og stöðugt versnar. Við þurfum ekki að láta sem kreppuástandið sé ekki til eða neita að horfast í augu við það. Skilningur á vandamálum heimsins dregur ekki aðeins úr  kvíða heldur  gefur einnig hugrekki. Sú staðreynd að Bahá´u´lláh gefur í öllum aðalatriðum leiðbeiningar um það hvaða markmið samræmast tilgangi sköpunar okkar, er einnig uppspretta hugrekkis fyrir okkur. Þær hjálpa okkur þegar við stígum hið skapandi skref að skilgreina þau markmið sem við ætlum að beina orku kvíðans að.  Við höfum í þessu sambandi val. Við getum annað hvort tekið þetta skref og skilgreint markmiðið og gert þannig umbreytinguna mögulega eða við getum hafnað því á meðvitaðan hátt og vonað að kvíðinn hverfi af sjálfu sér. Það liggur í augum uppi að sá sem hefur gnægð leiðbeininga um hvað skuli velja, er líklegri til að kjósa að það að skilgreina markmið sín. Ef þessi skilgreining fer ekki fram er líklegt að þessi orka kvíðans brjótist út í ofbeldi gegn öðru fólki. Viðbrögð fólks munu líklega draga úr möguleikum þess til vaxtar og þroska og einnig okkar sem það er að bregðast við.Þannig hvetja ritin á einstæðan hátt til trúar og hugrekkis og það er hluti af getu okkar til að þekkja og elska.  Trú og hugrekki tryggja áframhaldandi vöxt og þroska þessara tveggja grunnkrafta. Með öðrum orðum; ef þeir frumkraftar að þekkja og elska er notaðir rétt, af trú og hugrekki eykst getan En þetta er ekki öll myndin. Bahá´ú´lláh gerir ráð fyrir stofnunum í samfélaginu sem sem vernda og stuðla að umbreytingu mannkynsins. Bahá´í samfélaginu er ætlað að vera félagslegt umhverfi umbreytinganna. Vegna þess að Bahá´u´lláh leggur áherslu á einingu mannkynsins, eru öll Bahá´í samfélög samsett af fólki sem talar mismunandi tungumál, og eru af  mismunandi kynþáttum, þjóðerni og trúarlegum uppruna. Þessi fjölbreytileiki Bahá´í samfélagsins er öllum meðlimum þess tákn um hið óþekkta.- eða með öðrum orðum; Bahá´i samfélagið er samansett af fólki sem undir venjulegum kringumstæðum myndi ekki hafa neitt samneyti eða vinskap sín á meðal.  En þetta er ekki öll myndin. Bahá´u´lláh gerir ráð fyrir stofnunum í samfélaginu sem sem vernda og stuðla að umbreytingu mannkynsins. Bahá ´í samfélaginu er ætlað að vera félagslegt umhverfi umbreytinganna. Vegna þess að Bahá´u´lláh leggur áherslu á einingu mannkynsins, eru öll Bahá´í samfélög samsett af fólki sem talar mismunandi tungumál, og eru af  mismunandi kynþáttum, þjóðerni og trúarlegum uppruna. Þessi fjölbreytileiki Bahá í samfélagsins er öllum meðlimum þess tákn um hið óþekkta.- eða með öðrum orðum; Bahá´i samfélagið er samansett af fólki sem undir venjulegum kringumstæðum myndi ekki hafa neitt samneyti eða vinskap sín á meðal. Það er vel þekkt staðreynd að við veljum það að vingast við fólk sem hugsar eins og við, sem hefur sömu skoðanir og við, sama smekk og svipuð áhugamál. Í svo einsleitum hópi getur öll umbreyting auðveldlega staðnað þar sem að ákveðin gagnkvæm viðbrögð eru þróuð og engin hvati er til að þróa ný. Því er fjölbreytileiki eitt verðmætasta einkenni Bahá í samfélagsins.  Þegar einhver gerist bahá´i, gengur hann til liðs við fjölskyldu sem afar mismunandi fólk tilheyrir og  hann verður að vinna með og bindast því sterkum böndum. Það fyrsta sem hann kemst að er að gömlu viðbrögðin sem hann hefur komið sér upp, duga ekki lengur. Hver einstaklingur er fulltrúi hins óþekkta og allar tilraunir til að tengjast honum skapa orku (kvíða) sem setur af stað gagnkvæmt ferli þess að þekkja og elska af trú og hugrekki.  Þegar ný markmið, sem  á uppbyggilegan hátt nýta orku kvíðans, eru valin, munu okkur lærast ný viðbrögð. Hver ný viðbrögð eru hluti af leyndum eiginleikum okkar sem  eru að koma í ljós, - Mannleg geta leysist úr læðingi.  Með öðrum orðum býður Bahá´í samfélagið upp á meiri möguleika til að þekkja og elska  í umhverfi sem styður slíkan þroska, en finna má annars staðar. Almennt séð, fer hver bahá´i í gegnum ákveðna andlega þróun sem felur til að byrja með í sér umburðalyndi gagnvart fjölbreytileika samfélagsins. Með aukinni þekkingu verður umburðalyndið að skilningi. Þegar kærleika er bætt við blómstrar skilningurinn og vitund um gildi margbreytileikans verður ljóst. Vitundin um gildi margbreytileika er andleg og félagsleg andstæða einangrunarhyggjunnar.  Ferlið frá einangrunarhyggju til umburðarlyndis og skilnings og að lokum til vitundar um gildi fjölbreytileikans, hefur ávalt í för með sér kvíða og efa. Við erum oft í vafa um hvað við eigum að gera og ef við vitum það, langar okkur stundum ekki að gera það. Þetta eru prófraunir sem eru forsenda umbreytinga. Ábdu´l-Bahá sonur Bahá´u´lláh útskýrir að án prófrauna verði enginn andlegur vöxtur. Hér komum við að mjög mikilvægu atriði. Prófraunir reynast mörgum ofviða. Ábdu´l-Bahá segir að ef við snúum okkur annað en til Guðs til að leysa prófraunirnar, munu þær granda okkur. Ef við aftur á móti snúum okkur til hans og höfum þar að auki stuðning ástríkra samfélagsmeðlima, munum við sigrast á þeim. Fjölbreytileiki Bahá´í samfélagsins reynist mörgu okkar erfið prófraun að yfirstíga en er engu að síður nauðsynlegur andlegum vexti okkar.  Samtímis er handleiðsla Bahá´í stofnana og  einlægur ásetningur meðlima samfélagsins að viðurkenna hvern annan fyrir það sem þeir geta orðið frekar en það sem þeir eru, uppspretta hugrekkis til þess að prófraunirnar megi verða leið til andlegs þroska – til að leysa úr læðingi mannlega getu. Þetta er hin andleg merking mótlætis. Bahá´u´lláh staðhæfir að;  Ógæfa frá mér er forsjón Mín, hið ytra er hún eldur og hefnd, en hið innra ljós og miskunn. Hraða þér á hennar fund, að þú megir verða eilíft ljós og ódauðlegur andi. Þetta er boð Mitt til þín, breyt samkvæmt því. 5 Líf án kvíða og streitu felur ekki endilega í sér hamingju fyrir Bahá´ía. Slíkt líf er leiðinlegt samkvæmt Bahá í skilgreiningu. Hamingja í augum Bahá´ía er að takast á við prófraunir og vita hvar hugrekkið er að finna til að sigrast þeim þannig að getan til að þekkja og elska þroskist í þjónustu við mannkynið.  Að lifa í Bahá´í samfélaginu felur í sér að mæta prófraunum sem gefa tækifæri til að útfæra óhlutbundnar meginreglur í daglegu lífi okkar svo trú okkar grundvallist  á meðvitaðri þekkingu. Síaukin meðvituð þekking á því hvernig beita skuli meginreglum trúarinnar við raunverulegar aðstæður, treystir það sem áunnist hefur í andlegum þroska og er grunnurinn að áframhaldandi vexti. 

Fordómar – Hindrun á veginum 

Sameining mannkyns getur ekki orðið ef sérhver manneskja finnur ekki til einingar í sjálfri sér. Bahá´u´lláh benti á að hann gat ekki fundið neinn sem lifði í einingu hið innra sem hið ytra. Ef getan til að þekkja og getan til að elska eru ekki sameinaðar er ekki um einingu  þess innra og  ytra að ræða. Afleiðingarnar eru þær að orð og gjörðir eru í mótsögn við hvort annað. Þegar getan að elska rekst á við getuna að þekkja birtist það einnig hið ytra. Vísindi til dæmis, má líta á sem  tjáningu getunnar til að þekkja og trúarbrögð sem tjáningu getunnar til að elska. Bahá´u´lláh kenndi að vísindi og trúarbrögð verði að leiðast hönd í hönd annars muni árekstur þeirra valda miklum skaða.  Með orðinu “fordómar” er átt við um áreksturinn milli þessara tveggja tjáningarmáta. Fordómar er fullvissa (eins konar þekking) um að einhver ósannindi séu sönn, í bland við tilfinningalega staðfestingu á því (eins konar ást). Í öðrum orðum, eru fordómar tilfinningaleg þjónkun við ósannindi eða villu. Gjörðir sem grundvallaðar eru á þeirri þjónkun verða nánast ætíð til skaða bæði fyrir þann sem framkvæmir þær og þann sem verður fyrir þeim. Persónulegir fordómar eru hindrun á vegi tjáningar mannlegrar getu vegna þess að getan til að elska er notuð til að koma í veg fyrir getuna til að þekkja. Í grunninn má skilja alla sálræna og geðræna kvilla í ljósi þessara árekstra. Markmið meðferðar verður ætíð að vera að ryðja úr veginum þessari hindrun í átt að hinu sanna sjálfi með því að gera getunni til að elska mögulegt að styðja getuna til að þekkja og öfugt. Á félagslegu sviði, leiða fordómar í framkvæmd af sér skelfilegt óréttlæti, allt frá mismunun og aðskilnaði til skipulagðs ofbeldis og andúðar í formi styrjalda. Slíkt verður auðsjáanlega til þess að hindra alla getu samfélagsins til þroska.  Öllum vegatálmum í átt að sameiningu mannkynsins er haldið við af fordómum – af útbreiddri menningarlegri þjónkun við ósannindi. Þess vegna líta bahá´iar svo á að sameining mannkynsins sé samheiti fyrir afnám fordóma. Það verður að uppræta fordómana sem viðhalda þeim áður en vegatálmarnir að sameiningu eru rifnir niður. Hvers vegna er svona erfitt að uppræta fordóma? Ein ástæðan er sú að fólk er stundum ekki meðvitað um að það er haldið þeim. Í grunninn er þetta hroki – að vera ómeðvitaður um eigin fáfræði á sama tíma og maður lýsir því digurbarkalega yfir að afstaða hans sé réttlát og sannleikanum samkvæm. Hvorki fólks er í sorglegt ástand því það forðast ætíð að komast í þá aðstöðu þar sem það verður að horfast í augu við þann möguleika að það sé haldið fordómum. Hvernig á einhver að vita að hann sýni tilfinningalega þjónkun við ósannindi í formi fordóma, ef hann hefur aldrei orðið fyrir reynslu sem leiðir slíkt í ljós?  Á Persónulegri nótum, hvernig getur þú vitað að þú hefur fordóma gagnvart einhverjum sem talar aðra tungu eða hefur annan hörundslit en þú, ef þú hefur aldrei komist í kynni við slíkt fólk  eða orðið fyrir reynslu sem leiða mundi í ljós slíka villu?   Þetta er einmitt ástæðan fyrir því hversu nauðsynlegt Bahá´í samfélagið er til að uppræta fordóma stig af stigi. Það býður upp á möguleikana við hvert fótmál fyrir hvern og einn að komast að því hvar fordómar hans felast. Þetta er ástæðan fyrir því að baráttan fyrir einingu mannkyns á sér fyrst og fremst stað innan Bahá´í samfélagsins frekar en utan þess. Utan við samfélagið getur fólk einangrað sig frá aðstæðum sem sýna mundu fordóma þeirra og haldið áfram að hlusta aðeins það sem viðheldur bjöguðum skilningi og gerir þjónkun þeirra við ósannindi sterkari. Að uppgötva fordóma sína er bahá´ía ætíð prófraun og frá þeirri stundu sem honum verða þeir ljósir, verður hann að leitast við að uppræta þá. Ekki bara vegna þess að hann sýnir öðrum óréttlæti ef hann gerir það ekki, heldur vegna þess að andlegur þroski hans sjálfs veltur á því. Hvað gerist ef geta manns er hindruð – manns sem hefur ekki komist að því hvernig finna á sitt sanna sjálf eins eða annars vegna?  Sé viðkomandi óvirkur og innhverfur persónuleiki, mun hann líklega leita í gerviheima eiturlyfja og alkóhóls. Ef viðkomandi er virkur og úthverfur persónuleiki mun hann verða óvinveittur og árásargjarn og á það á hættu að lenda í fangelsi fyrir glæpi.  Aðalatriðið er einfalt: Sá sem er á leiðinni “að verða” - og  hvers geta til að þekkja og elska er í stöðugum vexti, -  mun ekki hlaupast undan skyldum sínum inn í gerviheimana né slást, meiða og drepa. Það er ómögulegt fyrir mannlega veru sem finnur að mannleg geta sín er að leysast úr læðingi að fara með stríði gegn nokkrum öðrum. Undir slíkum kringumstæðum er alls engin forsenda fyrir neinu ofbeldi. Sú er ástæðan fyrir því að Bahá´u´lláh gerir það tilkall að Trú hans og Bahá´í samfélagið verði til þess að alheimsfriður komist á.  

Ímynd Guðs og ríki hans á jörðu 

Hið óþekkta í sjálfum okkur, þessi óframkomna geta okkar, hefur verið nefnt ímynd Guðs. Það að finna okkar sanna sjálf merkir að við verðum að tengjast hinu óþekkta á þann hátt að meir og meir af því kemur í ljós. Það felur í sér að finna markmið sem hægt er að beina gegn kvíðatilfinningunni sem skapast við að standa andspænis hinu óþekkta. Allt þetta ferli á sér félagslega hliðstæðu. Það sem ímynd Guðs er fyrir okkur persónulega, er ríki Guðs á jörðu í félagslegum skilningi. Það ríki stendur fyrir það sem samfélagið getur orðið rétt eins og einstaklingurinn getur orðið ímynd Guðs. Þegar umbreyting einstaklinga með því að leysa úr læðingi mannlega getu, - þegar leynd geta til að elska og þekkja er skipulögð og tjáð á félagslegan hátt með því að uppræta fordóma meðal fjöldans, - miðar okkur í átt að stofnun Guðsríkis á jörðu. Opinberun Bahá´u´lláh fjallar ekki um umbreytingu einstaklingsins í einhverju tómarúmi. Slíkt væri afar erfitt ef ekki ómögulegt. Hún inniheldur miklu frekar uppdráttinn að uppbyggingu nýrrar heimsskipunnar. Þeirri uppbyggingu er stýrt og leiðbeint af Bahá´í stofnunum á þann hátt sem gerir mannlegu samfélagi fært að finna sitt sanna sjálf, ríki Guðs á Jörð. Viðbrögð okkar við kvíða og prófraunum í okkar persónulega lífi eiga sér félagslega hliðstæðu. Félagslegar stofnanir  verða fyrir prófraunum líka og þroski þeirra veltur á því hvort þeim tekst að stíga skapandi skref inn í hið óþekkta með nýjum lögum sem framfylgt er af nýrri tegund dómskerfis. Til að verða það sem við getum orðið andspænis erfiðleikum og prófraunum sjá bahá´íar ríki Guðs á jörð sem raunverulegt markmið sem vinna beri að með stöðugri viðleitni yfir langan tíma, frekar en óvirka bið eftir kraftaverki.  Þeir sem sýna þessa einlægu viðleitni finnst þeir vera virkir þátttakendur  í stærsta kraftaverki allra tíma- sem er meðvituð viðurkenning þeirrar skyldu að verða þekkjandi og elskandi þjónn mannkynsins til dýrðar Guði. Þannig sjá fleiri og fleiri leið Bahá´í kenninganna til að finna sitt sanna sjálf – til að endurspegla ímynd Guðs í lífi sínu og þar með finnur samfélagið sitt sanna sjálf – ríki Guðs á jörð.  Leiti ferðalangarnir eftir takmarki Hins Fyrirætlaða...sú staða á við um sjálfið – það sjálf sem er “ Sjálf Guðs sem stendur með lögum innra með honum”. Á þessu sviði er sjálfinu ekki hafnað heldur er það elskað; það er þóknanlegt og því skal ekki hafnað. Þó upphaflega sé þetta svið átaka, mun það að lokum ná hásæti dýrðarinnar....Þetta er svið þess sjálfs sem er Guði þóknanlegt. Skýrskotið til versins: Ó þú sál sem frið hefur fundið, / snú þér að Drottni þínum, þóknanleg og þóknandi honum:...Tak þér stöðu meðal þjóna vorra,/ Og gakk í paradís mína.” 6 Ó þjónar mínir! Gætuð þér skilið fyrir hvílíkum dásemdarverkum hylli minnar og veglyndis mér hefur þóknast að treysta sálum yðar, mynduð þér í sannleika snúa baki við öllu sem skapað er og öðlast sanna þekkingu á yðar eigin sjálfi, þekkingu sem jafngildir skilningi á minni eigin verund. Þér munduð verða óháðir öllu nema mér og munduð skynja, með ytri  og innri sjónum yðar, jafnt augljóst og opinberun skínandi nafns míns, þau höf ástúðar minnar og örlætis, sem ólga hið innra með yður. 7 

Tilv. Skrá: 
  1. Bahá´u´lláh, Hulin orð, útg. 1987, A.Þ.B.Í. bls. 4
  2. Bahá´u´lláh, Dalirnir sjö, Þýð.
  3. Bahá´u´lláh, Hulin orð, bls. 21
  4. Bahá´u´lláh, Hulin orð, bls. 4
  5. Bahá´u´lláh, Hulin orð, bls.15
  6. Bahá´u´lláh, Dalirnir sjö, Þýð.
  7. Úrval úr ritum Bahá´u´lláh, útg. 1998, A.Þ.B.Í. bls 277-8
 

Að finna sitt sanna sjálf

 

Eftir: Daniel C. Jordan

Þýtt af SGÞ  

 

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Blessaður,

Þetta er mjög góð færsla, enn hvað segir trúin um jafnrétti ?

    kveðja Guðrún

Guðrún (IP-tala skráð) 23.12.2007 kl. 18:14

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Guðrún og afsakaðu hversu seint ég svara þér.

Bahai trúin eru fyrstu trúarbrögðin sem leggja áherslu á jafnrétti kynjanna og telja það vera eina af forsendum framsækinnar siðmenningar. Mannkyninu er líkt við tvo vængi fugls sem verða að vera jafnvirkir til að flug sé mögulegt.  Í Bahai trú er kveðið á um það að mikilvægara sé að stúlkur hljóti menntun en karlar, því þær séu fyrstu fræðarar komandi kynslóða.

kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 29.12.2007 kl. 15:43

3 identicon

Sæll Svanur

Þetta er athygliverð lesning. Soldið sálfræðileg og veraldleg m.v. andlega trúarvitund. En engu að síður athygiverð. Hefur þér í gegnum þennan texta og þína trúarreynslu tekist að finna þitt sanna sjálf? og hefur þér tekist að lifa það af staðfestu og trúfesti? Var þessi text hjálplegur í því sambandi eða hafðirðu náð að tileikna þér það áður en þú þýddir textann. Er þetta kennsluefni trúar þinnar? Það væri gaman að vita hvort aðrir sem þetta lesa hafa slíka eða sambærilega reynslu af trú. Þe. hafi fundið sitt sanna sjálf og lifað það af trúgesti og mynduleika. kv. Guðbjörg

Guðbjörg Pétursdóttir (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 18:17

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Guðbjörg.

Textinn er bæklingur sem ég hef haft undir höndum í tugi ára en aldrei komist til að þýða fyrr. Ég varð ekki fyrir neinni trúarreynslu við að snúa honum, þótt mér þyki hann góður og skýri ýmislegt sem ekki liggur alltaf ljóst fyrir. Hann er að því leiti hjálplegur, já. Ég trúi ekki á einhverja kraftaverka-umbreytingu heldur á feril sem tekur tíma og viðleitni.

Þessi bæklingur getur virkað eins og kort að leiðinni sem þú þarft að fara. Hvort þú ferð og hvernig ferðin gengur fer eftir því hversu vel þú fylgir kortinu. Í Bahai trúnni er lögð á það áhersla að hver og einn hái sína andlegu baráttu og standi ábyrgur fyrir Guði og Guði einum hvað árangurinn snertir.

Takk fyrir innlitið :)

kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 30.12.2007 kl. 20:16

5 identicon

Sæll aftur

Ég var að vonast til að heyra eitthvað persónulegt um hvernig þessi umbreytingakraftur Bahaí trúarinnar hafi verkað og sé að verka í þínu lífi. Þ.e. hvernig þú hefur nýtt þessi trúarrit þ.e. hið skapandi orð í þínu lífi. Hvernig þú hefur lært að þekkja, elska og þjóna í þessum anda og hvaða dýptir það hefur færst inn í þínn andlega þroska sem einstaklings í samhengi við samfélagið og alheiminn. Hvernig þú sérð samskipti þín og samfélag við aðra öðru vísi en áður og hvernig vitund þín um tilgang þinn í lífinu hefur færst til vegna þessarar umbreytingar. Hvað þú gerðir áður sem var heimslegt, hvað þú gerir nú sem er andlega þroskandi í samfélagi sem leiðir á endanum til dýrðarríkis Guðs á jörðu. Bæklingar eru góðir, en raunveruleg reynsla þeirra sem fyrir trúnni tala er miklu mikilvægari, alla vega fyrir mig. Vona að þú skiljir nú betur hvað ég var að fara með spurningum mínum. :) G

Guðbjörg Pétursdóttir (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 21:50

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ég veit að sumir kristnir söfnuðir leggja mikið upp úr því að vitnað sé um trúna og þau margvíslegu undur sem hún getur kallað fram í lifi hinna trúuðu. Ég verð að viðurkenna það að ég er ekki sérlega trúaður maður, alla vega ekki nógu trúaður til að ég treysti mér til að vitna um það á þann hátt sem þú spyrð um. Ef það er fyrirmynd sem þú ert að leita að, bendi ég þér að að í Bahai trú er Ábdu´l-Bahá (sonur Bahá´u´lláh) hinn fullkomna fyrirmynd  sem bahaiar ættu að reyna að líkjast í einu og öllu.  Hvað hegðun annarra bahaia varðar, er varað við að vera stöðugt að hyggja að hvort plógfar náungans sé beint og djúpt því þá er hætta á  að eigið plógfar verið hlykkjótt og grunnt.

kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 31.12.2007 kl. 03:27

7 identicon

Sæll aftur og takk fyrir svarið ..

Stundarðu sem sagt trúboð á trú sem þú ert ekkert mjög trúaður á sjálfur ? og sem þú hefur ekki sjálfur sannfærst um að verki í þínu lífi? Er það nú ekki soldið öfugsnúið? Þannig að þessi magnaði umbreytingakraftur sem breyta mun einstaklingum og á endanum öllu samfélagi heimsins er ekkert endilega að verka í lífum þeirra sem kallast Bahaíar - nema í lífi Abdul-Bahá. Hvernig á þá samfélagið að breytast í þetta dýrðarríki Guðs ef bara einn hefur öðlast þessa umbreytingu og allir hinir dást af og boða án þess að ástunda sjálfir og vera fyrirmyndir annarra?

Guðbjörg Pétursdóttir (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 09:30

8 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Kæra Guðbjörg.

Ef að það er trúboð að segja frá sannfæringu sinni þá stunda ég trúboð. Ef þig langar að komast að einhverju frekar um trúarreynslu Bahaia, ættirðu að reyna það á eigin skinni, það er besta sönnunin.

Vertu ekki að fást um það hvernig mín andlega barátta eða annarra bahaia hefur tekist. Hafðu áhyggjur af þinni eigin. þú virðist gefa þér að ég og aðrir bahaiar séu ekki að fara eftir þessum kenningum af því ég segist ekki vera mikill trúmaður. Allt er afstætt og ég gef ekki mikið fyrir helgislepjuna sem drýpur af mörgum "trúmanninum".

Það er rangt ályktað hjá hjá þér að Bahaiar reyni ekki upp til hópa að fara eftir bahai kenningunum þótt þeir hafi eina sameiginlega fyrirmynd.

kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 31.12.2007 kl. 14:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband