6.11.2011 | 14:35
Skarnhaugurinn og Lilja Mós.
Hvað gerist þegar gott og skarpskyggnt fólk sem tekið hefur þátt í hefðbundnum íslenskum stjórnmálum, verður ljóst að þau eru stödd í skarnhaug. Bæði Lilja Mós. og Guðmundur Steingríms. eru í þeirri stöðu. Þau hafa fengið nóg af ólyktinni og sagt sig frá illþefjandi hraukunum sem mynda hauginn.
En í stað þess að hoppa af og halda sig eins fjarri fnyknum og mögulegt er, standa þau á haugnum og gala að þau vilji gera eitthvað í málunum. Þau standa og hnusa út í loftið, í von um að að þeim berist sætur keimurinn af réttlátu og grandvöru fólki sem vill taka þátt með þeim í að stjórna landinu. Von þeirra er að þau geti safnað um sig nægjanlegum fjölda af góðu fólki, ósnertu af hinni hefðbundnu flokkafýlu, jafnvel ilmandi af heiðarleika og réttsýni, og att því gegn haugbúunum.
Samt eru þau sennilega ekki til í að ganga saman í eina sæng. Á milli þeirra er pólitískur ágreiningur. Þau koma jú ekki úr sama hrauk í haugnum.
Sennilega halda þau bæði, eins og kemur fram í máli Lilju, að enn leynist eitthvað verðmætt í haugnum, gamall ilmur af göfugum hugsjónum, sem enn séu sannar og gildar. - Eitthvað sem í upphafi laðaði að sér fylgjendur og kjósendur, eitthvað sem samt er löngu tínt en nú ber að finna og endurvekja.
Lilja vill safna saman sönnu hugsjónafólki úr öllum flokkum, og stofna nýjan flokk þar sem allar gömlu hugsjónir gömlu flokkanna verða endurnýjaðar. Öllum gömlu slagorðunum flokkanna verður safnað saman svo úr því verði aðeins eitt og sem stendur er það slagorð svona; Kjósum Lilju Mós á Þing.
Vil endurvekja grunngildi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Öfugt við Guðmund, þá veit Lilja, að frjálsar handfæraveiðar
leysa byggða, mannréttinda, fátæktar og atvinnuvanda gjaldþrota þjóðar.
Aðalsteinn Agnarsson, 6.11.2011 kl. 15:09
Lilja virkaði mjög sannfærandi á mig. Og sjálf er hún dæmi um, að uppúr grasrótinni sprettur iðulega réttsýnasta fólkið. Að bera hana saman við Guðmund er alveg fáránlegt., því allir vita að Guðmundur sprettur upp úr hefðbundnum fjóshaug framsóknarmaddömunnar, sem brosir nú B til samfýósanna.
Aðalsteinn setur hlutina í rökrétt samhengi, því það er einmitt dæmi um lífvænlega heilbrigða skynsemi sem ég tel Lilju standa fyrir og sem þjóðin kallar eftir. Við erum mörg sem höfum vonað að af slíku framboði yrði. Ég fagna framboði Lilju og er alveg viss um að margir munu fylkja með Lilju til réttlætis, jafnréttis, valddreifingar og sjálfbærni lands og þjóðar.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 6.11.2011 kl. 15:57
Mer finnst Lilja kona sem hefur það mannlega og arðbæra fyrir alla að leiðarljósi.
en hún getur ekkert ein- ber er hver að baki nema ser bróður eigi- stendur þar.
Að hún finni fólk sem hefur hugsjónir og vit til að sinna málum sem snerta ekki þess egin hagsmuni heldur vinna fyrir alla- er borin von í þessu samfélagi valda og peningagræðgi .
Erla Magna Alexandersdóttir, 6.11.2011 kl. 18:11
Gallinn við Guðmund er sá helstur að hann hefur dýft sér í tvo hauga, fulldjúpt etv því hann kemur upp rúinn hugsjónum - að slepptri ESB aðildarfíkn.
Lilja dýfði sér aðeins örskot í einn haug en virðist koma uppúr söm og áður. Hvort það dugir henni er hins vegar enn spurning.
Kolbrún Hilmars, 6.11.2011 kl. 18:26
Sæll.
Það er engan veginn hægt að bera Guðmund og Lilju saman, Guðmundur hefur bara 2 stefnumál:
1) Halda sér á þingi, sama fyrir hvaða flokk 2) ESB.
Lilja veit þó eitthvað um efnahagsmál þó ég sé ósammála henni varðandi ýmislegt. Hún reyndi að segja hinum frábæra fjármálaráðherra okkar að ekki væri hægt að skattleggja sig út úr kreppu og að það hefði verið reynt annars staðar. Við sjáum nú að hún hafði rétt fyrir sér en hann rangt.
Helgi (IP-tala skráð) 6.11.2011 kl. 23:41
Ég tel mig nokkuð vissan á að Lilja er ekki á þingi til að sinna eigin hagsmunum eða hagsmunum einhverra fyrirtækja, ætta eða banka. Hún er hrein að þessu leyti að mínu mati og því traustsins ver, þótt ég sé ekki viss um að allar hennar radical hugmyndir standist skoðun.
Atla er ég ekki eins sannfærður um, langt í frá.
Jón Steinar Ragnarsson, 8.11.2011 kl. 02:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.