13.5.2013 | 10:48
Mennirnir sem redda
Þá eru stjórnamyndunarviðræður Sigundar Davíðs og Bjarna Ben á lokasprettinum og í dag verður leyst frá skjóðunni. Verið var að loka ýmsum smámálum sem voru skilin eftir þar til í lokin. Þetta voru mál sem vörðuðu m.a. kosningaloforðin um niðurfellingu skulda heimilanna, en það vantaði víst eitthvað af upplýsingum um hvernig mætti útfæra þann gjörning. - Sérstaklega um hvar ætti að taka peningana sem allir vita að eru ekki til. Helsta ráðið í þeim efnum virðist vera að taka það sem við skuldum öðrum, en er samt ekki til, og nota þá peninga í þetta.
Bráðsnjallt hjá drengjunum. Þetta eru mennirnir sem kunna að redda málum, hjálparlaust, án samráðs eða einhvers svoleiðis kjaftæðis.
Nú er þetta sem sagt allt að komast á hreint og þeir eru tilbúnir að bretta upp ermarnar og byrja að bæta fyrir misgjörðir forvera sinna í embætti sem eiga stærstu sökina á vandanum sem við er að glíma. - Það fer vel á því og sannar vel að syndir feðranna koma ávalt niður á börnunum.
Undir snjóhengjunni , með frosin jöklabréfin og óuppgerðar skuldir hefur Þjóðin beðið þolinmóð og auðmjúk eftir að tvíeykið kæmi undan feldinum og nú er það að gerast. -
Á næstu dögum verður greidd út leiðréttingin á tekjuskerðingu aldraðra, skattar verða lækkaðir, skuldir feldar niður, og hafist verður handa við að koma stórvirkjunum í gang. Álver og efnaverksmiðjur munu rísa, verðtryggingar verða numdar úr gildi, án tillits til verðbólgunnar og verðbólgan stöðvuð án tillits til þenslu. -
Kraftakarlarnir Sigmundur og Bjarni kunna sannarlega til verka og það er gott að vita til að þeir tilheyra þessum ákveðnu flokkum. Yfirbót þeirra er og verður þjóðinni kærkomin.
Og skilaboðin verða líka þau að Ísland er Palli einn í heiminum. Teknar verða eignir í eigu útlendinga, (til að fjármagna niðurfellingu heimiliskuldanna), Evrópustofu verður lokað og inngönguferlinu hætt. Ísland kemur til með að klára sig sjálft og sjálfstætt með sinn dverg-gjaldmiðil og bjóða heiminum birginn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.