Allir óvinir óvina minna eru vinir mínir

Það liggur ljóst fyrir að til að einhver annar en ÓRG setjist að á Bessastöðum næstu fjögur árin, verður hann að snúa þeim hughvarf sem í undanförnum skoðanakönnunum hafa sagst ætla að kjósa Ólaf.

Reyndar er ekki alveg pottþétt að viðkomandi verði að bíða fjögur ár, því Ólafur hefur ýjað því að hann kunni að sitja ekki allt kjörtímabilið saman ber þessi orð hans;

Og eftir þó nokkra umhugsun þá var það niðurstaðan mín að verða við þessum óskum en þó með þeim fyrirvara eins og ég nefni í yfirlýsingunni að þegar vonandi allt verður orðið stöðugra og kyrrð hefur færst yfir, bæði varðandi stjórnskipun og, og stöðu mála í landinu, þá hafi menn á því skilning að ég muni þá ekki sitja út allt næsta kjörtímabil og forsetakosningar fari þá fram fyrr en ella.

Ekki er hlaupið að því að ná fylgi af Ólafi því baneitruð flokkspólitík eins og hún er stunduð þessa dagana, er hlaupin í forsetakjörið.  Bæði óbreitt sjálfstæðisfólk og kjósendur Framsóknarflokks slá um hann skjaldborg á rammpólitískum forsendum, líkt og hann sé líkamsgerfingur stefnumála þeirra flokka sem það styður. - Sú staðreynd að Ólafur setti sig á móti tveimur stjórnarfrumvörpum núverandi ríkisstjórnar og hlaut í staðinn opinberlega snuprur frá forsætisráðherranum frú Jóhönnu, gefur þessum nýfundnu aðdáendum Ólafs ástæðu til að hugsa sem svo; allir óvinir óvina minna eru vinir mínir.

Þá eru þeir enn til sem halda því fram að Ólafur einn hafi burði til þess að vísa ESB málinu, þegar að það loks verður tilbúið,  í þjóðaratkvæðagreiðslu. - Þessu er haldið fram blákalt þrátt fyrir að líklegt sé að þá verði orðin stjórnarskipti, þrátt fyrir það að núverandi stjórnarliðar haldi því stöðugt fram að málið verði að fara fyrir þjóðina, og þrátt fyrir að allir hinir forsetaframbjóðendurnir hafi lýst yfir því að frumvarpi um inngöngu í ESB verði að vísa í Þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eina raunverulega ástæðan til að óttast að í ESB í málinu verði ekki farið að vilja meirihluta þjóðarinnar eru kannski þau orð Ólafs sjálfs um að honum sé frjálst að reka sjálfstæða utanríkisstefnu, samanber þessa gagnrýni hans á ummælum Þóru Arnórsdóttur um að forseta beri að fylgja utanríkisstefnu stjórnvalda hverju sinni;

Það er alvarlegt ef sá sem er að bjóða sig fram til þess að gegna embætti forseta lýsir því skýrt yfir í viðtali að hún telji það hlutverk forsetans að fylgja utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar.

Ekki verður annað lesið út úr þessum orðum en að Ólafur telji sig þess umkominn sem forseti að reka sjálfstæða heimatilbúna utanríkisstefnu.

Hvernig ætli kjósendum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks muni hugnast það, komist þeir flokkar í ríkisstjórn á næstu misserum, að hafa forseta sem er allt eins líklegur til að halda uppi opinberu andófi við stefnu sem hann hefur marglýst sig andsnúinn. Fólk verður að muna að ÓRG á sér djúpar pólitískar rætur sem liggja þvert á mörg stefnumál þessara flokka, ekki hvað síst utanríkistefnu þeirra.

Sú þróun að blanda hefðbundinni flokkspólitík inn í forsetakjörið, sérstaklega þegar þjóðin þarf að horfa daglega upp á afleiðingar slíkrar vitfirringar í sölum alþingis og sem hefur haft þær afleiðingar að aðeins 10% þjóðarinnar ber traust til þeirrar stofnunar, verður því að teljast afar varhugaverð, svo ekki sé meira sagt.

Þessar forsetakosningar verða mjög sérstakar því um leið og þjóðin velur sér forseta er hún einnig að kjósa um hvernig forsetaembættið á að vera nú og í framtíðinni, því erfitt verður að snúa við ef framheldur sem horfir.

Þeir sem vilja að embættið verði ekki að pólitísku bitbeini í framtíðinni eiga góðan kost. Þeir geta stutt Herdísi Þorgeirsdóttur sem er hugsjónamanneskja fram í fingurgóma og hefur gert baráttuna fyrir auknu lýðræði og mannréttindum í heiminum að ævistarfi sínu.

Herdís sækist eftir að gera forsetaembættið að farvegi þeirra hugsjóna án þess að þar komi að flokkadrættir og klíkuskapur sem einkennir svo mjög mörg ráðandi öfl í þjóðfélaginu.

Styðjum Herdísi til áframhaldandi góðra verka í embætti forseta Íslands.

Helstu áherslur Herdísar er að finna hér.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jájá Herdís virkar sæmilega,en ekki núna þessi misseri kannski eftir fjögur ár.

Númi (IP-tala skráð) 17.6.2012 kl. 00:58

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ertu með þessar kosningar á heilanum Svanur? Ég botna hreint ekkert í þér, svei mér þá.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.6.2012 kl. 04:34

3 identicon

Hvar finn ég stefnu núverandi rískisstjórnar í utanríkismálum

er hún nokkuð til

allavega er hún ekki á vef utanríkisráðuneytisins

Grímur (IP-tala skráð) 17.6.2012 kl. 09:16

4 identicon

Góður pistill hjá þér Svanur.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 17.6.2012 kl. 12:18

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Tek undir með Jóni Steinari hér, þetta virðist vera einhver þráhyggja hjá honum Svani vini mínum. Fyrst var hann mikill Þórusinni, núna vill hann Herdísi á Bessastaði. Hefur aldrei fundist gáfulegt að skipta um forseta bara til að skipta um forseta.

Theódór Norðkvist, 17.6.2012 kl. 20:02

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Theódór: Ég hef aldrei lýst yfir stuðningi við Þóru þótt mér finnist hún að ýmsu leiti frambærilegur frambjóðandi. Og hvergi hef ég haldið því fram að það beri að skipta um forseta af ástæðulausu.

Jón Steinar: Hvenær var það að þráhyggju að blogga um menn og málefni og það sem efst er á baugi hverju sinni?

Númi: Hver veit hvernig landið og landinn liggur eftir fjögur ár? Herdís á að mínu mati fullt erindi við þjóðina einmitt núna.

Takk fyrir það Elín.

Grímur: Nú verður þú að hafa samband við Össur.

Svanur Gísli Þorkelsson, 17.6.2012 kl. 23:00

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég tek heilshugar undir með þér Svanur. Óskandi væri að Jón Steinar og Grímur væru ekki að snúa út úr og halda sig við málefni þessarar greinar. Svona umræður eiga að fá "gult" spjald, því ekki er farið í boltann "umræðuna sjálfa" heldur manninn (útúrsnúningar).

ÓRG bjargaði eigin ímynd með icesave, en datt aldrei í hug að reka eigin utanríkisstefnu fyrir þann tíma. Það var skrifað í rannsóknarskýrslunni að honum bæri að setja siðareglur. 

ÓRG lofaði í áramótaræðu sinni að láta af embætti forseta Íslands.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 18.6.2012 kl. 00:54

8 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Takk fyrir þetta Anna. Ég er sammála þér :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 18.6.2012 kl. 02:12

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Svanur, víst hefurðu stutt Þóru, kannski ekki með því að segjast lýsa yfir stuðningi, en 4. apríl sl. skrifarðu:

Þóra sýnir strax að styrkleiki hennar er hve ópólitísk hún er og virkar í fasi eins og verðurgur arftaki þeirra gilda sem einkenndu embættið á meðan frú Vigdís Finnbogadóttir gegndi því.

http://svanurg.blog.is/blog/svanurg/entry/1232738/

Hér ertu líka að reka áróður fyrir Þóru:

http://svanurg.blog.is/blog/svanurg/entry/1239676/

Í fang hvaða frambjóðanda rekur hatur þitt á sitjandi forseta þig næst?

Theódór Norðkvist, 18.6.2012 kl. 14:18

10 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Theódór, ég hata engan mann og ekki ÓRG heldur. En það er upplýsandi að þú skulir leggja það að jöfnu að líka ekki við einhvern og að hata hann. Það geri ég hinsvegar ekki.

Ef þú lest þessa pistla mína sem þú vitnar í sérðu að ég er að gagnrýna ákveðna hluti sem ÓRG hefur staðið að og fyrir og bera þá saman við afstöðu og persónu þóru. Ég tek það fram í athugasemd að þetta beri ekki að skilja sem svo að ég styðji Þóru.

Svanur Gísli Þorkelsson, 18.6.2012 kl. 20:24

11 Smámynd: Theódór Norðkvist

Við getum kannski ekki kallað þetta hatur, skal viðurkenna það, en að minnsta kosti óvild eða andúð er það.

Theódór Norðkvist, 18.6.2012 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband