23.11.2012 | 00:24
Er Skálholt íslensk Golgata
"Hermennirnir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata."
Þannig segja guðspjöllin frá staðnum sem allt frá fjórðu öld hefur verið lýst sem lítilli hæð eða holti skammt fyrir utan Jerúsalem, svo nálægt borginni samkvæmt sögunni, að þeir sem voru að koma út úr borginni gátu lesið yfirskriftina á krossi Krists; Jesú frá Nasaret, konungur Gyðinga.
Í bæði kristnum og gyðinglegum helgisögnum er Golgata þar sem höfuðkúpa Adams er sögð staðsett. Samkvæmt arfsögninni var höfuðkúpa Adams flutt eftir syndaflóðið til hæðar sem markaði miðju heimsins og sem leit út eins höfuðkúpa. Að auki var það staðurinn þar sem höfuð höggormsins var kramið eftir syndafallið.
Nafnið Golgata er annað hvort runnið af hebreska orðinu "gulggolet" sem þýðir skel og er þar átt við höfuðskel eða arameíska heitinu Gol Gatha sem þýðir "aftökuholt" (hæð) og er sá staður sem Jeremías segir frá í staðarlýsingu sinni a Jerúsalem og kallar Goatha.
Í báðum tilfellum er nafnið tengt aftökum því höfuðskeljarnafnið er sagt vera dregið af hausaskeljum þeirra sem af lífi voru teknir og ekki var hirt um að grafa.
Nú vill þannig til að íslenska orðið skál er dregið af proto-germanska orðinu skelo sem merkir skel.
Bein þýðing á orðinu GOLGATA yfir á íslensku gæti því allt eins verið SKÁLHOLT.
Í hugum margra Íslendinga er Skálholt einmitt tengt atvikum sem bæði hafa með aftökur og hausaskeljar að gera. Hér er auðvitað átt við aftökur Jóns Arasonar og sona hans sem allir voru hálshöggnir á staðnum og síðar þegar steinþró Páls biskups Jónssonar fannst með höfuðkúpu og beinagrind hans 1955.
Síðustu orð Jóns Arasonar og Krists þau sömu
Ef við rifjum upp aftöku Jóns og sona er þeim lýst svona á ferlir.is;
Menn voru þegar settir til að gera aftökustað austan við túnið í Skálholti, og var þangað fluttur gamall vindustokkur frá kirkjunni og höggvið í hann hökuskarð, svo að nota mætti sem höggstokk. Böðull hafði þegar verið fenginn frá Bessastöðum til þess að vinna á þeim feðgum.
Þegar morgnaði, voru fangarnir búnir til aftökunnar. Ari var fyrst leiddur á höggstokkinn, og fylgdi honum prestur sá, sem vakað hafði hjá honum um nóttina. Vildi Ari ekki, að bundið væri fyrir augu sér. Hann gaf böðlinum gjöf til þess, að hann ynni verk sitt hreinlega eins og alsiða er erlendis. Síðan hjó böðullinn hann og fórst allvel. Þessu næst var höggstokkurinn færður og sér Björn leiddur til höggs. Böðlinum fataðist fyrsta höggið. Hljóp Daði í Snóksdal þá til og skipaði böðlinum að fullkomna verk sitt. Murkaði böðull loks af honum höfuðið í fjórða höggi.
Síðastur var Jón biskup höggvinn, og fylgdi séra Hængur Höskuldsson á Stóru-Völlum á Landi honum til aftökunnar. Hafði biskup kross í hendi. Við höggstokkinn kraup hann sjálfur á kné og signdi sig. Þegar biskup var lagstur á höggstokkinn, reiddi böðullinn öxi sína til höggs. En höggið geigaði hjá honum sem fyrr, og við þriðja högg mælti biskup: "In manus tuas, domine, commendo spiritum meum herra, í þínar hendur fel ég anda minn. Það heyrðu menn hann mæla síðast orða, en í sjöunda höggi tók loks af höfuðið.
Frægasta höfuðskelin
Árið 1952 hófst uppgröftur á kirkjugrunnum í Skálholti og var það umfangsmesta rannsókn á einum minjastað á Íslandi til þess tíma.
1954 var gerður uppdráttur af kirkjugarðinum og nánasta umhverfi hans, grafið var í Þorláksbúð að hluta, og í dómkirkjugrunnana. Fannst þá m.a. steinþró Páls biskups Jónssonar með beinum hans og bagli og vakti sá fundur gríðarlega athygli.
Hvaðan er nafnið á Skálholti raunverulega komið
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi var fyrstur íslenskra fornfræðinga til að kanna minjar í Skálholti. Hann kom þar árið 1893 og skráði sýnileg ummerki og munnmæli og frásagnir staðkunnugra um fornleifar. Skráði hann m.a. munnmæli er skýrðu uppruna örnefnisins Skálholts: Smalamaður Ketilbjarnar gamla landnámsmanns átti að hafa hafst við í skála, þar sem bærinn í Skálholti var reistur síðar.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.