Æ ég veit það ekki...Nöldur á sunnudagsmorgni

Ég er búsettur um þessar mundir í miðbæ Reykjavíkur.Ákvað að gerast Latte lepjandi miðbæjarrotta eins og einhver orðaði það. Hugsaði með mér hversu þægilegt það gæti verið að þurfa ekki að sækja neitt langt að, geta skroppið á veitingastað og rölt heim.

ferðamennFyrir aðeins þremur árum, árið 2013 þegar ákvörðunin var tekin, var fjöldi ferðamanna í borginni svo til viðráðanlegur. Þá sóttu landið heim um 700.000 ferðamenn á ári. Nú hefur sú tala tvöfaldast og það sem gerði miðborgina eftirsóknarverða í mínum augum er horfið. Hver einasta hola er orðin að viðverustað túrista á öllum tímum sólarhringsins. Hvergi er afdrep að finna fyrir þá sem vilja rifja það upp hvernig á að eiga samræður á íslensku. Um alla miðborgina standa yfir byggingaframkvæmdir til að hýsa enn fleiri ferðamenn sem í vændum eru og jafnvel á sunnudagsmorgnum eru borvélarnar og högghamrarnir komnir í gang fyrir það sem áður var talinn almennur fótaferðatími. - 

Andrúmsloftið er mettað græðgi og minnir óneitanlega á ástandið á aflaárunum miklu þegar að mestu skipti að moka sem mestum fiski upp úr sjónum og hirt var lítið um gæðin. Bolfiskurinn í kösinni var stungin fyrir miðju og Skötuselnum hent. - 

Og auðvitað er það ekki bara miðbær Reykjavíkur sem er sprunginn á límingunum vegna ferðamannfjöldans. Á Hakinu á Þingvöllum troðast túristarnir upp á útsýnispallinn til að geta smellt af sér mynd með það sem þeir trúa að sé "Evrópa" í baksýn. Á Geysi lítur Kantínan út eins og veitingatjaldið á votri Þjóðhátíð í Eyjum og við Gullfoss keppast ferðamenn við að klofa yfir keðjur og skilti sem vara þá við hættunni að fara lengra. - Bílastæðið við Seljalandsfoss er eins og mauraþúfa, við Skógarfoss er það ófært svað sem heimamenn hafa ekki við að moka í. Við Sólheimajökul það sama og Reynisfjara  er nú orðin vinsæll áfangastaður adrenalíns fíkla.

Já margt er mannsins böl, en þetta er heimatilbúið. Og eftir höfðinu dansa limirnir. Stefnuleysi stjórnvalda í ferðamálum endurspeglast best í hversu staðföst þau eru í að neita því að beina fjármagni í uppbyggingu innviða landsins sem er nauðsynlegt til að taka á móti þessum fjölda ferðamanna. - Slíkt er í raun óskiljanlegt þegar að horft er til þeirra miklu tekna sem ríkið hefur af ferðamennskunni.- 

Er það furða þótt að fólk fari að spyrja sig hvort stefnan sé í raun sú að drepa af sér þessa atvinnugrein, en sjúga úr henni eins mikið og hægt er á meðan hægt er. Leyfa sinnuleysinu að grassera þangað til að úr verður algert öngþveiti og þá verður sjávarútvegurinn kannski aftur stærsta mjólkurkúin. Æ ég veit ekki...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Nöldur er þetta ekki, svo mikið er víst. Öllu heldur upptalning á staðreyndum, sem allir virðast sjá, en enginn gerir neitt í. Stjórnvöld þar alverst, með að því er virðist óhæft fólk við stjórnvölinn, þegar kemur að lausnum hinna "ýmsustu" mála. Það er orðin skítalykt af öllum þessu túrisma, á margan hátt. Synd hve illa hefur tekist til með að byggja upp nauðsynlega þjónustu sem fylgir þessari miklu aukningu. Óskandi að stjórnvöld fari nú að girða sig í brók og gera eitthvað af viti í þessum málum. Ef ekker verður gert, er ekki langt í að það þurfi ekkert að gera. Hingað munu fáir nenna að koma.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 13.3.2016 kl. 20:43

2 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

ÞAR SEM BYGGÐIN ER AÐEINS hÓTEL FYRIR FERÐAMENN- HVERFA ÍBÚARNIR. þAÐ SANNAÐI SIG Á COSTA DE SÓL OG FLEIRI STÖÐUM SEM EKKI UNNU ÚR ÞESSUM MÁLUM Í TÍMA.

Erla Magna Alexandersdóttir, 14.3.2016 kl. 00:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband