13.12.2011 | 17:03
Verða 109 háskólamenn kærðir fyrir siðanefnd HÍ
Vantrú kærði vinnubrögð Bjarna Randvers Sigurvinssonar fyrir siðanefnd HÍ eins og kunnugt er.
Bjarni Randver sætti sig ekki við vinnubrögð siðanefndar eða sáttatillögu hennar sem hann telur fela í sér áfellisdóm yfir sér.
109 háskólamenn skrifa undir yfirlýsingu þar sem störf siðanefndar eru harðlega gagnrýnd og stuðningi lýst við Bjarna Randver og vinnubrögð hans.
Vantrú bregst við með yfirlýsingu þar sem háskólafólkið sem skrifaðu undir stuðningsyfirlýsinguna við Bjarna er sakað um það sama og Bjarni var sakaður um, þ.e. skort á faglegum og akademískum vinnubrögðum. Vantrúarmenn segja;
"Í forspjallsvísindum (og skyldum námskeiðum), sem hafa verið mikilvægur þáttur í grunnnámi við Háskóla Íslands, er minnt á þá siðferðilegu kröfu, sem gerð er til fræðimanna, að rangt sé að mynda sér skoðun út frá ófullnægjandi forsendum. Telja allir þessir kennarar og háskólamenn sig hafa haft fullnægjandi forsendur í málinu, jafnvel þótt þeir hafi aðeins kynnt sér aðra hlið málsins? Mögulega skrifuðu sumir undir þessa yfirlýsingu í flýti eða hugsunarleysi, og það er einnig alkunna að tímaskortur þjakar háskólafólk sem aðra, sérstaklega í miðri prófatíð, svo ekki er viðbúið að allir hafi haft tíma til að kynna sér málið til fullnustu. Það er þó ekki afsökun fyrir að skrifa undir yfirlýsingu sem þessa án þess að kynna sér athugasemdir allra aðila."
Það liggur því beint við að Vantrú kæri þessa 109 háskólamenn fyrir siðanefnd HÍ.
Yfirlýsingin frá háskólafólkinu virðist taka af allan vafa um að eitthvað hafi verið að kennslu Bjarna. Það virðist taka að sér verkefni siðanefndar, og segja:
"Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kennarinn hafi á neinn hátt gerst brotlegur við siðareglur HÍ. Fyrir liggja yfirlýsingar frá sjö nemendum er sátu námskeið Bjarna um nýtrúarhreyfingar og segja þau öll kennsluna hafa verið til fyrirmyndar, hvergi hafi verið hallað á Vantrú eða aðrar trúleysishreyfingar. Þessar yfirlýsingar eru studdar af greinargerðum tíu sérfræðinga í túlkunarvísindum sem allir lýsa því yfir að ekkert sé út á kennsluglærur Bjarna Randvers að setja. Margir þessara sérfræðinga þekktu ekkert til Bjarna áður en þeir skrifuðu greinargerðir sínar.
Síðast en ekki síst fóru svo fjörutíu háskólakennarar yfir þau málsgögn sem lágu fyrir og komust að þeirri niðurstöðu að Bjarni hefði ekki á neinn hátt gerst brotlegur við siðareglur og að ekkert tilefni væri til að gagnrýna kennslugögn hans í námskeiðinu."
Vantrúarmenn hafa sitt hvað annað við yfirlýsingu háskólafólksins að athuga. Eftirfarandi túlka þeir t.d. sem hálfgerða "hótun um að háskólakennarar muni einfaldlega draga kennslu sína inn í skel,".
" Ef siðanefnd HÍ telur að í kennsluglærum Bjarna sé að finna ámælisverð atriði má allt eins hætta að nota glærur í kennslu við Háskóla Íslands, kennarar geta látið vera að setja glærur sínar á vefsíður námskeiða, og hverfa má frá að taka upp kennslustundir fyrir fjarnema. Því þá er sýnt að í framtíðinni verður enginn kennari lengur óhultur fyrir kærum utan úr bæ, enda líklega hægt að finna eitthvað sem einhver er ósammála í glærupökkum flestallra kennara á Íslandi, hvort sem þeir kenna við HÍ eða aðra skóla landsins."
Vantrú boðar nákvæma úttekt á glærunum sem Bjarni Randver notaði í næsta helgarblaði Morgunblaðsins og því ljóst að ekki eru öll kurl komin til grafa í þessu máli.
Skorti fagleg vinnubrögð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Trúmál | Aukaflokkur: Menntun og skóli | Facebook
Athugasemdir
Það er mikil blessun að þessi umræða skuli fara fram fyrir opnum tjöldum. Það væri verulega illt í efni ef kærendur væru færri en tveir og ælu með sér andúð á framferði Bjarna Randvers í einrúmi. Það er að segja, við værum í vondum málum ef í hlut ætti einn sérvitringur, sannfærður um réttmæti eigin málsstaðar. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra eins og dæmin sanna á nýliðnu sumri.
Flosi Kristjánsson, 13.12.2011 kl. 17:45
Sveinn Þórhallsson, 13.12.2011 kl. 21:08
Hvað segi ég í næstu setningu Sveinn?
Svanur Gísli Þorkelsson, 13.12.2011 kl. 21:12
Tek undir þetta Flosi.
Svanur Gísli Þorkelsson, 13.12.2011 kl. 21:13
Sveinn Þórhallsson, 13.12.2011 kl. 21:14
Nú skil ég ekki hvað þú ert að fara Sveinn. Hvar er því haldið fram hér að það hafi verið "þeirra að meta" ?
Svanur Gísli Þorkelsson, 13.12.2011 kl. 21:27
Hvernig getur það tekið allan vafa af því að eitthvað hafi verið athugavert við kennslu Bjarna að þessir háskólakennarar segi svo - þegar það er ekki þeirra að meta?
Segjum að störf/ummæli einhvers lögfræðings væru tilkynnt/kærð/klöguð til siðanefndar lögfræðingafélagsins - myndi það að einhverjir aðrir lögfræðingar, sem ekki eru hluti af þeirri nefnd, taka af allan vafa um að tilkynningin/kæran/klögurnar hafi ekki átt rétt á sér? Nei, auðvitað ekki.
Sveinn Þórhallsson, 13.12.2011 kl. 21:35
*myndi það að einhverjir aðrir lögfræðingar, sem ekki sitja í nefndinni, segi að kæran hafi ekki átt rétt á sér taka af allan vafa um að eitthvað misjafnt hafi átt sér stað? Nei, auðvitað ekki.
Sveinn Þórhallsson, 13.12.2011 kl. 21:36
Ætli þessri 109 hafi samið þetta bréf í sameiningu Svanur? Og það kannski að undangenginni sameiginlegri rannsókn sem ekki byggði bara á undirskriftalistum undir bréf úr herbúðum Bjarna? Kannski að þeir sem merkilegt nokk er ekki á bréfinu geti frætt okkur um það? Guðni Elíson t.d.?
Ætli allir undirskrifendur,( sem merkilegt nokk koma allflestir úr hugvísindum) hafi lesið bréfið til enda? Mig undrar ekki að háskólar á Íslandi skuli vera jafn lágt metnir á heimsvísu og raun er.
Jón Steinar Ragnarsson, 13.12.2011 kl. 21:40
Það er að sjálfsögðu ekkert að kæra til siðanefndar hér af hendi Vantrúar. En væntanlega tekur siðanefnd fyrir þessa móðursýkislegu gagnrýni á störf þeirra og ofanígjöf fyrir að taka yfirleytt fyrir gagnrýni á kennslugögn.
Þú skalt ekki gleyma að það var Bjarni Randver og hans fylginautar, sem gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að spilla störfum nefndarinnar og koma í veg fyrir að hún gæti starfað eða náð niðurstöðu. Kannski siðanefnd ætti að leggja fram kæru á þennan undirróður og skemmdarstarfsemi.
Eitt er allavega ljost Svanur að þú hefur annað hvort ekki kynnt þér neitt í þessu máli eða þá að þú ert svo blindaður af hlutdrægni að þú neitar að skilja hvað fram hefur farið.
Jón Steinar Ragnarsson, 13.12.2011 kl. 21:48
Sveinn; Þú skilur greinilega ekki sneiðina hjá mér til 109 menninganna. Ég segi um fólkið; "Það virðist taka að sér verkefni siðanefndar,". Sem sagt, það sest í það dómarasæti sem er eingöngu siðanefndinni ætlað. -
Svanur Gísli Þorkelsson, 13.12.2011 kl. 21:58
Fyrirgefðu ef ég var að leggja þér orð í munn Svanur, þetta var minn skilningur. Ber mér að skilja þetta síðasta innlegg þitt sem svo að það sé ekki búið að taka af allan vafa um þetta mál, þrátt fyrir yfirlýsingar þessa fólks?
Sveinn Þórhallsson, 13.12.2011 kl. 22:00
Jón Steinar; Mér finnst líklegt að þetta fólk hafi kynnt sér málin að einhverju leiti. Plaggið var auðvitað ekki samið af öllum, enda þarf þess varla við. Fólkið lýsir sig sammála sem í því stendur. Ég held að það hafi lítið upp á sig að reyna að gera yfirlýsinguna tortryggilega þess vegna og enn síður að HÍ sé lélegur háskóli af því að starfsmenn hans skrifa upp á hana.
Þú segir að ekkert sé hér að kæra. Bjarni var sakaður um sakaður um skort á faglegum og akademískum vinnubrögðum og nú eru þessir 109 sakaði um það sama. Hvers vegna að kæra Bjarna en ekki þau?
Þú veist vel Jón Steinar að ég hef lesið það sem er að finna um þetta mál og að ég er ekkert hlutdrægari en hver og einn sem horfir á þetta mál utanfrá í forundran.
Það gengur ekki að saka fólk stöðugt um fáfræði og að hafa ekki kynnt sér hlutina nógu vel, ef það sér þá ekki alveg eins og þú. - Ég gæti alveg á sama hátt brigslað þér um hlutdrægni eða fáfræði, af því þú ert að andmæla mér. -
Það hefur löngum verið einkenni verjenda Vantrúar að hefja eða/og ljúka orðaræðum sínum með ad hominem. Ég hélt satt að segja að það væri liðin tíð, einkum í ljósi þeirrar almennu gagnrýni sem meðlimir samtakanna og stuðningsmenn þeirra hafa orðið fyrir í seinni tíð.
Svanur Gísli Þorkelsson, 13.12.2011 kl. 22:16
Sveinn: Siðanefnd hefur ekki enn fellt neinn úrskuð í þessu máli. Hún lagði fram sáttatillögu sem Bjarni feldi sig ekki við. Vantrú dró kæruna til baka. Ef málinu verður vísað aftur til siðanefndar sem nú hefur verið endurskipuð, fær hún aftur tækifæri til að fjalla um málið.
Svanur Gísli Þorkelsson, 13.12.2011 kl. 22:20
S.s. já? Það er ekki hægt að segja að búið sé að taka allan vafa um að eitthvað hafi verið að kennslu Bjarna.
Sveinn Þórhallsson, 13.12.2011 kl. 22:24
Sveinn; svo "virðist sem".....
Svanur Gísli Þorkelsson, 13.12.2011 kl. 22:34
Já ég las það, og gerði athugasemdir við þetta orðalag.
Sveinn Þórhallsson, 13.12.2011 kl. 22:37
Nú líkar mér ágætlega við flest skrif þín Svanur. Oft eru þau áhugaverð. En það að nota orðalag, sem ég get ekki betur séð að sé vísvitandi gert, sem þú þarft aldrei að bakka frá af því að þú heldur ekki neinu beint fram (sbr virðist) en gefur samt ákveðna hluti sterklega í skyn kallast dylgjur. Og þær fara þér ekki.
Sveinn Þórhallsson, 13.12.2011 kl. 22:56
Sveinn: Ef ég er að dylgja hér, þá er ég að dylgja með að þessir 109 hafi tekið að sér hlutverk Siðanefndar og úrskurðað í málinu, reyndar með aðstoð þeirra sem vitnað er til í yfirlýsingu þeirra.
Raunar er ég þeirrar skoðunar að þeir hafi gert það. (sest í dómarasætið)
En ég nota orðið "virðist" í báðum tilfellum, virðist taka af allan vafa.. og virðast hafa tekið að sér verkefni..einmitt til að vera ekki með fullyrðingar um eitthvað sem ekki er viðeigandi að fullyrða 100%. Þessi bloggskrif eru bara skoðanir, ekki dómur og maður hefur aðeins það sem á prenti birtist til að mynda sér skoðanir á deilumálum sem þessum.
Svanur Gísli Þorkelsson, 13.12.2011 kl. 23:09
Þakka þér fyrir skoðanaskiptin Svanur. Bestu kveðjur
Sveinn Þórhallsson, 13.12.2011 kl. 23:14
Sömuleiðis Sveinn.
Svanur Gísli Þorkelsson, 13.12.2011 kl. 23:18
"Þú segir að ekkert sé hér að kæra. Bjarni var sakaður um sakaður um skort á faglegum og akademískum vinnubrögðum og nú eru þessir 109 sakaði um það sama. Hvers vegna að kæra Bjarna en ekki þau?"
Epli og appelsínur Svanur. Vantú gerir athugasemdir við opinbert kennsluefni, sem það telur brot á siðareglum Háskólans. Hlutdræg yfirlýsing og árás á siðanefndina fyrir að taka málið upp og undirskriftalisti, sem svo sannarlega ber ekki vitni um akademíska fagmennsku, hefur ekki sama vægi hér. Þetta er einkaframtak manna, sem enn eru að reyna að grafa undan siðanefnd háskólans og ekki í nafni opinberrar stofnunnar.
Ég er ekki að saka þig um fáfræði eða bregða fyrir mig persónuníði (ad hominem) Þó svo þú værir sekur um fáfræði í þessu máli það væri það ekki persónuníð að impra á því. Það sem ég segi einfaldlega er að það virðist á öllu að þú hafir ekki kynnt þér málefnið til hlýtar eða þá að þú hefur tekið sömu hlutdrægu afstöðu og meðreiðarsveinar Bjarna ogkosið að líta fram hjá staðreyndum málsins. Þú ert ítrekað að aðstoða við að þyrla upp moldviðri í anda þeirra til að beina sjónum frá lykilatriðum málsins og sýna Vantrúarmönnum óverðskulduga háðung.
Það má vel vera að þetta nýjasta stönt sé vert einhverskonar kæru eða áminningar, en það er ekki Vantrúar að gera, þar sem brotið beinist ekki gegn þeim beint heldur siðarreglna háskólans eftir að mál hefur verið kært.
Þ.e. Sakvæmt siðareglum er bannað að veitast að kærendum í málum sem beint er til siðanefndar. Þar vænti ég að hver akademíker þurfi að svara fyrir sig og hljóta áminningu ef hann er brotlegur gagnvart siðaregistri háskólans og þeim eiðum, sem væntanlega fylgja slíkum nafnbótum. Ég tel augljóst að það hafi ítrekað átt sér stað í þessu máli og óþarfi fyrir Vantrú á að minna siðanefnd á eigin reglur og lög.
Jón Steinar Ragnarsson, 14.12.2011 kl. 00:30
Fyrst eru siðanefndinni gert ómögulegt að starfa eða komast að niðurstöðu í málinu með því að ráðast á meðlimi hennar og neita að verða við beiðnum um að mæta fyrir nefndina. Farið er í herferð í blöðum til að tortryggja nefndina og þá sem henni veita forstöðu. Þessu síðast herbragði er síðan ætlað að segja siðanefndinni fyrir verku og skipa henni fyrir og rægja hana fyrir að sinna ekki störfum sem henni var ómögulegt að inna af hendi vegna ágangs stefnda.
Í þessu bréfi tekur bréfritari sér það bessaleyfi að dæma í málinu óumbeðið fyrir hönd siðanefndar og segja að ekkert hafi verið athugavert viðumrætt efni. Hver samdi bréfið? Hver er þessi sjálfskipaði dómari?
Ef málið er svona borðleggjandi að mati þessa leyndardómsfulla dómara, af hverju fékk nefndin þá ekki frið til þess að gefa úrskurð sinn?
Menn klikkja svo út með þessari stórfurðulegu kælásúlu:
"Ef siðanefnd HÍ telur að í kennsluglærum Bjarna sé að finna ámælisverð atriði má allt eins hætta að nota glærur í kennslu við Háskóla Íslands, kennarar geta látið vera að setja glærur sínar á vefsíður námskeiða, og hverfa má frá að taka upp kennslustundir fyrir fjarnema. Því þá er sýnt að í framtíðinni verður enginn kennari lengur óhultur fyrir kærum utan úr bæ, enda líklega hægt að finna eitthvað sem einhver er ósammála í glærupökkum flestallra kennara á Íslandi, hvort sem þeir kenna við HÍ eða aðra skóla landsins.
Slíkt ástand væri ekki aðeins gríðarleg afturför í allri kennslu heldur hreinlega aðför að öllu skólastarfi í landinu."
Það er ekki lítið tekið upp í sig, eða hvað finnst þér Svanur? Er þetta endir skólastarfs á Íslandi af því að hér eftir geti hver sem er gert athugasemdir við kennsluefni og enginn kennari óhultur fyrir gagnrýni?
Finnst þér þetta einhver hemja í einlægni sagt?
Jón Steinar Ragnarsson, 14.12.2011 kl. 00:52
Ég legg til að guðfræðikennslu verði hætt á Háskólastigi. Þetta er non-diciplin. Þetta er grein sem hefur það eitt að markmiði að verja eina ákveðna trú fyrir ágöllum eigin ritninga. Efni þessarar greinar geta vel flust yfir í viðeigandi nám s.s. tungumál, sagnfræði og heimspeki. Guðfræði svokölluð er steingervingur sem engin réttlæting er fyrir að ausa opinberu fé í.
Jón Steinar Ragnarsson, 14.12.2011 kl. 01:12
Mér finnst nú Jón Steinar gjaldfella sjálfan sig ansi hressilega í þessari umræðu með því að halda því fram berum orðum að allt þetta mál sé í raun samsæri Þjóðkirkjunnar. Það þarf ekkert "ad hominem" til. Jón Steinar segir:
"Þetta upphlaup var allt skipulagt af almannatengslagúrum í vinnu hjá kirkjunni. Ég er ekki í neinum vafa um það."
Sjá allt innleggið hér.
Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 14.12.2011 kl. 01:24
Af hverju fór Vantrú ekki fyrst til Bjarna og bað hann um útskýringu á þessari kennslustund og fræddu hann í leiðinni um félagið.
Ingó (IP-tala skráð) 14.12.2011 kl. 15:20
Við því er einfalt svar Ingó.... Markaðssetning á Vantrú ;)
Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 14.12.2011 kl. 16:44
Það er voðalega auðvelt að standa fyrir utan storminn að dæma, Ingó og Ólafur.
Sveinn Þórhallsson, 14.12.2011 kl. 20:34
Hvern er ég að dæma?
Mér finnst þetta bara sanngjörn spurning.
Ef Vantrú var ósátt við framferði Bjarna gagnvart þeim af hverju ekki að tala við Bjarna og ef hann hefði ekki viljað tala við þá, þá fara til siðanefndar.
Ingó (IP-tala skráð) 15.12.2011 kl. 15:41
Þú staðfestir bara það sem ég var að segja.
Sveinn Þórhallsson, 15.12.2011 kl. 22:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.