17.4.2012 | 12:49
Ólafur Ragnar og kvíslir vinstri manna
Mikið er Styrmir Gunnarsson glöggur að koma auga á að á meðal vinstri manna sé miklu meira val fyrir fólk um áherslur og málefni, en á meðal hægri manna. Greinilegt að vetrardagar hans eru kaldir.
Í hans huga hafa hugtökin hægri & vinstri enn mikla þýðingu í íslenskri pólitík, svona rétt eins og þau gerðu á dögum kalda stríðsins þegar hann sjálfur var í eldlínunni og hélt uppi skýrum línum með röggsamri ritstjórn á málgagni íhaldsins -
En mikið rétt hjá Styrmi að á "vinstri" vængnum er ekki að finna sama aga og foringjahollusta og á þeim hægri. Flokkssvipur íhaldsins, sem refsa fyrir óhlýðni og umbuna fyrir hollustu vinstri hægri, sjá til þess að hópurinn helst þéttur og stór, jafnvel þegar stefnan býður skipbrot.
En það liggur svo sem í eðli þeirra hugsjóna sem þessi afdankaða pólitíska greining byggir á. Þær kristallast í öfgum þeirra, þ.e. lengst til vinstri finnurðu stjórnleysi og lengst til hægri alræðisstjórn.
Óánægjan með störf ríkisstjórnarinnar meðal fólks með hjartað vinstra megin, hefur margar birtingarmyndir.
Ein þeirra er að það sumt hvert, sameinast íhaldinu af fullum krafti í stuðningi við Ólaf Ragnar Grímsson, sem íhaldið er farið að líta á sem þeirra eina mótvægi við frekjuna í Jóhönnu og Steingrími.
Þessir samvisku-liðhlaupar segjast segjast m.a. vilja standa vörð um sjálfstæði Íslands og gera pólitískar þrætur hluta af embættinu.
Jafnvel þótt það kosti að þar sitji áfram maðurinn sem á svo margan hátt er tákngerfingur hrunsins og hins "gamla Íslands". - ÓRG heldur kannski að hann sé teflon húðaður, en í komandi kosningabaráttu mun þjóðinni verða að fullu ljós þáttur hans í því gönuhlaupi sem kallað er íslenska útrásin.
Ólafi tókst vissulega á sínum tíma að lengja verulega í Icesave-hengingarólinni. Þau kurl eru því miður ekki enn komin til grafar og enn, satt að sega, ótímabært að fagna sigri í þeirri deilu. -
Samt ber að þakka Ólafi þá höfuðlausn, jafnvel þótt tímabundin kunni að vera.
Ólafur Ragnar einn og sér, myndar því enn eina vinstri kvíslina sem Styrmir er að reyna að henda reiður á.
Sjö kvíslir vinstrimanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:51 | Facebook
Athugasemdir
Það er mikill munur á "hægri" og "vinstri" mönnum.
Ég held að það sé flestum ljóst.
Ég tel mig vera hægri mann þótt ég hafi aldrei kosið xD.
Ég er hægri maður hugmyndafræðilega séð, ef ég er ekki að miskilja hugtökin þá vil ég útskýra nánar mína útgáfu af hægrimennsku...
ég hrífst að:
Menn eiga að vera metnir að verðleikum, engu öðru, við erum ekki öll eins og því verður hver einstalkingur að þrífast og blómstra ef hann hefur það sem til þarf, við erum ekki jafn hæfileikarík, dugleg, metnaðagjörn og þeir sem skara fram úr eiga að fá að gera það án þess að líða fyrir framtakssemi sína í gegnum skattakerfið.
Mér er mjög illa við mikil afskipti hins opinbera, hið opinbera á að sinna grunnskyldum (löggæsla, menntun, heilsugæsla samgöngur..etc)og gera það á hagkvæman hátt.
Ég er frekar refsiglaður einstaklingur en tel mig vera réttlátan.
Mér er meinilla við afskipti hins opinbera af eðlilegri flokkun hlutverka, þá á ég við mér finnst að sá líffræðilegi munur sem er milli karla og kvenna eigi að viðurkennast, það er munur á bleiku og bláu. Ekki misskilja þessa setningu því ég vil fullkomið jafnræði kynjana (ég á fullkomna konu, betri konu en ég á skilið og svo á ég frábæra dóttur sem er mikill vinur minn).
Í raun kann ég mun betur við mig í félagskap kvenna en karla. Við eigum að hafa það jafnt en á sama tíma virða þá hluti sem skilja okkur í sundur, testósteron magn kvenna er minna en okkar og tel ég vera ástæðu fyrir því.
Vonandi skilur þú hvert ég er að fara án þess að taka orð mín úr samhengi.
Ég er kannski ekki að tækla rauða þráð pistils þíns Svanur, en mig langaði til að koma með mína útgáfu á hugtökunum...hægri vinstri, þau eru í 180 gráðu stefnu hvort frá öðru, ekki að ástæðulausu.
Vinstri mennska tel ég ekki innihalda mikið (ef nokkuð) af þeim eiginleikum sem ég taldi upp og þarna upplifi ég skörpustu skilin milli þessara tveggja hugtaka þótt margt geri þeir eins.
Vinstri menn mega þó eiga það að í tærri vinstri mennsku þá er betur hlúð að þeim sem veikari eru og það er fallegt.
Verst er að vinstri flokkarnir virðast eiga erfitt með að fylgja því á borði þótt þeir geri það í orði.
Afsakaðu langlokuna (ég er að næra mig milli mikilla anna í mínum allt of stóra garði og langaði að pústa út mínu bulli)
bestu kveðjur Svanur...
runar (IP-tala skráð) 17.4.2012 kl. 14:08
Ísland er hættulegt land... Ef það er ekki bölvað veðrið sem lemur á okkur... Þá er það landið sjálft, eða hafið sem bæði gefur og tekur... En meðan gefur er gnótt. Og drýpur þá smjörið útum allt...!
En eftir að hafa búið hérna í rúmlega 1200 ár hefur þjóð okkar orðið fremur einsleit og svipað hugsandi... Væntanlega vegna skyldleika...
Það, góðir hálsar, er framsóknargenið...! Sem, því miður, leynist í okkur öllum. Mismunandi langt á það en það er þarna, einhversstaðar, í okkur öllum... Trúið mér, meir að segja ÉG hef staðið mig að hugsa framsóknarhugsanir og þvílíkt horror... HORROR...! Að standa sjálfan sig að svoleiðis bulli...
En ég viðurkenni þó þörf okkar fyrir að hafa þennan genagalla í erfðarefnissundlaug þjóðarinnar... Því það er ekkert annað en framsóknarmennska að búa, og tolla við það, hérna á þessu stórhættulega skeri... Hvað þá að vera stoltur af því...!
Þetta er einsog með alkahólisma og svoleiðis sjúkdóma við verðum að læra að lifa með þessum, lífsnauðsynlega, galla í sinni okkar... Lifað s.s með veikleikanum en ekki afneita honum... Við verðum bara að þekkja sjúkdóminn...
Þannig að...
Þið eruð allir bölvaðir framsóknarmenn... Og tækifærissinnar frá helvíti...
Hehehe...!
Sævar Óli Helgason, 17.4.2012 kl. 15:45
Algeng skilgreining á VINSTRI er að VINSTRIhugsjónin feli í sér vilja til breytinga. Vilji lýðræðisþróun ekki bara á sviði efnahags heldur einnig félagslegar og réttafarslegar framfarir.
HÆGRI er gjarnan skilgreint sem vilja til þess að viðhalda gömlu kerfi og menningargildum þar sem almúgurinn bugtar sig og beygir fyrir hreppstjórnanum og prestinum.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 17.4.2012 kl. 21:34
Utanlands-Svanur Gísli,er ekki að fylgjast nógu vel með,enda á öðru skeri út í heimi.
Ég var að reyna að útskýra þetta fyrir honum um dagin þetta með vinstri/hægri,kallinn hefur ekki fattað þettað ennþá.
Númi (IP-tala skráð) 17.4.2012 kl. 22:29
Númi, láttu ekki svona félagi. Það er augljóst að þú ert ekki sammála og það er í lagi. Við lifum á tímum þegar ekki er nauðsynlegt að vera á staðnum til að vita hvað er í gangi.Svo veistu líka af hverju orðið "heimskur" er dregið.
Svanur Gísli Þorkelsson, 17.4.2012 kl. 22:51
Svanur Gísli hin vandaði og kurteisi::Útskýrðu þetta með heimskuna.
Númi (IP-tala skráð) 18.4.2012 kl. 11:33
Kæri Númi;
Orðið heimskur ku dregið af því, að sá var sagður heimskur sem aldrei hafði farið að heiman. Það hefur oftar en ekki verið talið mönnum til tekna að vera sigldir.
Og svo í hina áttina er sagt af glöggt sé gests augað.
Hvernig sem þessu er snúið get ég ekki fallist á að sú staðreynd að ég á ekki heimili á Íslandi ógildi mig frá þjóðfélagsumræðunni.
Svanur Gísli Þorkelsson, 18.4.2012 kl. 12:00
Ertu ekki að misskilja hann Styrmi Svanur Gísli? Ég skildi hann að minnsta kosti þannig að vinstrimenn á Íslandi væru í reynd tvístruð hjörð, en ekki til marks um mannval. Ef hugtökin "vinstri" og "hægri" eru orðin merkingarleysa í stjórnmálum að þínu mati (sem þau eru að vísu ekki í alvörunni) er þá pólitíska skammaryrðið "íhaldið" svo maður tali nú ekki um "helvítis íhaldið", ekki merkingarlaust sömuleiðis, eiginlega uppnefni á Sjálfstæðisflokknum fundið upp af andstæðingum hans?
Gott og vel, en hvað sem þér finnst um vinstri og hægri, getum við þá ekki verið sammála um það að nokkur upplausn er í liði stjórnarliða, sem mun bara fara vaxandi og kann að leiða til skelfilegra afleiðinga fyrir land og lýð, ef ekki verður boðað til kosninga strax. Hrunplata stjórnarliðsins er orðin svolítið slitin, finnst þér ekki?
Gústaf Níelsson, 18.4.2012 kl. 23:03
Ég "misskildi" Styrmi viljandi Gústaf. Sumir mundu kalla þetta útúrsnúning á orðum hans, en ég gerði þetta til að undirstrika hversu fáránlegt ég tel að halda sig við þessar útkulnuðu skilgreiningar, hægri & vinstri.
Ég er samt ekki á því að "íhald" sé per se skammaryrði, heldur er það þýðing á orðinu "conservative" sem er enn gott og gilt orð í allri pólitískri umræðu.
Varðandi upplausnina í liði vinstri manna sem þú, Styrmir og aðrir vilja gera veður út af, er fatt um það að segja. Vinstri menn eru sundraðir og það er þeirra eðli. Sannir vinstri menn þrífast illa innan stjórn- kerfis sem er staðnað og runnið undan rótum miðalda-hugsunarhugsunarháttar lénsskipulagsins. Enn einmitt þannig er flokkakerfið uppbyggt.
Svanur Gísli Þorkelsson, 18.4.2012 kl. 23:25
SVANUR GÍSLI,TRÚLEGA ERU MARGIR AÐ MISSKILJA ÞIG VITLAUST.? ' ?
Númi (IP-tala skráð) 19.4.2012 kl. 00:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.