Hugsjónir Herdísar

Herdís Þorgeirsdóttir býður sig fram til forseta. Hún er þegar flestum
landsmönnum kunn af góðum verkum sínum og eljusemi við að koma
hugsjónum sínum í framkvæmd.

Hugsjónir Herdísar tengjast fyrst og fremst  auknum mannréttindum og
auknu lýðræði, baráttu fólks fyrir að fá að ráða lífi sínu sjálft í
sátt við samfélag sitt og umhverfi. Hún hefur notað góða menntun sína
og persónulega hæfileika til að takast farsællega á við margvísleg
verkefni tengdum þessum hugsjónum, bæði á Íslandi og fyrir alþjóðlegar
stofnanir.

Herdís sækist nú eftir embætti forseta Íslands til að gera það m.a. að
vettvangi og farvegi þessara hugsjóna.  Henni hefur tekist á
starfsferli sínum að hefja þessar hugsjónir upp yfir dægurþras
stjórnmálanna, fullviss um að þau snerti fæðingarrétt hvers einasta
manns sem jörðina gistir. - Sýn og nálgun Herdísar við forsetaembættið
er einmitt sama eðlis. Flokkadráttum og pólitískum væringum á að halda
fjarri Bessastöðum.

Þess vegna beinir hún máli sínu nú, í ræðu og riti, beint til okkar
almennra kjósenda. Óháð öllum stjórnmálaflokkum, án tengsla við
auðhringa og valdaklíkur,  skorar hún á alla Íslendinga að skoða verk
sín og hugsjónir í samhengi  við okkar daglega líf og þær
grunnhugsjónir sem við byggjum það á.

Með framboði sínu dregur hún skýr mörk milli þeirra sem sjá
forsetaembættið sem friðarstól og þeirra sem skoða það sem pólitískt
bitbein.

Herdís hyggist ekki gera forsetaembættið að pólitískum neyðarhemli sem
hún stígur á eftir eigin geðþótta. En um leið kvikar hún hvergi frá
þeirri sannfæringu sinni að sjálfsákvörðunarrétt hverrar þjóðar verði
að virða í öllum tilvikum. Réttinn til að skjóta málum til þjóðarinnar sem hann
snerta,  mun hún ekki hika við að nota, komi sú
staða upp.

Margir minnast þess helst úr forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur hversu
hún vakti þjóðina vel til meðvitundar um að græða landið okkar.
Fingraför hennar sjást allvíða þar sem skóga prýða híðaranar sem áður
voru örfoka.

Styrkleiki Herdísar felst fyrst og fremst í hæfni hennar til að
gróðursetja hugmyndir og hlúa að þeim. Og ég er viss um að hugmyndir
hennar um lýðræðið og mannréttindi falla vel að hugmyndum miklu fleiri
Íslendinga en skoðanakannanir um fylgi hennar til embættisins gefa til
kynna .

Þess vegna skora ég á alla sem þetta lesa að kynna sér
rækilega ferilsskrá hennar og afstöðu til þessara mikilvægustu
málflokka okkar tíma. Kjósum Herdísi Þorgeirsdóttur  næsta forseta
lýðveldisins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Hmm....

hilmar jónsson, 20.6.2012 kl. 12:32

2 identicon

Lesa hennar ferilskrá segirðu ... ef satt skal segja er ég orðinn hundleiður á því að lesa og heyra hvað hún er svakalega vel menntuð frá flottum háskólum og með svo og svo margar gráður.  Ég nenni ekki heldur að lesa á heimasíðu hennar hvað hún er mikil alþýðukona.  Þessi pistill hennar um heimsóknina í Kolaportið var hinn kostulegasti.  Sennilega hennar fyrsta og eina heimsókn þar.  Sjálfur hef ég lagt leið mína þangað tvisvar eða þrisvar í mánuði s.l. 10 ár og aldrei hef ég séð hana þar.  Gort og sjálfshól eiga ekkert erindi á Bessastöðum.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 20.6.2012 kl. 13:39

3 identicon

Ég myndi frekar vilja sjá verkamann á Bessastöðum, er ekki kominn tími á það.. drögum úr þjóðskra.. við fáum betra fólk þannig.
Fólk sem er að bjóða sig fram sem forseta/stjórnmálamenn, það er fólkið sem við skulum forðast...

DoctorE (IP-tala skráð) 20.6.2012 kl. 14:01

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Svanur, þú heiðrar þann forsetaframbjóðanda sem þú kýst með þessum ágæta pistli með því að benda á ágæti hans frekar en vankanta keppinautanna.

Betur að fleiri hefðu þann háttinn á. :)

Kolbrún Hilmars, 20.6.2012 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband