Kveðja frá Jólasveininum - Sankti Nikulási

 StNicholas                   st-nicholas-mag-1916

Margt hefur verið um mig sagt og fjallað síðustu áratugina, en fæst af því sannleikanum samkvæmt.  Heilu kvikmyndirnar hafa verið framleiddar og sýningar uppfærðar þar sem persóna mín hefur verið notuð á óprúttinn hátt. Fyrirtæki sem eygja sér gróðamöguleika með því að bendla nafn sitt við mitt, gera það óhikað og eigna mér þá ýmissa eiginleika sem í raun eru mér framandi og alls-óskildir.

Ég ætla samt að vona að þið séuð ekki að taka feil á mér og hinum mörgu og misgóðu eftirlíkingum sem af mér hafa verið gerðar, einkar á seinni tímum. Í sannleika sagt eru þær orðnar svo margar og misjafnar, að það er ekki auðvelt að átta sig á hver og hvað ég í raun og veru er. Segja má að Íslendingar sjálfir hafi gengið hvað lengst í því að rugla fólk í ríminu, því hér er ég orðinn að fjölda óknyttadrengja sem hafast við á fjöllum og eru getnir af tröllum. Tröll hafa ætíð í mínum huga verið tákn hins lægra eðlis og hins dýrslega í fari mannsins, þó það sé nánast orðið hól að segja manninn dýrslegan á þessum síðustu og verstu tímum þegar maðurinn hagar sér oft miklu ver en dýr mundi nokkru sinni haga sér.

En svo við byrjum á byrjuninni þá var ég fæddur  6. Desember í borginni Myru í litlu Asíu, snemma á fjórðu öld. Foreldrar mínir voru Kristnir og faðir minn efnaður kaupmaður þar í borg. Allt frá fæðingu er sagt að ég hafi borið af öðrum börnum í kristilegu hátterni, og þær sögur sagðar af mér að þegar eftir að ég hafði verið skilinn frá móður minni á sænginni, hafi ég staðið upp og lofað Guð.  Í bernsku er sagt að ég hafi  neitað að sjúga brjóst móður minnar á föstudögum þegar öllum sannkristnum mönnum var ætlað að fasta. Ég segi þessar sögur hér, þó ég muni ekkert eftir þessu sjálfur, enda eflaust of ungur þá til að muna eitt né neitt. Hins vegar man ég eftir því þegar ég sem unglingur gerði mér grein fyrir fátækt meðbræðra minna og ríkidæmi föður míns. Þá tók ég til við að gefa fátækum af auði hans eins og ég mátti. Langfrægast þessara að mér fannst skylduverka minna, var þegar mér var sagt frá manni einum sem bjó ekki langt frá borginni og var svo fátækur að sagt var að dætur hans þrjár sem orðnar voru gjafvaxta, myndu fljótlega neyðast til að vinna fyrir sér á götum borgarinnar. Sagt var að honum mundi aldrei verða mögulegt að reyða fram það fé sem nauðsynlegt var í þá tíð að gefa í heimamund með dætrum sínum, til að gifta þær og tryggja þeim þannig heiðvirða framtíð. Faðir minn hafði skilið eftir sig talsvert fé sem ég reyndi eftir megni að ráðstafa til fátækra. Meðal muna í fórum hans voru þrír afar verðmætir gullknettir. Ég tók því til ráðs að laumast að húsi fátæka mannsins og dætra hans þriggja, þrjár nætur í röð og skildi í hvert sinn eftir einn gullknattanna. Þetta vildi ég gera á laun til að særa ekki stolt mannsins né gera dætur hans skuldbundnar mér. Þannig varð fátæka manninum kleift að gefa dætur sínar ásamt góðum heimamundi í sæmandi hjónaband. Einhvernvegin komst samt þessi saga í hámæli og löngu seinna eftir að ég hafði verið sæmdur nafnbótinni dýrlingur, gerðu veðlánarar mig að verndardýrlingi sínum og hnettina þrjá að merki sínu. Þess vegna má sjá enn í dag þrjá knetti hanga fyrir utan búðir veðlánara í flestum löndum heims, þar sem þeir þrífast á annað borð.

balls203

Snemma á ævinni ákvað ég að gerast þjónn Guðs og helga mig útbreiðslu trúar hans. ´Eg var því viðstaddur  í Níkeu árið 325 þegar Konstantínus keisari safnaði saman öllum helstu kennimönnum kristinnar trúar til að samræma kenningar kirkjunnar. Konstantín átti kristna móður, og hét hún Helena en sjálfur var hann ekki viss hvoru megin hann stóð, Krists eða heiðinna goða. Það var hann sem gerði sunnudag að hvíldardegi kristinna manna árið 321 en þeir höfðu haldið laugardaginn helgan fram að því. Seinna átti ég við hann nokkur samskipti því hann fór stundum með ofríki gegn þegnum sínum. Einu sinni hneppti hann í fangelsi þrjá unga prinsa sem ekkert höfðu sér til sakar unnið annað enn að vera af tignum ættum. Gekk ég þá fram fyrir skjöldu og fékk þá með fortölum lausa. Reyndar hélt Konstantín því fram seinna að ég hefði komið til hans í draumi og beðið drengjunum vægðar og aðeins eftir það, hefði hann ákveðið að láta þá lausa.  Vegna þessa atviks og annarra var ég löngu seinna gerður að verndardýrlingi barna og kórdrengja.  Þegar fram liðu stundir gekk ég undir biskups-vígslu. Skömmu eftir þann atburð varð uppskerubrestur í umdæmi mínu og fékk ég þá því framgengt að kaupskip nokkur sem voru á leið til Alexandríu hlaðin matvælum, lönduði þeim í Myru heimaborg minni. Ég lofaði  skipstjórum skipanna því að þeim yrði endurgoldið þegar þeir kæmu til Alexandríu af biskupinum þar. Allt gekk það eins og ég hafði fyrir sagt. Af þessum sökum hefur ankerið verið eitt af táknum mínum, því sjómenn urðu einnig til að ákalla nafn mitt þegar erfiðleikar steðjuðu að þeim. Sjómenn í hafnarborginni Bari á Ítalíu voru svo sannfærðir um mátt minn til að halda yfir þeim hlífðarskildi í stormi og stórsjó að þeir létu færa jarðneskar leifar líkama míns frá Myru, heimabæ mínum, þar sem þær höfðu verið jarðsettar, til borgarinnar Bari. Þetta gerðist árið 1089. Um leið og þeir fluttu beinin, létu þeir smyrja þau með ilmolíum. Þannig gerðist það að þegar þau voru flutt í land í Bari fann fólk af þeim góða lykt. Af þessum sökum var ég nokkru seinna gerður að verndardýrlingi þeirra sem fást við ilmvatna og ilmefna gerð. Í margar aldir var ég í hugum flestra Evrópubúa aðeins einn af fjölmörgum dýrlingum sem  ákallaðir voru í neyð. Hollendingar sem voru miklir sjófarar og kaupmenn voru hvað duglegastir við að halda nafni mínu á lofti. Í Englandi varð ég samt var við það fyrst, að farið var að setja mig í samband við fæðingarhátíð Jesús Krists. Kom það til af því hversu nálægt fæðingardagur minn, sem gjarnan var mynnst af börnum og sjófarandi kaupmönnum, var upphafi aðventunnar að kristmessu, eða jólum eins og hún er kölluð hér um slóðir. Þar var farið að kalla mig faðir Kristsmessu snemma á 19. Öld. Með Hollenskum innflytjendum barst ég svo til Bandaríkjanna og í upphafi þessarar aldar var farið að teikna mig á kort og auglýsingar í þessari mynd sem ég hef í augum flestra í dag. 

santa

Rauði liturinn á Kápunni minni er auðvitað litur fórnarinnar, þó ég hafi óljósan grun um að hann hafi einnig verið valin af því að fyrirtækið sem fyrst varð til þess að nota ímynd mína í áróðri sínum, hafði einmitt valið þennan lit í vörumerki sitt. Fljótlega spunnust upp sögur um allt annan uppruna minn en raunin er á. Og þó að ég sé ýmsu vanur í þeim efnum og hafi orðið að sæta mig við ýmsar sögusagnir um persónu mína fram að þessu, þá finnst mér oft um þverbak keyrt. Í raun er ég ekki ósáttur við það útlit sem mér hefur verið gefið í meðförum kunnáttusamlegra teiknara. Og ég get ekki sagt að hugmyndin um mig í stórri smíðaskemmu á norðurpólnum við að smíða gjafir með aðstoð fjölda hjálparsveina sé mér beint ógeðfeld. En eitt vil ég samt þó segja að lokum; engin hreindýrategund sem við þekkjum getur flogið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband