22.7.2013 | 22:30
Hvers vegna er Punk bænin svona hættuleg?
Skilaboðin í Punk bæn Pussy Riots eru rammpólitísk. Þau beinast gegn afskiptum rússnesku Réttrúnaðarkirkjunnar af pólitík, spillingu hennar og einræðistilburðum Putins. Textinn er vissulega dónalegur en jafnframt hárbeittur. Sá hluti bænarinnar sem fjórar af sjö meðlimum hljómsveitarinnar sungu upp við altari Dómkirkju Frelsarans Krists í Moskvu þann 21. febrúar 2012 var á þessa leið í lauslegri þýðingu.
Hreina mey er fæddir Guð, rektu Putin frá!
Rektu Putin frá, rektu Putin frá!
Svartar hempur og gylltir axlaspælar,
safnaðarmeðliminir skríða, krjúpa,
Andi frelsisins er farinn til himna,
Gey Pride skrúðganga hefur verið send til Síberíu í hlekkjum.
Erkiengillinn er yfirmaður KGB,
Hann leiðir lest af mótmælendum í fangelsi,
svo hann móðgi ekki hinn heilagasta.
Konur eiga að fæða börn og elska
Saur, saur drottins saur!
Saur, saur, drottins saur!
Með "drottins saur" er átt við það sama og þegar sagt er á ensku "Holy Shit". Annað er auðskilið í þessu erindi.
Seinna þegar myndbandið kom út með Punk bæninni, heyrðist seinni erindin í viðlaginu, sem aldrei voru sungin í kirkjunni.
Hreina mey er fæddir Guð, gerstu femínisti!
Gerstu femínisti, gerstu femínisti!
Kirkjan lofar spillta leiðtoga.
Fylking krossins samanstendur af svörtum glæsibílum.
Predikari er á leið í skólann þinn,
Farðu í tíma og gefðu honum peninga.
Patríarkinn Gundyay trúir á Putin.
Væri betri, bastarðurinn, (tíkin) ef hann trúði á Guð!
Belti Guðsmóðurinnar kemur ekki í staðinn fyrir stjórnmálafundi.
Hin eilífa María mey er með okkur í mótmælum okkar!
Hreina mey er fæddir Guð, rektu Putin frá!
Hreina mey er fæddir Guð, rektu Putin frá!
"Fylking krossins" á við "krestnyi khod", krossgönguna sem gengin er á páskum og meðlimir hinna ýmsu safnaða bera krossa kirkna sinna í fylkingu um Mosku.
Eftirnafn Krill, patríarkans í Moskvu, er Gundyayev og með "Belti Guðsmóðurinnar" er átt við helgigrip sem sagður er vera belti Maríu meyjar sem hún bar Jesú undir. Beltið var flutt frá Athos fjalli í Grikklandi í dómkirkjuna í Mosku, nokkru áður en Pussy Riot tróðu þar upp. Þúsundir manna stóðu þá í löngum biðröðum í miklum frostum til að sjá beltið, margir í þeirri von að við það munu þeir fá bót meina sinna.
Þessi Punk texti endurspeglar djúpan ágreining sem ríkir í rússnesku samfélagi um trúarbrögð, persónufrelsi og um hugtakið réttlæti.
Fangelsun meðlima Pussy Riot fyrir að flytja hluta hans í dómkirkju í Mosku hefur vakið athygli heimsins á þessum skoðanagjám og hversu viðkvæm stjórnvöld og kirkjan eru fyrir gagnrýni.
Þessi viðkvæmni stjórnvalda og harðneskjuleg viðbrögð þeirra, jafnvel við öfgafullum táknrænum aðferðum í mótmælaskyni eins og hér var á ferðinni, ber vott um veikleika. Pussy Riot hefur sýnt að sá veikleiki hjá rússneskum yfirvöldum er miklu meiri enn þau kæra sig um að fólk viti. Þess vegna sitja þrír meðlimir hennar enn í Gúlaginu.
Björk vill frelsa Pussy Riot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Mannréttindi, Tónlist | Breytt 23.7.2013 kl. 20:55 | Facebook
Athugasemdir
Einn af mörgum kostum pönksins er að formið, grunnformið, gerir út á herskáan beinskeyttan boðskap. Pönkarinn er kjaftfora týpan á götunni sem talar hreint út um hlutina. Uppskrift frumherjanna í Bretlandi 1976 markaði stefnuna. Ég var einmitt að blogga um þetta af öðru tilefni fyrir nokkrum dögum: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1306836/
Stelpurnar í Pussy Riot gagnrýndu fasíska tilburði Pútíns & Co. Viðbrögð Pútíns & Co staðfestu réttmæti gagnrýnarinnar. Ártangurinn varð meiri en það. Þeim tókst að afhjúpa fasíska tilburði Pútíns & Co fyrir alþjóð. Ekkert batterí í heiminum, hvorki Amnesty International né Human Rights, hafa náð að opinbera og vekja jafn rækilega athygli heimsbyggðarinnar á fasisma Pútíns & Co og Pussy Riot.
Jens Guð, 23.7.2013 kl. 00:22
Ég kann ekki á svona skipulagðar múgæsings-aðgerðar-öfgar, sem eru gerðar út af trúarbragða-rugli.
Ég varð fyrir gífurlegum vonbrigðum og sorglegri upplifun í kvöld. Það hreinlega dró spillingar-mengunarryk fyrir sólina, við þessa ísköldu reynslu. Ég mætti nefnilega um kl. 20.00 í Vatnsmýrinni, og ætlaði að votta þeim samúð mína, sem eiga um sárt að binda vegna fjöldamorðanna í Noregi fyrir tveimur árum síðan.
Ég var hissa á því hvað voru fáir mættir, þegar ég nálgaðist Norræna húsið. Þegar ég var næstum komin að litla hópnum sem þar var mættur, þá áttaði ég mig á að allir voru með eina rauða rós.
Þetta var greinilega frátekin sýndarmennsku-stund útvaldra "sósíalista", en ekki samúðarstund heildarinnar til stuðnings aðstandenda. Ég hef ekki verið spurð hvort ég þekkti einhvern sem var drepinn 22. júlí 2011, enda greinilega auka-atriði í þessu leikriti.
Ég snéri við og labbaði til baka, þegar ég sá og upplifði þessa ömurlegu pólitísku sundrungar-sýningu. Það virkaði eins og einhverskonar ísköld Stalín-hönd um hjartað, að upplifa þetta leikrit, í kringum þvílíkan hörmungar-sorgaratburð.
Og að lokum; innilegar samúðarkveðjur til allra sem misst hafa sína í hryðjuverkunum í Noregi, og ekki síður til annarra í sömu stöðu um allan heim.
Ég bið almættið algóða að hjálpa fólki að sigrast á sorginni, sem fylgir pólitískt flokkuðu stríðsöfga-hörmungunum leikstýrðu um allan heim.
Maður samhryggist fólki ekki eftir flokkslínum, heldur af mannúð!
Það er 21. öldin!
Hvers konar hjörtu og hugsanir stjórna þessu valdagræðgi-heims-aftöku-leikriti?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 23.7.2013 kl. 00:25
Heilir og sælir; Svanur Gísli - Jens Guð(legi), og aðrir gestir Svans !
Þessar ófyrirleitnu gálur; Ríótísku Pussu Pönk sveitin, vafa lítið ágætar listakonur á hinum mætu Pönks sviðum voru, / og eru ódýr leiguþý þeirra afla útlendra - sem innlendra í Rússlandi, sem eru kostaðar af Bandarískum og Vestur- Evrópskum Heimsvalda sinnum, undir leiðsögn : Pentagon/NATÓ/ESB samsteypunnar, forn vinir mínir góðir, til þess að grafa undan hinu Asísk/Evrópska stórveldi Rússlands.
Þið hljótið jú; að sjá samhengið drengir : Skógar - Kornakra flæmi - Fiskimið gjöful - Kolanámur - Kopar - Gull - Silfur - Olía og Jarðgas, svo fátt eitt sé talið, er enn um stund, í ríkum mæli, á Rússneskri grundu, sem og í Íshafinu og Kyrrhafinu og víðar;; bara þessar staðreyndir gera að verkum, að mörg Vesturlanda froðufella af græðgi, í þessi auðæfi öll - OG; ÞAR ER V.V. PÚTÍN, þeim mjög óþægur ljár í þúfu.
Vafalaust; sakna mörg Vesturlanda, stjórnartíma B. Jeltsíns heitins Vodkafræðings, þegar þau héldu auðveldar, að leggja snörur sínar fyrir hann, forðum.
Ef eitthvað er; er ég frekar gramur félaga mínum Pútín fyrir, hvernig hann tekur mildilega á þessum Pönk stelpum - sjálfur; hefði ég látið dæma þær, í AÐ MINNSTA KOSTI 500 ÁRA fangelsi, fyrir Andskotans fíflaganginn; Svanur Gísli og Jens.
En; um þetta mál mun fara, sem verkast vill - sem önnur öll, ágætu drengir.
Með beztu kveðjum; sem jafnan, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.7.2013 kl. 00:44
Þetta er náttúrlega argasta guðlast, Svanur Gísli, og í óljóðrænasta lagi.
Rugludallar einir hrósa þessu, að mínu áliti.
Svo máttu laga ásláttarvillurnar, t.d. hér (eflaust óvart): "Eftirnafn Krill, patríarkans í mosku"
= Eftirnafn Kyrills, patríarkans í Moskvu. Fyrr má nú fyrr vera, að tala um patríarka í mosku!
Jón Valur Jensson, 23.7.2013 kl. 18:05
Reyndar skrifa Rússar gjarnan Kirill.
Jón Valur Jensson, 23.7.2013 kl. 18:06
Pólitískir klíku-flokka-yfirmenn í heiminum eru hættulegustu trúarbragða-böðlarnir, og glæpavæddustu ofbeldis-kyndilberarnir.
Ef maður er hlynntur trúfrelsi, þá ræðst maður ekki á trú annarra, sem ekki samræmast manns eigin trú. Drottnandi valdagræðgi embættismanna er vandinn, en ekki ólíkar trúarskoðanir fólks.
Þó allar kirkjur og moskur heimsins yrðu herteknar af öfga-pólitískum öflum, og aflagðar með ofbeldi, þá breytir það ekki hugarfari þeirra, sem stjórna múgæsing og sundrung.
Friður og mannréttindi nást ekki, með sundrandi og stríðandi fylkingum. Það er flókið að lifa samkvæmt friðar og réttlætis-reglum. Ófriður og sundrung gerir það flókna verk ekki auðveldara.
Engin mannleg vera hefur leyfi til að taka sér drottnunar-vald almættisins algóða yfir öðrum jafningjum jarðarinnar. Það er skilyrðislaus réttur hvers einstaklings að túlka sína trú og lífssýn, fyrir sjálfan sig.
Friðsamleg og réttlát gagnrýni er nauðsynleg.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 23.7.2013 kl. 20:41
Meinleg villa með mosku Jón Valur og auðveldlega leiðrétt. Hvaða guðlast sérð þú í þessum texta.
Svanur Gísli Þorkelsson, 23.7.2013 kl. 21:00
Ég kannski dreg aðeins í land með að halda fram (í flýti), að hér sé mikið um argasta guðlast, en ljótt er þarna ýmislegt eins og endir 2. versins og ekki fallegt að tengja Guðsmóðurina við öfgahreyfingar.
Jón Valur Jensson, 24.7.2013 kl. 00:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.